Kappspil

kappspillogo2Hér eru að finna nokkur kappspil sem ég hef prófað og get mælt með. Kappspil er flokkur spila sem snýst um einhvers konar keppni t.d. kappakstur, kappreiðar, kappsiglingu o.s.frv. Markmið leikmanna í kappspilum er í flestum tilfellum að stýra einhverjum fararskjóta af kostgæfni og ná að vera fyrstur yfir marklínu. Kappspil geta einnig snúist um að ná einhverju markmiði á undan öðrum leikmönnum.

jamaica01Jamaica

Í Jamaica taka leikmenn sér hlutverk sjóræningja þar sem markmiðið er að safna sem mestu gulli í kappsiglingu kringum eyjuna Jamaica.

Hver leikmaður hefur yfir að ráða sjóræningjaskipi og 15 aðgerðaspjöldum sem sýna eina dagaðgerð og eina næturaðgerð. Leikmenn stokka þessi spjöld og draga þrjú á hendi. Sá sem á leik kastar tveimur teningum og velur svo hvorn teninginn eigi að nota fyrir dagaðgerð og hvorn fyrir næturaðgerð. Allir leikmennirnir velja þá eitt af aðgerðaspjöldunum sem þeir hafa á hendi og sýna hver af öðrum hvaða aðgerð þeir ætla að gera. Aðgerðirnar geta verið misjafnar, t.d. að sigla áfram eða aftur á bak, sækja gull, matarbirgðir eða fallbyssuskot. Talan á tengingnum segir svo til hversu margar aðgerðir leikmaðurinn fær að framkvæma, t.d. ef talan sex er uppi á teningnum og leikmaður velur gull þá fær hann sex gullpeninga.

Matinn þurfa leikmenn til að borga fyrir að sigla inn á ákveðna reiti, sem og gullið en fallbyssuskotin er hægt að nota í sjóorystum sem skella á ef leikmaður siglir sínu skipi inn á reit þar sem fyrir er annar leikmaður. Spilinu lýkur svo þegar fyrsti leikmaðurinn kemst aftur í Port Royal, þaðan sem lagt var af stað í upphafi. Leikmenn fá þá stig fyrir gullið sem þeir hafa safnað, sem og stig fyrir á hvaða reit þeir enda á.

snowtails01Snow Tails

Snow Tails snýst um hundasleðakapp þar sem hver leikmaður stýrir sínum hundasleða í gegnum braut þar sem leikmenn verða að stýra sleðanum sínum af kostgæfni enda auðvelt að keyra út af brautinni. Til að stýra sleðanum nota leikmenn hundaspil sem þeir eru með á hendi og leggja niður á annan hvorn hundinn sem dregur sleðann eða á bremsuna til að breyta bremsugildinu.  Það er nokkur kúnst að stýra sleðanum þannig að allt gangi upp, en þeim mun skemmtilegra þegar vel gengur.

Nánari umfjöllun um Snow Tails er að finna hér.

lewisandclark01Lewis & Clark

Lewis & Clark er sögutengt spil þar sem leikmenn taka þátt í leiðangri Meriwether Lewis og William Clark yfir vestari hluta Norður Ameríku á árunum 1804 -1806. Leikmenn stýra hver sínum leiðangri frá St. Louis og fylgja m.a. Missouri ánni að Fort Clatsop. Sá sem nær fyrstur að setja upp tjaldbúðir þar, vinnur spilið. Í Lewis & Clark byrja leikmenn með sex spil á hendi sem sýna þá leiðangursmenn sem hefja för með þeim og hvaða sérfræðikunnáttu þeir leggja í leiðangurinn. Eftir því sem á líður spilið geta leikmenn svo bætt við sig leiðangursmönnum og aukið sérfræðikunnáttu leiðangurshópsins. Komast þarf áfram upp ána og yfir fjalllendi og nota til þess báta og hesta.

Nánari umfjöllun um Lewis & Clark er að finna hér.

roborally01RoboRally

Í RoboRally stýra leikmenn hver sínu vélmenni í gegnum verksmiðjugólf þar sem ýmsar hættur leynast. Markmiðið er að ná á ákveðinn stað á verksmiðjugólfinu og vera fyrstur þangað. Leikmenn forrita vélmennið sitt í hverri umferð með því að raða niður stýrispilum. Stýrispilin sýna þær aðgerðir sem í boði eru, en það geta verið beygjur til hægri og vinstri sem og afturá bak. Einnig eru spil sem leyfa færslu áfram. Á verksmiðjugólfinu eru m.a. færibönd, leysigeislar og gryfjur sem vélmennin geta dottið ofan í og því þarf að passa sig vel í forrituninni. Sumu hefur maður samt ekki stjórn á og geta önnur vélmenni keyrt á þitt vélmenni og meira að segja skotið á það. RoboRally er fjörugt og óútreiknanlegt spil.

Skildu eftir svar