Kingsburg ★★★★

* er fyrir 2-5 leikmenn, 13 ára og eldri
* tekur 90 mínútur

Um spilið

Í Kingsburg taka leikmenn að sér að vera ríkisstjórar í útjöðrum konungdæmis Trítusar konungs.  Markmiðið er að byggja byggingar og styrkja varnir konungdæmisins.  Til þess þurfa leikmenn að hafa áhrif á mismunandi ráðgjafa konungsins, sem hver gefur af sér ákveðna hluti m.a. gull, timbur, stein eða aukinn hernaðarmátt.

3

Til að geta haft áhrif á „Swordsmith“ þarf 11 stig úr teningakasti. Hann gefur annað hvort stein og gull eða stein og timbur.

Kingsburg er spilað yfir fimm ára tímabil.  Hverju ári er svo skipt upp í vor, sumar, haust og vetur.  Þannig er spilað í 20 umferðir.
Á vorin, sumrin og haustin ár hvert kasta leikmenn teningum og nota útkomuna úr teningakastinu til að hafa áhrif á ráðgjafa konungsins.  Þannig safna leikmenn hráefni til að byggja úr í lok hverrar árstíðar.  Á veturna er svo ráðist á konungdæmið og þá er um að gera að vera búinn að byggja varnir og auka við hernaðarmátt sinn.

Sigurvegarinn er svo sá sem í lok veturs fimmta árið er með flest stigin.

Í Kingsburg eru teningar notaðir á mjög áhugaverðan og skemmtilegan hátt.  Í hverri umferð er markmiðið að ná sem mestu út úr sínu eigin teningakasti, en einnig að vera vakandi fyrir því hvað aðrir leikmenn hafa fengið út úr sínu teningakasti, vegna þess að aðeins má velja hvern ráðgjafa einu sinni í hverri umferð.

Hvað finnst mér?

Kingsburg hefur vakið mikla lukku meðal okkar spilafélaga.  Spilið er alls ekki flókið þó það kunni að virðast svo í fyrstu.  Borðið er fallega skreytt og þemað mjög vel heppnað. Við höfum verið dugleg við að spila Kingsburg og sé ég það alveg eiga pláss á spilaborðinu í náinni framtíð.  Ekki skemmir fyrir að til er viðbót við spilið sem heitir Kingsburg: To Forge a Realm sem bætir við fjölbreytnina og eykur líftíma grunnspilsins.

Niðurstaða

Flott og mjög gott spil.  Fær mín bestu meðmæli!

star_goldstar_goldstar_goldstar_graystar_gray

(Upplýsingar um stjörnugjöf á síðunni)

Comments are closed.