River Dragons

riverdragons01Fyrir 2-6 leikmenn, 8 ára og eldri.
Tekur 30 mínútur.


Spilið kom upphaflega út árið 2000 og þá undir nafninu Dragon Delta. River Dragons er gefið út af Matagot og er fáanlegt með enskum reglum (sjá hér).

Um spilið

River Dragons gengur í stuttu máli út á að koma sínu peði þvert yfir á, frá einum kofanum til þess næsta.  Að sjálfsögðu er þessi einfalda spilahugmynd skreytt og flúruð til að gera hana skemmtilegri, en svona er spilinu lýst af framleiðandanum:

„In the Mekong delta, every year, the bravest young people face each other in a famous contest. Building bridges with planks and stones, they have to cross the river to reach the village on the opposite bank.“

Leikborðið í River Dragons sýnir sem sagt „Mekong delta“ í Víetnam og eiga leikmenn að setja niður steina og planka til að búa til leið yfir ána. Ekki nóg með það heldur þarf maður að komast framhjá öðrum leikmönnum án þess að detta í vatnið.

riverdragons02

Leikborðið með fyrirfram staðsettum eyjum

Í upphafi spilsins byrja leikmenn með sitt peð á sinni litlu eyju. Markmiðið er að byggja brúarleið yfir á eyjuna sem er hinu megin við ána og komast þangað áður en einhverjum öðrum tekst að komast í sinn kofa. Leikborðið er tvíhliða, á annarri hliðinni er áin með nokkrum litlum stein-eyjum en á hinni hliðinni er áin eyjulaus. Leikmenn fá svo til nokkur spil á hendi sem sýna mismunandi aðgerðir og einnig sex mismunandi langa planka sem þeir þurfa að nota til að útbúa sér leið yfir ána.

riverdragons05

Aðgerðaspilin og plankarnir fyrir rauðan

Í hverri umferð velja leikmenn í leyni fimm aðgerðir sem þeir vilja framkvæma og raða niður viðeigandi spilum í rétta röð. Allir snúa svo við samtímis fyrsta spilinu og framkvæma þá aðgerð réttsælis frá yngsta leikmanninum, sem hefur leikinn. Hægt er að velja m.a. um að leggja niður einn eða svo steina, einn eða tvo planka, labba inn á einn planka eða hlaupa yfir tvo planka, hoppa yfir annan leikmann eða fjarlægja stein eða planka. Einu sinni í hverri umferð getur leikmaður svo valið að leggja niður drekaspil í einhverjum lit sem þýðir að leikmaður sem á peð í þeim lit fær ekki að gera það sem hann ætlaði sér, þar sem drekaspil blokkerar aðgerðaspil.  Þannig er hægt að hindra aðra leikmenn um leið og maður reynir að koma sjálfum sér áfram, þangað til maður er hindraður sjálfur. Ef eitthvað fer svo úrskeiðis og aðgerðin sem var valin veldur því að peðið myndi detta í ána þarf að færa það á upphafseyjuna og byrja aftur.

riverdragons06

Aðgerðaspil

Þegar þessar fimm aðgerðir hafa verið kláraðar (eða ekki kláraðar ef maður fær á sig dreka) taka leikmenn aðgerðaspilin aftur á hendi og leggja niður fimm ný.  Svona gengur spilið þangað til einhverjum tekst að komast yfir á sinn ákvörðunarstað en þá endar spilið samstundis. Sá sem kemst á leiðarenda vinnur.

Hvað finnst mér?

Ég sá River Dragons fyrst í Essen 2012 og vakti spilið strax athygli mína, enda mjög fallega myndskreytt og framleiðslan fyrsta flokks. Matagot, sem gefa spilið út, eru líka þekktir fyrir gæða framleiðslu eins og sést t.d. á Cyclades og Kemet. Fyrst þegar ég spilaði spilið (með sex leikmönnum á spilakvöldi Spilavinum) fannst mér það svona la-la. Fólk var ekki mikið að stöðva aðra leikmenn og einum tókst á undraskjótum tíma að komast yfir og þá var spilið bara búið. Eftir að hafa spilað það nokkrum sinnum síðan þá, í góðra vina hópi, hefur það þó náð að heilla mig.

riverdragons09

Peðin sem keppa

Við höfum átt mjög skemmtilegar stundir við að reyna að komast yfir ána … og skemma fyrir öðrum í leiðinni. Að komast yfir er alls ekki eins auðvelt og halda mætti. Að auki er River Dragons fyrir allt að sex leikmenn, sem er kostur. Oft vantar manni létt spil sem hentar fyrir þrenn pör, allavega er  það ansi oft þannig hjá okkur að við erum akkúrat sex að spila.

Niðurstaða

Það er óhætt að mæla með River Dragons, þetta er fallegt og skemmtilegt spil og hentar vel breiðum hópi. Myndi samt ekki spila River Dragons við hörundsárt fólk með keppnisáráttu á háu stigi … það gæti endað illa :grin:

[scrollGallery id=66 autoScroll=false thumbsdown=true imagearea=“imgarea“]

Comments are closed.