Essen spilakvöld

darkages

Dominion Dark Ages

Kvöld eitt í síðustu viku var mér boðið til Edda þar sem ætlunin var að spila eitthvað af spilunum sem hann keypti í Essen.  Þegar ég mætti vorum við þrír Essen fararnir sem byrjuðum á að taka eitt Dominion Dark Ages, sem er sjöunda og nýjast viðbótin við Dominion seríuna.  Að sögn hönnuðarins mun þetta vera síðasta Dominion viðbótin, enda orðið alveg ágætt.  Ég hef nú alveg gaman af Dominion en finnst tvennt aðallega hægt að finna að því, allavega grunnspilinu.  Það er í fyrsta lagi samskipti leikmanna, sem eru nánast engin oft á tíðum.  Þannig er Dominion stundum eins og að leggja kapal.  Því finnst mér fínt að spila Dominion á iPad-inum, en þangað til fyrir nokkrum vikum var hægt að fá ókeypis unofficial útgáfu af grunnspilinu í App Store.  Það mun ekki vera hægt lengur, líklegast vegna þess að von er á official útgáfu von bráðar.  Í öðru lagi er það biðtími milli umferða sem getur verið langur ef margir eru að spila og fólk þarf að úthugsa hvert einasta spil og hugsanlegar aðgerðir í þaula.  D-DA getur stytt biðtímann þar sem aukning á samskiptum leikmanna er þó nokkur.  Með D-DA bætast við riddarar sem geta gert öðrum leikmönnum óleik ásamt ýmsum öðrum spilum.  Ég hafði gaman af því að spila D-DA, jafnvel þótt Jörg hafi spilað endalaust út leiðinda riddurum og endaði náttúrulega á því að rúlla þessu upp.  D-DA gæti verið ágætis punktur yfir i-ið í Dominion seríunni og vonandi verður þessi viðbót einnig fáanleg í opinberu iPad útgáfunni sem von er á.

dungeonfighterNæst á dagskránni var svo Dungeon Fighter, sem við spiluðum einnig í Essen.  Eins og ég hef áður gefið út er ég ekkert mikið fyrir svona dungeon fighter spil, en er þó ágætlega jákvæður gagnvart þessu spili.  Þetta er svona hálfgert partý-dungeon-fighter spil.  Við fórum nú all illilega út úr þessari viðureign og töpuðum á endanum fyrir einhverri leiðinda verunni.

Svo spiluðum við eitt Unexpected Treasures, sem gengur út á að sækja gömul húsgögn á haugana of selja fyrir sem mestan hagnað.  Við vorum sex sem spiluðum og gekk það nokkuð hratt fyrir sig.  Ég er búinn að spila þetta með þremur, fjórum og núna sex leikmönnum og verð að segja að mér finnst það skemmtilegra með fleiri leikmönnum en færri … svona alveg ólíkt Dominion.  Prýðilegt Essen spilakvöld að baki, en ennþá nokkur Essen spil sem á eftir að prófa.

unexpectedtreasures

Unexpected Treasures

Essen spilin skoðuð og spiluð

tzolkinNú hef ég aðeins náð að skoða betur spilin sem ég keypti í Essen og hef meira að segja náð að spila nokkur þeirra.  Á fimmtudagskvöldið síðasta fór ég á spilakvöld í Spilavinum og náði þar að spila m.a. Tzolk’in: The Mayan Calendar.  Ég var búinn að lesa yfir reglurnar og skoða það nokkuð nákvæmlega og taldi mig vita hvernig það virkaði. Við vorum fjórir sem spiluðum það saman og tókst það nokk vel, ef frá er skilinn smá misskilningur sem ég átti nú sök á um það hvað gerðist þegar einhver velur starting player reitinn.  Þá á sem sagt upphafsleikmannsskífa að flytjast yfir á þann sem valdi þann reit og þrennt annað átti að gerast, á ákveðnum tíma.  Eitthvað flæktist þetta fyrir mér og fyrri hluta spilsins spiluðum við þennan reit rangt.  Held það hafi nú ekki komið mikið að sök yfir það heila.

tzolkin_0

Tzolk’in: The Mayan Calendar

Tzolk’in er svaka flott spil og hefur skemmtilegan mekanisma sem gengur meira og minna út á þessi fimm tannhjól sem maður þarf að setja verkamennina sína á.  Þetta getur verið svolítið flókið, sérstaklega þegar maður þarf svo að passa upp á að allir verkamennirnir fái korn að borða á matardögum, sem eru fjórum sinnum í spilinu.  Allt í allt líst mér mjög vel á Tzolk’in, spilið er mjög áhugavert og verður örugglega betra og betra þegar maður spilar það oftar og er farinn að skilja betur hvað maður þarf að gera og hvernig mismunandi reitir á hjólunum virka saman.

Á spilakvöldinu spiluðum við einnig fjögurra (karl)manna Love Letter.  Þetta er stutt og mjög einfalt spil og er fínt sem slíkt.  Held að það þoli ekki mikla endurtekna spilun, en er gott sem uppfyllingarefni.  Í spilinu á maður að reyna að koma ástarbréfi til Annette prinsessu og reyna í leiðinni að koma í veg fyrir að öðrum leikmönnum takist að koma sínu bréfi til hennar.

loveletter_0

Love Letter

Svo spiluðum við hjónin Escape: The Curse of the Temple við eldri soninn.  Þetta er spil í rauntíma þar sem leikmenn hafa 10 mínútur til að koma sér út úr hofi sem hrynur í lokin. Notaður er hljóðdiskur sem fylgir með.  Escape virkar mjög vel, um leið og maður er búinn að spila það einu sinni til tvisvar og búinn að átta sig á hvernig það gengur fyrir sig.  Það er mjög ruglandi í fyrstu fyrir nýja leikmenn en um leið og maður er búinn að ná því hvernig teningarnir virka og hvað maður þarf að gera þá verður það mjög skemmtilegt.

escape3

Escape: The Curse of the Temple

Við erum einnig búin að spila Escape nokkrum sinnum við mágkonu mína og svo tvisvar með tengdamömmu og þeim leist vel á, þó tengdamamma hafi verið aðeins úti á túni í hamaganginum til að byrja með.  Það gengur nefninlega heilmikið á á þessum 10 mínútum og hljóðdiskurinn gerir gæfumuninn.  Escape er fjörugt og skemmtilegt, veit samt ekki hvernig það á eftir að þola mikla endurtekna spilun.  Það fylgdi reyndar með viðbót sem eykur eitthvað á fjölbreytnina, en ég hef ekki einu sinni náð að skoða hana almennilega, þótti nóg um að ná grunnspilinu fyrst.  Ég er búinn að spila það sjö sinnum nú þegar og er ekki enn kominn með leið á því.

Við spiluðum einnig við tengdó Unexpected Treasures, sem gengur út á að safna saman gömlum húsgögnum af ruslahaugum og skipta þeim inn fyrir stig.  Þetta er lítið og nett spil sem gæti verið þurrt ef ekki væri fyrir þjófinn sem maður getur notað til að stela hlutum frá öðrum leikmönnum.  Þetta er í annað skiptið sem ég spila þetta og líst nú bara ansi vel á það, stutt spil sem er fyrir 3-6 leikmenn.

unexpectedtreasures

Unexpected Treasures

Ég hef eytt töluverðum tíma í að fara yfir reglurnar í Clash of Cultures, eitt af stærri spilunum sem ég keypti í Essen.  Þetta er civilization building spil þar sem leikmenn eiga að byggja upp bæi og borgir, tæknivæða samfélagið sitt og hugsanlega ráðast á aðra leikmenn.  Ég prófaði að spila í gegnum eitt spil einn og sér bara til að reyna að skilja og læra reglurnar betur.  Það gekk nú bara nokkuð vel, en ég þurfti all oft að fletta upp í reglunum til að átta mig á hvernig hlutirnir virkuðu.

clashofcultures2

Clash of Cultures

Maður hefur fjölmarga kosti í spilinu, hvernig maður vill standa að uppbyggingunni og hvort maður vilji leggja upp í landkönnun og á endanum bardaga við aðra leikmenn.  Einnig er tæknitréið (technology tree) með fullt af mismunandi kostum sem maður þarf að fara dolltið vel yfir til að átta sig á hvað er best að gera hverju sinni.  Mér líst mjög vel á spilið og hlakka til að prófa það með fleirum en mér einum.  Þá er bara spurning hvenær maður nær saman þremur öðrum spilurum sem hafa fjóra til fimm klukkutíma til reiðu.

clashofcultures1

Clash of Cultures: Búinn að byggja stóra borg og smíða tvö skip

Ginkgopolis voru síðustu kaupin í Essen en alls ekki þau sístu.  Ég hef verið að spila það einn, þar sem spilið bíður upp á einmenningsreglur.  Þá spilar maður á móti Hal, sem gerir aðgerð í hverri umferð og getur farið illa með áætlanirnar sem maður er búinn að gera. Spilið gengur út á að byggja upp byggingar og hverfi í framtíðarborg.  Mér finnst Ginkgopolis vel heppnað og hef haft mjög gaman af því að spila á móti Hal, sem er príðisgóður félagi þegar konan nennir ekki að spila við mann.

ginkgopolis1

Ginkgopolis: Framtíðarborgin

 

 

Essen – Eftir heimkomu

essen1

Eftir mjög svo áhugaverðan ferðadag frá Essen til Íslands, þar sem lestarvandræði urðu til þess að við rétt náðum að tékka okkur inn í flugið heim, er rétt að líta aðeins um öxl og gera upp heimsóknina á Spiel 2012.

Nokkur atriði hafa komið upp í hugann þegar ég hugsa til baka.

 • Skipuleggja sig.  Það sem mér finnst mikilvægt, ef ætlunin er að fá sem mest út úr heimsókninni, er að vera búinn að undirbúa sig aðeins fyrirfram.  Það getur verið gott að hafa með sér lista yfir það sem er áhugavert og mann langar að skoða og merkja inn í hvaða sýningarsal ákveðnir aðilar og ákveðin spil eru til sýnis. Salirnir eru margir og stórir þannig að það er mjög auðvelt að týnast.  Einnig er mannfjöldinn ekki til að hjálpa til.
 • Kaupa miða fyrirfram.  Endilega kaupa aðgangsmiða fyrirfram á netinu og prenta út.  Langar raðir myndast á morgnana í miðasölu.
 • Ekki fara einn.  Það getur örugglega verið frekar takmarkandi að vera einn á sýningunni.  Það er gott að hafa einhvern eða einhverja félaga, til að auka líkurnar á því að maður komist að til að spila, fyrir utan að félagsskapurinn er einnig skemmtilegur.
 • Nota neðanjarðarlestakerfið.  Í Essen er neðanjarðarlestakerfi og ganga lestir fá aðallestarstöðinni til Messe með stuttu millibili.  Ég var í fyrstu að hugsa um að vera á bílaleigubíl, en sá það einn daginn þegar við fórum með leigubíl uppeftir að umferðaröngþveiti myndast við bílastæðin hjá höllinni og var því mjög feginn að hafa sleppt bílaleigubílnum.
 • Taka með sér flugfreyjutösku.  Stórsniðugt er að vera með flugfreyjutösku á sýningunni til að nota undir keypt spil.  Það verður fljótt þreytandi að halda á pokum heilan dag.  Svo eru ekki allir seljendur sem útvega poka.  Mjög algengt er að sjá fólk með litlar trillur til að hlaða keyptum spilum á.
 • Fylgjast með.  Um að gera að skoða, bæði hjá Fairplay og Boardgamegeek, hvaða spil eru að vekja lukku. Það er svo ofboðslega mikið framboð á sýningunni og auðvelt að missa af einhverjum gullmolum.
essen5

Listinn hjá Fairplay um hádegið á sunnudeginum

 • Nota fatageymsluna.  Ég áttaði mig ekki á því í fyrstu að það væri fatageymsla í Messe.  Þar er einnig hægt að geyma ferðatöskur eða innkaupapoka, sem getur verið nauðsynlegt ef innkaup eru mikil.  En auðvitað kostar það nokkrar evrur að geyma þar.
 • Skoða og gramsa í básunum hjá þýsku spilabúðunum.  Þar er hægt að gera mjög góð kaup hvort sem er á nýjum spilum eða notuðum.  Mjög gaman að fara og gramsa þar.  Einnig eru stórir aðilar, eins og Heidelberger Spieleverlag, með útsölu með miklum afslætti þar sem hægt er að gera virkilega góð kaup.  Til að mynda sá ég Chinatown, mjög gott spil, á útsölu fyrir 5 evrur.  Það er nú ekki hátt verð miðað við að eintakið sem ég keypti fyrir um ári í Nexus kostaði 13.000.
essen3

Spiel 2012

 • Þolinmæði.  Vera viðbúinn því að bíða … bíða og bíða svo aðeins lengur eftir borði til að spila á. Oft þarf maður að vera virkilega þolinmóður.  Þá getur verið nauðsynlegt að hafa með sér nesti eða eitthvað smá snarl og vatn í flösku.  Hægt er að kaupa sér hressingu víða á sýningunni, en verðið er hátt. T.d. mátti ég borga 3.5 evrur fyrir vatnsflösku sem kostaði 1.5 evru úti á lestarstöð.
 • Forpanta minna.  Spil sem manni finnast mjög spennandi fyrir sýningu eru það kannski ekki þegar maður er búinn að skoða og jafnvel prófa.  Spil frá stórum dreifingaraðilum eru oft til í nægu upplagi, alla vega fram á laugardag eða sunnudag, og því ekki alltaf þörf á að panta fyrirfram.  Best er þó að vera vakandi fyrir því að áhugaverð spil frá smáum útgefendum geta klárast fljótt.  Það gerðist til dæmis með Terra Mystica á sýningunni núna. Útgefandinn fékk ekki nema 600 stykki fyrir sýninguna (og hluti þeirra voru skemmd) og var búinn að selja allt á örskammri stundu.  Svo er annað sem maður getur haft í huga, á sunnudögum má oft gera góð kaup, þá lækka sumir básar verðin.  Það á þó helst við um spil á þýsku, svo virðist sem spil útgefin á ensku lækki síður.
essen4

Ferðataskan fór illa á ferðalaginu

 • Ekki vanmeta plássið sem spil taka í tösku. Kassarnir eru oft óþarflega stórir og því nauðsynlegt að pakka sumum minni spilum inn í stærri kassana.  Það getur einnig sparað aukakíló að opna alla kassa og henda óþarfa pappa og spilareglum á öðrum tungumálum. Ég vigtaði þann pappa sem ég gat skilið eftir á hótelinu og það voru 2.2 kíló! – alveg hægt að kaupa auka spil fyrir þá vigt. Einnig er sniðugt að taka með sér litla farangursvog, þá veit maður nákvæmlega hversu þung taskan er. Svo er alls ekki vitlaust að taka með sér strappa utan um ferðatöskur, ef ske kynni að rennilásinn á töskunni gæfi sig, eins og gerðist hjá mér.
 • Ekki vanmeta ferðatímann frá Essen til flugvallar (ef flogið er t.d. frá Frankfurt).  Bara smá seinkun á lest eða jafnvel niðurfelling lestarferðar getur orsakað það að missa af vélinni heim.
essen2

Spiel 2012

Essen – Dagur 4

Samurai Sword

Síðasti dagurinn á Spiel var tekinn snemma og var ég mættur upp úr kl. 10.  Við fengum borð hjá útgefanda sem var að kynna spil sem heitir Samurai Sword, þar sem leikmenn geta verið ninjur, samuræjar, shogun eða ronin.  Svo fá menn spil á hendi, sem geta táknað m.a vopn eða varnir og eiga að velja eitthvað til að spila út.  Þannig eiga ninjurnar að standa saman gagnvart hinum o.s.frv. Það áhugaverða er að enginn veit úr hvaða flokki hinir eru.  Samurai Sword var hin ágætasta skemmtun sem virkar örugglega vel með fleiri spilurum.  Ég hef greinilega ekki mikla reynslu miðað við suma í svona spilum, sem ganga út á að spila spilum út á móti andstæðingum, enda var ég fyrstur til að vera drepinn og þar með endaði spilið.

Samurai Sword: hélt að mér væri að ganga ágætlega

Því næst fundum við laust borð hjá ítölsku útgáfufyrirtæki sem heitir Cranio Creations. Þar prófuðum við dungeon fighter spil sem heitir hinu frumlega nafni Dungeon Fighter. Þó svo að ég hafi ekki mikinn smekk fyrir svona spilum þá var þetta nokkuð gott.  Það byggir á því að leikmenn þurfa að kasta teningum inn á skífu og reyna að hitta sem næst miðju til að skaða skrýmslin í dýflissunni sem mest. Mjög góð skemmtun, sérstaklega þegar kasta þarf teningnum eftir sérstakri forskrift eins og þarf að gera með sum skrýmslin.  Til að mynda þurftum við að kasta teningnum undir löpp á móti einu þeirra.

Dungeon Fighter

Þegar við vorum að klára Dungeon Fighter var að losna borð á sama bási þar sem hægt var að spila 1969, sem er spil um kapphlaup nokkurra þjóða til að verða fyrsta þjóðin á tunglið.  Maður þarf að ráða vísindamenn, stunda rannsóknir á nokkrum sviðum og skjóta svo tilraunaskotum áður en hægt er að reyna við tunglskot.  Ég átti eitthvað erfitt með að skilja mismunandi hlutverk og áhrif mismunandi vísindamanna í byrjun enda engin tákn á leikborðinu sem minntu á hvað hver gerði.  Engu að síður gekk þetta ágætlega, en Jörg stýrði Kanadamönnum til sigurs í geimkapphlaupinu að þessu sinni.  Mín þjóð, Rússar, voru bara einu stigi undir Kanadamönnum, en ég veit ekki hvernig í ósköpunum mér tókst það enda allt spilið einu skrefi á eftir hinum.  Sérstök upplifun þar sem sá sem virtist hafa yfirhöndina allan tímann (einhver útlendingur sem spilaði með okkur) lenti í þriðja sæti.  Held að hann hafi verið jafn hissa og ég þegar hann vann ekki.

1969: Hvað á ég eiginlega að gera?

Eftir þetta héldum við í básinn hjá Fairplay, sem er þýskt spilatímarit.  Yfir sýninguna safna þeir saman stigagjöf frá spilurum og birta topp vinsældarlistann.  Þetta mun vera mjög alvörugefinn listi þar sem passað er upp á að dreifendur og framleiðendur geti ekki sjálfir reynt að auka stigagjöf sinna spila.  Boardgamegeek eru einnig með vinsældarlista, sem hægt er að taka þátt í að velja, en Fairplay listinn mun vera virtari.  Eddi og Jörg voru að skila inn sínum atkvæðum fyrir næstu uppfærslu sem átti að vera kl. 14.

Fairplay: Eddi og Jörg að skila inn sínum dómi

Loksins áttum við möguleika á borði hjá Z-Man Games þar sem hægt var að spila Ginkgopolis, enda um að gera að prófa það þar sem það var mjög hátt á lista Fairplay. Jörg hafði komið sér í Seasons spil á þýsku þannig að við Eddi spiluðum tveggja manna útgáfu.  Það vildi svo til að það var sama stúlkan sem útskýrði spilið  og hafði útskýrt það þremur dögum áður fyrir Edda og Jörg, með litlum árangri.  Útskýringin núna var mun betri og vorum við byrjaðir að spila innan stundar.  Ginkgopolis gengur út á uppbyggingu borgarhluta í einhverri framtíðarborg.  Markmiðið er að tryggja sér áhrif í mismunandi hverfum og passa upp á að aðrir leikmenn nái ekki of stórum hverfahlutum á meðan. Þetta er svona area control spil, en með skemmtilegum mekanisma og litskrúðugum og skemmtilega skreyttum flísum og spilum.  Ég myndi segja að Ginkgopolis sé eitt besta spilið sem ég spilaði á sýningunni og gat ekki annað en keypt eintak, enda smá pláss eftir í töskunni.

Ginkgopolis: Loksins!

Ginkgopolis

Eftir þetta löbbuðum við aðeins meira um, enda enn nóg að sjá.  Þó svo að Spiel sýningin sé gríðarstór notar hún aðeins um helminginn af öllu sýningarplássinu í Messe Essen. Ennþá á sunnudegi var maður þó að koma á staði sem maður hafði ekki komið á áður. Svo var ekki um annað að ræða en að yfirgefa Spiel, enda búið að kaupa mikið og spila ennþá meira (eða er það kannski öfugt!?).  Auf wiedersehen!

Spiel 2012: Best að drífa sig heim með allt góssið!

Essen – Dagur 3

Ákvað að kíkja í nokkrar búðir og skoða miðbæinn í morgun áður en ég fór upp í Messe. Það var búið að vara mig við að laugardagurinn væri stærstur, þar sem mikið af fjölskyldufólki kemur þá.  Það reyndist rétt og þegar ég kom upp úr kl. 13 var varla þverfótað fyrir fólki.  Enda var svo mikil ös að fólk var farið að setjast niður á göngunum og spila á gólfinu, þar sem bið eftir borði getur verið mjög löng.

Essen Spiel 2012

Ég byrjaði á að fara í Queen Games básinn og kaupa Escape, sem ég prófaði kvöldið áður með Edda og Jörg.  Ekkert um annað að ræða enda útlit fyrir að Escape verði fjölskylduspilið í ár.  Því næst hitti ég á þá félagana og við skoðuðum okkur um í góðan tíma.  Við ætluðum að fá að spila Ginkgopolis hjá Z-Man Games, en það spil er að fá mjög góða umsögn á Spiel.  Eddi og Jörg höfðu reyndar fengið tækifæri til að prófa það á fimmtudeginum, en sú sem var að útskýra fyrir þeim spilið var ekki alveg með það á hreinu og þeir voru litlu nær eftir 20 mínútna útskýringar.  Eitthvað erfiðlega gekk að komast á Ginkgopolis borð, spilinu var allt í einu kippt frá á borðinu sem við vorum búnir að planta okkur við og annað spil (Atlantis Rising) sett í gang þar.  Það var að öllum líkindum gert til að reyna að ýta undir sölu á því spili.   Þannig fór því að ég og Eddi enduðum á að spila The Palaces of Carrara við tvo Breta.  Spilið var sæmilegt, vakti ekki áhuga minn að neinu sérstöku marki.

The Palaces of Carrara: ekkert sérstaklega eftirminnilegt

Básinn hjá Z-Man Games var þéttsetinn

Svo rötuðum við inn á básinn hjá Queen Games þar sem hægt var að prófa prototýpu af spili sem þeir eru að reyna að starta í gegnum Kickstarter, Lost Legends.  Þetta er spil þar sem leikmenn eru hetjur sem þurfa að berjast við einhverja óvætti, svona nokkuð dæmigert dungeon fighter spil.  Áður en lagt er í hættuför fá leikmenn að kaupa sér vopn, brynjur og margt fleira sem gæti komið sér að góðum notum.  Þessi innkaup fara þannig fram að allir fá nokkur spil á hendi þar sem hvert spil getur táknað einhvern hlut.  Svo eiga menn að velja einn hlut til að kaupa og láta svo afganginn af spilunum ganga til næsta spilara (svipað og í 7 Wonders).  Þegar allir hlutirnir (utan einn) hafa verið keyptir er svo farið að kjást við skrímslin.  Mér fannst þetta svona la-la, held ég sé að uppgötva að dungeon fighter spil eru bara ekki minn tebolli.

Lost Legends

Eftir meira rölt var komið að lokun og við héldum niðrí bæ á hótelið mitt og tókum eitt stutt spil sem heitir Little Devils.  Þetta er svokallað trick taking spil þar sem tilgangurinn er að þurfa að taka sem fæsta slagi.  Little Devils er ágætis spil, þrátt fyrir að ég hafi tapað all illilega.  Góður dagur að kveldi kominn og tímabært að koma sér í háttinn.

Essen – Dagur 2

Septikon: Rússneskt geimstríð

Á föstudeginum vorum við mætt upp úr kl. 10 í Messe Essen.  Mjög fljótlega fór að fyllast á flestum borðum í flestum básum.  Röltum um í nokkurn tíma og ætluðum að finna okkur borð til að spila á.  Á endanum fundum við borð hjá útgefanda sem ég man nú ekki nafnið á.  Þar fengum við að prófa prototýpu af spili sem er væntanlegt á næsta ári og heitir Septikon.  Þetta er tveggja manna geimbarátta þar sem leikmenn kasta teningum og geta svo valið úr reitum í geimstöðinni sinni út frá teningakastinu.  Til dæmis er hægt að skjóta leyserskotum og senda flugskeyti á geimstöð andstæðingsins.  Þetta var alveg ágætt spil en full mikið háð „góðu“ teningakasti.

Septikon kennsla í gangi

Næst komum við okkur inn á bás hjá Artipia Games.  Þar var verið að kynna Briefcase, sem er deck building spil eins og Dominion nema hvað þetta gengur út á að kaupa og virkja mismunandi fyrirtæki.  Virkilega vel heppnað spil og mjög skemmtilegt.

Briefcase: Fyrirtækjamógúlar

Eftir matarhlé fundum við borð hjá Iello og spiluðum eitt King of Tokyo með nýju viðbótinni, Power Up,  sem var verið að gefa út á Spiel.

Desperados

Því næst fundum við laust borð með spili sem heitir Desperados.  Það gengur út á eltingaleik milli bófa og lögreglustjóra í villta vestrinu.  Bófarnir reyna að ræna póstsendingar og banka á meðan löggimann og hans fulltrúar reyna að koma í veg fyrir frekari rán.  Við lentum þarna á borði með eldri Þjóðverja sem kunni ekki reglurnar, frekar en við, og enginn sem gat kennt okkur á spilið.  Þetta var mjög áhugavert, en spilið var ekkert sérstaklega að heilla mig, en hvort það var vegna erfiðleikanna við að koma því í gang er óvíst, en líklegt.

Eftir þessa raun kíktum við inn á básinn hjá Queen Games og ætluðum að reyna að prófa Escape, sem er samvinnukapphlaup út úr hofi.  Þar var allt fullt og við urðum frá að hverfa en komust þess í stað að hjá Matagot sem er franskur framleiðandi.  Þar prófuðum við epískt stórspil sem heitir Kemet.  Þetta er um átök í Egyptalandi til forna og er rosalega flott spil þar sem mikið hefur verið lagt í hönnun.  Við spiluðum tvær umferðir og lagðist Kemet mjög vel í okkur.  Flott spil.

Queen Games: Escape að heilla fólk

Kemet

Þegar lotunum tveimur í Kemet var lokið var klukkan orðin 19 og komið að lokun. Ég rölti því með Jörg og Edda yfir á hótelið þeirra til að slaka á yfir bjór og kannski einu eða tveimur spilum.  Við spiluðum þar Unexpected Treasures sem ég hafði keypt þá um daginn.  Spilið er frá Friedemann Friese, sem hannaði m.a. Power Grid.  Þetta er lítið en mjög skemmtilegt spil þar sem leikmenn eiga að gramsa á ruslahaugum eftir gömlum húsgögnum og skipta þeim fyrir stig.  Gott spil, lítið og ódýrt.
Svo prófuðum við Love Letter sem er einnig lítið og nett.  Mjög skemmtilegt og einfalt spil um að koma ástarbréfi til prinsessu. Því næst tókum við eitt Escape, sem við náðum ekki að spila um daginn.  Spilið er spilað á 10 mínútum, undir hljóðeffektum af geisladisk sem fylgir með.  Við spiluðum reyndar án hljóðs en það gerir upplifunina aðeins öðruvísi, gæti ég trúað. Þetta er ekta fjölskylduspil, mjög fjörugt en munar örugglega miklu að spila með hljóðdisknum.

Love Letter

Eftir þetta hélt ég inn á hótel, þar var allt á fullu í lobbíinu og á barnum.  Var meira að segja boðið að koma og setjast í spil, en hafnaði því kurteislega, enda gjörsamlega útspilaður eftir daginn

Essen – Dagur 1

Eftir ferðalag sem hófst kl 04:30 var ég kominn til Essen kl. 17.  Hótelið mitt er staðsett stutt frá lestarstöðinni þannig að ég strunsaði þangað og var kominn út á neðanjarðarlestastöð um 17:30.  Spiel er opið til 19:00 þannig að það kom ekkert annað til greina en að ná alla vega klukkutíma þar.

Ferðin í Messe Essen, þar sem sýningin er, tók ekki nema 5 mínútur og eftir stuttan tíma var ég kominn inn.  Höllin er gríðarstór og er skipt niður í nokkrar minni hallir.  Ég byrjaði á að rölta um og ná í þau spil sem ég hafði forpantað.  Eftir nokkurt labb heyði ég í spilafélögunum frá Íslandi sem höfðu komið degi á undan mér.  Það voru stöllurnar í Spilavinum, Svanhildur og Linda, og Jörg og Eddi og hitti ég á þau við básinn hjá Queen Games.  Þar voru þær á tali við forstjóra Queen Games sem var hinn almennilegasti og gaf hann okkur forláta könnur.

Spiel 2012: Fór og skoðaði básinn hjá Boardgamegeek.com

Eftir að sýningin lokaði röltum við yfir á hótel sem stendur við höllina þar sem búið var að bjóða spilavinkonunum á spilakvöld hjá Asmodee, sem er stórt franskt útgáfufyrirtæki. Við enduðum nú bara í lobbíinu, sötruðum nokkra bjóra og hittum einn af forsprökkum Asmodee sem kom með tvö spil til að sýna okkur, Seasons og Sticky Sticks.  Seasons er nýtt og er að velja þó nokkra athygli.  Sticky Sticks er meira krakkaspil en er virkilega sniðugt og á örugglega eftir að sjást í hillunum í Spilavinum.

Sticky Stickz

Eftir þetta fórum við og fengum okkur að borða og svo upp á hótel.  Á hótelinu er greinilega mikið af spilurum, því að í lobbíinu og á hótelbarnum var fólk að spila á hverju borði.  Það var virkilega gaman að sjá áhugafólk um spil samankomin til að prófa það nýjasta sem er í boði.
Við settumst aðeins niður og prófuðum Hanabi sem er sniðugt samvinnuspil sem gengur út á að raða niður flugeldum fyrir flugeldasýningu.

Notaleg stemming á Motel One

Langur dagur að kveldi kominn, ennþá meira fjör framundan á morgun þar sem maður nær heilum degi á Spiel.

Undirbúningur fyrir Essen – 3. hluti

Áfram með Essen smjörið!  Nú er ég búinn að bóka lestarferðina til og frá Frankfurt þannig að allt er klappað og klárt í ferðina.  Ennþá eru útgefendur að tilkynna titla sem verða á Spiel og hér koma nokkur þeirra spila sem hafa ratað inn á radarinn minn.

piP.I. er rannsóknarlögguspil þar sem leikmenn eiga að leysa glæpamál; hver var drepinn, hvar og með hvaða vopni.  Þetta er svona Cluedo-style spil, en samt með smá krók.  Spilið virkar þannig að glæpirnir eru jafn margir og spilararnir.  Þannig þarf hver og einn að rannsaka sérstakan glæp og keppnin er um það hver er fyrstur að leysa sína ráðgátu.  Mér líst ágætlega á þetta spil og stefni að því að prófa það í Essen og sjá svo til með framhaldið, spurning hversu mikið verður búið að fylla í töskuna :grin:

 

seasonsSeasons er að vekja voða athygli þessa dagana og virðist vera að gera góða hluti.  Seasons gengur út á keppni milli galdrakarla (spilaranna).  Um er að ræða keppni hinna 12 árstíða þar sem spilað er í gegnum allar árstíðir þriggja ára.  Leikmenn spila út spjöldum með mismunandi kröftum og kasta teningum, eftir því sem ég kemst næst.  Þetta þarf ég að prófa til að ákveða hvort þetta sé fyrir mig eða ekki. Hönnunin er alla vega flott og hugmyndin góð.

 

room25Room 25 verður að sögn útgefanda rétt tilbúið fyrir Spiel.  Ég er búinn að vera eins og Ragnar Reykás með þetta spil, eina stundina líst mér voða vel á það og hina stundina alls ekki.  Spilið gengur út á að koma sínum leikmanni út úr nokkurs konar völundarhúsi, eitthvað í anda myndarinnar Cube.  Leikmenn fara á milli herbergja og reyna að lifa það af að finna útganginn.  Room 25 er fyrir allt frá einum upp í sex leikmenn og hægt að spila það sem samvinnuspil eða í samkeppni.  Þetta verð ég að prófa til að komast að endanlegri niðurstöðu.

 

escapeEscape: The Curse of the Temple er spil frá Queen Games, sem er frekar stórt apparat í borðspilaútgáfu.  Þeir notuðu hins vegar Kickstarter (þar sem fólk heitir á verkefni til að koma því í framkvæmd) til að koma þessu á koppinn.  Samkvæmt tilkynningu frá þeim verður spilið tilbúið og til sölu í Essen. Escape gengur út að komast út úr hofi með fjársjóð innan einhvers ákveðins tíma.  Það er sem sagt 10 mínútna kvóti á hverju spili og leikmenn kasta teningum í gríð og erg til að reyna að komast út úr hofinu á innan við 10 mínútum.  Áhugavert fjölskylduspil.

vampireempireVampire Empire er tveggja manna spil þar sem annar leikmaðurinn er yfir-blóðsugan og er að reyna að koma í veg fyrir að hinn leikmaðurinn (blóðsugu-baninn) komist að því hverjir í þorpinu eru blóðsugur og drepi þá.  Ég er búinn að lesa reglurnar og er svolítið óviss um það hvernig spilið virkar og þá hvort það virki yfir höfuð.  Langar mikið að prófa þetta því Vampire Empire gæti verið tilvalið hjónaspil, þar sem annar er blóðsuga og hinn vill murka lífið úr blóðsugunni og hans fylgifiskum … ávísun á rómantíska kvöldstund :smile:

Undirbúningur fyrir Essen – 2. hluti

Þá heldur Essen undirbúningurinn áfram.  Kvöldlesturinn síðustu kvöld hefur snúist um að lesa reglur fyrir ný spil … já það er ekkert grín að vera heltekinn af þessu  :shock:

Það sem hefur bæst á Essen listann minn eru eftirfarandi spil:

hanabi2Hanabi.  Hanabi er nokkurs konar partý spil þar sem leikmenn eiga að vinna saman að því að útbúa sem besta flugeldasýningu.  Hver og einn fær ákveðið mörg flugeldaspjöld á hendi, en trikkið er að þú mátt ekki sjálfur sjá þín spjöld heldur snýrðu þeim að hinum leikmönnunum.  Í sinni umferð mega leikmenn svo gefa vísbendingar um hvaða spil hinir leikmennirnir eru með á hendi og aðstoða þá þannig við að leggja niður spil í réttri röð.  Markmiðið er að raða flugeldunum í rétta röð til að hanna sem besta sýningu.  Hanabi er lítið og nett og kostar ekki nema 7,5 evrur, þannig að þetta er no brainer  :lol:

loveletterÞað næsta á listanum er svolítið sérstakt spil, Love Letter. Markmið spilsins er að vera sá fyrsti til að koma ástarbréfi til Annette prinsessu, sem hefur lokað sig inni í höll sinni. Love Letter inniheldur 16 spil sem hvert og eitt táknar ákveðna persónu sem hefur ákveðið vægi.  Eftir því sem vægi persónunnar er hærra, því nær er viðkomandi prinsessunni.  Sá sem nær að halda í hæsta spilið í lok leiks hefur komið ástarbréfi til Annette.  Þetta verður örugglega frekar ódýrt spil, en hefur fengið fína dóma og er örugglega skemmtilegt.

 

myrmesMyrmes er spil sem hefur verið að vekja athygli.  Spilið er worker-placement spil sem gengur út á að halda utan um maurabú og senda maura út úr búinu til að sækja fæði o.s.frv.  Þetta hljómar kannski ekki spennandi en það er eitthvað við þetta spil sem er heillandi og vert að skoða nánar.  Ég stefni að því að prófa þetta í Essen og sjá hvort mér líst á það eður ei.  Ég verð að viðurkenna að ég er að verða mettur á worker-placement spilum, en svo gæti þetta verið spilið sem endurglæðir áhuga minn … kemur í ljós.

cavemen2Cavemen Playing With Fire er tveggja manna spil sem gengur út á að reyna að slökkva þrjá elda andstæðingsins og á sama tíma reyna að vernda þína þrjá elda.  Veðja á að þetta sé skemmtilegt spil fyrir okkur hjónin, kostar bara 10 evrur og því eru þetta augljós kaup.

 

 

vegasVegas er spil sem var tilnefnt til Spiel des Jahres verðlaunanna þetta árið   Þetta er sáraeinfalt teningaspil en er þrælskemmtilegt.  Ég hef spilað þetta tvisvar á spilakvöldi í Spilavinum og líst svona ljómandi vel á.  Þetta er spil fyrir mjög breiðan aldurshóp og gengur í grófum dráttum út á að vinna sem mestan pening í spilavíti.  Sex spilavíti eru lögð á borðið og eru peningaverðlaun af handahófi dregin fyrir hvert þeirra. Leikmenn skiptast svo á að kasta sínum teningum og raða þeim á spilavítin til að reyna að fá þann vinning sem í boði er. Geri ráð fyrir að þetta verði til sölu í Essen og sjálfsagt að kippa því með.

Jæja, nóg komið í bili.  Best að fara að lesa fleiri spilareglur, enda af nógu að taka  :lol:

Undirbúningur fyrir Essen – 1. hluti

spiel_logoNú fer að líða að stærstu spilasýningu í heimi sem haldin er árlega í þýska bænum Essen.  Spiel 2012 stendur yfir dagana 18. til 21. október.  Þetta verður mitt fyrsta skipti í Essen en að öllum líkindum ekki það síðasta  :grin:

Undirbúningur stendur sem hæst og eru framleiðendur og dreifendur borðspila duglegir að tilkynna titla sem gefnir verða út í kringum sýninguna og seldir í Essen.  Ég er svo sjálfur á fullu í undirbúningnum, búinn að bóka flug og hótel og ligg nú yfir listanum á Boardgamegeek það sem allt Essen-úrvalið er kynnt (sjá listann).  Hér er fyrsti hluti samantektar á þeim spilum sem vakið hafa áhuga minn … og verða að öllum líkindum keypt í Essen  :grin:

clashofcultures

Clash of Cultures

Clash of Cultures verður líklega eitt af stóru spilunum í Essen þetta árið.  Í fyrra var það Eclipse, en nú er útlit fyrir að Clash of Cultures verði ansi heitt.  Spilið er svokallað civilization spil þar sem leikmenn byggja upp veldi með því að koma á landnemabyggð, stækka bæi upp í borgir, kanna landsvæði og kljást við aðra leikmenn svo eitthvað sé nefnt.  Ég er alveg að verða búinn að sannfæra sjálfan mig um að ég verði að forpanta þetta spil, en verðmiðinn hefur verið að hindra mig.  Spilið kostar $80 (u.þ.b. 10.000 kr.) á Spiel, sem er nú kannski ekkert svo mikið miðað við hvað það kemur til með að kosta út úr búð hér heima.

tzolkin

Tzolk’in: The Mayan Calendar

Næst á listanum er Tzolk’in: The Mayan Calendar. Það ríkir eftirvænting eftir þessu spili ef marka má téðan lista á Boardgamegeek.  Þetta virðist vera mjög áhugavert spil, með sérstakan mekanisma.  Á borðinu eru sex tannhjól sem leikmenn geta raðað sínum mönnum á.  Síðan eru hjólin látin snúast og mega leikmenn þá taka til baka eitthvað af mönnunum og fá  í staðinn það sem reiturinn (sem þeir lentu á eftir hjólasnúninginn) býður upp á.  Mér líst virkilega vel á þetta spil og er ég þegar búinn að forpanta eintak.

 

cityofhorror

City of Horror

City of Horror er endurbætt útgáfa af öðru eldra spili sem heitir Mall of Horror.  Þetta er spil sem er, að ég held, best lýst af útgefanda sem: „backstabbing survival-horror game“.  Það gengur sem sagt út á að forða sér undan uppvakningum og reyna að bjarga eigin skinni.  Til að ná því að lifa af verður maður í leiðinni að beina athygli uppvakninganna að hinum leikmönnunum.  Held að þetta sé mjög skemmtilegt spil og hlakka mikið til að byrja að koma öðrum leikmönnum fyrir zombie-nef, enda búinn að forpanta þetta.

 

tokaido

Tokaido

Tokaido er spil sem ég er einnig búinn að forpanta.  Ég veit ekki mikið um það en hönnunin heillaði mig algerlega.  Svo hafði nú líka áhrif að hönnuðurinn (Antoine Bauza) hefur gefið út nokkur góð spil, m.a. 7 Wonders, Ghost Stories og Takenoko.   Þetta var svona impulse buy, svo á bara eftir að koma í ljós hvort eitthvað sé varið í það.

 

 

 

airking

Air King

Síðasta spilið sem ég nefni að þessu sinni er Air King, sem er flugumferðarstjórnarspil.  Þetta gæti verið alveg ömurlegt spil en ég bara verð að kaupa það, til að fara að stýra flugumferð í frítímanum líka.  Veit ekki mikið um þetta spil, en er samt búinn að lesa reglurnar og verð að viðurkenna að ég hef ennþá nokkrar spurningar um hvernig það virkar.  Held að maður verði bara að fá kennslu á þetta í Essen.  Allavega must-buy fyrir mig.