Five Tribes ★★★★⋆

FiveTribes01Fyrir 2-4 leikmenn, 13 ára og eldri.
Tekur 40-80 mínútur.


Five Tribes er hannað af Bruno Cathala, en hann hefur m.a. hannað spil eins og Cyclades og unnið sameiginlega með öðrum að hönnun spila eins og 7 Wonders: Duel, Abyss, SOS Titanic, Jamaica, Mr. Jack, Shadows over Camelot og Mission: Red Planet svo fá ein séu nefnd.

Five Tribes er gefið út af Days of Wonder, en yfirleitt má vænta hágæða framleiðslu frá því fyrirtæki. Meðal annarra spila frá Days of Wonder eru Ticket to Ride, Small World og Mystery Express.

Five Tribes hefur unnið til nokkurra verðlauna, m.a. Tric Trac d’Or og Golden Geek Best Strategy Board Game árið 2014.

Enskar reglur fyrir Five Tribes eru að finna hér.


Um spilið

Sögusvið Five Tribes er sögufrægt soldánaveldi sem nefnist Naqala. Gamli soldáninn sálaðist nýlega og yfirráð yfir Naqala eru í lausu lofti. Véfréttin spáði fyrir um aðkomumenn sem myndu reyna að ráðskast með hina fimm ættbálka Naqala og reyna að ná völdum í borgríkinu. Leikmennirnir eru í hlutverki aðkomumannanna sem ráðskast með ættbálkana og töfraandana og að lokum tekst einum þeirra að sölsa undir sig soldánaveldið.

fivetribes02

Naqala

Í upphafi spilsins er 30 landslagsreitum raðað upp í grind sem sýnir Naqala. Hver reitur er ákveðinna stiga virði og gefur ákveðna aðgerð sé hann virkjaður. Á hvern reit eru settir þrír ættbálkameðlimir sem dregnir eru úr poka af handahófi. Þessir ættbálkameðlimir geta verið í fimm mismunandi litum og búa þeir yfir mismunandi eiginleikum.

 • Grænir kaupmenn leyfa leikmönnum að fá vörur af markaðnum.
 • Bláir smiðir gefa peninga.
 • Rauðir launmorðingjar leyfa leikmönnum að drepa ættbálkameðlimi, annað hvort á leikborðinu eða þá sem aðrir leikmenn hafa fyrir framan sig.
 • Gulir vesírar gera ekkert sérstakt annað en að gefa stig í lok spilsins.
 • Hvítu öldungana er hægt að nota annað hvort til að fá stig í lokin eða sem gjaldmiðil þegar leikmaður kaupir anda (Djinn).
fivetribes05

Ættbálkarnir fimm

fivetribes07

Leikborðið uppsett með þremur ættbálkum á hverri flís

Hver umferð hefst á uppboðsfasa þar sem leikmenn bjóða í röðina, þ.e. hver fái að byrja fyrstur, hver verður númer tvö o.s.frv. Það getur skipt miklu máli að ná að vera fyrstur á ákveðnum tímapunkti sé maður búinn að sjá fyrir einhvern meistaraleik. Borgað er með peningum, sem jafnframt telja sem stig í Five Tribes og því eru leikmenn að eyða stigum til að ná að vera snemma í röðinni. En það má vel vera að það geti borgað sig.

fivetribes12

Mismunandi kostnaður við upphafsröðina

Leikmenn skiptast svo á að gera eftir uppboðsröðinni, en í sinni umferð tekur leikmaður alla ættbálkarmeðlimi af einhverri einni flís og færir þá einn af öðrum yfir á aðrar flísar í röð út frá upphaflsflísinni þaðan sem þeir voru teknir. Síðasti meðlimurinn sem leikmaður sleppir verður að vera í sama lit og einhver ættbálkameðlimur sem stendur á lokaflísinni. Þá fær leikmaður að taka alla samlita ættbálkameðlimi af flísinni og framkvæma þá aðgerð sem sá ættbálkur leyfir. Einnig fær leikmaður að framkvæma aðgerðina sem flísin býður upp á. Það getur verið t.d. að kaupa vörur af markaðinum, setja niður pálmatré, reisa höll eða kaupa anda.

fivetribes08

Ef þessir gulu ættbálkameðlimir eru teknir af flísinni má leikmaður eignast hana ásamt því að framkvæma aðgerð þeirra gulu og kaupa anda

Ef leikmaður hreinsaði alla meðlimi af lokaflísinni, þ.e. ef allir voru í sama litnum og ættbálkameðlimurinn sem hann skildi eftir, þá fær hann einnig að eigna sér flísina með því að staðsetja úlfalda í sínum lit á flísina. Flísarnar gefa mismörg stig í lok spilsins, allt frá 4 upp í 15. Sumar flísar auka enn á verðmæti sitt ef gróðursett eru pálmatré á þeim eða reistar hallir. Leikmenn geta einnig notað andana sem þeir kaupa til að beygja og brjóta reglur spilsins og tryggja sér þannig enn fleiri stig.

fivetribes15

5 auka stig fyrir höll og 3 fyrir pálmatré

Svona gengur þetta þangað til annað hvort einhver leikmaður notar síðasta úlfaldann sinn til að eigna sér flís eða ekki er mögulegt að færa fleiri ættbálkameðlimi (af því ekki er hægt að ná að láta síðasta meðliminn enda á flís með samlitu peði). Leikmenn fá að stipta inn vörum sem þeir hafa safnað að sér fyrir peninga, en verðmæti markaðsvarningsins stigmagnast eftir því sem leikmaður safnar sér fleiri mismunandi vörum. Þá eru stigin talin saman og sá sem hefur safnað flestur stigum (peningum) er sigurvegarinn.

fivetribes11

Varningur á markaðnum, þar á meðal þrællinn sem sumum fannst óviðeigandi

Það er rétt að minnast aðeins á mismunandi reglur og upplifun eftir fjölda leikmanna. Í tveggja manna spilinu fær hvor leikmaður að gera tvisvar sinnum í umferðinni, hugsanlega tvisvar í röð ef hann hefur náð að tryggja það í uppboðinu. Einnig eru færri kameldýr til taks eftir því sem leikmönnum fjölgar. Annars eru reglurnar allar þær sömu hvort sem tveir, þrír eða fjórir spila.

Hvað finnst mér?

fivetribes16

Fakírarnir vinstra megin sem komu í stað þrælanna

Five Tribes er mjög fallega hannað spil og flott á að líta, enda hafa Days of Wonder yfirleitt alltaf skorað mjög hátt þegar kemur að hönnun og framleiðslu. Þrælaspjöldin ullu reyndar svolitlu fjaðrafoki þar sem einhverjum sárnaði að þurfa að versla með þræla á markaðnum. Days of Wonder brugðust við þessari gagnrýni með því að breyta hönnuninni og seinni prentun af spilinu innihélt fakíra í stað þræla. Einnig gafst þeim, sem keypt höfðu eldri útgáfu, kostur á að kaupa fakírastokk og skipta þannig út þrælunum.

Five Tribes getur virkað svolítið flókið í fyrstu og tekið fólk tíma að komast almennilega inn í spilið. Mismunandi ættbálkarnir og eiginleikar þeirra eru eitthvað sem tekur tíma að átta sig á. Uppboðið í upphafi hverrar umferðar er skemmtilegt, áhugavert að berjast um röðina þar sem maður er í raun að borga stig til að fá að vera snemma, en sá sem gerir síðast fær kannski hvort eð er mjög gott tækifæri til stigasöfnunar þar sem uppröðunin á borðinu er síbreytileg.  Leikmenn geta einnig spilað þannig að þeir passi sérstaklega að skilja ekki eftir kjörin tækifæri fyrir þá sem á eftir koma. Það getur náttúrulega lengt spilatímann, þar sem leikmenn eru bæði að reyna að hámarka sína eigin stigasöfnun í umferðinni og á sama tíma að passa upp á að næsti leikmaður fái ekki fullkominn leik strax á eftir.

Five Tribes virkar að mínu mati vel fyrir allan uppgefinn fjölda leikmanna. Tveggja manna spilið er áhugavert þar sem maður getur reynt að ná að gera tvisvar í einu, en það getur verið mjög mikilvægt, sérstaklega ef manni tekst að setja upp einhvern mjög svo öflugan leik fyrir seinna skiptið.

plus
 • Mismunandi uppsetning í hvert skipti, sem eykur líkurnar á fjölbreytilegum spilunum.
 • Margar leiðir til sigurs.
 • Skemmtileg mekaník, m.a. við uppboðið og færslu ættbálkameðlimanna.
 • Tiltölulega stuttur spilatími, ef þú spilar ekki með fólkinu sem nefnt er í 2. lið neikvæða hlutans.
 • Virkar vel fyrir 2, 3 og 4 leikmenn.
 • Hægt að kaupa viðbótina Artisans of Naqala til að auka ennþá við fjölbreytnina og endurspilunargildið.
plus
 • Tekur svolítið langan tíma að setja upp, sérstaklega að raða öllum ættbálkapeðunum inn á borðið.
 • Spilið hentar ekki vel þeim sem þurfa að hugsa hverja einustu aðgerð og bera saman stig fyrir hverja þeirra, þá tekur þetta allt kvöldið.
 • Ekki hægt að plana marga leiki fram í tímann þar sem uppröðun á leikborðinu breytist í hverri umferð.

Niðurstaða

Þrátt fyrir tímann sem fer í uppsetninguna og ofgnótt valkosta sem virkað geta yfirþyrmandi á köflum vegna fjölda möguleika í hverri umferð, er Five Tribes mjög gott spil.

star_goldstar_goldstar_goldstar_graystar_gray

(Upplýsingar um stjörnugjöf á síðunni)

One thought on “Five Tribes ★★★★⋆