Árið 2014 í baksýnisspeglinum

aramot2014_2015

Nú árið er liðið … og allt það, og því ekki úr vegi að líta aðeins yfir farinn veg. Á árinu 2014 fjölgaði spilunum í safninu mínu um 45 spil, en safnið telur núna 267 stykki. Ég hef verið ansi duglegur við að skrá spilanir á Boardgamegeek og þegar árið 2014 er skoðað kemur í ljós að það árið spilaði ég 106 spil alls 237 sinnum. Þrátt fyrir það tókst mér ekki að klára Spilað fyrir allan peninginn listann fyrir 2014, sem skrifast frekar á hálfgert áhugaleysi fyrir síðustu sjö spilunum á þeim lista en nokkuð annað. Hins vegar stefni ég ótrauður á að starta nýrri yfirferð á þessu ári, en á þeim lista ættu að vera eitthvað í kringum 20 spil, sum áhugaverðari en önnur. Og það verður algert forgangsatriði að klára að spila þau á þessu ári  :grin:

vesturferd_pergamonÁrið 2014 spilaði ég mörg áhugaverð og góð spil. Eitt gamalt spil vakti hjá mér kátínu, en það var Pergamon. Pergamon kom út árið 2011 og fór frekar lítið fyrir því á sínum tíma. Ég man eftir að hafa séð spilið á útsölu í Essen 2012, en á þeim tíma taldi ég mig ekki hafa nægjanlegt pláss í töskunum til að geta bætt því við, sem reyndist svo rétt. Því langaði mig alltaf leynt og ljóst í spilið og þegar ég sá það á niðursettu verði hjá Philibert ákvað ég að láta verða af því að kaupa það.

Í Pergamon eru leikmenn fornleifafræðingar sem eru að grafa upp gersemar í forngrísku borginni Pergamon. Leikmenn þurfa að sækja sér rannsóknarstyrki og grafa misdjúpt eftir verðmætunum. Síðan geta þeir sett saman sýningar og fengið stig í formi seldra aðgöngumiða á sýningarnar sínar. Pergamon er ljómandi gott spil og er eitt eftirminnilegasta eldra spil sem ég „uppgötvaði“ á síðasta ári.

medievalacademy01Annað gott spil sem ég keypti algerlega án þess að vita haus né sporð á var Medieval Academy. Ég sá spilið í spilabúðinni í Lúxemborg á ferð minni þangað í apríl og það var eitthvað við myndskreytingarnar sem heillaði mig það mikið að ég greip með mér eintak. Ég hef ekki séð eftir því, Medieval Academy er stórfínt og létt fjölskylduspil sem þungavigtarspilarar ættu að geta haft gaman af líka.

Leikmenn eru lærlingar í miðaldaskóla og er markmiðið að safna sér stigum og læra að verða riddari. Sá sem nær að safna sér flestum stigum í gegnum sex umferðir verður sleginn til riddara af Arthúr konungi. Spilið er mjög skemmtilega hannað, einfalt og frekar fljótlegt og býður upp á erfiðar ákvarðanir og spennu. Medieval Academy var því óvæntur vinsældarsmellur ársins hjá mér og mínum.

Þrjú „stærri“ spil sem komu út á árinu eru svo þau sem ég hef hvað mestar mætur á þessa dagana.

fivetribes01Fyrst er þar að nefna Five Tribes eftir Bruno Cathala, en spilið kom út í lok september og er stóra útgáfa Days of Wonder þetta árið. Bruno þessi hannaði m.a. Cyclades sem er hrikalega flott og gott spil.

Í Five Tribes eru leikmenn að reyna að hafa áhrif á fimm ættbálka soldánaveldisins Naqala. Gamli soldáninn er fallinn frá og sá sem getur ráðskast af mestri kænsku með ættbálkana nær yfirráðum yfir veldinu. Leikmenn skiptast á að færa ættbálkameðlimi á milli eyðimerkurflísa og virkja með því flísarnar og eiginleika ættbálkana. Inn í þetta blandast svo vörumarkaður og andar sem hægt er að kaupa og nota í sína þágu.

Ég spilaði Five Tribes tvisvar sinnum síðasta haust og fannst það mjög sniðugt spil og fallega hannað. Spilið er mjög taktískt, þar sem leikborðið og mögulegar aðgerðir breytast í hvert skipti sem einhver annar færir ættbálkameðlimi til. Því er ekki víst að Five Tribes sé allra, en mér fannst það mjög gott.

murano01Annað spil sem kom út á síðasta ári og ég hef miklar mætur á er Murano. Murano er spil sem ég eignaðist í lok nóvember og náði að spila tvisvar sinnum við konuna mína eins og ég hef rekið hér.

Í Murano eru leikmenn að byggja upp verslanir, glerverksmiðjur, hallir og aðrar byggingar á Murano eyjaklasanum við Feneyjar. Murano er mjög fallega hannað spil þar sem leikmenn þurfa að vera vakandi fyrir því hvað aðrir leikmenn eru að gera og færa til gondóla á aðgerðareiti til að ná að safna sér sem mestum stigum.

Við hjónin vorum bæði virkilega ánægð með Murano og áttum mjög góðar tvær rimmur. Því er það hátt á listanum yfir eftirminnilegustu spilin árið 2014.

deusAð síðustu finnst mér vert að nefna Deus. Deus er spil sem ég fékk á sama tíma og Murano og náði að spila tvisvar sinnum, eins og ég rak í þessari færslu. Ég er einnig byrjaður að spila Deus á netinu í gegnum síðuna Boite a Jeux.

Mér finnst eitthvað heillandi við Deus og hef mjög gaman af því að byggja upp litla siðmenningu úr spilunum sem leyfa manni svo ákveðnar aðgerðir. Það getur verið svolítið snúið að framleiða nóg af hráefnum og eignast næga peninga til að geta gert það sem mann langar til, en það er líka það sem heillar mig við spilið. Maður verður að vera útsjónasamur í því hvernig maður nýtir þau spil sem maður fær á hendi.

Mjög sáttur við þetta spil og ennþá betra er að frúin er mjög sátt við það líka  :grin:

Að endingu langar mig til að þakka ykkur lesendum kærlega fyrir að gefa ykkur tíma til að heimsækja síðuna og lesa það sem ég hef að segja. Óska ég ykkur öllum gleðilegs nýs spilaárs!

Comments are closed.