Love Letter

* er fyrir 2-4 leikmenn, 10 ára og eldri
* tekur 20 mínútur

Um spilið

Love Letter kom út síðla árs 2012 og er hannað af Seiji Kanai, sem er japanskur spilahönnuður.  Til eru tvær meginútgáfur af spilinu, ein gefin út af Japon Brand og inniheldur myndskreytingar í japönskum anime stíl og svo er önnur frá Alderac Entertainment Group (AEG) sem er myndskreytt í takt við Tempest spilaseríuna frá þeim.  Útgáfan sem ég á er frá AEG, kemur í litlum taupoka og inniheldur 16 persónuspil og nokkra rauða kubba sem eiga að vera einhverskonar væntumþykjutákn (tokens of affection). Í Love Letter eiga leikmenn að reyna að koma ástarbréfi til Annette prinsessu í hverri umferð og vinna sér inn væntumþykjutákn.  Sá sem fyrst nær ákveðið mörgum táknum vinnur hug hennar og hjarta og þar með spilið.  Það er gert með því að enda í hverri umferð með hæsta persónuspilið á hendi, þ.e. með þá persónu sem næst stendur prinsessunni í hirðinni, en öll spilin eru númeruð frá 1 upp í 8.  Að auki er hægt að vinna umferðina með því að útiloka aðra leikmenn.

loveletter3

Love Letter: Prinsessan sjálf

Í upphafi fá leikmenn eitt persónuspil á hendi.  Í sinni umferð dregur leikmaður eitt persónuspil úr sameiginlegum bunka og ákveður hvort spilið hann ætli að nota og hvort þeirra hann ætli að geyma.  Spilin eru notuð með því að leggja þau niður á borðið og framkvæma það sem á spilinu stendur.  Persónurnar gera margt misjafnt og þurfa leikmenn að reyna að beita útsjónasemi til að annað hvort enda með hæsta spilið á hendi eða ná að útiloka alla aðra leikmenn. Hægt er að útiloka leikmenn á nokkra vegu, t.d. með því að nota vörðinn (Guard) sem leyfir manni að giska á hvaða persónuspil annar leikmaður er með.  Ef maður hefur rétt fyrir sér þá er sá hinn sami úr umferð.

Hvað finnst mér?

Love Letter er mjög einfalt spil.  Fólk getur farið að spila það nánast án útskýringa enda stendur á spilunum hvað hver persóna gerir.  Það eina sem tekur smá tíma að læra inn á er hvaða persónur eru við hirðina og hversu margar eru af hverri þeirra.  Það sem hjálpar til í því er samantektarspjald sem allir leikmenn fá í byrjun.  En þó spilið sé mjög einfalt getur verið snúið að ná að vinna.  Heppni getur spilað stóra rullu þar sem maður getur lent í því að draga mjög gott persónuspil trekk í trekk.  Svo er ekki endilega gott að lenda í því að fá snemma á hendi mjög hátt spil.  Þá vandast nefnilega málið því að halda því leyndu fyrir öðrum og sitja á því spili þar til yfir lýkur er hægara sagt en gert.

loveletter4

Love Letter: Presturinn, Baróninn og Greifynjan

Spilið hentar vel tveimur til fjórum en við höfum reyndar spilað það átta saman í fjórum tveggja manna liðum án vandræða.  Það hefur samt aðeins átt það til að dragast á langinn í fjögurra manna spili þar sem einhver einn þarf að safna fjórum væntumþykjutáknum til að vinna og ef fólk er lengi að ákveða sig í sinni umferð þá getur það virkað langdregið á köflum, sérstaklega fyrir þá sem detta út snemma í umferðinni.  En hver umferð á ekki að þurfa að taka langan tíma, enda eru bara 11 persónuspil að draga í fjögurra manna spili.

Niðurstaða

Love Letter er mjög gott spil og get ég mælt með því fyrir alla sem hafa gaman af blöffspilum.  Love Letter er í augnablikinu eitt af mínum uppáhalds stuttu uppfyllingarspilum, mjög meðfærilegt og hægt að spila nánast hvar sem er við hvern sem er.

star_goldstar_goldstar_goldstar_goldstar_half
(Upplýsingar um stjörnugjöf á síðunni)

One thought on “Love Letter

  1. Pingback: Loksins áhugavert íslenskt spil? | Borðspil.is