Five Tribes ★★★★⋆

FiveTribes01Fyrir 2-4 leikmenn, 13 ára og eldri.
Tekur 40-80 mínútur.


Five Tribes er hannað af Bruno Cathala, en hann hefur m.a. hannað spil eins og Cyclades og unnið sameiginlega með öðrum að hönnun spila eins og 7 Wonders: Duel, Abyss, SOS Titanic, Jamaica, Mr. Jack, Shadows over Camelot og Mission: Red Planet svo fá ein séu nefnd.

Five Tribes er gefið út af Days of Wonder, en yfirleitt má vænta hágæða framleiðslu frá því fyrirtæki. Meðal annarra spila frá Days of Wonder eru Ticket to Ride, Small World og Mystery Express.

Five Tribes hefur unnið til nokkurra verðlauna, m.a. Tric Trac d’Or og Golden Geek Best Strategy Board Game árið 2014.

Enskar reglur fyrir Five Tribes eru að finna hér.


Um spilið

Sögusvið Five Tribes er sögufrægt soldánaveldi sem nefnist Naqala. Gamli soldáninn sálaðist nýlega og yfirráð yfir Naqala eru í lausu lofti. Véfréttin spáði fyrir um aðkomumenn sem myndu reyna að ráðskast með hina fimm ættbálka Naqala og reyna að ná völdum í borgríkinu. Leikmennirnir eru í hlutverki aðkomumannanna sem ráðskast með ættbálkana og töfraandana og að lokum tekst einum þeirra að sölsa undir sig soldánaveldið.

fivetribes02

Naqala

Í upphafi spilsins er 30 landslagsreitum raðað upp í grind sem sýnir Naqala. Hver reitur er ákveðinna stiga virði og gefur ákveðna aðgerð sé hann virkjaður. Á hvern reit eru settir þrír ættbálkameðlimir sem dregnir eru úr poka af handahófi. Þessir ættbálkameðlimir geta verið í fimm mismunandi litum og búa þeir yfir mismunandi eiginleikum.

 • Grænir kaupmenn leyfa leikmönnum að fá vörur af markaðnum.
 • Bláir smiðir gefa peninga.
 • Rauðir launmorðingjar leyfa leikmönnum að drepa ættbálkameðlimi, annað hvort á leikborðinu eða þá sem aðrir leikmenn hafa fyrir framan sig.
 • Gulir vesírar gera ekkert sérstakt annað en að gefa stig í lok spilsins.
 • Hvítu öldungana er hægt að nota annað hvort til að fá stig í lokin eða sem gjaldmiðil þegar leikmaður kaupir anda (Djinn).
fivetribes05

Ættbálkarnir fimm

fivetribes07

Leikborðið uppsett með þremur ættbálkum á hverri flís

Hver umferð hefst á uppboðsfasa þar sem leikmenn bjóða í röðina, þ.e. hver fái að byrja fyrstur, hver verður númer tvö o.s.frv. Það getur skipt miklu máli að ná að vera fyrstur á ákveðnum tímapunkti sé maður búinn að sjá fyrir einhvern meistaraleik. Borgað er með peningum, sem jafnframt telja sem stig í Five Tribes og því eru leikmenn að eyða stigum til að ná að vera snemma í röðinni. En það má vel vera að það geti borgað sig.

fivetribes12

Mismunandi kostnaður við upphafsröðina

Leikmenn skiptast svo á að gera eftir uppboðsröðinni, en í sinni umferð tekur leikmaður alla ættbálkarmeðlimi af einhverri einni flís og færir þá einn af öðrum yfir á aðrar flísar í röð út frá upphaflsflísinni þaðan sem þeir voru teknir. Síðasti meðlimurinn sem leikmaður sleppir verður að vera í sama lit og einhver ættbálkameðlimur sem stendur á lokaflísinni. Þá fær leikmaður að taka alla samlita ættbálkameðlimi af flísinni og framkvæma þá aðgerð sem sá ættbálkur leyfir. Einnig fær leikmaður að framkvæma aðgerðina sem flísin býður upp á. Það getur verið t.d. að kaupa vörur af markaðinum, setja niður pálmatré, reisa höll eða kaupa anda.

fivetribes08

Ef þessir gulu ættbálkameðlimir eru teknir af flísinni má leikmaður eignast hana ásamt því að framkvæma aðgerð þeirra gulu og kaupa anda

Ef leikmaður hreinsaði alla meðlimi af lokaflísinni, þ.e. ef allir voru í sama litnum og ættbálkameðlimurinn sem hann skildi eftir, þá fær hann einnig að eigna sér flísina með því að staðsetja úlfalda í sínum lit á flísina. Flísarnar gefa mismörg stig í lok spilsins, allt frá 4 upp í 15. Sumar flísar auka enn á verðmæti sitt ef gróðursett eru pálmatré á þeim eða reistar hallir. Leikmenn geta einnig notað andana sem þeir kaupa til að beygja og brjóta reglur spilsins og tryggja sér þannig enn fleiri stig.

fivetribes15

5 auka stig fyrir höll og 3 fyrir pálmatré

Svona gengur þetta þangað til annað hvort einhver leikmaður notar síðasta úlfaldann sinn til að eigna sér flís eða ekki er mögulegt að færa fleiri ættbálkameðlimi (af því ekki er hægt að ná að láta síðasta meðliminn enda á flís með samlitu peði). Leikmenn fá að stipta inn vörum sem þeir hafa safnað að sér fyrir peninga, en verðmæti markaðsvarningsins stigmagnast eftir því sem leikmaður safnar sér fleiri mismunandi vörum. Þá eru stigin talin saman og sá sem hefur safnað flestur stigum (peningum) er sigurvegarinn.

fivetribes11

Varningur á markaðnum, þar á meðal þrællinn sem sumum fannst óviðeigandi

Það er rétt að minnast aðeins á mismunandi reglur og upplifun eftir fjölda leikmanna. Í tveggja manna spilinu fær hvor leikmaður að gera tvisvar sinnum í umferðinni, hugsanlega tvisvar í röð ef hann hefur náð að tryggja það í uppboðinu. Einnig eru færri kameldýr til taks eftir því sem leikmönnum fjölgar. Annars eru reglurnar allar þær sömu hvort sem tveir, þrír eða fjórir spila.

Hvað finnst mér?

fivetribes16

Fakírarnir vinstra megin sem komu í stað þrælanna

Five Tribes er mjög fallega hannað spil og flott á að líta, enda hafa Days of Wonder yfirleitt alltaf skorað mjög hátt þegar kemur að hönnun og framleiðslu. Þrælaspjöldin ullu reyndar svolitlu fjaðrafoki þar sem einhverjum sárnaði að þurfa að versla með þræla á markaðnum. Days of Wonder brugðust við þessari gagnrýni með því að breyta hönnuninni og seinni prentun af spilinu innihélt fakíra í stað þræla. Einnig gafst þeim, sem keypt höfðu eldri útgáfu, kostur á að kaupa fakírastokk og skipta þannig út þrælunum.

Five Tribes getur virkað svolítið flókið í fyrstu og tekið fólk tíma að komast almennilega inn í spilið. Mismunandi ættbálkarnir og eiginleikar þeirra eru eitthvað sem tekur tíma að átta sig á. Uppboðið í upphafi hverrar umferðar er skemmtilegt, áhugavert að berjast um röðina þar sem maður er í raun að borga stig til að fá að vera snemma, en sá sem gerir síðast fær kannski hvort eð er mjög gott tækifæri til stigasöfnunar þar sem uppröðunin á borðinu er síbreytileg.  Leikmenn geta einnig spilað þannig að þeir passi sérstaklega að skilja ekki eftir kjörin tækifæri fyrir þá sem á eftir koma. Það getur náttúrulega lengt spilatímann, þar sem leikmenn eru bæði að reyna að hámarka sína eigin stigasöfnun í umferðinni og á sama tíma að passa upp á að næsti leikmaður fái ekki fullkominn leik strax á eftir.

Five Tribes virkar að mínu mati vel fyrir allan uppgefinn fjölda leikmanna. Tveggja manna spilið er áhugavert þar sem maður getur reynt að ná að gera tvisvar í einu, en það getur verið mjög mikilvægt, sérstaklega ef manni tekst að setja upp einhvern mjög svo öflugan leik fyrir seinna skiptið.

plus
 • Mismunandi uppsetning í hvert skipti, sem eykur líkurnar á fjölbreytilegum spilunum.
 • Margar leiðir til sigurs.
 • Skemmtileg mekaník, m.a. við uppboðið og færslu ættbálkameðlimanna.
 • Tiltölulega stuttur spilatími, ef þú spilar ekki með fólkinu sem nefnt er í 2. lið neikvæða hlutans.
 • Virkar vel fyrir 2, 3 og 4 leikmenn.
 • Hægt að kaupa viðbótina Artisans of Naqala til að auka ennþá við fjölbreytnina og endurspilunargildið.
plus
 • Tekur svolítið langan tíma að setja upp, sérstaklega að raða öllum ættbálkapeðunum inn á borðið.
 • Spilið hentar ekki vel þeim sem þurfa að hugsa hverja einustu aðgerð og bera saman stig fyrir hverja þeirra, þá tekur þetta allt kvöldið.
 • Ekki hægt að plana marga leiki fram í tímann þar sem uppröðun á leikborðinu breytist í hverri umferð.

Niðurstaða

Þrátt fyrir tímann sem fer í uppsetninguna og ofgnótt valkosta sem virkað geta yfirþyrmandi á köflum vegna fjölda möguleika í hverri umferð, er Five Tribes mjög gott spil.

star_goldstar_goldstar_goldstar_graystar_gray

(Upplýsingar um stjörnugjöf á síðunni)

Patchwork ★★★★

patchwork01Fyrir 2 leikmenn, 8 ára og eldri.
Tekur 15 mínútur.


Patchwork er hannað af Uwe Rosenberg, en hann á heiðurinn af fjölmörgum þekktum spilum m.a. Agricola, Caverna The Cave Farmers, Bohnanza, Glass Road og Fields of Arle.


Enskar reglur fyrir Patchwork eru að finna hér.

Um spilið

Patchwork gengur út á keppni tveggja leikmanna um hvor þeirra saumi fallegra bútasaumsteppi. Í upphafi spilsins fær hvor leikmaður sitt eigið bútasaumsborð sem sýnir 81 reit á spjaldi sem er 9 reitir á breidd og 9 reitir á hæð. Á milli leikmannanna er sett tímaborð sem leikmenn nota til að halda utan um hversu mikinn tíma þeir hafa notað til að sauma. Í kringum tímaborðið er 33 bútum í mismunandi stærðum raðað í handahófskennda röð. Bútarnir eru merktir með kostnaði (í tölum) og hversu langan tíma tekur að sauma bútinn (tímaglas).

patchwork02

Patchwork uppsett og tilbúið

Hlutlausu peði er komið fyrir í bútaröðinni, fyrir framan minnsta bútinn. Peðið segir til um úr hvaða bútum leikmaður megi sauma í umferðinni, en næstu þrír bútar fyrir framan peðið eru í boði. Þegar leikmaður velur bút til að sauma tekur hann bútinn, borgar kostnaðinn í tölum, færir skífuna sína áfram á tímaborðinu og færir hlutlausa peðið á þann stað þar sem búturinn var. Þannig bætist í hvert skipti sem einhver saumar bút annar bútur (eða fleiri) sem í boði verða fyrir þann sem saumar næst.

Sá sem er búinn að eyða minni tíma í að sauma (á aftari skífuna á tímaborðinu) fær svo að gera þangað til hann er kominn fram fyrir hinn leikmanninn. Þannig getur leikmaður náð að sauma nokkra búta í einu áður en hinn fær að gera. Í stað þess að sauma, annað hvort ef leikmaður kýs að sleppa því að sauma eða af því að hann á ekki fyrir bútunum sem eru fyrir framan peðið, getur hann valið að færa skífuna sína á tímaborðinu á reitinn fyrir framan skífu hins leikmannsins. Hann fær þá borgaðar jafnmargar tölur og fjöldi reita sem hann færði skífuna sína.

patchwork06

Tilbúið fínt bútasaumsteppi

Fimm sinnum í gegnum spilið er hægt að verða sér út um minnstu bútana, sem eru 1*1 að stærð, en þeim er dreift á tímaborðinu þannig að sá leikmaður sem fer fyrstur framhjá bútnum fær að sauma hann við teppið sitt og fylla þannig upp í auðan reit. Einnig fá leikmenn útborgað í tölum í hvert skipti sem skífan þeirra fer framhjá tölureit á tímaborðinu.

Svona gengur spilið þar til leikmenn eru búnir að eyða öllum tímanum sem þeir höfðu til að sauma (komnir að enda tímaborðsins). Þá fá þeir síðustu töluútborgunina og telja svo hversu mikið af tölum þeir hafa í sjóði. Hver reitur sem er eftir auður á bútasaumsborðinu telur sem tvö mínusstig. Endanleg niðurstaða segir til um hver er sigurvegarinn.

Hvað finnst mér?

Patchwork er eins og tveggja manna púslþraut. Maður vill ná sem stærstum og hentugustum bútum í hvert skipti, en það gengur hins vegar ekki alltaf. Stundum verður maður bara að láta sér nægja að fá nokkrar tölur í útborgun til að nota í næstu umferð, en við það þarf maður alltaf að eyða einhverjum tíma. Þá gæti hins vegar búturinn sem mann svo sárlega vantaði verið farinn, annað hvort vegna þess að hinn leikmaðurinn keypti hann eða þá að peðið hefur færst vegna saumaskapar hins leikmannsins. Því þýðir ekkert að vera að plana of langt fram í tímann. Eini möguleikinn á að plana eitthvað er ef maður nær að vera nokkrum tímum á eftir hinum leikmanninum og nær þá jafnvel að sauma nokkra búta í einu.

patchwork09

Það kostar 7 tölur og 6 klukkutíma að sauma þennan bút við teppið

Stundum hefur komið upp svolítið ójafnvægi í spiluninni þegar annar aðilinn nær einhvern veginn alltaf að vera á undan að tryggja sér flesta ef ekki alla litlu bútana sem eru á tímaborðinu. Það getur skipt sköpum að ná að bæta þeim inn á milli þar sem göt hafa myndast í teppið. Einnig hefur það einu sinni gerst hjá okkur að fyrst í spilinu hafði hvorugur leikmaðurinn efni á að sauma (þar sem mjög dýrir bútar voru fyrir framan peðið) og skiptumst við þá bara á að færa skífurnar okkar á tímaborðinu og skrapa saman nokkrum tölum til að geta saumað úr. Þetta eru hins vegar bara smávægilegar athugasemdir við annars mjög fínt spil.

plus
 • Einfalt, stutt og skemmtilega hannað. Mjög aðgengilegt fyrir allflesta.
 • Mjög gaman að reyna að sjá út hvernig bútarnir passa best saman, þetta er svona hálfgert Tetris.
plus
 • Stigagjöfin í lokin getur verið óvægin, þú ert kannski búinn að sauma flott teppi en endar með -10 stig þar sem of margir reitir eru enn auðir. Einnig getur það vel gerst að leikmaður vinni með mínusstig.

Niðurstaða

Patchwork er sniðugt og aðgengilegt fyrir nánast alla. Ég hef meira að segja spilað þetta við 7 ára soninn án teljandi vandræða. Mér finnst eitthvað heillandi við það að púsla saman bútasaumsteppinu mínu og reyna að finna út hvernig ég geti endað með sem fæsta auða reiti. Virkilega gott tveggja manna spil.

star_goldstar_goldstar_goldstar_graystar_gray

(Upplýsingar um stjörnugjöf á síðunni)

Mysterium (Tajemnicze Domostwo) ★★★★⋆

Fyrir 2-7 leikmenn, 8 ára og eldri.
Tekur 30-60 mínútur.


Mysterium heitir á frummálinu Tajemnicze Domostwo, en spilið er hannað af tveimur Úkraínumönnum og var upphaflega gefið út á úkraínsku og pólsku.

Von er á enskri útgáfu síðla árs 2015, en það mun vera útgáfufyrirtækið Libellud sem stefnir að því að gefa spilið út.


Enskar reglur fyrir Mysterium (þýðing á pólsku útgáfunni) eru að finna hér.

Um spilið

Sagan á bak við Mysterium er sú að fyrir 100 árum var fyrrum eigandi hefðarseturs tekinn af lífi fyrir glæp sem hann framdi ekki. Sérfræðingar í hinu yfirnáttúrulega (miðlum) hefur verið stefnt saman á hefðarsetrið til að reyna að komast að hinu eina sanna, þannig að hefðarseturseigandinn fyrrverandi fái hvíldina sem hann svo þráir. Miðlarnir hafa sjö nætur til að komast að því hver raunverulega framdi glæpinn og vinna því saman að því að leysa heildargátuna, þó þeir þurfi fyrst að byrja á því að leysa sinn hluta.

mysterium04

Fjórir grunaðir

Í upphafi spilsins er ákveðið mörgum aðilum (grunuðum) raðað upp á borðið eftir fjölda leikmanna. Það sama á við um hugsanlegar staðsetningar og morðvopn. Þannig eru 8 aðilar, 8 staðsetningar og 8 morðvopn í auðveldustu útgáfunni af 6 manna spili. Í þeirri erfiðustu eru 11 stykki af hverju í 6 manna spilinu.

Einn leikmaður tekur að sér að vera draugur gamla hefðarseturseigandans á meðan hinir eru í hlutverki miðlanna. Einn grunaður, ein staðsetning og eitt morðvopn eru valin af handahófi fyrir hvern leikmann sem aðeins draugurinn fær að sjá. Draugurinn dregur á hendi sjö draumaspil sem eru fallega myndskreytt spil og sýna mörg hver ansi skrautlegar myndir og tákn.

mysterium05

Fjórar hugsanlegar staðsetningar

Draugurinn velur eitt eða fleiri spil sem honum finnst gefa til kynna hverju viðkomandi miðill ætti að vera að leita að. Allir miðlarnir fá vísbendingu og eiga svo að giska á hvað það er sem draugurinn er að reyna að koma á framfæri. Fyrst reyna miðlarnir að komast að því hvar glæpurinn var framinn, svo hvaða aðili er grunaður og að lokum morðvopnið. Hver miðill þarf því að leysa sína gátu, en getur fengið aðstoð hinna miðlanna ef hann kýs að gera það. Þeir verða þannig að reyna að túlka draumana sem þá dreymdi um nóttina. Grundvallarreglan er svo sú að draugurinn má alls ekki tjá sig neitt um það sem hann er að senda miðlunum, eins og t.d.: „Þetta er nú það skásta sem ég gat fundið, en er samt alls ekki gott“. Draugurinn tjáir sig bara í gegnum draumaspilin.

Þegar allir hafa giskað á eina staðsetningu lætur draugurinn miðlana vita hverjir hafi haft rétt fyrir sér og hverjir höfðu rangt fyrir sér. Þá er ein nótt liðin og draugurinn gefur miðlunum vísbendingar í formi drauma fyrir næstu nótt. Ef miðlunum tekst ekki að leysa sína ráðgátu fyrir sjöundu nóttina þá tapa allir leikmennirnir og draugurinn fær ekki að hvíla í friði.

mysterium07

Hvert er rétta morðvopnið?

Ef miðlunum tekst hins vegar öllum að leysa sínar ráðgátur reyna þeir í sameiningu að komast að því hver hinna grunuðu var raunverulegur morðingi. Það er gert þannig að draugurinn velur einn af hinum grunuðu og ákveður að sá aðili sé morðinginn. Síðan dreifir hann myndunum af þessum sem voru grunaðir og gefur vísbendingar í formi draumaspjalda um hver hinn eini sanni morðingi sé. Þannig verða miðlarnir að komast að sameiginlegri niðurstöðu um hver framdi glæpinn. Ef þeim tekst að leysa gátuna innan tímarammans sem eftir er af þessum sjö upphaflegu nóttum, vinna allir spilið. Annars tapa allir og draugurinn fær ekki þá ró sem hann sóttist eftir.

mysterium06

Þrjú draumaspil

Hvað finnst mér?

Það er ýmislegt sem Mysterium hefur með sér. Spilið byggir á mjög einfaldri hugmynd: taktu vísbendinguna sem þú fékkst og reyndu að átta þig á hvað draugurinn er að reyna að segja þér. Það getur hins vegar reynst mikið heilabrot að finna út hvað draugurinn var í raun og veru að meina með því að senda þér ákveðinn draum. Er það litaþemað á draumaspilinu, andrúmsloftið, hringlaga táknið í vinstra horninu o.s.frv. Svo getur allt eins verið að það sem draugurinn er að sjá á draumaspilinu sé bara alls ekki það sem þú sérð út úr því. Eins getur sú staða komið upp að draugurinn sé að velja það skásta í stöðunni og litlar sem engar líkur séu á því að miðillinn nái nokkru lógísku út úr því.

mysterium004

Draumaspilið vinstra megin: Hvora staðsetninguna er draugurinn að gefa vísbendingu um?

Það getur því verið þrautinni þyngra að vera draugurinn í Mysterium. Á honum hvílir heilmikil ábyrgð á því hvernig heildarupplifunin verður. Ef hann er lengi að velja draumaspil getur það dregið spilið niður. Hugmyndaríkur draugur og fólk sem lifir sig inn í miðilshlutverkið getur svo lyft Mysterium upp.

HVAÐ ER GOTT:

⇑ Hægt er að spila Mysterium með allt að sjö leikmönnum.
⇑ Mysterium er mjög einfalt og hentar breiðum hópi, allt frá börnum upp í gamalmenni.
⇑ Miklar rökræður og þrætur geta myndast þegar miðlarnir eru ekki sammála um hvað það er sem draugurinn er að reyna að „segja“. Þetta tel ég kost þar sem samskipti milli leikmanna geta verið mikil og oft á tíðum stórskemmtileg.

HVAÐ ER EKKI SVO GOTT:

⇓ Það getur reynst erfitt að vera draugurinn og spilið stendur og fellur með því hversu „góður“ og fljótur draugurinn er að koma draumunum til miðlanna.
⇓ Að setja spilið upp er svolítið föndur, þ.e. að stilla öllu upp og finna til alla þá grunuðu, staðsetningarnar og morðvopnin.
⇓ Eftir að spila spilið oft með sama fólkinu fer maður að læra inn á hvaða draumaspjöld fólk notar fyrir ákveðna aðila, staði eða morðvopn. Þannig er ekki víst að spilið þoli fjölmargar endurteknar spilanir með sama fólkinu.


Niðurstaða

Mysterium er stórskemmtilegt selskapsspil og hefur rutt Dixit úr rúmi sem spilið sem ég dreg fram í fjölskyldumatarboðum á þessu heimili. Við erum búin að spila Mysterium oft á síðustu mánuðum við breiðan aldurshóp og hafa nánast allir sem við spiluðum það við skemmt sér mjög vel. Ef þú hefur hins vegar ekki gaman af Dixit og svona ágiskunarspilum yfir höfuð, þá skaltu halda þig frá Mysterium.

star_goldstar_goldstar_goldstar_graystar_gray

(Upplýsingar um stjörnugjöf á síðunni)

Colt Express ★★★★

colt_expressFyrir 2-6 leikmenn, 10 ára og eldri.
Tekur 30 mínútur.


Enskar reglur fyrir Colt Express eru að finna hér.


Kynningareintak af spilinu var fengið hjá versluninni Spilavinum.

Um spilið

Sagan á bak við Colt Express er sú að 11. júlí árið 1899 lagði Union Pacific Express lestin af stað frá Folsom í Kaliforníu með 47 farþega innanborðs og mikið af peningum sem átti að nota á útborgunardegi kolanámuverkamanna hjá Nice Valley Coal Company. Leikmennirnir eru hópur lestarræningja sem ráðast til inngöngu í lestina og reyna að ræna peningum, bæði af farþegunum sem og útborgun verkamannanna. Um borð í lestinni er einnig lögreglustjórinn Samuel Ford og gæti hann reynst ræningjunum óþægur ljár í þúfu.

coltexpress02

Lestin uppsett fyrir sex leikmenn

Í upphafi er pappalestarlíkani, sem samsett er úr allt að sex stökum lestarvögnum, stillt upp á mitt borðið og upphafsleikmaður valinn af handahófi. Lestarvagnarnir eru hafðir jafn margir leikmönnum og peningaveskjum og gimsteinum dreift á gólfið í lestarvögnunum eftir ákveðinni forskrift sem prentuð er á gólfi hvers vagns. Hver gimsteinn er $500 virði á meðan veskin innihalda frá $250 til $500. Fremst í lestina, í vélarvagninn, er lögreglustjórinn Samuel Ford staðsettur ásamt skjalatösku sem inniheldur $1000. Hver leikmaður velur sér einn lestarræningja af þeim sex sem í boði eru. Ræningjarnir hafa allir sérstaka eiginleika sem leyfa þeim að framkvæma eitthvað sem hinir hafa ekki kost á að gera.

Hver leikmaður tekur sitt leikmannaborð, aðgerðaspil, byssuspil og setur sitt peð í annan hvorn af öftustu tveimur vögnunum eftir því hvar í röðinni hann er (1., 3. og 5. leikmaður byrja í aftasta vagninum á meðan 2., 4. og 6. byrja í þeim næstaftasta). Fjögur umferðaspjöld eru dregin af handahófi og einu lokaumferðarspjaldi bætt aftast við. Sá sem á leik snýr efsta umferðaspjaldinu við, en það sýnir hvernig leikmenn eiga að spila út aðgerðaspilum í þeirri umferðinni.

coltexpress04

Leikborðið hans Doc, en í upphafi umferðar má hann hafa sjö spil á hendi

Hver umferð skiptist niður í tvo fasa: Ráðabruggið (Schemin’) og Ránið (Stealin’).

Ráðabruggið virkar þannig að leikmenn stokka aðgerðaspilin sín og draga sex á hendi (nema Doc, en hans eiginleiki er að fá sjö spil á hendi í byrjun hverrar umferðar). Aðgerðirnar sem þessi spil sýna eru aðgerðirnar sem leikmaðurinn hefur úr að velja í umferðinni. Hver leikmaður spilar út einu aðgerðaspili í einu (eða tveimur ef umferðaspilið segir) þangað til allir leikmenn eru búnir að spila út öllum þeim spilum sem þeir mega. Þannig „forrita“ leikmenn aðgerðir fram í tímann. Mögulegar aðgerðir eru að:

 • færa sinn ræningja á milli lestarvagna eða hlaupa eftir þakinu á lestinni,
 • klifra upp á þak lestarvagns eða færa sig ofan af þaki niður í lestarvagn,
 • kýla annan lestarræningja,
 • skjóta annan lestarræningja,
 • stela verðmætum, eða
 • færa lögreglustjórann á milli tveggja lestarvagna.

 

Ránið fer svo þannig fram að sá sem á leik tekur aðgerðaspilabunkann saman, snýr honum við þannig að fyrsta spilið sem var lagt niður er það fyrsta sem er sýnt, og byrjar að sýna spilin eitt í einu. Hver leikmaður framkvæmir þá aðgerð sem er á spilinu hans og færir ræningjann sinn í samræmi við aðgerðirnar. Oft á tíðum fara hins vegar plönin út um þúfur þar sem einhver annar er búinn að framkvæma sína aðgerð sem hefur hugsanlega áhrif á þína. Þannig geta leikmenn bæði verið mjög heppnir og svo einnig mjög óheppnir.

coltexpress06

Aðgerðaspilin hans Doc

Ef leikmaður er skotinn af öðrum leikmanni fær hann byssuspil frá þeim ræningja sem hann þarf að stokka með sínum aðgerðaspilum fyrir næstu umferð. Þannig fara byssuspilin að þvælast fyrir aðgerðaspilunum. Ef lögreglustjórinn er færður inn í vagn þar sem ræningjar eru fyrir, þurfa þeir að flýja upp á þak og fá í stokkinn sinn óþarfa spil frá lögreglustjóranum. Ef leikmaður er kýldur missir hann eina pyngju á gólfið í þeim lestarvagni sem hann er staðettur í.

Svona gengur spilið í fimm umferðir, en þá telja ræningjarnir góssið og sá sem hefur stolið mestu vinnur spilið. Sá sem hefur skotið flestum skotum úr sinni byssu fær einnig $1000 bónus fyrir að vera mesti byssubófinn. Samanlagður ránsfengur segir svo til um sigurvegarann.

coltexpress05

Byssuspilin hans Doc


Hvað finnst mér?

Colt Express er hraðspilandi lestarringulreið. Sama hversu vel maður reynir að skipuleggja sínar aðgerðir eru líkur á því að aðgerðir einhverra annarra leikmanna setji mann algerlega út af sporinu. Spilið er mjög einfalt og gengur tiltölulega hratt fyrir sig. Það er einna erfiðast að reyna að skipuleggja hvað maður ætlar að gera og muna hvaða aðgerðaspil maður lagði niður síðast. Það getur nefnilega verið mjög svekkjandi að misreikna sig og eyðileggja heila umferð fyrir sjálfum sér.

Lestarlíkanið er mjög flott og gefur spilinu einstakan blæ. Það var heilmikið púsl að setja lestarvagnana saman í upphafi, en vagnarnir eiga hver sinn stað í kassanum og því þarf ekki að taka hana í sundur aftur. Pappastandar sem sýna kaktusa og steina fylgdu einnig með, en ég hef nú aldrei nennt að raða þeim sérstaklega upp fyrir spilun, sé ekki alveg tilganginn með því enda hafa þeir ekkert hlutverk í spilinu.

coltexpress11

Lestarræningjarnir hefja leik í tveimur öftustu vögnunum

Sex manna virkar spilið vel, lestarvögnunum fjölgar með hverjum leikmanninum og því eru allir sex tengdir þegar svo margir eru að spila. Þrátt fyrir allan þennan fjölda leikmanna hef ég ekki orðið var við að spilið dragist eitthvað á langinn, þessi fjöldi eykur hins vegar á ringulreiðina og ennþá erfiðara að plana almennilega sínar aðgerðir.

Sérstakar reglur eru til að hægt sé að spila Colt Express tveggja manna, en þá stýrir hver leikmaður tveimur ræningjum og samanlagður ránsfengur tveggja manna gengisins segir til um sigurvegarann. Einnig er hægt að spila spilið með aðeins flóknari reglum sem gefa leikmönnum meiri stjórn á þeim aðgerðaspilum sem þeir hafa á hendi.

coltexpress16

Umferðarspilin sýna hvernig spila eigi út aðgerðarspilum og hvað gerist hugsanlega í lok umferðar


HVAÐ ER GOTT:

⇑ Colt Express virkar vel fyrir allt að sex leikmenn.
⇑ Lestarlíkanið er mjög flott og ýtir undir tilfinninguna að maður sé raunverulega að ræna lestarvagna.
⇑ Spilunin gengur venjulega hratt fyrir sig og tekur sjaldnast meira en 30 mínútur.

HVAÐ ER EKKI SVO GOTT:

⇓ Ekki hentugt fyrir þá sem þola illa ringulreið í spilum og vilja hafa fulla stjórn á því sem gerist í sinni umferð.


Niðurstaða

Colt Express er mjög flott og skemmtilega hannað spil. Spilunin gengur hratt fyrir sig og ringulreiðin á köflum alger. Engu að síður er eitthvað mjög svo heillandi við að ræna farþegana, kýla og skjóta á aðra ræningja og reyna að sleppa undan lögreglustjóranum … og sjá svo bara til í lokin hvort manni hafi tekist að ræna nógu miklu af peningum til að vinna.

Stórskemmtilegt spil fyrir alla þá sem vilja skemmta sér um stutta stund í ekki of alvörugefnu spili.

star_goldstar_goldstar_goldstar_graystar_gray

(Upplýsingar um stjörnugjöf á síðunni)

Splendor ★★★⋆

splendor01Fyrir 2-4 leikmenn, 10 ára og eldri.
Tekur 30 mínútur.

Splendor kom út árið 2014 og var tilnefnt til Spiel des Jahres verðlaunanna, en laut í lægra haldi fyrir Camel Up.

Enskar reglur fyrir Splendor eru að finna hér.

Um spilið

Í Splendor eru leikmenn í hlutverki kaupmanna á endurreisnartímanum, sem er nú ekki nýtt þema í borðspilum. Þeir keppast um að kaupa gimsteinanámur, samgönguleiðir og verslanir til að verða sér úti um stig. Þeir sem verða ríkastir geta einnig fengið einhver aðalsmenni í heimsókn og auka þar með enn á stigasöfnunina og líkurnar á sigri. Lýsingin á Splendor gefur til kynna að um sé að ræða mjög myndrænt spil, en í raun gengur spilið ekki út á neitt annað en að safna að sér mismunandi spilum.

Innihaldið í Splendor eru 90 spil sem sýna eiga námurnar, verslanirnar og samgönguleiðir en einnig sýna spilin fimm mismunandi gimsteina; demanta, smaragða, safíra, rúbína og ónyx. Spilunum er skipt niður í þrjá verðflokka; I, II og III. Fjórum spilum úr hverjum verðflokki er raðað upp á borðið og seru það spilin sem eru í boði. Pókerskífum með gimsteinatáknum er stillt upp við markaðinn. Að auki eru til taks gullskífur sem má nota til að borga fyrir hvað sem er.

splendor05

Upphafsuppsetning á Splendor

Fyrir ofan markaðinn er stillt upp aðalsmönnum og konum sem koma hugsanlega til með að heimsækja einhverja leikmannanna. Hver aðilinn er þriggja stiga virði og sýnir hvað þurfi til að viðkomandi þóknist að koma í heimsókn. Sá leikmaður sem nær fyrstur 15 stigum sigrar, nema ef fleiri leikmenn ná því markmiði í sömu umferðinni, en þá vinnur sá sem hefur flest stigin.

Í sinni umferð hefur leikmaður val á milli þriggja aðgerða:

 • taka gimsteinaskífur til sín (þrjár mismunandi skífur eða tvær skífur sömu tegundar),
 • taka spil af markaðnum, borga fyrir það með skífum og/eða í gegnum spil sem leikmaðurinn á þegar og leggja niður í borð fyrir framan sig,
 • taka eina gullskífu og eitt spil af markaðnum á hendi.
splendor08

Aðalsmannaskífurnar sýna hverju þarf að safna til að fá heimsókn

Leikmenn skiptast á að framkvæma þessar aðgerðir og byggja upp veldið sitt. Þau spil sem leikmaður er búinn að kaupa getur hann notað til að lækka verðið á spilum sem hann kaupir eftir það. Þannig fara leikmenn að borga fyrir spil af markaðnum með skífunum sem og þeim spilum sem þeir hafa í borði fyrir framan sig, án þess þó að skila þeim spilum inn. Þannig byggja leikmenn upp veldi og geta farið að kaupa dýrari spil sem gefa fleiri stig.

Þegar leikmaður hefur safnað ákveðið mörgum gimsteinatáknum á spilum fyrir framan sig getur hann fengið heimsókn frá aðalsmanni og fær þá stigin sem fylgja viðkomandi. Táknin sem þarf að safna eru mismörg eftir því hvaða aðalsmenni eru í boði í það skiptið. Eins og áður sagði þarf 15 stig til að vinna (eða flest stigin ef fleiri en einn leikmaður ná 15 stigunum í sömu umferðinni).

splendor07

Spilin í borði leikmanns geta gefið afslátt af næstu kaupum

Hvað finnst mér?

Eftir fyrstu spilunina á Splendor var ég nú bara miðlungs volgur fyrir spilinu. Splendor hefur hins vegar vaxið hægt og rólega á vinsældarlistanum hjá okkur og er eitt af vinsælli spilunum í okkar spilavinahópi. Það sem Splendor hefur með sér er einfaldleikinn, spennan og stuttur spilatími.

Splendor er spil þar sem það þýðir ekkert að vera að plana of mikið. Maður kannski stefnir að því að ná einhverjum aðalsmanni en gimsteinatáknin sem mann vantar liggja stundum ekkert á lausu, annað hvort vegna þess að aðrir leikmenn ná þeim eða þau láta bíða eftir sér í stokkunum. Því kemur oft upp sú staða að planið er farið út um gluggann og maður verður að finna einhverja aðra leið til að ná í stigin.

Splendor er ofarlega á mínum lista yfir spil sem ég er oftast til í að grípa í og það sem heillar við það er einfaldleikinn, hversu fljótt það gengur fyrir sig og hversu fjandi spennandi það er þegar maður er alveg að nálgast 15 stigin og bíður í ofvæni eftir því hvort einhver annar sé að fara að klára á undan manni.

Spilið virkar vel fyrir þann fjölda leikmanna sem það er gefið út fyrir (tvo til fjóra), en þegar fjórir eru að spila er eðlilega meiri samkeppni um spilin og oftar sem það gerist að spilið sem maður var að fara að næla sér í er farið til annars leikmanns.

HVAÐ ER GOTT:

⇑ Splendor er mjög einfalt í útskýringu og tekur stuttan tíma í spilun.
⇑ Spilið getur verið mjög spennandi, sérstaklega þegar fer að líða að lokum og maður bíður í ofvæni eftir því að ná 15 stigunum fyrstur.
⇑ Spilið er fallega hannað og gimsteinaskífurnar þykkar og vandaðar.

HVAÐ ER EKKI SVO GOTT:

⇓ Splendor er mjög taktískt spil og hentar þ.a.l. ekki þeim sem verða að vera með áætlun frá byrjun og vilja fylgja henni. Plön geta breyst fljótt.
⇓ Ekki halda að þú upplifir þig sem kaupmaður á endurreisnartímanum, Splendor gengur bara út á að krækja í tákn á spilum til að safna stigum.

Niðurstaða

Splendor er prýðilegasta spil. Það er einfalt og stutt og því er auðvelt að grípa í það og klára án þess að það dragist á langinn. Hentar einnig breiðum aldurshópi og getur verið mjög spennandi, sérstaklega rétt undir lokin.

star_goldstar_goldstar_goldstar_graystar_gray

(Upplýsingar um stjörnugjöf á síðunni)

7 Wonders

7wonders01Fyrir 2-7 leikmenn, 10 ára og eldri.
Tekur 30 mínútur.

7 Wonders kom út árið 2010 og var fyrsta spilið sem fékk Kennerspiel des Jahres þegar þau voru fyrst veitt árið 2011.

Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu útgefandans, Repos Productions, er 7 Wonders verðlaunaðasta borðspil sem út hefur verið gefið. Það trónir einnig á toppi lista Boardgamegeek yfir bestu fjölskylduspilin.

Enskar reglur fyrir 7 Wonders eru að finna hér.

Um spilið

Í 7 Wonders eru leikmenn leiðtogar hverrar sinnar borgarinnar til forna. Leikmenn vinna að því að fjölga auðlindum, koma á verslunarleiðum og byggja upp heri. Einnig geta leikmenn byggt eitt undur veraldar, annað hvort að fullu eða að hluta til. Sá leikmaður sem hefur staðið sig best í uppbyggingunni ber svo sigur úr bítum.

7wonders04

Stokkarnir fyrir aldirnar þrjár

7wonders10

Egypska þjóðarborðið þar sem hægt er að byggja píramída

7 Wonders er skipt niður í þrjár aldir og snýst að mestu um að nota spil sem er dreift í upphafi hverrar aldar til að byggja upp sína þjóð. Í upphafi spils velja leikmenn eina forna menningarþjóð og fá viðeigandi spjald sem sýnir hvaða auðlind þjóðin framleiðir í upphafi og hvaða undur hægt verði að reisa. Spilastokkurinn fyrir fyrstu öldina er stokkaður og fær hver leikmaður sjö spil á hendi úr honum. Leikmaður velur eitt spil, geymir það þangað til allir eru búnir að velja og svo er spilunum snúið samtímis við. Það sem hægt er að gera við spil er eitt af eftirfarandi:

 • „byggja“ spilið með því að leggja það niður í borð;
 • „byggja“ næsta stig undursins, en það er gert með því að snúa spilinu á hvolf og stinga því undir viðkomandi reit á þjóðarspjaldinu sínu; eða
 • henda spilinu og fá þrjá peninga.
7wonders11

Egyptarnir farnir að byggja upp

Til þess að byggja spil þarf leikmaður að eiga þau hráefni eða iðnaðarvörur sem það kostar að byggja, en kostnaðurinn er sýndur efst í vinstra horni spilsins. Sum kosta ekkert, en spilin verða dýrari eftir því sem líður á aldirnar (spil þriðju aldarinnar eru dýrust). Önnur spil er svo hugsanlega hægt að borga fyrir með áður byggðum spilum. Þannig getur maður með keðjuverkun byggt dágóðan fjölda spila, svo lengi sem maður er nógu heppinn að fá þau á hendi. Að auki geta leikmenn keypt hráefni af nágrannaþjóðum sínum ef þörf er á.

Stokkurinn gengur til næsta leikmanns á vinstri hönd (eða hægri hond í annarri öldinni) og hafa þá allir úr sex spilum að velja. Svona gengur þetta þangað til leikmaður fær tvö spil frá sessunaut sínum, en þá velur hann annað þeirra til að nota en fleygir hinu. Þannig ná allir leikmenn að nota sex spil í hverri öld.

7wonders05

Hráefnin eru sýnd á brúnum spilum og iðnaðarvörur á gráum

7wonders07

Kostnaðurinn við að byggja þennan her eru tvö timbur, málmur og tau

Hvert spil (eða bygging) gefur leikmanninum svo eitthvað ákveðið sem hann getur notað í næstu umferðum eða til að safna sér stigum. Spilin sem í boði eru eru af sjö tegundum:

 • Brún spil sýna hráefni (sem leikmaður þarf á að halda til að byggja spil).
 • Grá spil sýna iðnaðarvörur sem einnig eru nauðsynlegar til að byggja dýrari spil
 • Blá spil sýna mannvirki sem gefa stig í lokin.
 • Græn spil sýna vísindatákn sem koma til með að gefa stig í lok spils ef leikmaður nær að safna spilum með eins táknum eða setti af mismunandi táknum.
 • Gul spil tákna verslun og viðskipti, en þau geta m.a. gefið afslátt þegar leikmenn kaupa hráefni og iðnaðarvörur af nágrannaþjóðum sínum.
 • Rauð spil sýna hermátt og leikmenn safna þeim til að byggja upp heri sína.
 • Fjólublá spil tákna félagasamtök (guilds), en að tilheyra þeim gefur bónusstig í lokin.
7wonders06

Rauð spil: Hermáttur | Gul spil: Verslun og viðskipti | Blá spil: Mannvirki | Græn spil: Vísindi

Eftir hverja öld bera leikmenn saman hermátt sinnar þjóðar við nágrannaþjóðirnar, þ.e. þann sem situr leikmanni á hægri og vinstri hönd. Eftir fyrstu öldina fá leikmenn sem hafa meiri hermátt en andstæðingarnir eitt stig fyrir hvern sigur, þrjú stig fást eftir aðra. öldina og eftir þriðju öldina fær leikmaður fimm stig fyrir sigur. Þannig getur leikmaður fengið samtals 18 stig fyrir að sigra báðar nágrannaþjóðirnar allar aldirnar. Sá sem tapar fær hins vegar eitt mínusstig fyrir að tapa hverri orrustu þannig að hægt er að tapa samtals sex stigum alls ef maður stendur sig ekki í heruppbyggingunni.

Eftir þriðju öldina eru stigin talin saman og sá sem hefur flest stig vinnur.

7wonders03

7 Wonders

Viðbætur

Þegar þetta er skrifað hafa verið gefnar út 6 viðbætur við 7 Wonders. Ég á tvær þeirra: Cities og Manneken Pis. Manneken Pis er bara viðbót með einni menningarþjóð og breytir spilinu að öðru leiti ekki. Með Cities bætast hins vegar við svört spil sem geta haft áhrif á aðra leikmenn. Þeir geta m.a. tapað peningum eða stigum þegar einhver leikmaður byggir svart spil. Einnig bætast við friðartákn sem leikmaður getur fengið, en það þýðir að hann tekur ekki þátt í orrustu í lok aldarinnar. Cities breytir spilinu ekki mikið í grunninn, en bætir við meiri samskiptum á milli þjóðanna.

7wonders17

Þrjú spilanna sem bætast við í Cities viðbótinni

Hvað finnst mér?

Ég keypti 7 Wonders stuttu eftir að það kom út og prufukeyrði það fyrst með vinafólki okkar hjónanna þar sem við vorum sex samtals. Sú spilun gekk ekki vel, einhvern veginn gekk illa að útskýra reglurnar og táknin þannig að allt gengi upp. Það sem gerir 7 Wonders aðeins erfiðara í útskýringu en mörg önnur spil er að allir leikmenn velja samtímis spil og því geta allt að sex manns verið að spyrja um hitt og þetta á sama tíma. Ég spilaði 7 Wonders samt annað slagið utan vinahópsins og fannst það vera mjög gott. Fyrir stuttu ákvað ég að reyna aftur í vinahópnum og einhverra hluta vegna gekk allt miklu betur í það skiptið. Síðan þá höfum við spilað 7 Wonders alloft við ýmsa hópa og alltaf gengið mjög vel og allir hafa haft mjög gaman af spilinu. 7 Wonders er að verða eitt af vinsælustu spilunum í okkar spilavinahópi.

7 Wonders er í grunninn einfalt spil en býður upp á marga valkosti í spilun og stundum of marga. Mann langar að nota mörg spil af hendi en má bara nota eitt í hverri umferð og svo missir maður stokkinn yfir til nágrannaþjóðarinnar. Þá fer maður einnig að spá í að nota spil sem gæti komið nágrannanum mjög vel til að koma í veg fyrir að hann safni fleiri stigum eða auki á hermátt sinn, því stokkurinn gengur til hans eftir val á spili.

7wonders15

Stig fyrir orrustur, -1 stig fyrir tap eftir fyrstu öldina, 3 stig fyrir sigur eftir aðra og 5 stig eftir sigur í lok þeirrar þriðju

HVAÐ ER GOTT:

⇑ Allt að sjö leikmenn geta spilað í einu og sá fjöldi hefur ekki mikil áhrif á lengd spilsins.
⇑ Hægt er með nokkuð góðu móti að klára spilun á 30-40 mínútum.
⇑ Með viðbótum er hægt að auka fjölbreytnina og auka verulega á endurspilunargildið.

HVAÐ ER EKKI SVO GOTT:

⇓ Spilið getur verið svolítið flókið í útskýringu í fyrstu, sérstaklega með marga leikmenn þar sem allir eru að gera í einu.
⇓ Ekki hægt að spila það tveggja manna, nema með sérstakri uppsetningu þriðju þjóðarinnar sem leikmenn skiptast á að spila fyrir.

Niðurstaða

7 Wonders er mjög vel hannað og aðgengilegt spil og ekkert skrítið að það hafi hlotið þennan mikla fjölda verðlauna og viðurkenninga. Með einföldum viðbótum er svo hægt að auka endinguna og skemmtunina. Frábært spil!

star_goldstar_goldstar_goldstar_goldstar_half
(Upplýsingar um stjörnugjöf á síðunni)

SOS Titanic

sostitanic01Fyrir 1-5 leikmenn, 8 ára og eldri.
Tekur 30 mínútur.


SOS Titanic var hannað af Bruno Cathala og Ludovic Maublanc, en þessir hönnuðir hafa hannað saman nokkur spil eins og CycladesCleopatra and the Society of Architects og Mr. Jack.

Spilið var eitt af fimm spilum sem dómnefndin fyrir Spiel des Jahres verðlaunin 2014 mælti sérstaklega með (sjá hér).

Enskar reglur fyrir SOS Titanic eru að finna hér.

Um spilið

Í SOS Titanic tekur leikmaður sér hlutverk eins af skipverjunum á Titanic og aðstoðar við að bjarga fólki í björgunarbáta áður en ferjan sekkur endanlega í sæ. Spilið inniheldur Titanic bók sem sýnir nothæf hólf sem farþegarnir safnast saman í, en þeim fer fækkandi eftir því sem líður á nóttina. Fyrsta blaðsíðan sýnir stöðu skipsins kl. 23:40, en þá rakst Titanic á ísjakann og hóf að sökkva. Ákveðið mörgum farþegum er raðað niður á fyrstu fjögur hólf skipsins (á grúfu) og síðan er neðsta farþeganum í hverri röð snúið við, svipað og gert er þegar lagður er kapall. Farþegarnir skiptast í yfir- og undirstétt. Í undirstéttinni eru farþegar númeraðir frá 2 upp í 17, en í yfirstéttinni eru farþegarnir frá 2 upp í 13. Fjórir björgunarbátar leynast einnig innan um farþegaspilin, tveir fyrir hvora stétt. Þeir bera númerið 1 og virka svipað og ásarnir í kapli. Leikmaðurinn velur svo af handahófi skipverja, en hver skipverji býr yfir einhverjum ákveðnum hæfileika. Einnig fær leikmaðurinn að draga aðgerðaspil, en skipverjarnir fá að draga mismörg spil á hendi í upphafi.

sostitanic02

Innihald spilsins

Í hverri umferð má leikmaður reyna að raða saman farþegum í númeraröð þannig að ofan á farþega nr. 10 fari farþegi nr. 9 og svo framvegis. Í takt við þema spilsins má alls ekki raða saman stéttunum, þær geta ekki verið saman í hólfi. Ef björgunarbátur birtist einhvers staðar í hólfunum má leikmaðurinn færa hann fyrir ofan bókina og byrja að raða farþegum í bátinn, fyrst kemur þá farþegi nr. 2, svo nr. 3 og svo koll af kolli. Einnig má leikmaðurinn reyna að bjarga farþegum. Það gerir hann með því að draga ákveðið mörg farþegaspil (allt eftir því hvaða skipverja hann er að nota í það skiptið) og taka einn farþega af þeim og koma honum fyrir í einhverju hólfanna, eða björgunarbát, ef hann passar þar.

sostitanic07

Upphafsstaðan í Titanic

Ef enginn af farþegunum sem dregnir voru úr bunkanum passa í hólf eða björgunarbát, mistókst skipverjanum björgunarstarfið og einni blaðsíðu í Titanic bókinni er flett. Við hverja flettingu geta hólf skipsins farið að flæða yfir og verður þá að sameina farþegaröðina úr hólfinu sem flæddi yfir þeirri farþegaröð sem er í næsta hólfi. Því er slæmt að mistakast björgunarstarfið þar sem tvær raðir stokkast saman og úr verður kannski ein löng röð. Það jákvæða við þetta er það að við misheppnað björgunarstarf fær leikmaðurinn einnig að draga á hendi aðgerðaspil.

sostitanic03

Fjögur af aðgerðaspilunum

Í hverri umferð má leikmaður einnig nota aðgerðaspilin, en þau eru mismunandi og geta leyft leikmanni að beygja og brjóta reglurnar. Algerlega nauðsynlegt er að nota þau ætli maður á annað borð að geta bjargað meirihluta farþeganna. Þegar farþegabunkinn klárast, en það gengur hratt á hann þegar skipverji reynir að bjarga farþegum, þarf að fletta Titanic bókinni um eina blaðsíðu. Síðasta blaðsíðan sýnir Titanic kl. 02:30, en þá mun skipið hafa endanlega sokkið. Leikmaðurinn telur þá saman hvernig honum tókst til, en hann fær jafnmörg stig og númerið á efsta farþeganum í hverjum björgunarbát lögð saman. Samkvæmt reglubókinni hefði upprunalega áhöfnin á Titanic fengið 19 stig, þannig að það er um að gera að reyna að bæta það.

sostitanic06

Búið að finna björgunarbátana fjóra

Hvað finnst mér?

SOS Titanic er sagt fyrir 1-5 leikmenn, hægt er að spila með allt að fimm leikmönnum í samvinnuspilun, en spilið er í raun einmenningsspil. Ég hef aðeins prófað spilið einn og sé ekki fyrir mér að hafa áhuga á að spila það með fleirum, ekki frekar en ég myndi nenna að leggja kapal með einhverjum öðrum en sjálfum mér. En SOS Titanic er í rauninni bara ný og uppfærð útgáfa af kapli, með aðgerðaspilum og skemmtilegu þema. Spilið er nett og meðfærilegt og ég hef m.a. tekið það með mér í ferðalög og spilað í fríhöfnum á meðan ég beið er eftir flugi og haft gaman af. Það er samt tvennt sem fer aðeins í taugarnar á mér og það er þetta: Séraðgerðir skipverjanna eru missterkar. Þannig getur maður í upphafi dregið hálfvonlausan skipverja og það getur dregið verulega úr líkunum á því að maður standi sig vel í björguninni. Hitt atriðið eru svo táknmyndirnar á aðgerðaspilunum og skipverjunum. Þó ég sé búinn að spila SOS Titanic 12 sinnum þegar þetta er skrifað, þarf ég ennþá að fletta upp í reglubókinni til að skilja alveg hvað sum aðgerðaspil og skipverjar geta gert.

Niðurstaða

Ég viðurkenni fúslega að hafa mjög gaman af SOS Titanic, en í raun er spilið bara Kapall 2.0. Þannig að ef þú hefur gaman af því að leggja kapal þá ætti SOS Titanic að vera eitthvað fyrir þig. Ef þú hefur ekki gaman kapli þá skaltu finna eitthvað annað til að eyða peningunum þínum í.

Tobago

tobago01Fyrir 2-4 leikmenn, 10 ára og eldri.
Tekur 60 mínútur.


Tobago var eitt af spilunum sem Spiel des Jahres dómnefndin mælti með í aðdraganda verðlaunanna fyrir árið 2010.

Spilið hefur verið tilnefnt til fjölda verðlauna og hlotið nokkur þeirra, m.a. Golden Geek Best Family Board Game árið 2010.

Enskar reglur fyrir Tobago eru að finna hér.

Um spilið

Í Tobago eru leikmenn fjársjóðsleitarmenn á eyjunni Tobago. Í upphafi er leikborðinu raðað saman, en það samanstendur af þremur jafnstórum hlutum, en með mismunandi uppröðunum er hægt að fá 32 mismunandi samsetningar af eyjunni (hver hluti er tvíhliða). Á Tobago eru sex mismunandi landsvæði: strönd, frumskógur, árfarvegur, kjarrlendi, vötn og fjalllendi. Pálmatrjám og kofum er raðað inn á eyjuna ásamt þremur steinstyttum, allt eftir ákveðnum reglum. Leikmennirnir koma svo hver sínum jeppa fyrir einhvers staðar á eyjunni, en jeppana nota leikmenn til að eltast við fjársjóði þegar þeir hafa verið fundnir sem og verndargripum sem birtast á ákveðnum stöðum þegar fjársjóði hefur verið skipt upp á milli leikmanna.

tobago02

Leikborðið í Tobago er samsett úr þremur mismunandi hlutum

Á Tobago eru alltaf fjórir fjársjóðir faldir og eru mislitir kubbar notaðir til að tákna hugsanlega fundarstaði (grár, brúnn, svartur og hvítur). Leikmenn sjá sjálfir um að ákveða hvar fjársjóð er að finna. Það gera þeir með því að spila út vísbendingaspjöldum og útbúa þannig fjársjóðskort. Hver leikmaður er ávallt með fjögur vísbendingaspjöld á hendi. Þau gefa ákveðna vísbendingu um hvar fjársjóð gæti verið að finna, eða er ekki að finna. Í sinni umferð má leikmaður bæta einni vísbendingu við fjársjóðskort eða aka á jeppanum sínum ákveðið langt. Nauðsynlegt er að taka sem virkastan þátt í að finna alla fjársjóði, því aðeins þeir leikmenn sem hafa lagt niður vísbendingarspjald við fjársjóðskort fá hlutdeild í fjársjóðnum þegar hann að lokum finnst.

tobago04

Vísbendingaspjöld. Efsta röðin segir: ekki í fjalllendi, í fjalllendi og við hliðina á fjalllendi.

Útilokunaraðferðinni er þannig beitt með lagningu vísbendingaspjalda þangað til aðeins einn staður er mögulega eftir fyrir fjársjóð. Þá geta leikmenn ekið jeppunum sínum til að reyna að ná til þeirra fyrstir. Sá sem nær fyrstur að fjársjóði fær svo að möguleikann á að fá meira af því sem finnst, en eins og áður sagði fá allir þeir sem lögðu niður vísbendingu hluta í fjársjóðnum. Hvert vísbendingarspjald er nefnilega merkt með skífu í lit þess leikmanns sem lagði spjaldið niður.

tobago05

Fjársjóðsspjöld ásamt hauskúpunni sem enginn vill

Allir leikmenn sem áttu vísbendingaspjald fá að draga fjársjóðsspjald og skoða. Fjársjóðsspjöldin sýna frá tveimur upp í sex gullpeninga. Tvö spjöld sýna einnig hauskúpur, en komi þau upp við útdeilingu fjársjóðsins tapa allir þeir leikmenn sem eiga eftir að fá hluta af honum sínu verðmætasta fjársjóðsspjaldi, nema þeir eigi verndargrip. Leikmaðurinn sem fann fjársjóðinn fær síðan öll spjöldin og stokkar án þess að líta á þau. Síðan snýr hann við einu í einu og spyr leikmenn í röð eftir því hvernig skífurnar á vísbendingaspjöldunum liggja hvort þeir vilji viðkomandi fjársjóðsspjald eður ei. Þannig getur leikmaður sem veit að sex gullpeningar liggja í bunkanum ákveðið að afþakka minna verðmætt spjald til að bíða og sjá hvort hann komist yfir það. Ákveðin áhætta er samt fólgin í því að bíða, þar sem hauskúpuspjald gæti leynst innan um.

tobago10

Verndargripirnir birtast á þeim reit við ströndina sem steinstytturnar horfa í áttina að

Eftir að fjársjóður hefur fundist birtast verndargripir við sjóinn á reitnum sem steinstytturnar horfa í átt að. Hálsmenin geta leikmenn náð í og notað til að m.a. verjast hauskúpuspjöldum, fengið sér auka aðgerðir og útilokað mögulega fjársjóðsstaði. Steinstyttunum er síðan snúið réttsælis þannig að þær senda verndargripi á annan stað þegar næsti fjársjóður finnst. Svona gengur spilið þangað til öll fjársjóðsspilin hafa verið kláruð, en þá telja leikmenn saman hversu marga gullpeninga þeir hafa náð að tryggja sér og sá sem hefur þá flesta sigrar.

Hvað finnst mér?

Fyrst af öllu verð ég að nefna hönnunina á spilinu og það sem með því fylgir. Spilið er gullfallegt á að líta og gerir það mikið fyrir upplifunina. Mér finnst skemmtilegt hvernig leikmennirnir sjálfir ákveða hvar fjársjóð verður að finna með því að leggja niður vísbendingar. Sumum sem ég hef spilað við hefur samt fundist svolítið flókið að raða vísbendingarspjöldunum og búa til fjársjóðskortin, en maður fer þó fljótlega að sjá hvar maður getur lagt þau niður. Það má nefnilega ekki setja niður vísbendingarspjald sem annað hvort er í mótsögn við það sem áður hefur verið  lagt niður eða fækkar ekki mögulegum fjársjóðsfundarstöðum

tobago03

Tobago uppsett og tilbúið

Einnig hafa einhverjir haft á orði að spilið sé svolítið hægt, þ.e. framþróunin er svolítið róleg vegna þess að maður sér ekki strax hvort maður sé að gera eitthvað rétt eða ekki. Maður tekur bara þátt í að byggja upp fjársjóðsleitarkort. Það má vel vera að þetta sé réttmæt gagnrýni, en ég hef mjög gaman af því að púsla saman vísbendingunum og reyna að stýra því að fjársjóðir séu innan seilingar fyrir jeppann minn.

Niðurstaða

Mjög fallegt, flott og skemmtilegt fjársjóðsleitarspil.  Einhverra hluta vegna hefur ekki farið neitt sérstaklega mikið fyrir Tobago, sem er synd þar sem spilið er virkilega gott.

Invalid Displayed Gallery

La Boca

laboca01Fyrir 3-6 leikmenn, 8 ára og eldri.
Tekur 40 mínútur.


La Boca var eitt af spilunum sem Spiel des Jahres dómnefndin mælti með í aðdraganda verðlaunanna fyrir árið 2013.

Enskar reglur fyrir La Boca eru að finna hér.

Um spilið

laboca03La Boca er samvinnu- en samt um leið samkeppnisspil, en  hugmyndin að baki spilinu er sprottin út frá samnefndu hverfi Buenos Aires í Argentínu þar sem húsin í hverfinu eru máluð í mörgum mismunandi litum (sjá allt um það hér).

Leikmenn velja sér eina stóra skífu í lit að eigin vali og fá allir aðrir leikmenn litla skífu í lit hinna leikmannanna. Hver leikmaður tekur litlu skífurnar, snýr þeim á hvolf og ruglar þeim saman. Í sinni umferð dregur leikmaður eina litla skífu úr bunkanum fyrir framan sig og parar sig við þann leikmann sem á þann lit.  Leikmennirnir sitja svo andspænis hvor öðrum og staðsetja spilið á milli sín.  Spjald, sem sýnir hvernig La Boca á að líta út er svo sett upp á endann á spilaborðið.  Þessi spjöld eru tvíhliða, með mismunandi kubbauppröðun og litum á sitt hvorri hliðinni.  Það á hins vegar að vera hægt að raða kubbunum upp þannig að báðir fái út rétta útkomu miðað við það sem stendur sínum megin á spjaldinu.  En til þess verða leikmenn að vinna saman og reyna að lýsa fyrir hvor öðrum hvað þeir séu að reyna að byggja og hvaða liti þeir vilji, og vilji ekki, sjá.  Einnig er grundvallaratriði að notaðir séu allir kubbarnir, jafnvel þó þeir sjáist ekki á spjaldinu, en þá verður maður bara að reyna að fela þá. Grind á spilaborðinu sýnir svo innan hvaða ramma leikmenn verða að byggja, ekki má byggja út fyrir grindina.

laboca05

Svona líta byggingarnar út öðru megin …

laboca06

… og svona eru þær hinu megin

Áður en leikmennirnir byrja að byggja er klukkan sett í gang og fást stig eftir því hversu hratt þeim gengur að byggja.  Þegar þeir telja sig vera komna með rétta samsetningu stöðva þeir klukkuna og farið er yfir uppbygginguna.  Ef þeim hefur tekist verkið fá þeir stig miðað við hversu fljótt þeim tókst þetta, allt frá 10 stigum niður í 1.  10 stig fást ef leikmenn voru 15 sekúndur eða skemur að byggja, en 1 stig ef þeir voru allt frá 1:41 upp í 2 mínútur. Eftir 2 mínútur fást engin stig og þá allt eins hægt að hæta.  Ef villa er í byggingunni fá leikmennirnir engin stig.  Næsti leikmaður réttsælis snýr þá lítilli skífu við hjá sér og parar sig við annan leikmann.  Nýtt spjald er dregið og klukkan sett í gang.  Þannig gengur spilið þangað til allir hafa fengið að byggja tvisvar sinnum saman.  Þá eru stigin talin og sigurvegari fundinn.

laboca07

La Boca

Spilið skiptist í tvo erfiðleikaflokka, í þeim auðveldari eru notuð ljósu spilin en í flóknari eru notuð spilin með dekkri bakgrunn og bætist þá rauður L-laga kubbur í flóruna sem verður að byggja úr. Það getur hins vegar verið snúið að reyna að koma honum fyrir.

Hvað finnst mér?

La Boca er skemmtilega ferskur vinkill, einhverskonar samvinnu-púsl-þraut undir tímapressu. Spilið er litríkt, fjörugt, tekur stuttan tíma og hentar breiðum hópi. Mér hefur fundist La Boca einna best með fjórum leikmönnum. Ef sex eru að spila getur einn lent í því að spilað sé í fimm umferðir án þess að hann fái að gera. Einnig er vesen með svona stóran hóp að þurfa að vera að færa sig til í sætum. Fjórir finnst mér því vera langhentugasti fjöldinn. Einna skemmtilegast hefur mér einnig fundist að spila La Boca í lok spilakvölds eftir nokkra bjóra. Þá hefur nú aldeilis slegið í brýnu á milli annars samlyndra hjóna sem eru að reyna að koma til skila hvað sé verið að reyna að byggja þeirra megin borðsins  :tounge:

Það tekur örstutta stund að kenna spilið og um leið og fólk er komið í gírinn og búið að ná hvernig La Boca á að byggjast er hægt að byrja.

Niðurstaða

Mjög skemmtilegt og fjörugt fjölskyldu-/partýspil, en aðeins minna skemmtilegt með 5-6 leikmönnum.

star_goldstar_goldstar_goldstar_graystar_gray

(Upplýsingar um stjörnugjöf á síðunni)

Völuspá

voluspa01Fyrir 2-5 leikmenn, 10 ára og eldri.
Tekur 45 mínútur.


Völuspá er endurhönnun og endurútgáfa á spilinu Kachina sem kom út árið 2009. Enskar reglur fyrir Völuspá má finna hér.

Verslunin Spilavinir, Suðurlandsbraut 48, lánaði mér eintak til að prófa og kann ég þeim mínar bestu þakkir fyrir það.

Um spilið

Völuspá er flísalagningarspil (tile laying) þar sem leikmenn reyna að safna sem flestum stigum með því að leggja niður sérstakar flísar í raðir og dálka. Í grunnspilinu eru 60 flísar sem sýna átta mismunandi goð og verur úr Norrænni goðafræði, en Völuspá er einmitt elsta kvæðið úr þeirri fræði. Goðin eða verurnar hafa ákveðið númeragildi og sumir hafa ákveðna eiginleika. Hver leikmaður fær á hendi fimm flísar og í byrjun leiks er ein flís lögð niður sem upphafið að grindinni sem leikmenn skiptast svo á að bæta við. Leikmaður má bæta við röð eða dálk svo lengi sem heildarfjöldi flísa í röðinni eða dálkinum fari ekki yfir sjö. Leikmaður fær svo stig ef flísin sem hann bætti við hefur hæsta tölugildið í röðinni eða dálkinum. Stigin sem fást er samtalan á fjölda flísa í röðinni og/eða dálkinum. Eiginleikar flísanna geta svo skipt sköpum, en lýsing á þessum eiginleikum fer hér á eftir. Hver flís er merkt með tölugildi og táknum sem sýna hverjir eiginleikarnir eru.

voluspa02_smallÓðinn

Óðinn er hæstur í spilinu með tölugildið 8, enda er hann æðstur guðanna. Hann hefur hins vegar enga aðra eiginleika, en ætti undir eðlilegum kringumstæðum að vera ráðandi í línu eða dálki. Hins vegar getur það breyst ef tveir eða fleiri Fenrisúlfar eru í röðinni eða ef Loki liggur upp að Óðni (sjá hér að neðan).

voluspa03_smallÞór

Þrumuguðinn Þór er næstur fyrir neðan Óðinn og hefur tölugildið 7.  Hann hefur enga sérstaka eiginleika, fyrir utan að vera þrumuguð!

 

voluspa09_smallTröll

Tröllin eru fúllynd og vilja bara samneyti við önnur tröll. Ef tröll er lagt niður má ekki setja aðrar flísar en tröll við hlið þess. Þannig er hægt að „skemma“ raðir svo aðrir leikmenn eigi erfiðara með að fá stig fyrir þær, en þá lokar maður náttúrulega fyrir sjálfan sig í leiðinni.

voluspa08_smallDreki

Drekinn hefur tölugildið 5 og má nota eins og hverja aðra flís. Dreka má einnig leggja ofan á aðrar flísar (nema aðra dreka), en þá núllast út eiginleiki (og númer) flísarinnar sem er undir.

 

voluspa06_smallFenrisúlfur

Tölugildi Fenrisúlfsins tekur mið af því hvort aðrar Fenrisúlfsflísar séu þegar í röðinni. Fyrir hvern úlf sem er fyrir, bætist 4 við flísina sem lögð er niður. Þannig verður tölugildi Fenris sem lagður er niður 12 ef tveir aðrir úlfar eru í röðinni.

voluspa05_smallSkaði

Skaði hefur tölugildið 3. Hægt er að skipta út flís með því að leggja Skaða niður í staðinn fyrir flísina sem var tekin. Með Skaða getur leikmaður þá náð t.d. Óðni úr röð og upp á hendi.

voluspa04_smallValkyrja

Valkyrjurnar eru frekar máttlausar, með tölugildið 2. Ef Valkyrja er hins vegar lögð niður í enda raðar og önnur Valkyrja er á hinum enda raðarinnar fást full stig fyrir röðina, þrátt fyrir að Valkyrjan sé ekki hæst í þeirri röð.

voluspa07_smallLoki

Loki er lævís og tölugildi allra flísa sem hann snertir er lækkað í 0. Sjálfur hefur Loki tölugildið 1, þó hann liggi upp að öðrum Loka.

 

 

Stigin sem leikmenn fá eru skráð á stigatöfluna og er spilað þar til allar flísarnar hafa klárast. Þá sigrar sá sem flest hefur stigin.

Völuspá inniheldur einnig viðbótina Eddukvæði (Saga of Edda) en í henni bætast við fjórar flísar; Jötunn, Höggormur, Hermóður og Hel. Þeim sem vilja kynna sér hvaða eiginleika þessar flísar hafa bendi ég á reglurnar sem hægt er að lesa hér.

voluspa10

Jötunn – Höggormur – Hermóður – Hel

Hvað finnst mér?

Völuspá minnir að vissu leiti á Qwirkle sem gengur einnig út á að leggja niður flísar og skora svo stig eftir fjölda flísa í röð eða dálki. Völuspá er að vísu nokkuð flóknara þar sem eiginleikarnir sem flísarnar hafa blandast inn í þetta og geta flækt myndina töluvert. Þrátt fyrir það er grunnhugmyndin frekar einföld og þeir sem ég kenndi spilið voru snöggir að ná því. Í upphafi gengur spilið hratt fyrir sig þar sem augljóst er hvað og hvar maður á að leggja niður til að fá sem flest stigin. Það breytist hins vegar fljótt þegar flísunum fjölgar og maður þarf að fara að skoða raðir og dálka víðsvegar til að reyna að finna besta leikinn. Loki getur svo flækt myndina þegar hann er farinn að lækka gildi aðliggjandi flísa niður i 0.

Ég prófaði að spila tveggja, þriggja og fjögurra manna Völuspá en náði ekki að spila með fimm leikmönnum. Ég átti von á að fjögurra manna spilið myndi dragast full mikið á langinn en svo var ekki. Mér fannst einhvern veginn að tveggja manna tækið spilið lengstan tíma þar sem hvor leikmaður fær að leggja niður allt að 30 flísar. Í fjögurra manna spilinu fær maður bara að leggja niður um 15 flísar og það gekk frekar hratt á flísastaflann, alla vega í okkar tilfelli. Hins vegar sé ég alveg fyrir mér að spilið geti dregist verulega á langinn ef maður er að spila með fólki sem þarf að greina hverja einustu mögulegu staðsetningu og reikna út hvar flest er hægt að fá stigin.

voluspa11

Fyrstu goðin og verurnar komnar í borð

Völuspá er mjög vel hannað og myndskreytingarnar eru litríkar og flottar. Stigataflan er að mínu mati það slakasta í hönnuninni. Skífurnar eru full stórar og stundum þurfti maður að athuga tvisvar hvort maður væri að færa skífu í rétta átt, töluraðirnar liggja svo þétt saman. Annars er þetta nú bara í raun smáatriði þegar maður skoðar heildarmyndina, sem er býsna flott.

Niðurstaða

Völuspá er prýðisgott spil. Það býður upp á töluverðar pælingar og það sem kallað er „replay value“ myndi ég segja að væri frekar hátt, þ.e. breytileikinn í hvert skipti er það mikill að ég á ekki von á að maður fái fljótt leið á spilinu þrátt fyrir ítrekaðar spilanir. Svo er hægt að henda inn Eddukvæðaviðbótinni vilji maður auka enn frekar á fjölbreytileikann. Völuspá er kannski ekki besta og frumlegasta spilið sem ég hef spilað lengi, en þarna er engu að síður á ferðinni gott spil sem flestir ættu að geta haft gaman af.

[scrollGallery id=80 autoScroll=false thumbsdown=true imagearea=“imgarea“]