Dixit Odyssey, Dixit og Dixit 2

cover

* er fyrir 3-12 leikmenn, 8 ára og eldri
* tekur 30 mínútur

(Dixit grunnspilið er fyrir 3-6 leikmenn)

Um spilið

Dixit Odyssey getur staðið eitt og sér en einnig er hægt að sameina spilið við Dixit og Dixit 2.  Fyrir þá sem ekki þekkja til Dixit, þá gengur spilið út á að allir leikmenn eru með mismunandi myndskreytt spjöld á hendi.  Sá sem á að gera er kallaður “sögumaður”, hann velur eitt spjald af hendi og segir orð, setningu, titil á bíómynd eða hvað það sem honum dettur í hug sem lýsir spjaldinu … en þó ekki of vel.  Aðrir leikmenn velja þá spjald af hendi sem þeim finnst geta átt við orðið eða hvað það sem sögumaðurinn sagði.  Spjöldin eru svo stokkuð og sýnd í röð.  Leikmenn eiga svo að reyna að finna spjald sögumannsins.  Sögumaðurinn fær ekkert stig ef enginn eða allir geta upp á spjaldinu hans, því má orðið ekki vera of augljóst eða of erfitt.  Dixit fékk Spiel des Jahres verðlaunin árið 2010.

Dixit samantekt:
* Spjöldin eru mjög fallega myndskreytt, þannig að allt útlit spilsins er vel heppnað og hefur ævintýrabrag yfir sér.  Hjálpar til við að koma ímyndunaraflinu af stað.
* Dixit grunnspilið inniheldur 84 myndaspjöld og styður 3-6 leikmenn.  Eftir nokkur skipti þá er maður farinn að þekkja spjöldin það vel að þegar sögumaður segir: „The Truman Show“ veit maður nákvæmlega hvaða spjald er verið að lýsa.
* Dixit 2 bætir við 84 nýjum myndaspjöldum, s.s. eykur á fjölbreytnina.
* Dixit Odyssey bætir öðrum 84 spjöldum við þannig að ef öllu er blandað saman eru spjöldin orðin 252.  Dixit Odyssey fjölgar leikmönnum einnig upp í 12, þannig að spilið getur hentað vel í stórum boðum.  Í Dixit Odyssey eru einnig reglur fyrir liðakeppni.

Hvað finnst mér?

Það getur oft tekið fólk smá tíma að byrja og detta í rétta gírinn en yfirleitt gerist það nokkuð fljótt.  Dixit spilin eru mjög fallega myndskreytt og oftast er maður ekki í vandræðum með að finna eitthvað lýsandi (en samt ekki of lýsandi) að segja um eitthvað spjaldanna.  Einnig vill það yfirleitt þannig til að einhver er með spjald sem gæti allt eins átt  við lýsingu eða orð sögumannsins.  Þannig getur orðið snúið að finna spjald sögumannsins.

Niðurstaða

Í það heila er ég mjög sáttur við Dixit fjölskylduna í mínu safni.  Spilið hentar vel í létta spilastund og með Odyssey er hægt að koma fyrir 12 manns (sem er sjaldgæft fyrir borðspil).  Hins vegar er lítið fyrir alvörugefna spilara að hafa í Dixit, mætti allt eins flokka það sem nokkurs konar partýspil.

[scrollGallery id=13 autoScroll=false thumbsdown=true imagearea=“imgarea“]

Aðrar upplýsingar:

Nánari upplýsingar um Dixit eru að finna á Boardgamegeek.
Nánari upplýsingar um Dixit Odyssey eru að finna á Boardgamegeek.
Nánari upplýsingar um Dixit 2 eru að finna á Boardgamegeek.
Hægt er að fá Dixit fyrir iPad.

One thought on “Dixit Odyssey, Dixit og Dixit 2

  1. Pingback: Jólaspilerí: Tajemnicze Domostwo (Mysterium)Borðspil.is