Biblios

cover

Biblios

* er fyrir 2-4 leikmenn, 10 ára og eldri
* tekur 30 mínútur

Í Biblios taka leikmenn að sér að vera abbótar í munkaklaustrum á miðöldum.  Markmiðið er að safna að sér sem bestum bókakosti fyrir bókasafn klaustursins og skjóta þannig öðrum leikmönnum ref fyrir rass.

Um spilið

Biblios inniheldur mismunandi spil, nokkur fyrir hverja af hinum fimm bókaflokkum sem keppt er um að safna.  Einnig eru að finna í spilinu peningaspil, sem notuð eru í uppboði sem haldið er í seinni hluta spilsins.  Svo eru nokkur spil sem leyfa leikmönnum að breyta stigafjöldanum sem fæst fyrir hvern bókaflokk.

Fimm mislitir teningar eru hluti af spilinu og eru þeir notaðir til að sýna stigafjöldann sem sá leikmaður fær sem safnar bestum bókakosti viðeigandi flokks.

2

Allir teningarnir eru í upphafi með gildið 3, sem sagt þrjú stig fást fyrir hvern flokk.  Leikmenn skiptast á að draga spil úr sameiginlegum bunka og verða að velja hvort þeir vilji halda spilinu, gefa öðrum leikmönnum eða setja það í uppboðsbunkann, sem boðinn er upp þegar búið er að draga öll spilin.  Leikmenn verða að velja áður en þeir draga næsta spil þannig að það þarf að vanda valið þegar spilum er ákveðinn staður.

6

4 stig í bláa bókaflokknum

Þegar spilabunkinn er uppurinn hefst uppboðshluti spilsins þar sem þau spil sem söfnuðust í uppboðsbunkann eru boðin upp.  Þannig geta leikmenn notað peningaspilin sem þeir hafa fengið í fyrri umferðinni til að bjóða í hentug spil í seinni umferðinni.  Sá leikmaður sem hefur safnað flestum stigum fyrir hvern flokk fyrir sig fær stigin sem teningur viðkomandi flokks segir til um.  Þetta geta verið mismunandi stig, þar sem nokkur spil leyfa leikmönnum að breyta gildi á teningum, hækka eða lækka.

Hvað finnst mér?

Biblios er einfalt og stutt spil en býður samt upp á strategíu og þó nokkra spennu.  Það getur oft verið erfitt að ákveða hvað maður eigi að gera við spilin sem maður er að draga, hvað þjónar mínum tilgangi best og hvað kemur sér illa fyrir aðra leikmenn.  Einnig getur verið erfitt að ákveða hvaða teningagildi maður eigi að breyta fái maður tækifæri til þess.  Þannig er vel mögulegt að með því að hækka stig fyrir ákveðinn flokk sé maður að gefa andstæðingnum hærri stig þó ætlunin hafi verið að vinna flokkinn sjálfur.  Uppboðshlutinn er einnig mjög áhugaverður, stundum býður maður í spil sem maður hefur engan áhuga á bara til að fá aðra til að eyða meiri peningum og eiga þá minni möguleika á að bjóða í önnur spil sem eru væntanleg á uppboðinu.

Niðurstaða

Biblios hentar vel sem uppfyllingarspil, fyrirferðalítið, einfalt og stutt en býður upp á ansi erfiðar ákvarðanir.  Mér finnst það virka vel bæði sem tveggja manna og einnig fyrir fjóra (hef ekki prófað með þremur).  Biblios hefur ekki verið auðfáanlegt upp á síðkastið, en von er á annarri prentun sumarið 2012.  Þannig að ef þú rekst á eintak í spilabúð þá myndi ég hiklaust mæla með því að kaupa eintak.

[scrollGallery id=8 autoScroll=false thumbsdown=true imagearea=“imgarea“]

Aðrar upplýsingar:

Nánari upplýsingar um Biblios eru að finna á Boardgamegeek.
Á heimasíðu hönnuðarins má finna frekari upplýsingar.
Spilareglur á ensku má finna hér

Comments are closed.