Dominion

cover

* er fyrir 2-4 leikmenn, 8 ára og eldri
* tekur 30 mínútur

Um spilið

Dominion var valið Spiel des Jahres árið 2009.  Dominion snýst um að byggja upp sitt litla konungdæmi (Dominion) með því að kaupa og bæta alls kyns spilum við sitt veldi (spilastokk).  Dominion byggist að miklu leiti á „deck building“, sem gengur út á að versla spil og bæta við sinn spilastokk.  Þau spil sem eru keypt er svo hægt að nota í spilinu til að gera alls kyns hluti og kaupa stig, sem á endanum skera úr um hver vinnur.  Svona til að hafa það á hreinu, þá „kaupir“ leikmaður spil innan spilsins sjálfs, þetta er ekki þannig að hver og einn eigi og mæti með stokk af spilum.

Dominion samanstendur af 25 mismunandi „Kingdom“ spilum, 10 af hverri gerð, gjaldmiðlaspilum (kopar, silfur og gull) og stigaspilum.  Í byrjun leiks eru valdar 10 gerðir af „Kingdom“ spilum (af þessum 25 sem í boði eru) sem hægt verður að kaupa.  Þannig getur fengist mikil fjölbreytni og líkurnar aukast á að hver spilastund verði ólík þar sem hægt er að hafa mismunandi sambland af „Kingdom“ spilum í boði í hvert skipti.  Í leiðbeiningunum eru gefnar upp nokkrar spilablöndur sem hægt er að fylgja.  Svo má einnig velja handahófskennt og það vill svo til að einhverjum sniðugum datt í hug að búa til forrit fyrir iPhone/iPad sem býður upp á handahófskennda uppröðun.

8

Stigaspil, 6 stig

Leikmenn fá 7 koparpeningaspil í upphafi og 3 stigaspil og hefja þannig leikinn.  Í hverri umferð fær leikmaður að draga fimm spil á hendi úr sínum stokk sem hann getur notað á ákveðinn hátt.  Í grunninn má framkvæma eina aðgerð (Action phase) og kaupa svo eitt spil (Buy phase).  Aðgerðaspilin sem spilað er út hafa svo alls kyns áhrif fyrir  leikmanninn og geta hjálpað honum.

Það er frekar erfitt að útskýra hvernig spilið virkar í stuttum texta, en þegar fólk er búið að skoða spilin og átta sig nokkurn vegin á því hvað það má gera í hverri umferð þá fer spilið að renna rmjúklega.  Þegar ég skoðaði Dominion í fyrstu fannst mér það alls ekki heillandi.  Ég taldi að þarna væri komið Spiel des Jahres spil sem ég myndi ekki hafa áhuga á að spila.  Sem betur fór braut ég odd af oflæti mínu og sló til.

Dominion var á sínum tíma frekar óhefðbundið og var að ég held eitt af fyrstu spilunum (ef ekki það fyrsta) þar sem tilgangurinn var að byggja upp sinn eigin spilastokk („deck building“).  Síðan þá hafa komið út ýmis spil sem ganga út á eitthvað svipað.

9

Market: Gefur möguleika á ákveðnum aðgerðum

En Dominion er ekki gallalaust.  Það sem þarf að passa upp á er m.a. hæfilegur fjöldi leikmanna.  Dominion grunnspilið er fyrir 2-4 leikmenn og myndi ég telja það vera mjög hentugan fjölda.  Hægt er að fjölga leikmönnum upp í 6 með viðbótinni Dominion: Intrigue.  Með svo mörgum leikmönnum getur myndast langur biðtími, sérstaklega ef leikmenn eru lengi að velja sér spil til að kaupa.  Þar kemur reyndar að því eina neikvæða sem ég hef að segja um Dominion.  Samskipti milli leikmanna eru í flestum tilfellum mjög lítil.  Það er að segja, hver og einn er að einbeita sér að sínum stokk og hefur sama og engin áhrif á hvað aðrir leikmenn geta gert (þó með undantekningum af „Attack“ spilum).  Því getur Dominion verið eins og nokkrir að leggja kapal saman við sameiginlegt borð.

Hvað finnst mér?

Þrátt fyrir kapal-elementið er Dominion skemmtilegt spil.  Í flestum tilfellum ætti það að ganga frekar hratt fyrir sig, nema ef fólk fer að reyna að spila það með of mörgum.  Við spiluðum einu sinni sex manna Dominion með handahófskenndri spilablöndu og það ætlaði engan enda að taka.  Fjölbreytnin í spilinu getur verið mikil þar sem hægt er að blanda spilunum saman á ýmsa vegu.  Það eykur mikið endinguna á spilinu.  Svo eru til, eins og áður sagði, nokkrar viðbætur sem auka enn frekar á fjölbreytnina og endinguna.

Niðurstaða

Með hæfilegum hópi leikmanna ætti Dominion því að geta verið fyrirtaksskemmtun, svo lengi sem fólk dvelur ekki of lengi við í ákvarðanatöku í sinni umferð.

[scrollGallery id=16 autoScroll=false thumbsdown=true imagearea=“imgarea“]

Aðrar upplýsingar:

Nánari upplýsingar um Dominion eru að finna á Boardgamegeek.
Dominion fæst m.a. í versluninni Spilavinir
Hægt er að fá Dominion fyrir iPad/iPhone
Hægt er að fá Dominion fyrir Android
Hægt er að spila Dominion á netinu á Brettspielwelt og á Boardgamearena
Spilareglur fyrir Dominion á ensku er hægt að fá hér