Forbidden Desert

forbiddendesert01Fyrir 2-5 leikmenn, 10 ára og eldri.
Tekur 45 mínútur.


Spilið er nokkurs konar framhald af spilinu Forbidden Island sem kom út árið 2010. Forbidden Desert er gefið út m.a. af Gamewright og er fáanlegt með enskum reglum (sjá hér).

Um spilið

Forbidden Desert er samvinnuspil þar sem leikmenn eru í hlutverki ævintýraþyrstra leiðangursfara sem ætla sér að finna parta úr goðsagnakenndu flugskipi. Fjórir vélarhlutar skipsins eru grafnir í sandi í fornri borg í eyðimörkinni. Leikmennirnir verða að finna partana áður en þeir deyja úr þorsta eða verða sandstormi, sem geisar í eyðimörkinni, að bráð.

Forbidden Desert er hannað af ókrýndum konungi samvinnuspilanna, Matt Leacock. Leacock hannaði m.a. Pandemic sem er mjög vinsælt samvinnuspil sem og Forbidden Island, en það er nokkurs konar undanfari Forbidden Desert. Í Forbidden Island vinna leikmenn saman að því að ná fjórum fjársjóðum úr sökkvandi borg, þannig að líkindin með þessum tveimur spilum eru mikil. Í Forbidden Desert er hins vegar skortur á vatni, leikborðið breytist í hverri umferð og leikmenn verða að passa sig á að deyja ekki úr þorsta eða grafast undir í sandstorminum.

forbiddendesert02

Leikborðið tilbúið.

Í upphafi spilsins er leikborðinu raðað upp, en það er samsett úr 24 reitum. Á annarri hliðinni er mynd af eyðimörk en á hinni hliðinni getur leynst m.a. mynd af borginni, vatnsbrunni eða vísbending um hvar vélarpart sé að finna. Þegar spilið byrjar eru allir reitirnir með eyðimörkina upp og áttavitann í efra horninu vinstra megin. Sandtákn, sem tákna útbreiðslu sands eftir sandstorm, eru sett á ákveðið marga reiti í byrjun, en þau koma svo til með að safnast upp og valda leiðangursmönnunum vandræðum. Stormskali er svo stilltur miðað við hversu erfitt leikmenn vilja að spilið verði. Þessi skali segir til um hversu mörg stormspil séu dregin eftir að leikmaður hefur lokið sínum aðgerðum. Leikmenn velja sér svo hvaða leiðangursmann þeir vilja nota og fá viðeigandi spjald. Hægt er að velja úr hópi sex leiðangursmanna sem hver og einn hefur sérstakan hæfileika sem kemur sér vel í spilinu. Allir merkja svo við vatnsmagn í vatnsbrúsanum sínum, en það er skráð á spjaldi viðkomandi leiðangursmanns.

forbiddendesert07

Könnuðurinn byrjar með 4 vatnsskammta og getur m.a. farið á milli reita horn í horn.

Í sinni umferð má leikmaður velja að eyða fjórum aðgerðapunktum, en þá er hægt að nota til að færa sig á milli reita, hreinsa sand, grafa upp hluta af borginni eða taka vélarpart hafi hann fundist. Þegar borgin er grafin upp má leikmaður snúa við þeim reit sem hann stendur á, svo lengi sem ekki sé sandur á honum en þá þarf að hreinsa hann fyrst. Einnig getur leikmaður ákveðið að hreinsa sand af reitum í kring. Hægt er að fara um alla reiti, nema þá sem hafa lokast af of miklum sandi, en það gerist oft og iðulega vegna sandstormsins. Það er gefið til kynna með því að nota rauðu hlið sandskífanna sem er merkt með X.

forbiddendesert03

Reiturinn vinstra megin er lokaður en sá hægra megin er greiðfær, enn um sinn.

Þegar leikmaður velur að grafa upp borgarreit er reitnum snúið við. Undir sandinum leynast svo mismunandi reitir. Sumir reitanna eru með tákni sem leyfir leikmanni að draga um leið úr tækjaspilabunka. Í þeim bunka eru hentug tæki sem geta reynst nauðsynleg í leitinni að vélarhlutunum. Þrír reitanna eru merktir með vatnsdropa, en undir þeim er annað hvort vatnsbrunnur, þar sem leikmenn fá að bæta í vatnsbrúsann sinn (ef þeir eru á reitnum þegar hann er grafinn upp), eða þurr jörð sem gefur ekkert af sér. Tveir vísbendingareitir eru svo fyrir hvern vélarhluta. Önnur segir til um í hvaða röð hluturinn er og hin í hvaða dálki. Um leið og báðar vísbendingarnar hafa verið grafnar upp birtist hluturinn á reitnum sem þær benda á. Til að ná hlutnum þarf svo einhver leiðangursmanna að sækja hann á reitinn.

forbiddendesert05

Guli hreyfillinn birtist á reitnum sem vísbendingarnar benda á.

Þegar allir fjórir vélarhlutarnir hafa verið fundnir og sóttir þurfa leikmenn að koma sér á skotpallinn, sem er eins gott að sé þá fundinn því grafa þarf hann einnig upp. Ef þetta tekst þá hafa allir leikmennirnir unnið og allir voða sælir. Vandamálið er bara að eftir að hver leikmaður hefur gert eru dregin stormspil í samræmi við hvar nálin er á stormskalanum. Stormspilin eru þrenns konar, en flest þeirra sýna hvernig reitirnir eiga að færast til og hvar á að bæta við sandskífum. Innan um þessi tilfærsluspil leynast svo „Sun Beats Down“ og „Storm Picks Up“ spil. Ef „Sun Beats Down“ spil er dregið þá verða allir leikmenn fyrir vatnsskorti og þurfa að lækka innihaldið í vatnsbrúsanum sínum (reyndar er hægt að komast hjá þessu með því að vera á ákveðnum reitum eða undir sólhlíf sem er ein af tækjunum í tækjaspilabunkanum). Ef leikmaður dregur „Storm Picks Up“ spil þá þarf að hækka nálina á stormskalanum og draga hugsanlega fleiri spil næst þegar draga þarf stormspil.

forbiddendesert09

Stormskalinn sýnir hversu mörg stormspil þarf að draga

Spilið tapast svo ef einhver leiðangursmaður verður vatnslaus, leikmenn verða uppiskroppa með sandskífur eða ef nálin á stormskalanum nær hæstu hæðum (á hauskúpuna).

Hvað finnst mér?

Það er óhjákvæmilegt að bera Forbidden Desert við Forbidden Island. Það eru mikil líkindi með þessum tveimur spilum, en þó finnst mér Forbidden Desert betra spil. Aðferðin við að breyta leikborðinu og fjölga sandskífum er sniðug og skemmtileg. Spilið tekur ekki langan tíma og ég kenndi 10 ára syni mínum spilið á skömmum tíma. Eftir fyrstu spilunina fór hann strax fram á aðra, sem eru ákveðin meðmæli. Spilið er nokkuð erfitt, í byrjun finnst manni þetta vera ekkert mál en staðan breytist svo fljótt þegar sandurinn eykst jafnt og þétt og vatnsmagnið í brúsunum fer að minnka. Það sem er einnig sniðugt er að geta haft sandskalann hærra stilltan í upphafi til að auka erfiðleikastuðulinn, ef manni fer að finnast auðveldasta stillingin of auðveld. Að hafa svo sex mismunandi leiðangursmenn til að velja um er einnig gott og getur aukið fjölbreytnina og breytt spilinu. Framleiðslulega er Forbidden Desert fyrsta flokks, allir hlutar spilsins vel gerðir og flottir.

Niðurstaða

Mjög gott samvinnuspil. Mæli með því fyrir fjölskyldur og alla þá sem hafa gaman af þess lags spilum. Um að gera að kenna börnunum að spil geta einnig snúist um að vinna saman, ekki bara að keppa hvort á móti öðru.

star_goldstar_goldstar_goldstar_graystar_gray

(Upplýsingar um stjörnugjöf á síðunni)

Comments are closed.