7 Wonders

7wonders01Fyrir 2-7 leikmenn, 10 ára og eldri.
Tekur 30 mínútur.

7 Wonders kom út árið 2010 og var fyrsta spilið sem fékk Kennerspiel des Jahres þegar þau voru fyrst veitt árið 2011.

Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu útgefandans, Repos Productions, er 7 Wonders verðlaunaðasta borðspil sem út hefur verið gefið. Það trónir einnig á toppi lista Boardgamegeek yfir bestu fjölskylduspilin.

Enskar reglur fyrir 7 Wonders eru að finna hér.

Um spilið

Í 7 Wonders eru leikmenn leiðtogar hverrar sinnar borgarinnar til forna. Leikmenn vinna að því að fjölga auðlindum, koma á verslunarleiðum og byggja upp heri. Einnig geta leikmenn byggt eitt undur veraldar, annað hvort að fullu eða að hluta til. Sá leikmaður sem hefur staðið sig best í uppbyggingunni ber svo sigur úr bítum.

7wonders04

Stokkarnir fyrir aldirnar þrjár

7wonders10

Egypska þjóðarborðið þar sem hægt er að byggja píramída

7 Wonders er skipt niður í þrjár aldir og snýst að mestu um að nota spil sem er dreift í upphafi hverrar aldar til að byggja upp sína þjóð. Í upphafi spils velja leikmenn eina forna menningarþjóð og fá viðeigandi spjald sem sýnir hvaða auðlind þjóðin framleiðir í upphafi og hvaða undur hægt verði að reisa. Spilastokkurinn fyrir fyrstu öldina er stokkaður og fær hver leikmaður sjö spil á hendi úr honum. Leikmaður velur eitt spil, geymir það þangað til allir eru búnir að velja og svo er spilunum snúið samtímis við. Það sem hægt er að gera við spil er eitt af eftirfarandi:

 • „byggja“ spilið með því að leggja það niður í borð;
 • „byggja“ næsta stig undursins, en það er gert með því að snúa spilinu á hvolf og stinga því undir viðkomandi reit á þjóðarspjaldinu sínu; eða
 • henda spilinu og fá þrjá peninga.
7wonders11

Egyptarnir farnir að byggja upp

Til þess að byggja spil þarf leikmaður að eiga þau hráefni eða iðnaðarvörur sem það kostar að byggja, en kostnaðurinn er sýndur efst í vinstra horni spilsins. Sum kosta ekkert, en spilin verða dýrari eftir því sem líður á aldirnar (spil þriðju aldarinnar eru dýrust). Önnur spil er svo hugsanlega hægt að borga fyrir með áður byggðum spilum. Þannig getur maður með keðjuverkun byggt dágóðan fjölda spila, svo lengi sem maður er nógu heppinn að fá þau á hendi. Að auki geta leikmenn keypt hráefni af nágrannaþjóðum sínum ef þörf er á.

Stokkurinn gengur til næsta leikmanns á vinstri hönd (eða hægri hond í annarri öldinni) og hafa þá allir úr sex spilum að velja. Svona gengur þetta þangað til leikmaður fær tvö spil frá sessunaut sínum, en þá velur hann annað þeirra til að nota en fleygir hinu. Þannig ná allir leikmenn að nota sex spil í hverri öld.

7wonders05

Hráefnin eru sýnd á brúnum spilum og iðnaðarvörur á gráum

7wonders07

Kostnaðurinn við að byggja þennan her eru tvö timbur, málmur og tau

Hvert spil (eða bygging) gefur leikmanninum svo eitthvað ákveðið sem hann getur notað í næstu umferðum eða til að safna sér stigum. Spilin sem í boði eru eru af sjö tegundum:

 • Brún spil sýna hráefni (sem leikmaður þarf á að halda til að byggja spil).
 • Grá spil sýna iðnaðarvörur sem einnig eru nauðsynlegar til að byggja dýrari spil
 • Blá spil sýna mannvirki sem gefa stig í lokin.
 • Græn spil sýna vísindatákn sem koma til með að gefa stig í lok spils ef leikmaður nær að safna spilum með eins táknum eða setti af mismunandi táknum.
 • Gul spil tákna verslun og viðskipti, en þau geta m.a. gefið afslátt þegar leikmenn kaupa hráefni og iðnaðarvörur af nágrannaþjóðum sínum.
 • Rauð spil sýna hermátt og leikmenn safna þeim til að byggja upp heri sína.
 • Fjólublá spil tákna félagasamtök (guilds), en að tilheyra þeim gefur bónusstig í lokin.
7wonders06

Rauð spil: Hermáttur | Gul spil: Verslun og viðskipti | Blá spil: Mannvirki | Græn spil: Vísindi

Eftir hverja öld bera leikmenn saman hermátt sinnar þjóðar við nágrannaþjóðirnar, þ.e. þann sem situr leikmanni á hægri og vinstri hönd. Eftir fyrstu öldina fá leikmenn sem hafa meiri hermátt en andstæðingarnir eitt stig fyrir hvern sigur, þrjú stig fást eftir aðra. öldina og eftir þriðju öldina fær leikmaður fimm stig fyrir sigur. Þannig getur leikmaður fengið samtals 18 stig fyrir að sigra báðar nágrannaþjóðirnar allar aldirnar. Sá sem tapar fær hins vegar eitt mínusstig fyrir að tapa hverri orrustu þannig að hægt er að tapa samtals sex stigum alls ef maður stendur sig ekki í heruppbyggingunni.

Eftir þriðju öldina eru stigin talin saman og sá sem hefur flest stig vinnur.

7wonders03

7 Wonders

Viðbætur

Þegar þetta er skrifað hafa verið gefnar út 6 viðbætur við 7 Wonders. Ég á tvær þeirra: Cities og Manneken Pis. Manneken Pis er bara viðbót með einni menningarþjóð og breytir spilinu að öðru leiti ekki. Með Cities bætast hins vegar við svört spil sem geta haft áhrif á aðra leikmenn. Þeir geta m.a. tapað peningum eða stigum þegar einhver leikmaður byggir svart spil. Einnig bætast við friðartákn sem leikmaður getur fengið, en það þýðir að hann tekur ekki þátt í orrustu í lok aldarinnar. Cities breytir spilinu ekki mikið í grunninn, en bætir við meiri samskiptum á milli þjóðanna.

7wonders17

Þrjú spilanna sem bætast við í Cities viðbótinni

Hvað finnst mér?

Ég keypti 7 Wonders stuttu eftir að það kom út og prufukeyrði það fyrst með vinafólki okkar hjónanna þar sem við vorum sex samtals. Sú spilun gekk ekki vel, einhvern veginn gekk illa að útskýra reglurnar og táknin þannig að allt gengi upp. Það sem gerir 7 Wonders aðeins erfiðara í útskýringu en mörg önnur spil er að allir leikmenn velja samtímis spil og því geta allt að sex manns verið að spyrja um hitt og þetta á sama tíma. Ég spilaði 7 Wonders samt annað slagið utan vinahópsins og fannst það vera mjög gott. Fyrir stuttu ákvað ég að reyna aftur í vinahópnum og einhverra hluta vegna gekk allt miklu betur í það skiptið. Síðan þá höfum við spilað 7 Wonders alloft við ýmsa hópa og alltaf gengið mjög vel og allir hafa haft mjög gaman af spilinu. 7 Wonders er að verða eitt af vinsælustu spilunum í okkar spilavinahópi.

7 Wonders er í grunninn einfalt spil en býður upp á marga valkosti í spilun og stundum of marga. Mann langar að nota mörg spil af hendi en má bara nota eitt í hverri umferð og svo missir maður stokkinn yfir til nágrannaþjóðarinnar. Þá fer maður einnig að spá í að nota spil sem gæti komið nágrannanum mjög vel til að koma í veg fyrir að hann safni fleiri stigum eða auki á hermátt sinn, því stokkurinn gengur til hans eftir val á spili.

7wonders15

Stig fyrir orrustur, -1 stig fyrir tap eftir fyrstu öldina, 3 stig fyrir sigur eftir aðra og 5 stig eftir sigur í lok þeirrar þriðju

HVAÐ ER GOTT:

⇑ Allt að sjö leikmenn geta spilað í einu og sá fjöldi hefur ekki mikil áhrif á lengd spilsins.
⇑ Hægt er með nokkuð góðu móti að klára spilun á 30-40 mínútum.
⇑ Með viðbótum er hægt að auka fjölbreytnina og auka verulega á endurspilunargildið.

HVAÐ ER EKKI SVO GOTT:

⇓ Spilið getur verið svolítið flókið í útskýringu í fyrstu, sérstaklega með marga leikmenn þar sem allir eru að gera í einu.
⇓ Ekki hægt að spila það tveggja manna, nema með sérstakri uppsetningu þriðju þjóðarinnar sem leikmenn skiptast á að spila fyrir.

Niðurstaða

7 Wonders er mjög vel hannað og aðgengilegt spil og ekkert skrítið að það hafi hlotið þennan mikla fjölda verðlauna og viðurkenninga. Með einföldum viðbótum er svo hægt að auka endinguna og skemmtunina. Frábært spil!

star_goldstar_goldstar_goldstar_goldstar_half
(Upplýsingar um stjörnugjöf á síðunni)

One thought on “7 Wonders

 1. Pingback: Ný spil - Haust/Vetur 2014 (1. hluti)Borðspil.is