Escape: The Curse of the Temple

escape01* er fyrir 1-5 leikmenn, 8 ára og eldri
* tekur 10 mínútur

Um spilið

Escape: The Curse of the Temple kom út á Spiel 2012 í Essen.  Spilið er gefið út af Queen Games sem er stór og mikill útgefandi.  Queen Games notuðu reyndar Kickstarter til að hleypa Escape af stokkunum og gekk það víst prýðilega.  Á Kickstarter styrkja einstaklingar hugmyndir og verkefni og aðstoða fyrirtæki og einstaklinga við að ýta þeim úr vör.  Á Spiel 2012 var Escape eitt af hápunktunum, básinn hjá Queen Games var stór og mikill og greinilega heilmikið lagt í að kynna spilið fyrir gestum sýningarinnar og skapa mikla stemmingu í kringum það.

Escape er samvinnuspil með nokkurs konar Indiana Jones þema þar sem leikmenn vinna saman að því að komast klakklaust út úr hrynjandi musteri áður en það hrynur endanlega og útgönguleiðin lokast.  Spilið er all sérstakt þar sem musterið hrynur eftir að 10 mínútur eru liðnar og því tekur það aðeins um 10 mínútur í spilun.  Til að tímasetja hrunið geta leikmenn notað annað hvort tímaglas sem fylgir með eða hljóðdisk, sem einnig fylgir með og inniheldur drungalega tóna sem eiga að skapa spennandi andrúmsloft.

escape03

Escape: Teningarnir og leiðangurspeðin

Spilið gengur þannig fyrir sig að hver leikmaður fær leiðangurspeð í sínum lit og fimm teninga.  Táknin á teningunum stýra því svo hvað leikmenn geta gert.  Táknin eru: lykill, kyndill, mynd af hlaupandi manni, svört bölvunargríma og gullgríma.  Öll peðin byrja á sama upphafsreitnum, tónlistin sett í gang (eða tímaglasinu snúið) og svo byrja allir að kasta teningunum sínum í gríð og erg.  Þannig er ekki einn að gera í einu heldur eru allir að hamast við að kasta og reyna að fá þau tákn upp sem þá vantar.  Táknin á teningunum standa fyrir eftirfarandi:

  • Hlaupandi maður: Fyrir tvö svona tákn má leikmaður bæta nýju herbergi við musterið.  Einnig þarf táknið ásamt lykli eða kyndli til að komast inn í önnur herbergi.
  • Lyklar og kyndlar: Notaðir til að komast á milli herbergja og ná í geimsteina.
  • Svört gríma: Bölvun! Teningur settur til hliðar þangað til leikmaður nær að kasta gullgrímu.
  • Gullin gríma: Hver gullin gríma getur losað tvo teninga sem á hvíla bölvun (svört gríma).  Einnig hægt að losa teninga annarra leikmanna í sama herbergi.
escape07

Escape: Teningatáknin

escape06

Escape: Teningatáknin

Leikmenn kasta teningum, bæta herbergjum við musterið og flakka á milli þeirra.  Þegar upp koma herbergi með hólfum fyrir geimsteina verða leikmenn að reyna að sameinast um eins mörg tákn og til þarf til að koma sem flestum geimsteinum frá upphafsgeimsteinaborðinu (sem er sett upp í upphafi spils með ákveðið mörgum geimsteinum eftir fjölda leikmanna) og yfir í hólfið í herberginu.  Þegar leikmenn finna loks útganginn þarf nefnilega að vera búið að losa sem flesta geimsteina af upphafsborðinu því fjöldi þeirra segir til um hversu mörg lyklatákn leikmenn þurfa að ná í til að komast á endanum út.  Til að auka enn meira á hamaganginn og spennuna þurfa leikmenn tvisvar sinnum í spilinu að koma sér aftur á upphafsreitinn.  Það þurfa þeir að gera þegar heyrist í Gong-inu og vera komnir í herbergið áður en heyrist í hurð skella aftur.  Að 10 mínútum liðnum hrynur svo musterið með tilheyrandi látum og þá þurfa allir að vera komnir út, annars tapast spilið.

Með grunnspilinu fylgja einnig tvær viðbætur sem hægt er að blanda saman við spilið til að auka á fjölbreytnina.  Í annarri viðbótinni (Treasures) bætast við fjársjóðir í vissum herbergjum sem getur komið sér vel að ná í.  Í hinni (Curses) geta leikmenn lent í því að fá á sig bölvun og þurfa þá að jafnvel að kasta teningum bara með annarri hendi, mega ekki tala það sem eftir er spilsins o.s.frv.  Svo hefur nú þegar verið gefin út ein viðbótin, Illusions þar sem bætt er við sjötta leikmanninum og einhverjum fleiri sérstökum herbergjum.

escape08

Escape: Uppsetning fyrir fjóra leikmenn

Hvað finnst mér?

Escape er í byrjun mjög grípandi spil.  Hugmyndin er mjög góð, samvinnuspil þar sem allir kasta teningum aftur og aftur undir drungalegri tónlist þangað til útgangur finnst.  Fyrstu spilunina var ég alveg úti á túni, en það er nokkuð algengt í spilinu hefur mér sýnst.  Það tekur fólk alveg eina til tvær spilanir að ná því hvernig á að spila.  Escape er mjög vel hannað, reglurnar skýrar og allir fylgihlutir eins og teningarnir flottir.  Spilunin sjálf er þó svolítið sérstök, það er í raun mjög auðvelt að svindla í spilinu.  Fólk getur bara ákveðið að horfa framhjá leiðinlegu teningakasti og kasta bara aftur, það er líklegast enginn sem tekur eftir því þar sem allir eru önnum kafnir við að kasta sínum teningum.  Hins vegar mæli ég nú frekar með að fólk sé heiðarlegt í þessu, annars er alveg eins hægt að sleppa því að spila.

escape11

Escape: Geimsteinarnir

Escape er í kjarnann hálfgert partýspil og sumum gæti fundist ringulreiðin í spilinu fráhrindandi.  Ég hef spilað það um 11 sinnum þegar þetta er skrifað og er alveg ánægður með að hafa það í safninu, þetta er eins og áður sagði grípandi og skemmtilegt á köflum.  Sérstaklega hafa börn og unglingar gaman af því.  Fyrstu nokkru skiptin sem við spiluðum Escape fannst okkur spilið alveg frábært og maður var með dúndrandi hjartslátt undir lokin, spennan var það mikil.  Munum við komast út eða ekki.  Ég verð hins vegar að viðurkenna að hype-ið var fljótt að renna af spilinu og það varð bara endurtekning á því sama.  Það gerðist alla vega síðast þegar við spiluðum, engin spenna lengur og það var bara eins og allt loft væri farið úr spilinu.  Viðbæturnar breyta því hugsanlega að einhverju leiti en það er samt alveg spurning hversu miklu þær breyta, grunnspilið gengur alveg út á það sama þó þú þurfir að kasta teningum bara með annarri hendi eða megir ekki segja neitt.

Niðurstaða

Fyrir börn og unglinga: Fjörugt og skemmtilegt spil.
Fyrir fullorðna: Fjörugt og skemmtilegt spil, til að byrja með.  Áhuginn fer þó hratt minnkandi og spilið verður minna og minna spennandi.  Viðbæturnar geta þó lengt líftímann.

Enskar reglur fyrir Escape: The Curse of the Temple.