Las Vegas

lasvegas1Fyrir 2-5 leikmenn, 8 ára og eldri.
Tekur 30 mínútur.


Gefið út af Ravensburger og Alea og er fáanlegt með enskum reglum.


Las Vegas var tilnefnt til Spiel des Jahres verðlaunanna árið 2012, en laut í lægra haldi fyrir Kingdom Builder.

Um spilið

Las Vegas gengur út á að vinna sem mestan pening í spilavítum, hvar annars staðar en í Las Vegas. Í upphafi spils eru lögð niður sex spilavíti númeruð frá einum upp í sex. Við hvert þessara spilavíta er lagður niður peningavinningur sem dreginn er úr bunka með mismunandi vinningum frá 10.000 dollurum upp í 90.000. Ef verðmæti vinnings sem dreginn er er undir 50.000 þá er dreginn annar vinningur til viðbótar. Þannig geta sum spilavítin verið með fyrsta, annan og jafnvel þriðja og fjórða vinning. Önnur eru þá kannski með einn vinning upp á 90.000. Þannig breytist verðmæti vinninga í spilavítunum í hverri umferð, en spilaðar eru fjórar umferðir.

lasvegas5

Las Vegas: Spilavítin tilbúin að taka á móti spilurum

Hver leikmaður fær átta teninga. Í sinni umferð kastar leikmaður sínum teningum og verður að úthluta einu teningasettinu á viðkomandi spilavíti.  Teningar sem upp hafa komið með tölunni 1 fara á spilavíti nr. 1 o.s.frv. Leikmaður verður alltaf að velja að setja teninga á eitt spilavíti, hversu illa sem honum líkar við það. Svona gengur þetta hring eftir hring, maður kastar teningunum og bætir einhverjum við á spilavíti. Þegar leikmennirnir hafa komið öllum sínum teningum fyrir er farið yfir hver hefur hlotið vinning í hvaða spilavíti. Aðalreglan er sú að sá sem er með flesta teninga á spilavíti hlýtur hæsta vinninginn og svo koll af kolli. Ef einhverjir leikmenn eru hins vegar með jafn marga teninga á spilavíti þá fær hvorugur þeirra vinning. Þannig geta leikmenn skemmt fyrir öðrum, bæði viljandi og óviljandi, þar sem reglan er sú að leikmaður verður alltaf að setja tening (eða teninga) á spilavíti hvort sem honum líkar betur eða verr. Eins verða allir teningar með sömu tölu að fara á spilavíti, ekki er leyfilegt að halda einhverjum eftir. Nýir vinningar eru svo settir á spilavítin eftir að búið er að skipta á milli leikmanna. Svona gengur þetta í fjórar umferðir og eftir þær eru vinningar taldir saman. Sá sem hefur unnið mest í spilavítunum vinnur leikinn. Í reglunum er viðbótarregla fyrir 2-4 leikmenn, ef menn vilja.  Þá fá allir auka teninga í lit sem ekki er verið að nota og mega staðsetja hann eins og aðra teninga.  Vinningarnir sem nást á þennan lit eru svo bara settir neðst í vinningabunkann þannig að enginn fær þá.

lasvegas7

Las Vegas: Vinningarnir

Hvað finnst mér?

Las Vegas er mjög einfalt. Þú bara kastar teningum og reynir að staðsetja þá þannig að þú fáir sem mestan pening. Spilið gengur því mikið út á heppni og hentar kannski ekki öllum. Það er erfitt að reyna að spila Las Vegas með einhverri strategíu, maður verður bara að láta kylfu ráða (teninga)kasti.  Það sem reddar spilinu að mínu mati er reglan sem segir að jafnmargir teningar núllist út.  Hún getur nefnilega verið jafn skemmtileg og hún er leiðinleg, ef maður lendir í henni sjálfur.  En það er nú það sem gerir spilið aðeins meira spennandi.

Niðurstaða

Fínt, létt fjölskylduspil sem hentar mjög breiðum aldurshópi. Ekki vænta einhverrar djúprar strategíu … þetta gengur út á stutta, létt og umfram allt skemmtilega samkeppni.