Bohnanza

cover

* er fyrir 2-7 leikmenn, 8 ára og eldri
* tekur 45 mínútur

Bohnanza lætur litið yfir sér, kassinn í minni kantinum og myndin framaná kannski ekki alveg til þess fallin að laða að tilvonandi kaupendur.

Í þessum litla kassa eru 154 spil með 11 mismunandi baunategundum; kaffibaunum, vaxbaunum, grænum baunum o.s.frv.

Íslenskar spilareglur fyrir Bohnanza má finna hér.

Hægt er að fá Bohnanza fyrir iPad.

Um spilið

Tilgangur spilsins er að ná sem mestum verðmætum með því að gróðursetja baunir og ná að uppskera á „réttum“ tíma og fá þannig sem flesta gullpeninga fyrir baunirnar. Leikmenn byrja með tvo ímyndaða akra fyrir framan sig þar sem þeir geta gróðursett. Hver leikmaður fær á hendi fimm spil (baunir), sem má alls ekki flokka eða raða á hendi. Fyrsta spilið sem leikmaður fær verður að vera það næsta sem verður gróðursett.

Í hverri umferð þarf leikmaður að gera eftirfarandi (í grófum dráttum):

  1. Leggja niður (gróðursetja) fremsta spilið á hendi. Ef leikmaður á ekki lausan akur fyrir þessa baunategund til að gróðursetja í verður hann að uppskera til að koma nýju bauninni fyrir. Að auki má gróðursetja spil nr. 2 á hendi, ef vilji er fyrir því
  2. Snúa við tveimur efstu spilunum í spilabunkanum sem ekki var gefin til leikmanna og ákveða hvort hann vilji halda þeim fyrir sig og gróðursetja eða reyna að skipta þeim við aðra leikmenn.
  3. Draga þrjú eftsu spilin úr spilabunkanum og bæta þeim aftast á hendi (alltaf að passa upp á röðina).

Gróðursett er svona þangað til búið er að fara í gegnum spilabunkann þrisvar sinnum. Sá sigrar sem hefur safnað mestum gullpeningum.

Hvað finnst mér?

Bohnanza er virkilega skemmtilegt spil og hefur verið mikið spilað á mínu heimili og hefur það slegið í gegn hvar sem við höfum kynnt það fyrir öðrum. Mikið fjör myndast oft þegar kemur að því að skipta því sá sem er að gera má skipta við alla á öllum baunum sem eru á hendi eða til skipta (tvö efstu spilin úr spilabunkanum). Það eru einmitt m.a. þessi samskipti sem gera Bohnanza að svona vinsælu spili. Allir eru að vinna að sínu eigin markmiði en þurfa að vega og meta í skiptunum; er ég að hjálpa þér of mikið með því að skipta eða græði ég nóg til að réttlæta skiptin.

Niðurstaða

Ég mæli eindregið með þessu spili fyrir alla aldurshópa, frá 8 ára aldri. Þetta er með mest spiluðu spilunum í safninu mínu og er nánast alltaf tekið með þegar farið er í spilaheimsóknir.

star_goldstar_goldstar_goldstar_goldstar_half
(Upplýsingar um stjörnugjöf á síðunni)