Jólin 2016: Jólagjafahugmyndir

jolin2016_banner1
„Bráðum koma blessuð jólin …“ … og að venju birti ég hér á síðunni jólagjafahugmyndalista, núna fyrir árið 2016. Einnig er um að gera að skoða jólagjafahugmyndir síðustu ára (2012, 20132014 og 2015). Þess ber að geta að hér eru bæði spil sem ég hef sjálfur reynslu af og get mælt með og einnig spil sem ég hef ekki prófað sjálfur en heyrt góða hluti um og tel mér óhætt að mæla með.

Listanum skipti ég í þrjá hluta. Fyrst er það Fyrir fjölskylduna þar sem ég set saman lista yfir spil sem flestir fjölskyldumeðlimir (nema kannski þeir allra yngstu) ættu að geta spilað án mikilla erfiðleika. Annar hlutinn er Fyrir börnin sem inniheldur spil sem, eins og nafnið gefur til kynna, henta vel fyrir börn. Þriðji hlutinn er svo Fyrir lengra komna og inniheldur sá hluti spil sem eru fyrir aðeins eldri markhóp.

banner_fyrirfjolskylduna

karuba_coverKaruba
Fyrir 2-4 leikmenn, 8 ára og eldri.

Karuba er einfalt og skemmtilegt fjölskylduspil sem gengur út á að leggja skógarstíga og leiðbeina fjársjóðsleitarfólki sem stefnir að því að finna gull, gimsteina og hof þar sem enn verðmætari fjársjóðir bíða.

Allir leikmenn leggja skógarstígana úr mismunandi flísum sem sýna stígana. Í hverri umferð dregur einn leikmaður af handahófi flís úr sínum bunka og tilkynnir númerið á þeirri flís (frá 1 upp í 36). Aðrir leikmenn finna sömu flís í sínum bunka og því eru allir að nota eins flísar en ráða hvernig þeir koma henni fyrir á sínu borði. Þannig leggja leikmenn mismunandi stíga úr eins flísum. Leikmenn keppast svo um að verða fyrstir til að koma sínum leiðangursmönnum í hofin og sækja í leiðinni gull og demanta sem bíða á sumum stígunum. Karuba var tilnefnt til Spiel des Jahres verðlaunanna árið 2016 og er þarna á ferðinni virkilega gott spil.

codenamespictures_coverCodenames: Pictures
Fyrir 2-8 leikmenn, 10 ára og eldri.

Codenames: Pictures er myndaútgáfa af spilinu Codenames sem kom út í fyrra og vann hin margrómuðu Spiel des Jahres verðlaun árið 2016. Í Codenames: Pictures keppa tvö lið um að verða fyrri til að auðkenna sína njósnara, sem eru faldir innan um 20 aðra njósnara sem eru táknaðir með mismunandi myndaspjöldum sem er raðað upp á mitt borðið. Tveir leikmenn taka að sér að vera yfirmenn njósnastofnunar og þeir einir vita hverjir njósnarar í sínu liði eru, þ.e. 8 eða 9 myndir á borðinu tilheyra þeirra liði. Þeir skiptast svo á að gefa leikmönnum í sínu liði eins orða vísbendingar sem eiga að hjálpa þeim til að finna njósnarana og best er ef hægt er að búa til vísbendingu sem á við um mörg myndaspjöld. Það lið sem nær að auðkenna alla sína njósnara fyrst vinnur. Það verður hins vegar að reyna að komast hjá því að hitta leynimorðingjann, því liðið sem finnur hann tapar samstundis.

Eftir að hafa spilað Codenames í hengla var Codenames: Pictures eins og ferskur andvari fyrir okkur. Að mínu mati er þessi útgáfa hentugri fyrir breiðari hóp og virkar betur fyrir alla fjölskylduna, jafnt unga sem aldna.

imagine_coverImagine
Fyrir 3-8 leikmenn, 12 ára og eldri.

Imagine er mjög skemmtilegt spil sem má segja að sé nokkurs konar ágiskunarsamkvæmisspil. Spilið gengur út á að búa til myndir með gegnsæjum spjöldum og reyna að fá aðra leikmenn til að giska á hvað þú ert að reyna að búa til.

Í hverri umferð dregur einn leikmaður spjald úr bunka sem á eru 8 mismunandi atriði; m.a. hlutir, íþróttir, kvikmyndatitlar, leikarar og leikkonur, persónur úr ævintýrum o.s.frv. Eitt atriði á spjaldinu er valið og þarf sá sem dró spjaldið að reyna eftir fremsta megni að búa til mynd úr gegnsæju spjöldunum, sem gefur hinum til kynna hvað hann átti að „teikna“.

Imagine hefur slegið í gegn hjá fjölskyldunni og meira að segja sá yngsti (9 ára) hefur tekið fullan þátt í spilinu, með smá aðstoð við að lesa af spjöldunum, enda eru þau á ensku.

dreamhome_coverDream Home
Fyrir 2-4 leikmenn, 7 ára og eldri.

Í Dream Home eru leikmenn að innrétta sitt draumaheimili. Til þess fá þeir 12 umferðir og í hverri umferð velja þeir tvö spjöld, annað þeirra er herbergi og hitt getur verið t.d. þakflís eða einhver búslóð í nýja húsið (flygill, nuddpottur o.s.frv.).

Leikmenn hafa 12 herbergi sem þeir verða að innrétta. Sum herbergi gefa meiri stig ef þau eru af ákveðinni stærð eða eru staðsett á ákveðnum stöðum. Þannig fá leikmenn bónusstig fyrir að vera með baðherbergi á báðum hæðum og einnig ef þeir ná að hafa baðherbergi, eldhús og svefnherbergi í húsinu.

Í fyrsta skiptið sem ég spilaði Dream Home var ég ekkert sérstaklega hrifinn af því. Spilið hefur hins vegar vaxið í áliti hjá mér og finnst mér það bara hið fínasta fjölskylduspil.

quadropolis_coverQuadropolis
Fyrir 2-4 leikmenn, 8 ára og eldri.

Quadropolis er eitt nýjasta spilið frá Days of Wonder, en það er útgáfufyrirtækið sem gefur m.a. út Ticket to Ride, Small World og Five Tribes. Í Quadropolis er hver leikmaður að byggja upp sína stórborgina. Þeir þurfa að keppa við aðra leikmenn um byggingar, garða, hafnarsvæði og verslanir sem eru til reiðu fyrir alla leikmenn. Leikmenn þurfa að sýna útsjónasemi í því hvaða byggingar og borgarhluta þeir ætli sér að ná í og einnig hvernig þeir staðsetja þá í borginni sinni. Einnig þurfa leikmenn að hafa stjórn á mengun og passa upp á að fá nægan fjölda íbúa til að fá stig fyrir borgarhlutana í lokin. Ljómandi gott spil.

banner_fyrirbornin

spookies_coverSpookies
Fyrir 2-5 leikmenn, 8 ára og eldri.

Spookies er skemmtilegt barna- og fjölskylduspil þar sem leikmenn eru að reyna að koma krökkum (og einum hundi) sem hæst í draugahús til að ná sér í stigaskífur. Til þess kasta þeir teningum og þurfa að ná ákveðinni samtölu til að ná upp á hæðirnar í húsinu. Ef það tekst fá leikmenn að draga draugaskífur sem sýna stig. Fjöldi skífa sem má draga á hverri hæð fer svo eftir hversu fáa teninga leikmaður komst upp með að nota til að komast á þá hæðina. Ef leikmanni mistekst að komast upp á hæð sem hann ákvað að reyna að komast upp á, þarf hann að skila inn stigaskífum. Þess vegna borgar sig ekki að taka of mikla sénsa.

Í spilinu reynir á samlagningu og ýtir spilið undir ákvörðunartöku, hvort skal haldið áfram eða hætt á öruggum stað.

leo_coverLeo
Fyrir 2-5 leikmenn, 6 ára og eldri.

Leo er skemmtilegt minnisspil um ljónið Leo sem þarf að komast í klippingu. Leikmennirnir vinna saman að því að hjálpa Leo í gegnum skóginn svo hann komist í stólinn hjá apanum Bobo áður en klippistofan hans lokar, en hún lokar stundvíslega klukkan 8.

Til að ná að koma Leo tímanlega í klippingu þurfa leikmenn að leggja á minnið hvaða dýr leynast undir hvaða skógarflís á leiðinni og spila út samsvarandi lituðu spjaldi af hendi. Þetta er nú oft hægara sagt en gert og hefur Leo fimm daga til að komast í klippingu.

myfirststoneage_coverMy First Stone Age
Fyrir 2-4 leikmenn, 5 ára og eldri.

My First Stone Age er barnaútgáfa af hinu stórfína spili Stone Age. Í þessari útgáfu ferðast leikmenn til fortíðar og vinna að því að safna hráefnum til að geta byggt sér þrjá kofa.

Spilið er mjög fallegt og litríkt og skemmtilegt að spila. Þetta er mjög einfalt spil sem reynir á minni leikmanna.

banner_fyrirlengrakomna

odin_coverA Feast for Odin
Fyrir 1-4 leikmenn, 12 ára og eldri.

A Feast for Odin er nýjasta stóra spilið frá hönnuðinum Uwe Rosenberg, en hann á heiðurinn af m.a. Patchwork og Agricola. Í spilinu, sem inniheldur heil ósköp af flísum og öðrum pappa, eru leikmenn að veiða, viða að sér efnivið og vinna úr honum, byggja upp framleiðslu, kaupa og smíða skip og ráðast á byggðir.

Leikmenn þurfa að púsla því sem þeir vinna sér inn saman á sín leikmannaborð á sem skynsamastan hátt til að fá innkomu og stig í lok spils.

Ég hef ekki prófað þetta spil en þeir sem hafa spilað það fara um það fögrum orðum. Það sakar svo ekki að Ísland kemur fyrir í spilinu.

westerntrail_coverGreat Western Trail
Fyrir 2-4 leikmenn, 12 ára og eldri.

Í Great Western Trail eru leikmenn búgarðseigendur sem reka nautgripahjarðir frá Texas til Cansas City. Mikið meira veit ég svo sem ekki um þetta spil þar sem ég hef ekki prófað það en það hefur fengið mjög góða dóma síðan það kom út. Spilið endaði í fyrsta sætinu á Fairplay listanum eftir Spiel 2016, sem er ákveðin vísbending um að eitthvað sé varið í spilið. Það er alla vega á óskalistanum mínum fyrir þessi jól.

chapsofmidgard_coverChampions of Midgard
Fyrir 2-4 leikmenn, 10 ára og eldri.

Champions of Midgard er víkingaspil þar sem leikmenn ganga fremstir í flokki víkinga sem ætla að hjálpa íbúum hafnarbæjar að verjast gegn árásum trölla, drauga og skepna úr Norrænni goðafræði. Þetta er þó ekki samvinnuspil, heldur keppast leikmennirnir um að safna dýrðarstigum og á endanum stendur einn eftir sem Jarl og mestur meistari Miðgarðs.

Ég átti ekki endilega von á að hafa gaman af þessu spili þar sem ég er almennt ekki hrifinn af spilum þar sem maður berst við einhverjar verur með teningakasti, né heldur spilum sem eru með ævintýraskepnum sem þarf að kljást við … ég er eitthvað svo jarðbundinn. Hins vegar greip spilið mig alveg og ég var nagandi neglurnar af spenningi undir lokin þegar allt stóð og féll með næstu ákvörðun. Spilinu svipar svolítið til Lords of Waterdeep, sem er annað eðalspil.

Skildu eftir svar