Kill Doctor Lucky

cover

* er fyrir 3-7 leikmenn, 12 ára og eldri
* tekur 45 mínútur

Um spilið

Kill Doctor Lucky snýst (eins og titillinn gefur til kynna) um að drepa Dr. Lucky.  Þetta hljómar kannski ekki eins og eðlileg fjölskyldukvöldstund en einhvern veginn virkar spilið mjög vel fyrir einmitt slíkar stundir.

Leikmenn eru s.s. gestir á hefðarsetri Dr. Lucky og eiga allir eitthvað sökótt við gamla manninn.  Á meðan hann gengur á milli herbergja eftir ákveðnu númerakerfi, reyna leikmenn að snuðra á hefðarsetrinu, leita að hentugum morðvopnum og koma sér svo haganlega fyrir einhvers staðar þar sem enginn sér til (utan beinnar sjónlínu) og bíða svo eftir að gamli maðurinn gangi í gildruna.

2

Morðgengið (vantar reyndar feita kokkinn með steikarpönnuna)

 

10

Morðvopn: Panna

Til þess að leikmaður megi reyna að stúta þeim gamla þarf hann að ná að vera einn í sama herbergi (eða gangi) og sá gamli og enginn annar leikmaður má vera í sjónlínu við þetta herbergi.  Þá tilkynnir viðkomandi hvaða morðvopn hann ætli sér að nota.  Morðvopnin hafa öll ákveðið vægi og geta verið öflugri séu þau notuð í vissum herbergjum.  Aðrir leikmenn fá þá tækifæri til að reyna að stöðva morðtilraunina með því að spila út svokölluðum „failure“ spilum.  Ef samanlagt vægi þeirra er jafn mikið eða meira en vægi morðvopnsins hefur tilraunin mistekist og viðkomandi leikmaður fær „gremjuskífur“.  Gremjuskífurnar auka svo vægi morðvopna í síðari tilraunum, viðkomandi verður sem sagt reiðari og reiðari eftir því sem honum mistekst oftar.

Svona gengur spilið þar til morðtilraun heppnast, þ.e. aðrir leikmenn eiga ekki næg „failure“ spil til að stöðva tilræðismanninn.

Hvað finnst mér?

Þó svo að þema spilsins verði að teljast frekar „politically incorrect“ þá hef ég enn ekki rekist á neinn sem hefur ekki haft gaman af þessu spili.  Það er frekar einfalt og einhvern veginn horfa flestir framhjá því að tilgangurinn sé að drepa gamlan mann, sem lítur satt best að segja frekar sakleysislega út :grin:

11

Failure spil, vægi: 2

Spilið er fyrir allt að sjö manns, sem er ekki algengt með borðspil.  Því getur það hentað vel fyrir akkúrat þessi þrenn hjón eða pör sem hittast til að spila (okkar reglulegi spilahópur samanstendur nefninlega af þremur pörum).  Hvað aldursmörk varðar þá hefur mér sýnst spilið henta leikmönnum undir 12 ára aldri.  Við höfum spilað það við soninn sem er rétt innan við 9 ára  og hann hefur mjög gaman af.  Það eina sem mér finnst há spilinu þegar margir eru að spila (6-7 leikmenn) er að það getur dregist á langinn og stundum lendir maður í þeirri aðstöðu að fá ekki að gera í lengri tíma.  Það gerist vegna þess að ef Dr. Lucky kemur í herbergi þar sem einhver leikmaður er staðsettur þá fær sá hinn sami að gera.  Þannig er oft á tíðum hoppað yfir leikmenn.  Því myndi ég telja að 4-5 leikmenn í Kill Doctor Lucky sé alveg rétti skammturinn.

Niðurstaða

Óhætt er að mæla með Kill Doctor Lucky sem léttu fjölskylduspili, einfalt að kenna og getur tekið allt að sjö leikmenn (þó það sé ekki hentugasti fjöldi leikmanna).  Svo til að auka á fjölbreytnina er hægt að notast við meðfylgjandi viðbót þar sem hundur Dr. Lucky ráfar um hefðarsetrið og þvælist fyrir tilræðismönnum og konum,

One thought on “Kill Doctor Lucky

  1. Pingback: Dílar, dráp og alheimsfaraldur » Borðspil.is