Modern Art

modernart01Fyrir 3-5 leikmenn, 10 ára og eldri.
Tekur 45 mínútur.


Modern Art var tilnefnt til Spiel des Jahres verðlaunanna árið 1993.


Modern Art er fáanlegt í útgáfu frá Mayfair með enskum reglum.

Um spilið

modernart_gamalModern Art var hannað af einum af þekktari borðspilahönnuðum þessa heims, Reiner Knizia.  Hann hefur gefið út yfir 500 borðspil og bækur samkvæmt Wikipedia, sem selst hafa í yfir 13 milljónum eintaka.  Reiner Knizia er prófessor í stærðfræði og sat um tíma í stjórn stórs alþjóðlegs banka.  Spilin hans ganga mörg hver út á að vinna með tölur.  Modern Art er eitt þriggja spila sem skipa uppboðsþríleik Knizia, en hin spilin eru Ra og Medici.  Eintakið sem ég á er gefið út af Matagot en ég hef séð í sölu hér heima útgáfu frá Mayfair sem er aðeins öðruvísi útlítandi eins og sést hér til hliðar.  Í Modern Art eru leikmenn í hlutverki listaverkasafnara og uppboðshaldara sem reyna að græða sem mest á því að bjóða upp og kaupa listaverk. Modern Art samanstendur af 70 spilum sem sýna listaverk eftir fimm mismunandi listamenn: Nex, Bahut, Sadland, Darmoir og Koriko.  Spilaborðið sýnir nokkurs konar töflu þar sem haldið er utan um hvaða listamenn hafa verið vinsælastir í hverri umferð og á hvaða verði listaverkin þeirra seljast.

modernart04

Modern Art: Verðmætataflan þar sem haldið er utanum listaverkaverðið

Í upphafi fá leikmenn ákveðið mörg listaverkaspil á hendi, t.d. níu í fjögurra manna spili.  Modern Art gengur í fjórar árstíðir og í hverri árstíð skiptast leikmenn á að bjóða upp listaverk af hendi.  Tákn á spilunum sýna svo hvaða aðferð skuli nota við uppboð á viðkomandi spili.  Þannig getur uppboðshaldarinn t.d. ákveðið verð á verki og fyrsti leikmaðurinn réttsælis frá honum má kaupa verkið á þessu verði.  Svo er önnur aðferð þar sem allir keppast um að bjóða og þriðja aðferðin virkar þannig að allir leikmenn bjóða í leyni með því að setja þá upphæð sem þeir vilja eyða í lokaðan hnefa og allir sýna á sömu stundu.  Uppboðshaldarinn getur alltaf tekið þátt og keypt verkið sjálfur.  Hann borgar þá bara bankanum upphæðina.  Leikmenn skiptast á að bjóða upp listaverk og kaupa þangað til fimmta listaverkið eftir einn listamann er sett á uppboð.  Þá endar umferðin strax og farið er yfir hvaða þrír listamenn voru vinsælastir þá umferðina.  Listaverk eftir þann vinsælasta seljast þá á 30.000 evrur, verk eftir þann í öðru sæti seljast á 20.000 evrur og 10.000 fást fyrir listaverk þriðja vinsælasta listamannsins.  Verk eftir aðra seljast ekki.  Leikmenn selja þá þau verk sem þeir hafa keypt á uppboðinu og fá ný listaverk á hendi til að geta sett á uppboð í næstu umferð.

modernart03

Modern Art: Mismunandi uppboðsaðferðir merktar á listaverkaspilunum

Svona eru spilaðar fjórar umferðir og verð á listaverkum listamannanna fara hækkandi eftir því sem þeir ná að vera í einhverjum af þremur efstu sætunum á vinsældarlistanum.  Þannig er dýrasta verkið í fyrstu umferð 30.000 evra virði en ef sá listamaður hefur verið vinsælastur allar fjórar árstíðirnar þá fara verk eftir hann á 120.000 evrur eftir síðustu umferðina (4 x 30.000).  Sá leikmaður sem hefur náð að sanka að sér mestum pening vinnur svo spilið.

Hvað finnst mér?

modernart06

Modern Art: Söluverð komið á flest listaverkin

Modern Art var eitt af þessum spilum sem ég var búinn að vita af í góðan tíma en einhvern veginn fannst mér það fráhrindandi.  Ég hugsa að það hafi að hluta til verið vegna þess að sú útgáfa sem fæst hér heima var ekki að grípa mig útlitslega séð, enda hönnunin á kassanum frekar óspennandi.  Spilið er hins vegar virkilega gott og sniðugt.  Það getur verið svolítið snúið að útskýra spilið þannig að fólk átti sig á því út á hvað það gengur.  En strax eftir fyrstu umferðina ætti fólk að vera búið að sjá hvernig spilið virkar og þá fer það að geta spilað með einhverri strategíu.  Annars er mjög erfitt að ákveða strategíu og fylgja henni eftir í spilinu.  Vinsældir listamannanna eru nefnilega svo breytilegar, allt eftir því hvaða listaverk eru boðin upp. Því er spilið meira taktískt, þ.e. þú verður að bregðast stöðugt við því hvaða listaverk hinir leikmennirnir bjóða upp og vera tilbúinn að breyta um taktík, ef einhver er.  Það er reyndar eitt af því sem heillar mig við spilið, þessi breytileiki og það að þurfa stöðugt að vera að meta hversu hátt maður eigi að bjóða í ákveðin listaverk.  Maður vill alls ekki eyða of miklu í eitt verk því lokaverðmætið gæti tekið breytingum.  Hins vegar vill maður oft alls ekki missa listaverk frá sér til að eiga möguleika á einhverjum gróða.

Niðurstaða

Modern Art er mjög gott spil.  Ekki láta dauðyflislega hönnun á útgáfunni sem er seld hér blekkja þig. Spilunin er lífleg og spennandi og það er nú aðalatriðið.

[scrollGallery id=57 autoScroll=false thumbsdown=true imagearea=“imgarea“]

One thought on “Modern Art

  1. Pingback: Indigo | Borðspil.is