La Boca

laboca01Fyrir 3-6 leikmenn, 8 ára og eldri.
Tekur 40 mínútur.


La Boca var eitt af spilunum sem Spiel des Jahres dómnefndin mælti með í aðdraganda verðlaunanna fyrir árið 2013.

Enskar reglur fyrir La Boca eru að finna hér.

Um spilið

laboca03La Boca er samvinnu- en samt um leið samkeppnisspil, en  hugmyndin að baki spilinu er sprottin út frá samnefndu hverfi Buenos Aires í Argentínu þar sem húsin í hverfinu eru máluð í mörgum mismunandi litum (sjá allt um það hér).

Leikmenn velja sér eina stóra skífu í lit að eigin vali og fá allir aðrir leikmenn litla skífu í lit hinna leikmannanna. Hver leikmaður tekur litlu skífurnar, snýr þeim á hvolf og ruglar þeim saman. Í sinni umferð dregur leikmaður eina litla skífu úr bunkanum fyrir framan sig og parar sig við þann leikmann sem á þann lit.  Leikmennirnir sitja svo andspænis hvor öðrum og staðsetja spilið á milli sín.  Spjald, sem sýnir hvernig La Boca á að líta út er svo sett upp á endann á spilaborðið.  Þessi spjöld eru tvíhliða, með mismunandi kubbauppröðun og litum á sitt hvorri hliðinni.  Það á hins vegar að vera hægt að raða kubbunum upp þannig að báðir fái út rétta útkomu miðað við það sem stendur sínum megin á spjaldinu.  En til þess verða leikmenn að vinna saman og reyna að lýsa fyrir hvor öðrum hvað þeir séu að reyna að byggja og hvaða liti þeir vilji, og vilji ekki, sjá.  Einnig er grundvallaratriði að notaðir séu allir kubbarnir, jafnvel þó þeir sjáist ekki á spjaldinu, en þá verður maður bara að reyna að fela þá. Grind á spilaborðinu sýnir svo innan hvaða ramma leikmenn verða að byggja, ekki má byggja út fyrir grindina.

laboca05

Svona líta byggingarnar út öðru megin …

laboca06

… og svona eru þær hinu megin

Áður en leikmennirnir byrja að byggja er klukkan sett í gang og fást stig eftir því hversu hratt þeim gengur að byggja.  Þegar þeir telja sig vera komna með rétta samsetningu stöðva þeir klukkuna og farið er yfir uppbygginguna.  Ef þeim hefur tekist verkið fá þeir stig miðað við hversu fljótt þeim tókst þetta, allt frá 10 stigum niður í 1.  10 stig fást ef leikmenn voru 15 sekúndur eða skemur að byggja, en 1 stig ef þeir voru allt frá 1:41 upp í 2 mínútur. Eftir 2 mínútur fást engin stig og þá allt eins hægt að hæta.  Ef villa er í byggingunni fá leikmennirnir engin stig.  Næsti leikmaður réttsælis snýr þá lítilli skífu við hjá sér og parar sig við annan leikmann.  Nýtt spjald er dregið og klukkan sett í gang.  Þannig gengur spilið þangað til allir hafa fengið að byggja tvisvar sinnum saman.  Þá eru stigin talin og sigurvegari fundinn.

laboca07

La Boca

Spilið skiptist í tvo erfiðleikaflokka, í þeim auðveldari eru notuð ljósu spilin en í flóknari eru notuð spilin með dekkri bakgrunn og bætist þá rauður L-laga kubbur í flóruna sem verður að byggja úr. Það getur hins vegar verið snúið að reyna að koma honum fyrir.

Hvað finnst mér?

La Boca er skemmtilega ferskur vinkill, einhverskonar samvinnu-púsl-þraut undir tímapressu. Spilið er litríkt, fjörugt, tekur stuttan tíma og hentar breiðum hópi. Mér hefur fundist La Boca einna best með fjórum leikmönnum. Ef sex eru að spila getur einn lent í því að spilað sé í fimm umferðir án þess að hann fái að gera. Einnig er vesen með svona stóran hóp að þurfa að vera að færa sig til í sætum. Fjórir finnst mér því vera langhentugasti fjöldinn. Einna skemmtilegast hefur mér einnig fundist að spila La Boca í lok spilakvölds eftir nokkra bjóra. Þá hefur nú aldeilis slegið í brýnu á milli annars samlyndra hjóna sem eru að reyna að koma til skila hvað sé verið að reyna að byggja þeirra megin borðsins  :tounge:

Það tekur örstutta stund að kenna spilið og um leið og fólk er komið í gírinn og búið að ná hvernig La Boca á að byggjast er hægt að byrja.

Niðurstaða

Mjög skemmtilegt og fjörugt fjölskyldu-/partýspil, en aðeins minna skemmtilegt með 5-6 leikmönnum.

star_goldstar_goldstar_goldstar_graystar_gray

(Upplýsingar um stjörnugjöf á síðunni)

Comments are closed.