Jólin 2015: Jólagjafahugmyndir

jolin2015_banner1Þá er komið að því að fara yfir hvaða spil koma upp í kollinn fyrir jólin 2015. Hér hef ég tekið saman nokkur spil sem mér finnst geti sómað sér vel í jólapakkanum þetta árið. Einnig er um að gera að skoða jólagjafahugmyndir síðustu ára (2012, 2013 og 2014).

Listanum skipti ég í þrjá hluta. Fyrst er það Fyrir fjölskylduna þar sem ég set saman lista yfir spil sem flestir fjölskyldumeðlimir (nema kannski þeir allra yngstu) ættu að geta spilað án mikilla erfiðleika. Annar hlutinn er Fyrir tvo sem inniheldur tveggja manna spil. Þriðji hlutinn er svo Fyrir lengra komna og inniheldur sá hluti spil sem eru fyrir aðeins eldri markhóp.

banner_fyrirfjolskylduna

mysterium_coverMysterium
Fyrir 2-7 leikmenn, 10 ára og eldri.

Mysterium er nokkurs konar blanda af Dixit og Cluedo þar sem leikmenn eru að reyna að leysa morðgátu með því að fá vísbendingar frá andaheiminum, þ.e. einum af leikmönnunum sem þarf að gefa vísbendingar í formi draumaspila til hinna leikmannanna.

Mysterium var upphaflega gefið út pólsku og úkraínsku undir nafninu Tajemnicze Domostwo, en nú er það Libellud sem gefur út enska útgáfu.

Umfjöllun um Mysterium (Tajemnicze Domostwo) má finna hér, en þess ber að gera að þessi nýja útgáfa er með aðeins breyttum reglum og nýjum myndskreytingum. Myndirnar hér að neðan eru úr pólsku útgáfunni.

codenames_coverCodenames
Fyrir 2-8 leikmenn, 14 ára og eldri.

Í Codenames keppa tvö lið um að verða fyrri til að finna sína njósnara, sem eru faldir innan um 25 aðra njósnara. 25 spjöldum með mismunandi orðum (dulnefnum) er raðað upp á mitt borðið. Tveir leikmenn taka að sér að vera yfirmenn njósnastofnunar og þeir einir vita hverjir njósnarar í sínu liði eru, þ.e. 8 eða 9 dulnefni á borðinu tilheyra þeirra liði. Þeir skiptast svo á að gefa leikmönnum í sínu liði eins orða vísbendingar sem eiga að hjálpa þeim til að finna njósnarana. Það lið sem nær að auðkenna alla sína njósnara fyrst vinnur. Það verður hins vegar að reyna að komast hjá því að hitta leynimorðingjann, því þá tapar það lið sem fann hann.

Codenames er mjög skemmtilegt samkvæmisspil fyrir allt að 8 leikmenn.

celestia_coverCelestia
Fyrir 2-6 leikmenn, 8 ára og eldri.

Í Celestia fara leikmenn um borð í loftfar með öðru ævintýrafólki og er ætlunin að ferðast til fjarlægra borga og sækja gríðarlega fjársjóði. Í hverri umferð tekur einn leikmaður að sér að vera skipstjórinn og kastar hann teningum sem sýna mismunandi tákn. Hann er svo með spil á hendi sem sýna hugsanlega samsvarandi tákn, eða ekki. Ef hann á spilin til þá heldur skipið áfram, en ef hann á þau ekki þá strandar skipið  og næsta umferð hefst. Leikmenn hafa hins vegar möguleikann á því að stökkva frá borði áður en skipstjórinn sýnir hvort hann eigi til spillin sem þarf til að halda förinni áfram. Leikmenn safna svo stigaspjöldum eftir því hversu langt þeir þorðu að fara.

Celestia er endurútgáfa af eldra spili sem heitir Cloud 9. Celsetia er mjög flott og einfalt spil, örugglega of einfalt fyrir einhverja. Þegar ég prófaði það fyrst fannst mér einmitt full lítið um að vera í því, kannski af því ég átti einhvern veginn von á meiru. En við fleiri spilanir fór ég að meta Celestia fyrir það sem það er, einfalt og skemmtilegt fjölskylduspil sem flest allir ættu að geta spilað.

spyfall_coverSpyfall
Fyrir 3-8 leikmenn, 12 ára og eldri.

Spyfall er annað njósnaraspilið á listanum þetta árið. Spyfall er samkvæmisspil þar sem einn leikmaður er njósnari. Spyfall inniheldur fjöldann allan af spilum sem sýna mismunandi staðsetningar. Í upphafi umferðar er staðsetningarspilum dreift á leikmennina. Allir fá sömu staðsetninguna utan einn, en hann fær bara spil sem sýnir mynd af njósnara. Hans hlutverk er að reyna að komast að því hvar hópurinn er staddur á meðan allir hinir, sem vita hvar þeir eru staddir, reyna að komast að því hver sé njósnarinn.

Það er síðan gert með því að skiptast á að spyrja leikmenn spurninga, t.d. Hvernig ertu klæddur hérna?, Myndirðu koma hingað í frí með fjölskylduna? o.s.frv. Á einhverjum tímapunkti ætti að vera orðið ljóst annað hvort hvar allir eru staddir eða hver sé njósnarinn, þar sem hægt og rólega fer fólk að sjá hverjir vita um staðsetninguna og hver veit afskaplega lítið um hana. Njósnarinn vinnur umferðina ef hann getur upp á staðsetningunni áður en upp um hann kemst, annars vinna hinir ef þeir geta fundið njósnarann.

Spyfall er mjög skemmtilegt partýspil og hefur verið vinsælt í mínum spilahópum. Það getur samt verið svolítið stirt í byrjun á meðan fólk er að komast í rétta gírinn, en svo fer það að fljóta áfram.

coltexpress_coverColt Express
Fyrir 2-6 leikmenn, 10 ára og eldri.

Í Colt Express eru leikmenn hópur lestarræningja sem ráðast til inngöngu í lest og reyna að ræna peningum, bæði af farþegunum sem og útborgun verkamannanna. Um borð í lestinni er einnig lögreglustjórinn Samuel Ford og gæti hann reynst ræningjunum óþægur ljár í þúfu.

Mjög skemmtilegt og flott hannað spil. Umfjöllun um það má finna hér.

kingdombuilder_coverKingdom Builder
Fyrir 2-4 leikmenn, 8 ára og eldri.

Kingdom Builder er spil frá 2011, en það vann Spiel des Jahres verðlaunin árið 2012. Í Kingdom Builder eru leikmenn að byggja upp sitt konungdæmi með því að raða húsunum sínum inn á leikborðið eftir ákveðnum reglum. Leikborðið er samsett úr fjórum stórum flísum og geta verið mismunandi uppsetningar spil eftil spil. Þrjú mismunandi markmiðaspjöld eru dregin af handahófi í upphafi hvers spils, en þau sýna hvernig leikmenn verði að byggja upp konungdæmin til að fá stig.

Þegar ég spilaði Kingdom Builder fyrst fyrir nokkrum árum þá áttaði ég mig ekki á hvers vegna í ósköpunum spilið hafði fengið Spiel des Jahres verðlaunin. Fyrir stuttu síðan, eftir að hafa prófað spilið aftur, er ég komin á allt aðra skoðun. Í dag er Kingdom Builder spil sem ég hef mjög gaman af því að spila og er virkilega ánægður með það.

banner_fyrirtvo

7wondersduel_cover7 Wonders Duel
Fyrir 2, 10 ára og eldri.

7 Wonders Duel er splunkuný tveggja manna útgáfa af verðlaunaspilinu 7 Wonders. Í 7 Wonders Duel eru tveir leikmenn að keppa hvor á móti öðrum og er markmiðið að byggja upp siðmenningu sem muni í lokin standa framar hinum leikmanninum. Í spilinu byggja leikmenn upp siðmenninguna með því að auka á framleiðslu, hermátt og vísindaþekkingu svo eitthvað sé nefnt.

Mjög gott tveggja manna spil sem tekur ekki nema um 30 mínútur að spila.

patchwork_coverPatchwork
Fyrir 2, 8 ára og eldri.

Patchwork gengur út á keppni tveggja leikmanna um hvor þeirra saumi fallegra bútasaumsteppi. Í upphafi spilsins fær hvor leikmaður sitt eigið bútasaumsborð sem sýnir 81 reit á spjaldi sem er 9 reitir á breidd og 9 reitir á hæð. Á milli leikmannanna er sett tímaborð sem leikmenn nota til að halda utan um hversu mikinn tíma þeir hafa notað til að sauma. Í kringum tímaborðið er 33 bútum í mismunandi stærðum raðað í handahófskennda röð. Bútarnir eru merktir með kostnaði (í tölum) og hversu langan tíma tekur að sauma bútinn (tímaglas). Sá vinnur sem hefur tekist að nýta plássið á bútasaumsborðinu betur.

Umfjöllun um Patchwork má finna hér.

banner_fyrirlengrakomna

pandemiclegacy_coverPandemic Legacy
Fyrir 2-4 leikmenn, 13 ára og eldri.

Pandemic Legacy er ný breytt útgáfa af samvinnuspilinu Pandemic. Í Pandemic Legacy eru leikmenn að berjast gegn útbreiðslu fjögurra lífshættulegra vírusa í heilt ár. Spilið breytist með hverju mánuðinum sem líður og nýjar hættur eða verkefni bíða hópsins.

Ég hef sjálfur ekki spilað Pandemic Legacy en forverinn er eitt af mínum uppáhalds samvinnuspilum. Það sem heillar mig við þetta spil er að það breytist með tímanum og eitthvað nýtt bætist reglulega við. Hins vegar verður að hafa í huga að best er líklegast að spila Pandemic Legacy frá upphafi til enda (að lágmarki 12 skipti) með sama hópnum, en það gæti verið letjandi fyrir einhverja.

shakespeare_coverShakespeare
Fyrir 1-4 leikmenn, 13 ára og eldri.

Í Shakespeare eru leikmenn að vinna að því að setja upp sína leiksýninguna hver á tímum Shakespeare. Þeir þurfa að ráða m.a. leikara, leikmynda- og skartgripasmiði og klæðskera til að ná að setja á svið hina bestu sýningu á þeim sex dögum sem eru til stefnu.

Shakespeare er mjög fallega hannað og skemmtilegt spil.

Isleofskye_coverIsle of Skye
Fyrir 2-5 leikmenn, 8 ára og eldri.

Í Isle of Skye: From Chieftain to King eru 2-5 leikmenn höfðingjar sem keppast við að byggja upp sitt eigið konungdæmi og safna sem flestum stigum.

Í upphafi spils eru dregnar fjórar markmiðaflísar (af 16) og segja þær til um fyrir hvað stig fást í mismunandi umferðum spilsins. Leikmenn vinna síðan að því að púsla saman sínu landssvæði úr flísum sem fara kaupum og sölum í hverri umferð.

Isle of Skye er virkilega gott spil með skemmtilegri uppboðslotu í hverri umferð þar sem maður getur keypt landslagsflísar af öðrum leikmönnum og einnig selt frá sér flísar.

Því miður er ég ekki viss um að þetta spil komi til með verða fáanlegt fyrir þessi jólin, enda hefur það selst gríðarlega vel frá því það kom út og orðið nánast uppselt.

timestories_coverT.I.M.E. Stories
Fyrir 2-4 leikmenn, 12 ára og eldri.

T.I.M.E. Stories er samvinnuspil þar sem leikmenn eru tímaferðalangar sem ferðast aftur í tímann til að lagfæra eitthvað sem hefur farið úrskeiðis. Þeir vinna saman að því að rannsaka og kanna staði og hitta persónur sem sumar koma til með að hjálpa á meðan aðrar reyna að leiða leikmenn í gildru.

Eins og Pandemic Legacy þá hef ég ekki spilað T.I.M.E. Stories, en hef heyrt mjög góða hluti um spilið. En að sama skapi er það kannski ekki fyrir alla, þar sem töluvert þarf að lesa í spilinu og því verður fólk að vera þokkalega vel að sér í ensku. En þetta er alla vega mjög áhugavert spil og er alla vega á jólaóskalistanum mínum.

Skildu eftir svar