Jaipur

cover* er fyrir 2 leikmenn, 12 ára og eldri
* tekur u.þ.b. 30 mínútur

Þó svo að spilið sé sagt fyrir 12 ára og eldri hef ég spilað það við 8 ára son minn og á hann mjög auðvelt með að skilja spilið.

Enskar reglur fyrir Jaipur eru að finna hér.

Um spilið

Í Jaipur setja leikmenn sig í hlutverk kaupmanna á markaðí í höfuðstað Rajasthan á Indlandi.  Markmiðið er að ná að safna að sér vörum og selja á sem hæstu verði.

Spilið gengur í þrjár umferðir og vinnur sá sem hefur betur í tveimur þeirra.

Í upphafi er hvorum leikmanni gefin fimm spil á hendi og  fimm spil dregin úr bunkanum sem eru sett á milli leikmannanna.  Þessi fimm spil í borði tákna markaðinn og standa fyrir hinar sex mismunandi vörur á markaðinum. Einnig eru úlfaldaspil í stokknum og eru öll úlfaldaspil sem leikmenn fá á hendi í upphafi sett niður á borðið.  Úlfaldaspilin eru svo notuð til að skipta út vörum á markaðinum.   Leikmenn skiptast á og velja eina af eftirfarandi aðgerðum:

  1. Taka eitt spil af markaðinum og fylla á úr bunkanum
  2. Taka 2-5 spil af markaðinum og fylla á með spilum af hendi eða úlfaldaspilum
  3. Selja eina tegund af vörum

Þegar leikmenn selja vörur þá fá þeir spilaflísar sem gefa stig í lok umferðar.  Sá sem er fyrstur til að selja ákveðna vörutegund fær flísarnar sem gefa hæstu stigin, eftir það fara stigin lækkandi.  Einnig eru gefin bónusstig fyrir að selja þrjár, fjórar eða fimm vörur af sömu tegund.

Hvað finnst mér?

Jaipur er virkilega skemmtilegt tveggja manna spil.  Maður reynir að safna vörum til að selja ekki of snemma og fá bónusstigin, en á sama tíma vill maður vera á undan andstæðingnum til að fá hærri stig fyrir að vera á undan að selja.

Niðurstaða

Ég myndi mæla með Jaipur fyrir pör sem hafa gaman af því að spila og einnig fyrir krakka frá 8 ára aldri.  Svo skemmir útlitið ekki fyrir; Jaipur er litríkt og taugastrekkjandi, líklega eins og markaðurinn í Rajasthan.

Comments are closed.