About Arnar

Forfallinn borðspilafíkill

Spilað fyrir allan peninginn (2017) – 3/39: Kashgar: Händler der Seidenstraße

pic1707560Upphaflega frétti ég af Kashgar: Handler der Seidenstrasse í gegnum Spielbox, þýska spilatímaritið sem ég er áskrifandi að. Spilið var þá og er enn einungis til á þýsku og þegar ég var í Berlín sumarið 2015 keypti ég eintak af því. Á Boardgamegeek fann ég aðila sem hafði þýtt allt spilið á ensku og látið prenta enska útgáfu fyrir sig í gegnum Printerstudio.com. Því hafði ég samband við hann og fékk sendar allar upplýsingar til að geta látið prenta eitt eintak fyrir mig. Auðvitað kostaði það nánast jafn mikið og spilið sjálft kostaði, en hvað um það … stundum verður maður bara að láta svona hluti eftir sér, sérstaklega þegar þetta er aðaláhugamálið. Fyrri hluta árs 2018 er reyndar loksins væntanleg ensk útgáfa af spilinu og því spurning hvort betra hefði bara verið að bíða aðeins :)

Kashgar: Handler der Seidenstrasse, eða Kashgar: Kaupmenn silkileiðarinnar eins og það gæti heitið á íslensku, gengur út á að safna persónum í vagnlestir og nota þær til að sýsla með krydd og gull og uppfylla samninga sem kveða á um ákveðnar kryddsamsetningar og fjölda múlasna.

Kashgar01

Þrjár upphafsvagnlestir

Hver leikmaður byrjar með þrjár vagnlestir og fremstur í flokki allra þeirra fer ættfaðirinn (Patriarch). Þar á eftir er einhver persóna dregin af handarhófi þannig að í hverri vagnlest er byrjað með tvo aðila. Í hverri umferð velur leikmaður eina af sínum vagnlestum og framkvæmir það sem stendur á fremsta spjaldinu í þeirri vagnlest. Því næst er spjaldið fært aftast í þá sömu vagnlest (nema ef ske kynni að kasta eigi spjaldinu, en það gerist í sumum tilfellum). Svo einfalt er það. Spjöldin leyfa manni t.d. að bæta við aðilum (spjöldum) í vagnlest, hækka krydd-, gull- eða múlasnagildi og uppfylla samninga. Svona rúllar spilið, vagnlestirnar lengjast og kryddið, gullið og múlasnarnir ganga kaupum og sölum fyrir samninga þangað til leikmaður hefur náð 25 stigum.

Kashgar05

Spjaldið þar sem leikmaður heldur utan um kryddin sín, gullið og múlasnana

Aðalatriðið í Kashgar er að ná að útbúa vel smurðar vagnlestir sem leyfa manni að útvega krydd og uppfylla samninga án þess að þurfa að fara í gegnum langa vagnlest í hvert skipti. Maður verður að passa upp á að hafa ekki of marga í hverri vagnlest þar sem fremsta spjaldið er fært aftast þegar það er notað og þá geta liðið nokkrar umferðir þangað til maður nær að virkja sama spjaldið aftur.

Kashgar02

Samningar

Ég er búinn að spila Kashgar nokkrum sinnum, bæði á borði og á netinu en á síðunni www.yucata.de má spila spilið. Mér finnst þetta stórfínt spil, gengur frekar hratt fyrir sig og er aðgengilegt og einfalt í kennslu. Síðustu vikurnar er ég svo búinn að vera að dunda mér við það að útbúa íslenska útgáfu af spilinu í gegnum www.printerstudio.com, sömu síðuna og ég notaði til að útbúa íslenska útgáfu af Jäger und Späher. Nú er bara að vona að spilið nái til landsins fyrir jól … og kosti mig ekki formúgu að leysa úr tollinum.

Kashgar06

Þrjár mislangar vagnlestir

Kashgar07

Kashgar08

Kashgar_isl

Íslenska útgáfan tilbúin í prentun

Spilað fyrir allan peninginn (2017) – 2/39: Eminent Domain: Microcosm

EminentDomain_Microcosm01Eminent Domain: Microcosm er lítið stutt tveggja manna spin-off af spilinu Eminent Domain sem kom út fyrir nokkrum árum. Upphaflega Eminent Domain finnst mér ansi gott deck builder spil þannig að þegar ég sá á Kickstarter að verið væri að safna í þessa tveggja manna útgáfu gat ég ekki setið á mér og tók þátt í hópfjáröfluninni, sérstaklega þar sem verðið var temmilegt. Samkvæmt kynningunni á Kickstarter síðunni átti þarna að vera komið frábært tveggja manna spil sem tæki bara 10 mínútur að spila. Eftir góða bið barst spilið loksins og beið að sjálfsögðu í dágóðan tíma í safninu áður en ég náði að spila það, þrátt fyrir að spilið ætti bara að taka 10 mínútur í spilun.

Það sem hefti mig í því að koma því á borðið voru blessaðar relgurnar, en eins einfalt og lofað var að spilið væri voru reglurnar langt frá því að vera einfaldar. Alla vega voru upphaflegu reglurnar skrifaðar svo óljósar að útgefandinn fann sig tilneyddan til að gefa út endurskrifaðar reglur stuttu eftir að spilið kom út. Engu að síður mátti ennþá ruglast á ýmsu. Upphaflega vantaði t.d. alveg skilgreiningu á ákveðnum hugtökum í spilinu.

EmDom_Microcosm04

Ég tók prufukeyrslu á Eminent Domain: Microcosm fyrir nokkru með vini mínum og náðum við að dröslast í gegnum það án þess þó að átta okkur fullkomlega á því hvernig ætti að spila spilið. Þetta gengur út á að kanna plánetur og safna í stokkinn sinn alskyns spilum sem hjálpa manni að ná lengra. Upplifun okkar af spilinu var ekkert sérstök, líklega má að stærstum hluta skrifa það á ruglinginn með hvernig ætti að spila spilið, en engu að síður fannst mér spilið ekki ná að gera það sem var lofað. Nenni varla að gefa þessu meiri séns, það eru bara til of mörg góð tveggja manna spil sem gefa mér meira en Eminent Domain: Microcosm.

EmDom_Microcosm05

Spilað fyrir allan peninginn (2017) – 1/39: Jäger und Späher

Jäger und Späherjagerundspaher, eða veiðimaður og útsendari (eða njósnari), er þýskt tveggja manna spil frá útgefandum Kosmos, en á þeim bænum hafa menn verið duglegir við að gefa út sérsniðin tveggja manna spil, eins og: Jambo, Hera & Zeus, Lost Cities og The Pillars of the Earth: Builders Duel svo fá eins séu nefnd.

Upphaflega sá ég umfjöllun um spilið í Spielbox, þýska borðspilatímaritinu sem ég er áskrifandi af. Kosmos hafa reyndar ekki gefið spilið út á ensku og ég veit ekki hvort það standi til. Því datt mér það snjallræði í hug að prófa að þýða spilið, sérstaklega þar sem einhver notandi á Boardgamegeek hafði útbúið enska þýðingu sem ég gat byggt á.

Á ferðalagi fjölskyldunnar til Berlínar sumarið 2015 skellti ég mér í spilabúð og keypti eintak af spilinu. Eftir að hafa skannað öll spilin inn í tölvu settist ég við þýðingar, sem reyndist nokkuð létt verk, enda er textinn á spjöldunum frekar einfaldur.

jagerspaher00

Hönnunarviðmótið á Printerstudio

Með aðstoð Google fann ég fyrirtæki sem býður upp á þá þjónustu að hanna þín eigin spil til prentunar (www.printerstudio.com). Ég eyddi nokkrum kvöldum í að dunda mér í myndvinnsluforriti og uppsetningu á spilunum á síðunni hjá Printerstudio, sem er mjög einföld og þægileg í notkun. Eftir að hafa sent inn pöntunina liðu u.þ.b. tvær vikur þangað til pakkinn barst og eins og við mátti búast þurfti ég að borga af þessu toll og veglegan virðisaukaskatt. Spilið hafði því rúmlega tvöfaldast í verði, en ég lét það nú ekki á mig fá.

Í Jäger und Späher eru tveir leikmenn að leiða sinn hvorn ættbálk frumbyggja á steinaldartímum. Leikmenn byrja með ákveðinn hóp af persónum og í hverri umferð verða þeir að velja hvort þeir ætli að nota persónu af hendi eða kalla alla saman aftur í þorpið. Persónurnar hafa mismunandi eiginleika, þarna eru veiðimenn, njósnarar, safnarar o.s.frv. Markmiðið er að veiða, framleiða verðmætan varning eins og vopn, mortél og margt fleira nauðsynlegt og fá að launum stig. Einnig þurfa leikmenn að passa vel upp á að eiga nægan mat fyrir alla meðlimi ættbálksins, annars missa þeir stig.

jagerspaher01

Jäger und Späher undir lok spils

Leikmaður spilar út persónuspili og framkvæmir það sem á því stendur. Því næst á hann að bæta spilinu við einn af þremur stöðum (frákastbunkum) þar sem ættbálkameðlimirnir safnast saman. Ef hann velur persónu sem leyfir honum að staðsetja ættbálkapeð, tekur hann þau úr þorpinu sínu og sendir á mismunandi óbyggðir og veiðilendur til að ná í hráefni, skinn og kjöt. Hráefnin eru síðan notuð til að byggja nýja hluti (t.d. eggvopn, mortél, grænmetisbeð o.s.frv.), en hlutirnir gefa allir eitthvað af sér m.a. stig.

jagerspaher01

Persónuspil

Ef leikmaður vill ekki nota fleiri persónur af hendi getur hann valið að kalla til baka öll ættbálkapeðin sín og velja sér eitt hráefni af viðkomandi stað (veiðilendu/óbyggð) fyrir hvert peð sem er kallað til baka. Að síðustu getur leikmaður ákveðið að kalla fram stigagjöf í umferðinni (sólsetur), ef hann er ekki lengur með persónuspil á hendi, en eftir stigagjöf velur hann einn af þremur frákastbunkum með nýjum persónuspilum. Spilinu lýkur svo þegar annar leikmaðurinn nær 24 stigum og hefur sá hin sami sigur.

jagerspaher01

Óbyggðir vinstra megin og veiðilendur hægra megin

Ég prófaði að spila Jäger und Späher tvisvar sinnum og þrátt fyrir að ég hafi ekki endilega orðið fyrir vonbrigðum, þá var spilið heldur ekki það „Vá!“ sem ég var að vona. Í bæði skiptin vann ég spilið og það varð ljóst þegar 2/3 voru liðnir í hvað stefndi. Mér sýnist ekki endilega vera mikið tækifæri fyrir þann sem er á eftir til að stöðva þann sem er nálægt því að vinna. Reyndar getur hann hægt á ferðinni með því að takmarka aðgengi að einhverjum hráefnum, en ég sé ekki að það geti dugað til að taka framúr þeim sem á undan er. Því verða báðir að vera nokkuð vel á tánum allt spilið til að lokaumferðirnar séu jafnar.

jagerspaher01

Frákastbunkarnir þrír

Spilunin sjálf var samt ekkert leiðinleg. Uppröðunin í frákastbunkana þrjá, þar sem notaðir ættbálkameðlimir enda, er áhugaverð. Maður vill raða persónunum upp þannig að maður nái þeim áhugaverðustu til baka, en ef hinn leikmaðurinn er á undan að kalla fram sólsetur nær hann kannski akkúrat þeim sem maður vildi sjálfur. Einnig er þetta áhugaverða samspil á milli þess að eignast fleiri ættbálkapeð til að geta sent fleiri út af örkinni, en þá bætast náttúrulega við fleiri munnar til að fæða.

Sem sagt, ágætt spil sem ég var að vona að væri frábært. Sé samt ekki eftir því að hafa staðið í þessu öllu saman, og hver veit nema ég komi einhvern tímann til með að kunna að meta Jäger und Späher betur.

jagerspaher01

Stigataflan

jagerspaher01 jagerspaher01

Spilað fyrir allan peninginn (2017)

spiladfyrirallanpeninginn2016_logo2Á þeim fimm árum sem ég hef haldið þessari síðu úti hef ég verið misduglegur við að skrifa. Stundum koma tímabil þar sem ég skrifa lítið sem ekkert og stundum er ég alltaf eitthvað að skrifa. Frá því í apríl á síðasta ári hef ég verið afskaplega óduglegur og er þetta örugglega eitt lengsta þurrkatímabilið í skrifum frá því ég byrjaði. Ástæðan fyrir þessari löngu þurrkatíð er m.a. flutningur fjölskyldunnar í maí sl. og öll vinnan sem hefur farið í að koma okkur fyrir á nýjum stað. Spilasafnið fékk sérherbergi eins og sjá má hér á myndinni. Eftir því sem tíminn hefur liðið hefur svo reynst erfiðara og erfiðara að setjast niður og skrifa.
SpilasafnÞví var ég alvarlega að íhuga að hætta þessu endanlega en er ekki alveg tilbúinn til þess. Bæði finnst mér skemmtilegt að halda síðunni úti og vonandi hafa einhverjir gaman af henni. Einnig náði ég aldrei að klára almennilega síðasta ár, þ.e. að spila öll spilin í safninu (sjá færslu hér) og skrifa um þau sem átti eftir að spila. Því ákvað ég að reyna einu sinni enn að koma mér í gang og setja saman lista yfir óspiluðu spilin í safninu.

Eitthvað bættist við safnið á síðasta ári, á meðan ég hef líka losað mig við eitthvað af spilum. Í dag eru þau samtals 288 stykki, en á sama tíma í fyrra voru þau 298 þannig að eitthvað fer þeim fækkandi. Listinn yfir óspiluðu spilin telur í heildina 39 og eru þau tekin saman hér að neðan.Inis 

Spilað fyrir allan peninginn (2016) – 4/33: Bohnanza Fun & Easy

bohnanzaFandE01Bohnanza hefur lengi verið eitt af mínum uppáhalds spilum sem hægt er að spila með mjög breiðum hópi, ungum sem öldnum. Bohnanza Fun & Easy er einfölduð útgáfa af Bohnanza sem er hönnuð til að kynna spilið fyrir yngri spilurum.

Bohnanza Fun & Easy gengur út á að gróðursetja baunir og skipta þeim út fyrir peninga þegar maður er búinn að safna ákveðið mörgum baunum af einhverri tegund. Reglunum er skipt niður í þyngdarflokka þannig að maður getur byrjað mjög einfalt og bætt svo við reglum eftir því sem hentar hverjum og einum, allt eftir því hvernig börnunum gengur að skilja spilið.

Helsta breytingin frá hinu venjulega Bohnanza spili er að í þessu eru leikmenn með baunirnar, sem annars eru á hendi, í röð fyrir framan sig. Þannig gefst þeim eldri möguleiki á að aðstoða yngri leikmenn. Einnig er leyfilegt að gróðursetja aðrar tegundir ofan á baunir sem fyrir eru, án þess að missa þær sem gróðursett er ofan á. Fjöldi bauna sem þarf til að uppskera er að auki mun færri í Bohnanza Fun & Easy heldur en venjulega Bohnanza. Með spilinu fylgja pappaspjöld fyrir alla leikmenn sem sýna akrana sem þeir geta notað í gróðursetninguna, sem er mjög sniðugt fyrir yngri leikmenn.

bohnanzaFandE03

Við prófuðum að spila Bohnanza Fun & Easy með 8, 12 og 13 ára gaurum og átti enginn þeirra í vandræðum með að skilja spilið og tóku allir fullan þátt í því. Reyndar hafa þessir eldri spilað Bohnanza áður þannig að þeir voru nú alveg með þetta á hreinu. Fyrir þá yngri þá virkar betur að þurfa ekki að hafa spilin öll á hendi og passa upp á röðina þar. Spilið gengur einnig hraðar fyrir sig og tekur ekki eins langan tíma og Bohnanza.

Ég myndi persónulega alltaf velja að spila upprunalega Bohnanza, ef spilafélagarnir eru til í það, en þessi útgáfa virkar betur fyrir yngri soninn og því ætla ég að halda spilinu í safninu aðeins lengur.

bohnanzaFandE02

bohnanzaFandE04

 

Spilað fyrir allan peninginn (2016) – 3/33: Thebes: The Tomb Raider

thebesttr01Thebes: The Tomb Raider er minni og einfaldari útgáfa af stærra spili sem heitir einfaldlega Thebes. Í Thebes: The Tomb Raider eru leikmenn í hlutverki fornleifafræðinga sem flakka á milli Egyptalands, Mesopotamíu, Krítar og Grikklands til að grafa upp fornminjar. Spilið keypti ég notað og er það búið að bíða í nokkurn tíma eftir að vera spilað, en þó ekki lengstan tímann af þeim spilum sem eru á listanum mínum þetta árið.

Upprunalega spilið Thebes gengur út á nákvæmlega það sama, en þar er að auki stórt leikborð sem leikmenn ferðast um til að grafa á mismunandi stöðum. Í Thebes: The Tomb Raider er ekkert stórt leikborð, en þess í stað er lítið borð sem notað er til að staðsetja mismunandi staði, sérþekkingarspjöld og halda utan um tímann sem leikmenn eyða í uppgröft. Í Thebes: The Tomb Raider er ekki farið réttsælis á milli leikmanna eins og yfirleitt er gert, heldur fer röðin eftir því hver er búinn að eyða minnstum tíma í aðgerðir. Allt sem leikmenn gera er nefnilega mælt í vikum, þannig getur einn leikmaður eytt mörgum vikum í uppgröft og þarf svo að bíða á meðan hinir ná honum í tíma, þar sem sá leikmaður sem hefur stystum tíma eytt fær að gera þangað til hann er búinn að ná hinum.

thebesttr10

Litla leikborðið með tímalínunni

Til að mega grafa á einhverjum af stöðunum þurfa leikmenn að vera búnir að verða sér úti um sérþekkingu viðkomandi staðar, en hún er í formi sérþekkingarspjalda sem eru í boði á miðju tímaborðinu. Einnig þurfa leikmenn að eiga uppgraftrarleyfi fyrir staðinn, en allir byrja með ákveðið mörg slík leyfi. Þegar leikmaður nær sér í sérþekkingarspjald borgar hann fyrir þekkinguna með tíma og nýju (eða nýjum) spjöldum er dreift á borðið og uppgraftrarstaðina eftir ákveðnum reglum.

thebesttr09

Sérþekkingarspjöld fyrir mismunandi staði

Til að grafa á einhverjum stað verður leikmaður að ákveða hvað hann ætli að eyða mörgum vikum í uppgröftinn og fer svo í töflu sem segir hversu mörg fjársjóðsspjöld hann megi sjá frá viðkomandi stað miðað við sérþekkinguna sem hann býr yfir og tímann sem hann ætlar að eyða á staðnum. Spjöldin fyrir viðkomandi stað eru svo stokkuð og leikmaðurinn snýr við jafnmörgum spjöldum og hann ætlar að grafa upp. Þar innan um geta reynst verðmætir fjársjóðir eða jafnvel bara brak sem er þá skilið eftir í bunkanum.

thebesttr11

Taflan sem sýnir hvað megi grafa mikið upp

Þetta er svona í grófum dráttum hvernig Thebes: The Tomb Raider gengur fyrir sig, en einnig er hægt að ná í auka stig með því að setja upp sýningar og skila inn einhverjum munum fyrir auka stig.

Við spiluðum þetta í fyrsta skiptið fjögurra manna um daginn og fyrst um sinn kveikti spilið ekki í okkur. Fyrri hluta spilsins eru allir að safna sér sérþekkingu til að geta grafið sem mest upp á hverjum stað. Þannig fór það rosalega hægt af stað og fyrri helminginn hélt ég að við myndum kannski ekki einu sinni nenna að klára það. Svo fór það að taka flugið og seinni hlutann vorum við í miklu kapphlaupi um að grafa upp á stöðunum fjórum.

thebesttr08

Tveir fjársjóðir og drasl

Thebes: The Tomb Raider endaði þannig veru sína á spilaborðinu miklu betur en það byrjaði og það var okkar mat að við þyrftum endilega að spila þetta aftur. Hvort ég kunni betur við upprunalega Thebes spilið eða þetta er óvíst, það er svo langt síðan ég spilaði Thebes að það er erfitt að bera þau saman. Bæði spilin byggja svolítið mikið á heppni og á því að taka sénsa í uppgreftrinum þar sem maður veit mjög lítið um það hvað leynist í bunkanum, kannski bara eintómt drasl og þá er maður búinn að eyða tíma og uppgraftarleyfi í ekki neitt.

Sé alveg fyrir mér að einhverjir kunni ekki við svona heppni, en mér finnst þetta bara skemmtilegt, ekki spil sem maður þarf að taka of alvarlega.

thebesttr07

Rauður fær að gera þangað til hann er kominn fram fyrir bláan

thebesttr02

thebesttr03thebesttr04thebesttr05thebesttr06

Five Tribes ★★★★⋆

FiveTribes01Fyrir 2-4 leikmenn, 13 ára og eldri.
Tekur 40-80 mínútur.


Five Tribes er hannað af Bruno Cathala, en hann hefur m.a. hannað spil eins og Cyclades og unnið sameiginlega með öðrum að hönnun spila eins og 7 Wonders: Duel, Abyss, SOS Titanic, Jamaica, Mr. Jack, Shadows over Camelot og Mission: Red Planet svo fá ein séu nefnd.

Five Tribes er gefið út af Days of Wonder, en yfirleitt má vænta hágæða framleiðslu frá því fyrirtæki. Meðal annarra spila frá Days of Wonder eru Ticket to Ride, Small World og Mystery Express.

Five Tribes hefur unnið til nokkurra verðlauna, m.a. Tric Trac d’Or og Golden Geek Best Strategy Board Game árið 2014.

Enskar reglur fyrir Five Tribes eru að finna hér.


Um spilið

Sögusvið Five Tribes er sögufrægt soldánaveldi sem nefnist Naqala. Gamli soldáninn sálaðist nýlega og yfirráð yfir Naqala eru í lausu lofti. Véfréttin spáði fyrir um aðkomumenn sem myndu reyna að ráðskast með hina fimm ættbálka Naqala og reyna að ná völdum í borgríkinu. Leikmennirnir eru í hlutverki aðkomumannanna sem ráðskast með ættbálkana og töfraandana og að lokum tekst einum þeirra að sölsa undir sig soldánaveldið.

fivetribes02

Naqala

Í upphafi spilsins er 30 landslagsreitum raðað upp í grind sem sýnir Naqala. Hver reitur er ákveðinna stiga virði og gefur ákveðna aðgerð sé hann virkjaður. Á hvern reit eru settir þrír ættbálkameðlimir sem dregnir eru úr poka af handahófi. Þessir ættbálkameðlimir geta verið í fimm mismunandi litum og búa þeir yfir mismunandi eiginleikum.

 • Grænir kaupmenn leyfa leikmönnum að fá vörur af markaðnum.
 • Bláir smiðir gefa peninga.
 • Rauðir launmorðingjar leyfa leikmönnum að drepa ættbálkameðlimi, annað hvort á leikborðinu eða þá sem aðrir leikmenn hafa fyrir framan sig.
 • Gulir vesírar gera ekkert sérstakt annað en að gefa stig í lok spilsins.
 • Hvítu öldungana er hægt að nota annað hvort til að fá stig í lokin eða sem gjaldmiðil þegar leikmaður kaupir anda (Djinn).
fivetribes05

Ættbálkarnir fimm

fivetribes07

Leikborðið uppsett með þremur ættbálkum á hverri flís

Hver umferð hefst á uppboðsfasa þar sem leikmenn bjóða í röðina, þ.e. hver fái að byrja fyrstur, hver verður númer tvö o.s.frv. Það getur skipt miklu máli að ná að vera fyrstur á ákveðnum tímapunkti sé maður búinn að sjá fyrir einhvern meistaraleik. Borgað er með peningum, sem jafnframt telja sem stig í Five Tribes og því eru leikmenn að eyða stigum til að ná að vera snemma í röðinni. En það má vel vera að það geti borgað sig.

fivetribes12

Mismunandi kostnaður við upphafsröðina

Leikmenn skiptast svo á að gera eftir uppboðsröðinni, en í sinni umferð tekur leikmaður alla ættbálkarmeðlimi af einhverri einni flís og færir þá einn af öðrum yfir á aðrar flísar í röð út frá upphaflsflísinni þaðan sem þeir voru teknir. Síðasti meðlimurinn sem leikmaður sleppir verður að vera í sama lit og einhver ættbálkameðlimur sem stendur á lokaflísinni. Þá fær leikmaður að taka alla samlita ættbálkameðlimi af flísinni og framkvæma þá aðgerð sem sá ættbálkur leyfir. Einnig fær leikmaður að framkvæma aðgerðina sem flísin býður upp á. Það getur verið t.d. að kaupa vörur af markaðinum, setja niður pálmatré, reisa höll eða kaupa anda.

fivetribes08

Ef þessir gulu ættbálkameðlimir eru teknir af flísinni má leikmaður eignast hana ásamt því að framkvæma aðgerð þeirra gulu og kaupa anda

Ef leikmaður hreinsaði alla meðlimi af lokaflísinni, þ.e. ef allir voru í sama litnum og ættbálkameðlimurinn sem hann skildi eftir, þá fær hann einnig að eigna sér flísina með því að staðsetja úlfalda í sínum lit á flísina. Flísarnar gefa mismörg stig í lok spilsins, allt frá 4 upp í 15. Sumar flísar auka enn á verðmæti sitt ef gróðursett eru pálmatré á þeim eða reistar hallir. Leikmenn geta einnig notað andana sem þeir kaupa til að beygja og brjóta reglur spilsins og tryggja sér þannig enn fleiri stig.

fivetribes15

5 auka stig fyrir höll og 3 fyrir pálmatré

Svona gengur þetta þangað til annað hvort einhver leikmaður notar síðasta úlfaldann sinn til að eigna sér flís eða ekki er mögulegt að færa fleiri ættbálkameðlimi (af því ekki er hægt að ná að láta síðasta meðliminn enda á flís með samlitu peði). Leikmenn fá að stipta inn vörum sem þeir hafa safnað að sér fyrir peninga, en verðmæti markaðsvarningsins stigmagnast eftir því sem leikmaður safnar sér fleiri mismunandi vörum. Þá eru stigin talin saman og sá sem hefur safnað flestur stigum (peningum) er sigurvegarinn.

fivetribes11

Varningur á markaðnum, þar á meðal þrællinn sem sumum fannst óviðeigandi

Það er rétt að minnast aðeins á mismunandi reglur og upplifun eftir fjölda leikmanna. Í tveggja manna spilinu fær hvor leikmaður að gera tvisvar sinnum í umferðinni, hugsanlega tvisvar í röð ef hann hefur náð að tryggja það í uppboðinu. Einnig eru færri kameldýr til taks eftir því sem leikmönnum fjölgar. Annars eru reglurnar allar þær sömu hvort sem tveir, þrír eða fjórir spila.

Hvað finnst mér?

fivetribes16

Fakírarnir vinstra megin sem komu í stað þrælanna

Five Tribes er mjög fallega hannað spil og flott á að líta, enda hafa Days of Wonder yfirleitt alltaf skorað mjög hátt þegar kemur að hönnun og framleiðslu. Þrælaspjöldin ullu reyndar svolitlu fjaðrafoki þar sem einhverjum sárnaði að þurfa að versla með þræla á markaðnum. Days of Wonder brugðust við þessari gagnrýni með því að breyta hönnuninni og seinni prentun af spilinu innihélt fakíra í stað þræla. Einnig gafst þeim, sem keypt höfðu eldri útgáfu, kostur á að kaupa fakírastokk og skipta þannig út þrælunum.

Five Tribes getur virkað svolítið flókið í fyrstu og tekið fólk tíma að komast almennilega inn í spilið. Mismunandi ættbálkarnir og eiginleikar þeirra eru eitthvað sem tekur tíma að átta sig á. Uppboðið í upphafi hverrar umferðar er skemmtilegt, áhugavert að berjast um röðina þar sem maður er í raun að borga stig til að fá að vera snemma, en sá sem gerir síðast fær kannski hvort eð er mjög gott tækifæri til stigasöfnunar þar sem uppröðunin á borðinu er síbreytileg.  Leikmenn geta einnig spilað þannig að þeir passi sérstaklega að skilja ekki eftir kjörin tækifæri fyrir þá sem á eftir koma. Það getur náttúrulega lengt spilatímann, þar sem leikmenn eru bæði að reyna að hámarka sína eigin stigasöfnun í umferðinni og á sama tíma að passa upp á að næsti leikmaður fái ekki fullkominn leik strax á eftir.

Five Tribes virkar að mínu mati vel fyrir allan uppgefinn fjölda leikmanna. Tveggja manna spilið er áhugavert þar sem maður getur reynt að ná að gera tvisvar í einu, en það getur verið mjög mikilvægt, sérstaklega ef manni tekst að setja upp einhvern mjög svo öflugan leik fyrir seinna skiptið.

plus
 • Mismunandi uppsetning í hvert skipti, sem eykur líkurnar á fjölbreytilegum spilunum.
 • Margar leiðir til sigurs.
 • Skemmtileg mekaník, m.a. við uppboðið og færslu ættbálkameðlimanna.
 • Tiltölulega stuttur spilatími, ef þú spilar ekki með fólkinu sem nefnt er í 2. lið neikvæða hlutans.
 • Virkar vel fyrir 2, 3 og 4 leikmenn.
 • Hægt að kaupa viðbótina Artisans of Naqala til að auka ennþá við fjölbreytnina og endurspilunargildið.
plus
 • Tekur svolítið langan tíma að setja upp, sérstaklega að raða öllum ættbálkapeðunum inn á borðið.
 • Spilið hentar ekki vel þeim sem þurfa að hugsa hverja einustu aðgerð og bera saman stig fyrir hverja þeirra, þá tekur þetta allt kvöldið.
 • Ekki hægt að plana marga leiki fram í tímann þar sem uppröðun á leikborðinu breytist í hverri umferð.

Niðurstaða

Þrátt fyrir tímann sem fer í uppsetninguna og ofgnótt valkosta sem virkað geta yfirþyrmandi á köflum vegna fjölda möguleika í hverri umferð, er Five Tribes mjög gott spil.

star_goldstar_goldstar_goldstar_graystar_gray

(Upplýsingar um stjörnugjöf á síðunni)

Spilað fyrir allan peninginn (2016) – 2/33: MammuZ

mammuz01Annað spilið sem við spiluðum af Spilað fyrir allan peninginn listanum þetta árið er smáspilið MammuZ. Þetta er lítið kortaspil sem gengur út á að beita blekkingum til að verða fyrsti leikmaðurinn sem losar sig við öll sín spil af hendi.

MammuZ er hannað af rússneskum spilahönnuði og var upphaflega gefið út af þarlendu útgáfufyrirtæki sem heitir Hobby World.

Í MammuZ eru leikmenn að losa sig við  útdauð fornaldardýr af hendi eins fljótt og mögulegt er. Spilið samanstendur af átta mismunandi dýrategundum sem eru númeraðar frá 2 upp í 9. Hver tegund inniheldur jafnmörg spil og númerið á viðkomandi spilum segir til um. Mammútarnir eru sem sagt 2 og mýsnar 9. Spilið inniheldur einnig fimm mismunandi risaeðluspil sem leyfa sérstakar aðgerðir finnist þau meðal dýranna.

mammuz02

Dýrategundirnar

Í upphafi spils eru dýraspilin stokkuð ásamt risaeðlunum, þó mismunandi mörg spil eftir fjölda leikmanna. Síðan fá allir jafnmörg spil á hendi og leikurinn hefst á því að upphafsleikmaður leggur niður fyrir framan sig (á grúfu) 1 upp í 4 spil og tilkynnir hversu mörg dýr, af sömu tegund, hann hafi verið að leggja niður. Hann myndi t.d. segja: „3 sverðtígrar“ og má allt eins vera að ljúga. Næsti leikmaður getur þá valið að annað hvort fylgja með og bæta 1-4 spilum af sömu dýrategund við (eða alla vega fullyrða það án þess þó að hann hafi endilega sett viðkomandi dýrategund niður), eða að stoppa umferðina og segja leikmanninn á undan hafa verið að segja ósatt.

mammuz03

Mammútarnir orðnir útdauðir

Ef hann gerir það má hann velja eitt af spilunum sem sá leikmaður lagði niður og snúa því við. Ef spilið sýnir dýrategundina sem leikmaðurinn sagðist hafa verið að leggja niður þá þarf leikmaðurinn sem ákvað að stoppa umferðina að taka alla hjörðina (öll spilin) sem liggur á borðinu á hendi. Ef í ljós kemur að leikmaðurinn var að ljúga þá þarf hann að taka hjörðina á hendi. Inn í þetta fléttast svo risaeðlurnar, en þær fara að hafa áhrif ef þeim er snúið við af leikmanni. Þær geta m.a. þýtt að leikmaðurinn sem fann risaeðluna megi velja hver taki hjörðina, enginn taki hana eða henni sé dreift jafnt á alla.

mammuz04

Risaeðlurnar leyfa sérstakar aðgerðir

Þegar einhver leikmaður leggur niður síðasta spilið af hendi verður sá næsti að stöðva umferðina, fullyrða að sá leikmaður sé að ljúga og snúa einu spilinu hans við. Ef spilið er af réttri tegund hefur sá sem lagði síðasta spilið sitt niður unnið, annars þarf hann að taka alla hjörðina á hendi og spilið heldur áfram.

Við spiluðum fjögurra manna MammuZ í fyrsta skiptið um daginn og eftir fyrsta spilið vildu allir spila það aftur. Það er mjög gaman að standa frammi fyrir ákvörðuninni um hvort maður eigi að taka sénsinn á að segja ósatt og vona að maður verði ekki gripinn, eða taka slaginn við þann sem á undan gerði. Málið er nefnilega að spilið gengur bara áfram þangað til einhver stoppar umferðina og tékkar á leikmanninum hægra megin við sig. Þannig getur sú staða komið upp að maður veit upp á hár að sá sem á undan gerði var örugglega ekki með svona mörg dýr af nefndri tegund á hendi en þar sem maður má bara snúa einu spili við er ákveðin áhætta tekin.

Við vorum mjög ánægð með MammuZ, spilið er mjög fínt og skemmtilegt blöff-spil sem tekur stutta stund að spila. Svo skemmir ekki fyrir að það er fyrir allt að sjö leikmenn. Ljómandi fínt spil og fallega myndskreytt.

Spilað fyrir allan peninginn (2016) – 1/33: Castles of Mad King Ludwig

Castles of Mad King LudwigcastlesofMKL01 (1-4 manna, 13 ára og eldri) er spil sem kom út árið 2014 og ég var lengi vel með augastað á. Það vildi síðan svo skemmtilega til að Kertasníkir gaf mér það í skóinn á aðfangadag og kann ég honum miklar þakkir fyrir. Það endaði því á Spilað fyrir allan peninginn listanum fyrir 2016 og var fyrsta spilið á þeim lista til að vera spilað.

Í Castles of Mad King Ludwig eru leikmenn í sporum kastalasmiða sem eiga að byggja kastala fyrir Loðvík II konung Bæjaralands í Þýskalandi, en hann á m.a. heiðurinn af byggingu Neuschwanstein kastalans í Þýskalandi, en sá ágæti kastali er fyrirmyndin af Disney kastalanum.

Castles of Mad King Ludwig er flísalagningarspil þar sem leikmenn kaupa mismunandi herbergi til að bæta við kastalann sinn og stækka hann þannig um eitt herbergi í einu. Í upphafi spilsins eru fjórar markmiðaskífur dregnar af handahófi og stillt upp. Hver flís segir til um hvernig herbergi leikmenn skuli reyna að byggja ætli þeir sér að fá bónusstig fyrir í lok spilsins.

castlesofMKL02

Nokkur herbergi ennþá til sölu

Í hverri umferð eru ný herbergi sett í sölu og fær einn leikmaður í hverri umferð að vera meistarasmiðurinn og verðleggur hann herbergin eftir sínum geðþótta, þó innan ákveðinna marka. Verðið getur hann ákveðið m.t.t. hvaða herbergi hann telur að aðrir leikmenn séu að sverma fyrir, enda fær hver leikmaður einnig í upphafi markmiðaspjöld á hendi sem hann einn veit um. Síðan er farið hringinn og allir leikmenn mega kaupa eitt herbergi, borga meistarasmiðnum og staðsetja herbergið í kastalanum sínum.

castlesofMKL09

Kastalinn að verða fullkláraður

Herbergin eru misstór og af mismunandi tegundum. Stig eru gefin fyrir ákveðin herbergi eftir því hvort þau séu byggð nálægt öðrum herbergjum, eða ekki nálægt öðrum herbergjum. Til að mynda eru gefin mínusstig ef svefnherbergi eru byggt við hliðina á tómstundaherbergjum, eins og gefur að skilja. Eins fæst bónus fyrir að loka herbergjum, þ.e. ef allir inngangar herbergis eru tengdir við innganga í önnur herbergi.

castlesofMKL06

Meistarasmiðskubburinn

Svona gengur þetta umferð eftir umferð, leikmenn kaupa herbergi og bæta þeim við kastalann sinn þangað til herbergjaspilabunkinn (sem segir til um hvernig herbergi verða í sölu í hverri umferð) klárast. Þá fá leikmenn stig eftir því hvernig þeim hefur gengið að uppfylla markmiðin, bæði sín persónulegu og markmiðin fyrir allan hópinn.

castlesofMKL08

Persónuleg markmið eru ekki sýnd fyrr en í lok spils

Castles of Mad King Ludwig er hannað af Ted Alspach en hann hannaði einnig spilið Suburbia sem byggir á svipuðum grunni, en í því eru leikmenn að byggja upp hverfi og fá einmitt stig (mínus og plús) eftir nálægð íbúðarhúsa við garða o.s.frv.

Við spiluðum Castles of Mad King Ludwig í fyrsta skipti við önnur heiðurshjón sem komu í heimsókn til okkar og ég verð að viðurkenna að fyrri hluta spilsins var ég ekki alveg viss um hvað ég var að gera. Mér fannst þessi stigatalning, sem tengist því hvernig herbergi maður er að byggja upp við önnur herbergi eða ekki upp við önnur herbergi, ansi ruglandi … spurning um að drekka aðeins minna af freyðivíni og bjór næst þegar maður prófar nýtt spil :)

castlesofMKL04

Miklar pælingar í kastalasmíðinni

Þegar á leið var ég búinn að átta mig á því að ég myndi nú ekki hafa sigur en engu að síður fannst mér mjög gaman að púsla saman herbergjunum í kastalanum mínum, sem endaði nú náttúrulega á því að vera ljótasti og minnst verðmæti kastalinn :)

Daginn eftir prófaði ég að spila spilið einsamall, en með spilinu fylgja reglur þannig að hægt er að spila það á eigin spýtur. Það fannst mér einnig nokkuð skemmtilegt þó ég kjósi nú yfirleitt frekar að spila með öðru fólki. En þá gafst mér tími til að læra betur á þessa smá ruglandi stigagjöf.

castlesofMKL03

Litli ljóti kastalinn

Castles of Mad King Ludwig heillar mig mun meira en Suburbia (án þess þó að ég hafi prófað það) og held ég að Ted hafi hitt naglann á höfuðið með þessu kastaladæmi. Það alla vega virkaði vel á mig og frúnna, sem skiptir höfuðmáli þegar spil eru metin á þessu heimili … topp einkunn á þetta!

castlesofMKL07

Markmiðaskífur fyrir alla leikmenn

castlesofMKL05

Aðalborðið

Spilað fyrir allan peninginn (2016)

spiladfyrirallanpeninginn2016_logoNú í febrúar eru komin 4 ár síðan ég startaði þessari síðu og byrjaði að skrifa um borðspil. Spilasafnið og áhuginn á spilum hefur samhliða skrifunum farið jafnt og þétt vaxandi. Nú er svo komið að spilasafnið telur samtals 298 spil, en í fyrra var þessi tala 272. Ég hef því bætt við 26 spilum síðasta árið.

Árið 2015 spilaði ég 134 borðspil samtals 445 sinnum, samanborið við 237 spilanir á 106 spilum árið 2014 en það er aukning upp á 88% á milli ára. Engu að síður eru ennþá nokkur spil í safninu sem ég á eftir að prófa. Árið á undan voru það 26 spil (sjá færsluna hér), en þá tókst mér ekki að klára að spila allt á listanum áður en árið var liðið.

Því færast 12 spil frá þeim lista yfir á þetta árið og 21 ný bætast við. Heildarlistinn telur því 33 spil, en þau má sjá hér að neðan. Fimm þessara spila eru meira að segja af listanum árið 2014 og alveg kominn tími til að prófa þau. Nú er bara að láta hendur standa fram úr ermum og klára þetta!