Agricola: All Creatures Big and Small

agricola_acbas_cover* er fyrir 2, 13 ára og eldri
* tekur 30 mínútur

Um spilið

Agricola: All Creatures Big and Small (hér eftir nefnt Agricola:ACBaS til styttingar) kom út á Essen 2012.  Í því eru leikmenn í hlutverki bændahjúa í Evrópu á miðöldum þar sem markmiðið er að byggja upp sitt bú. Agricola þýðir einmitt bóndi á latínu.  Það er eiginlega ekki hægt að fjalla um þetta spil án þess að nefna aðeins upphaflega spilið, sem nefnist einfaldlega Agricola.  Þetta er styttri tveggja manna útgáfa af því, en það spil kom fyrst út árið 2007 og hefur hlotið mikinn fjölda viðurkenninga og verðlauna.  Í dag er það í þriðja sæti á Boardgamegeek yfir bestu borðspilin.  Að auki hafa komið út eitthvað í kringum 17 viðbætur við spilið og því rökrétt framhald að út skyldi vera gefið nokkurs konar „spin-off“ spil.  Agricola: ACBaS gengur í grófum dráttum út á það sama og Agricola; safna búfénaði, stækka við og uppfæra bóndabæinn, girða af landið sitt o.s.frv.  Í Agricola: ACBaS þarf hins vegar ekki að gefa heimilisfólkinu að borða, né heldur er hægt að láta bændahjúin fjölga sér eins og hægt er í Agricola.  Spilið er einnig mun styttra, það tekur aðeins um 30 mínútur í spilun enda takmarkast það við átta umferðir.

agricola_acbas_03

Agricola: All Creatures Big and Small: Spilaborðið

Í hverri umferð er ákveðið mörgum hráefnum (steini, timbri og reyr) bætt inn á þar til gerða reiti á spilaborðinu. Einnig bætast inn á spilaborðið kindur, hestar, kýr og svín. Leikmenn skiptast svo á að setja inn karl og kerlu og taka eitthvað af því sem er í boði. Aðeins einn leikmaður má setja á hvern reit þannig að oft fær maður ekki það sem maður vill eða bráðvantar.  Því endar maður á því að þurfa að skipta um áætlun og búgarðurinn verður kannski öðruvísi heldur en áætlanir gerðu ráð fyrir.  Girðingarefni er einnig af skornum skammti og aðeins leyfilegt að smíða þær ef maður nær að velja til þess fallinn reit.  Þeir reitir sem ekki eru valdir í einni umferð verða hugsanlega verðmætari í þeirri næstu þar sem hráefni og dýr safnast upp ef þau eru ekki tekin í hverri umferð. Grunnbyggingarnar sem eru í boði gefa manni mismunandi valmöguleika og gera það að verkum að leikmenn geta endað með ólíka búgarða.  Eftir átta umferðir, sem eru taldar á sniðugan hátt með girðingarefni, er spilinu lokið og stigin talin.

agricola_acbas_07

Agricola: All Creatures Big and Small: Dýrin sem eru í boði, kindur, kýr, hestar og svín

Leikmenn verða að hafa sig alla við til að fá ekki mínusstig í lokin, en þau fást ef leikmanni hefur ekki tekist að ná ákveðnum lágmarksfjölda dýra til sín.  Þannig fær leikmaður til dæmis fjögur refsistig ef hann hefur ekki náð að útvega sér eina einustu kind í lok spils. Dýrin á búgarðinum fjölga sér svo í hverri umferð og því verða leikmenn að vera fljótir til að girða af og/eða byggja hlöður og fóðurdalla til að halda dýrunum inni á búgarðinum, því ef ekki er löglegt pláss fyrir dýrin þá hlaupast þau á brott.  Þessu þarf maður öllu að huga að á sama tíma og maður keppist við hinn leikmanninn um að ná í bestu og hagkvæmustu reitina í hverri umferð.  Spilið gengur því út á skipulag og aftur skipulag.

Hvað finnst mér?

Þar sem ég á og hef spilað Agricola er maður eðlilega litaður af því spili.  Agricola er virkilega gott spil og margslungið.  Þessi minni útgáfa tekur mun styttri tíma og er þó nokkur einföldun á stóra spilinu, en byggir á sama grunni.  Maður lendir í raun í svipaðri aðstöðu og í Agricola, þ.e. að maður nær alls ekki að gera allt það sem maður ætlaði sér að gera.  Mann vantar alltaf aðeins fleiri umferðir.  Ég hef spilað Agricola: ACBaS nokkrum sinnum og átti í fyrstu von á að spilið yrði svolítið endurtekning á því sama í hvert skipti en svo var ekki.  Framleiðslulega er Agricola: ACBaS mjög flott, litlu dýrin krúttleg, pappinn þykkur og allar merkingar skilmerkilegar og skýrar.

Niðurstaða

Agricola: ACBaS er gott spil.  Það nær hins vegar ekki sömu hæðum og Agricola, enda líklegast ekki ætlunin.  Ég myndi hins vegar kjósa frekar að spila Agricola fram yfir Agricola: ACBaS og því alveg spurning hvort það nægi ekki.  Ef þú átt hins vegar ekki Agricola og langar í gott tveggja manna spil þá er tvímælalaust hægt að mæla með Agricola: ACBaS.

Comments are closed.