Carcassonne

cover

Carcassonne

* er fyrir 2-5 leikmenn, 8 ára og eldri
* tekur 45 mínútur

Carcassonne var valið Spiel des Jahres árið 2001 og hefur hlotið fjöldan allan af öðrum viðurkenningum og verðlaunum.  Grunnspilið kom fyrst út árið 2000 en síðan þá hafa komið út í kringum 30 viðbætur og einhver fjöldi „spin-off“ spila.

Um spilið

Grunnspilið inniheldur 72 landslagsreiti (ásamt 12 reitum sem mynda ána) og átta þegna (meeples) í  fimm mismunandi litum.  Fyrst er lagður niður ákveðinn upphafs landslagsreitur (eða áin lögð niður ef spilað er með henni) og svo skiptast leikmenn á að draga blint nýja reiti og bæta við samkvæmt ákveðnum reglum.  Reitirnir eru af ýmsum gerðum; sýna vegi, akra, borgir og borgarhluta, klaustur eða einhverja blöndu af þessu.  Þannig byggist upp landslagsmynd eins og púsluspil.

9

Carcassonne

Þegar settur er niður reitur má viðkomandi leikmaður setja niður einn þegn til að eigna sér borg, veg, klaustur eða bóndabýli og fá þannig stig.  Fylgja verður ákveðnum reglum um hvar má setja niður þegna sem ég ætla ekki að fara að tíunda hér, en þær eru frekar einfaldar fyrir grunnspilið.  Þannig standa leikmenn frammi fyrir ýmsum ákvörðunum, t.d. á ég að bæta við borgina mína, reyna að komast inn í borg annars leikmanns, á ég að setja síðasta þegninn minn núna niður eða geyma hann aðeins til að reyna að fá fleiri stig fyrir hann síðar.  Þegar búið er að leggja niður síðasta reitinn eru stigin talin saman og sá leikmaður sem hefur flest stig vinnur.

carcassonne

Kastalinn í Carcassonne, mynd fengin á www.francemonthly.com

Carcassonne er nefnt eftir borg í suður Frakklandi og eins og sést á myndinni hér til hliðar er kastalinn í Carcassonne ansi líkur þeim sem er á framhlið kassans.  Carcassonne hefur notið mikilla vinsælda og eins og áður sagði hafa komið út fjöldinn allur af viðbótum við spilið.  Ég var á tímabili með hálfgerða maníu fyrir Carcassonne viðbótum og keypti þær sem komu út. Sem betur fer jafnaði ég mig á því og er nokkuð sáttur við þær viðbætur sem ég á í dag.  Sumar þeirra sem á eftir komu voru misgáfulegar og veit ég ekki hversu góðar þær eru.  Ein af þeim viðbótum sem ég hef hvað minnstan áhuga á er Carcassonne: Catapult þar sem einhverjum skífum er skotið inn á landslagsreitina sem hafa svo mismunandi áhrif … hljómar hálf kjánalega.

Hvað finnst mér?

Grunnspilið sjálft er hins vegar ansi gott og getur auðveldlega staðið eitt og sér, mér finnst reyndar sjálfsagt að nota ána, en hún fylgir með í íslensku útgáfu grunnspilsins.  Eins og í svo mörgum öðrum spilum skiptir fjöldi leikmanna miklu máli.  Carcassonne er fyrir 2-5 leikmenn.  Hægt er að fá viðbót þar sem sjötta leikmanninum er bætt við, en ég myndi ekki mæla með því að spila spilið með svo mörgum.  Þá myndast langur biðtími á meðan aðrir eru að gera og erfiðara verður að plana eitthvað fram í tímann.  Hentugur fjöldi myndi ég segja að væri 2-4 leikmenn.

Niðurstaða

Carcassonne er mjög gott fjölskylduspil.  Reglurnar eru einfaldar og ég hef spilað þetta við son minn sem er að verða 9 ára og hann náði tökum á spilinu mjög fljótt.  Spilið gengur frekar hratt fyrir sig, svo lengi sem ekki of margir séu að spila.  Það eykur svo á fjölbreytnina að nota einhverjar viðbætur.  Hins vegar er spilið fljótt að flækjast ef of margar viðbætur eru notaðar. Þannig að grunn-Carcassonne eða Carcassonne með hóflegu magni viðbóta er fyrirtaks spilaskemmtun.

[scrollGallery id=18 autoScroll=false thumbsdown=true imagearea=“imgarea“]

Aðrar upplýsingar:

Nánari upplýsingar um Carcassonne eru að finna á Boardgamegeek.
Carcassonne fæst m.a. í versluninni Spilavinir
Hægt er að fá Carcassonne fyrir iPad/iPhone
Hægt er að fá Carcassonne fyrir Android
Hægt er að spila Carcassonne á netinu á Brettspielwelt

One thought on “Carcassonne

  1. Pingback: Umfjöllun um The Downfall of Pompeii » Borðspil.is