Kolabaróninn og heimsveldi á 8 mínútum (eða næstum því)

coalbaron01Ég hef nú verið frekar óduglegur við að saxa á listann minn, en þar eru núna 13 spil enn óspiluð. Þrátt fyrir það er ég þegar búinn að bæta nokkrum nýjum spilum í safnið. Um daginn bauðst mér nefnilega að senda til frænku konunnar nokkur spil til að setja í gám sem flytja átti búslóð hennar frá Bandaríkjunum til Íslands. Að sjálfsögðu stökk ég á þetta góða boð og pantaði fjögur spil í gegnum Coolstuffinc, en það voru Coal Baron, Eight-Minute Empire: Legends, Blueprints og Expedition: Famous Explorers. Eftir dágóða bið, en gámurinn fór frá Bandaríkjunum til Rotterdam og svo til Íslands, komst gámurinn og kassinn minn á leiðarenda og næsta kvöld á eftir voru fyrstu tvö spilin spiluð.

Fyrst á dagskránni var það Coal Baron, en það er nýtt spil fá hönnunarteyminu Wolfgang Kramer og Michael Kiesling. Þeir kumpánarnir hafa í gegnum tíðina sent frá sér nokkur prýðileg spil, þeirra á meðal Asara, Torres, Tikal og The Palaces of Carrara svo fá ein séu nefnd. Þetta nýja spil frá þeim hefur verið að fá mjög jákvæða umfjöllun. Coal Baron gengur út á að grafa eftir kolum, koma þeim upp úr kolanámu og selja svo.

coalbaron02

Coal Baron: Þriðja vaktin langt komin

Hver leikmaður hefur yfir að ráða einni kolanámu þaðan sem hægt er að grafa eftir gulum, gráum, brúnum og svörtum kolum. Gulu kolin eru efst og ódýrust á meðan svörtu kolin eru dýrust og liggja neðst í námunni. Spilið gengur í þrjár vaktir og hefur hver leikmaður yfir ákveðið mörgum námaverkamönnum að ráða (15 í þriggja manna spili). Leikmenn skiptast á að senda vinnumann/menn inn á aðalleikborðið þaðan sem öllum aðgerðum er stýrt. Leikmenn geta valið að grafa lengra inn í námuna sína, sækja pantanir, flytja kol upp á yfirborðið, uppfylla pantanir eða fá peninga.

coalbaron03

Náman mín

Coal Baron er mjög einfalt, en á sama tíma hefur maður um nóg að hugsa og huga þarf vel að því á hvaða reit maður ætlar að staðsetja vinnumennina í hvert skipti. Spilið gengur bara í þrjár umferðir og ekki auðvelt að leiðrétta alvarleg mistök ef þau eru gerð á einhverri af vöktunum þremur. Það sem gerir Coal Baron frábrugðið öðrum worker placement spilum sem ég hef spilað er að aðgerðareitirnir blokkast ekki þó einhver sé búinn að nota þá, það verður bara dýrara fyrir þann sem á eftir kemur. Maður verður því að eyða einum fleiri vinnumönnum en sá sem notaði reitinn síðast á undan.

Spilið virkar mjög vel, skemmtilega hannað með lyftunni sem ferðast upp og niður lyftugöngin í nokkurs konar rennu, en lyftan er notuð til að flytja kolin upp á yfirborðið. Coal Baron virðist alla vega svona við fyrstu sýn og spilun vera hið prýðilegasta fjölskylduspil, ekki of flókið og tekur frekar stuttan tíma í spilun. Við þrír vorum ekki nema rétt rúmlega klukkutíma eftir að ég var búinn að fara yfir reglurnar, sem tók kannski svona 10 mínútur. En mér tókst ekki ætlunarverkið í námunni minni og var lengst frá því að vera kolabaróninn í þetta skiptið.

eightminuteempire01Hitt nýja spilið sem við spiluðum var Eight-Minute Empire: Legends, en það er spil sem á að ganga út á að byggja upp heimsveldi á átta mínútum. Þessi spilatími er nú eitthvað vanmetinn, en spilið á ekki að taka nema átta mínútur skv. framleiðanda. Sú varð nú ekki raunin hjá okkur, ætli við höfum ekki verið svona u.þ.b. hálftíma. En spilið gengur sem sagt út á að ná meirihlutayfirráðum í héruðum á nokkrum eyjum sem sýndar eru á leikborðinu. Til þess nota leikmenn aðgerðaspil sem eru keypt (eða tekin ókeypis) úr röð sex spila, sem fyllt er á í hvert sinn sem spil er tekið. Aðgerðaspilin leyfa manni ýmislegt, maður getur fengið að bæta liðsmönnum inn á eyjur, færa til liðsmenn, fjarlægja liðsmenn annarra leikmanna og stofna borgir svo eitthvað sé nefnt. Spilið er svo búið eftir tíu umferðir en þá eru talin stig fyrir héruðin sem maður ræður yfir og einnig fær maður stig ef maður hefur náð meirihlutayfirráðum yfir einhverri af eyjunum. Bónusstig fást svo fyrir sum aðgerðaspilanna.

eightminuteempire02

Eight-Minute Empire: Legends: Eyjurnar sem barist er um

Eight-Minute Empire: Legends er svona klassískt spil sem maður getur eiginlega ekki gefið almennilega dóma eftir fyrstu spilun. Sum spil eru bara þannig að maður áttar sig ekki alveg á þeim fyrr en maður er búinn að spila tvisvar eða jafnvel oftar. En spilið er flott hannað og fallega skreytt, það á bara eftir að koma í ljós við framtíðarspilanir hvort það sé eitthvað varið í það.

eightminuteempire03

Aðgerðaspilin og eyjurnar.

Follow my blog with Bloglovin

Comments are closed.