Colt Express ★★★★

colt_expressFyrir 2-6 leikmenn, 10 ára og eldri.
Tekur 30 mínútur.


Enskar reglur fyrir Colt Express eru að finna hér.


Kynningareintak af spilinu var fengið hjá versluninni Spilavinum.

Um spilið

Sagan á bak við Colt Express er sú að 11. júlí árið 1899 lagði Union Pacific Express lestin af stað frá Folsom í Kaliforníu með 47 farþega innanborðs og mikið af peningum sem átti að nota á útborgunardegi kolanámuverkamanna hjá Nice Valley Coal Company. Leikmennirnir eru hópur lestarræningja sem ráðast til inngöngu í lestina og reyna að ræna peningum, bæði af farþegunum sem og útborgun verkamannanna. Um borð í lestinni er einnig lögreglustjórinn Samuel Ford og gæti hann reynst ræningjunum óþægur ljár í þúfu.

coltexpress02

Lestin uppsett fyrir sex leikmenn

Í upphafi er pappalestarlíkani, sem samsett er úr allt að sex stökum lestarvögnum, stillt upp á mitt borðið og upphafsleikmaður valinn af handahófi. Lestarvagnarnir eru hafðir jafn margir leikmönnum og peningaveskjum og gimsteinum dreift á gólfið í lestarvögnunum eftir ákveðinni forskrift sem prentuð er á gólfi hvers vagns. Hver gimsteinn er $500 virði á meðan veskin innihalda frá $250 til $500. Fremst í lestina, í vélarvagninn, er lögreglustjórinn Samuel Ford staðsettur ásamt skjalatösku sem inniheldur $1000. Hver leikmaður velur sér einn lestarræningja af þeim sex sem í boði eru. Ræningjarnir hafa allir sérstaka eiginleika sem leyfa þeim að framkvæma eitthvað sem hinir hafa ekki kost á að gera.

Hver leikmaður tekur sitt leikmannaborð, aðgerðaspil, byssuspil og setur sitt peð í annan hvorn af öftustu tveimur vögnunum eftir því hvar í röðinni hann er (1., 3. og 5. leikmaður byrja í aftasta vagninum á meðan 2., 4. og 6. byrja í þeim næstaftasta). Fjögur umferðaspjöld eru dregin af handahófi og einu lokaumferðarspjaldi bætt aftast við. Sá sem á leik snýr efsta umferðaspjaldinu við, en það sýnir hvernig leikmenn eiga að spila út aðgerðaspilum í þeirri umferðinni.

coltexpress04

Leikborðið hans Doc, en í upphafi umferðar má hann hafa sjö spil á hendi

Hver umferð skiptist niður í tvo fasa: Ráðabruggið (Schemin’) og Ránið (Stealin’).

Ráðabruggið virkar þannig að leikmenn stokka aðgerðaspilin sín og draga sex á hendi (nema Doc, en hans eiginleiki er að fá sjö spil á hendi í byrjun hverrar umferðar). Aðgerðirnar sem þessi spil sýna eru aðgerðirnar sem leikmaðurinn hefur úr að velja í umferðinni. Hver leikmaður spilar út einu aðgerðaspili í einu (eða tveimur ef umferðaspilið segir) þangað til allir leikmenn eru búnir að spila út öllum þeim spilum sem þeir mega. Þannig „forrita“ leikmenn aðgerðir fram í tímann. Mögulegar aðgerðir eru að:

  • færa sinn ræningja á milli lestarvagna eða hlaupa eftir þakinu á lestinni,
  • klifra upp á þak lestarvagns eða færa sig ofan af þaki niður í lestarvagn,
  • kýla annan lestarræningja,
  • skjóta annan lestarræningja,
  • stela verðmætum, eða
  • færa lögreglustjórann á milli tveggja lestarvagna.

 

Ránið fer svo þannig fram að sá sem á leik tekur aðgerðaspilabunkann saman, snýr honum við þannig að fyrsta spilið sem var lagt niður er það fyrsta sem er sýnt, og byrjar að sýna spilin eitt í einu. Hver leikmaður framkvæmir þá aðgerð sem er á spilinu hans og færir ræningjann sinn í samræmi við aðgerðirnar. Oft á tíðum fara hins vegar plönin út um þúfur þar sem einhver annar er búinn að framkvæma sína aðgerð sem hefur hugsanlega áhrif á þína. Þannig geta leikmenn bæði verið mjög heppnir og svo einnig mjög óheppnir.

coltexpress06

Aðgerðaspilin hans Doc

Ef leikmaður er skotinn af öðrum leikmanni fær hann byssuspil frá þeim ræningja sem hann þarf að stokka með sínum aðgerðaspilum fyrir næstu umferð. Þannig fara byssuspilin að þvælast fyrir aðgerðaspilunum. Ef lögreglustjórinn er færður inn í vagn þar sem ræningjar eru fyrir, þurfa þeir að flýja upp á þak og fá í stokkinn sinn óþarfa spil frá lögreglustjóranum. Ef leikmaður er kýldur missir hann eina pyngju á gólfið í þeim lestarvagni sem hann er staðettur í.

Svona gengur spilið í fimm umferðir, en þá telja ræningjarnir góssið og sá sem hefur stolið mestu vinnur spilið. Sá sem hefur skotið flestum skotum úr sinni byssu fær einnig $1000 bónus fyrir að vera mesti byssubófinn. Samanlagður ránsfengur segir svo til um sigurvegarann.

coltexpress05

Byssuspilin hans Doc


Hvað finnst mér?

Colt Express er hraðspilandi lestarringulreið. Sama hversu vel maður reynir að skipuleggja sínar aðgerðir eru líkur á því að aðgerðir einhverra annarra leikmanna setji mann algerlega út af sporinu. Spilið er mjög einfalt og gengur tiltölulega hratt fyrir sig. Það er einna erfiðast að reyna að skipuleggja hvað maður ætlar að gera og muna hvaða aðgerðaspil maður lagði niður síðast. Það getur nefnilega verið mjög svekkjandi að misreikna sig og eyðileggja heila umferð fyrir sjálfum sér.

Lestarlíkanið er mjög flott og gefur spilinu einstakan blæ. Það var heilmikið púsl að setja lestarvagnana saman í upphafi, en vagnarnir eiga hver sinn stað í kassanum og því þarf ekki að taka hana í sundur aftur. Pappastandar sem sýna kaktusa og steina fylgdu einnig með, en ég hef nú aldrei nennt að raða þeim sérstaklega upp fyrir spilun, sé ekki alveg tilganginn með því enda hafa þeir ekkert hlutverk í spilinu.

coltexpress11

Lestarræningjarnir hefja leik í tveimur öftustu vögnunum

Sex manna virkar spilið vel, lestarvögnunum fjölgar með hverjum leikmanninum og því eru allir sex tengdir þegar svo margir eru að spila. Þrátt fyrir allan þennan fjölda leikmanna hef ég ekki orðið var við að spilið dragist eitthvað á langinn, þessi fjöldi eykur hins vegar á ringulreiðina og ennþá erfiðara að plana almennilega sínar aðgerðir.

Sérstakar reglur eru til að hægt sé að spila Colt Express tveggja manna, en þá stýrir hver leikmaður tveimur ræningjum og samanlagður ránsfengur tveggja manna gengisins segir til um sigurvegarann. Einnig er hægt að spila spilið með aðeins flóknari reglum sem gefa leikmönnum meiri stjórn á þeim aðgerðaspilum sem þeir hafa á hendi.

coltexpress16

Umferðarspilin sýna hvernig spila eigi út aðgerðarspilum og hvað gerist hugsanlega í lok umferðar


HVAÐ ER GOTT:

⇑ Colt Express virkar vel fyrir allt að sex leikmenn.
⇑ Lestarlíkanið er mjög flott og ýtir undir tilfinninguna að maður sé raunverulega að ræna lestarvagna.
⇑ Spilunin gengur venjulega hratt fyrir sig og tekur sjaldnast meira en 30 mínútur.

HVAÐ ER EKKI SVO GOTT:

⇓ Ekki hentugt fyrir þá sem þola illa ringulreið í spilum og vilja hafa fulla stjórn á því sem gerist í sinni umferð.


Niðurstaða

Colt Express er mjög flott og skemmtilega hannað spil. Spilunin gengur hratt fyrir sig og ringulreiðin á köflum alger. Engu að síður er eitthvað mjög svo heillandi við að ræna farþegana, kýla og skjóta á aðra ræningja og reyna að sleppa undan lögreglustjóranum … og sjá svo bara til í lokin hvort manni hafi tekist að ræna nógu miklu af peningum til að vinna.

Stórskemmtilegt spil fyrir alla þá sem vilja skemmta sér um stutta stund í ekki of alvörugefnu spili.

star_goldstar_goldstar_goldstar_graystar_gray

(Upplýsingar um stjörnugjöf á síðunni)

Comments are closed.