Mysterium (Tajemnicze Domostwo) ★★★★⋆

Fyrir 2-7 leikmenn, 8 ára og eldri.
Tekur 30-60 mínútur.


Mysterium heitir á frummálinu Tajemnicze Domostwo, en spilið er hannað af tveimur Úkraínumönnum og var upphaflega gefið út á úkraínsku og pólsku.

Von er á enskri útgáfu síðla árs 2015, en það mun vera útgáfufyrirtækið Libellud sem stefnir að því að gefa spilið út.


Enskar reglur fyrir Mysterium (þýðing á pólsku útgáfunni) eru að finna hér.

Um spilið

Sagan á bak við Mysterium er sú að fyrir 100 árum var fyrrum eigandi hefðarseturs tekinn af lífi fyrir glæp sem hann framdi ekki. Sérfræðingar í hinu yfirnáttúrulega (miðlum) hefur verið stefnt saman á hefðarsetrið til að reyna að komast að hinu eina sanna, þannig að hefðarseturseigandinn fyrrverandi fái hvíldina sem hann svo þráir. Miðlarnir hafa sjö nætur til að komast að því hver raunverulega framdi glæpinn og vinna því saman að því að leysa heildargátuna, þó þeir þurfi fyrst að byrja á því að leysa sinn hluta.

mysterium04

Fjórir grunaðir

Í upphafi spilsins er ákveðið mörgum aðilum (grunuðum) raðað upp á borðið eftir fjölda leikmanna. Það sama á við um hugsanlegar staðsetningar og morðvopn. Þannig eru 8 aðilar, 8 staðsetningar og 8 morðvopn í auðveldustu útgáfunni af 6 manna spili. Í þeirri erfiðustu eru 11 stykki af hverju í 6 manna spilinu.

Einn leikmaður tekur að sér að vera draugur gamla hefðarseturseigandans á meðan hinir eru í hlutverki miðlanna. Einn grunaður, ein staðsetning og eitt morðvopn eru valin af handahófi fyrir hvern leikmann sem aðeins draugurinn fær að sjá. Draugurinn dregur á hendi sjö draumaspil sem eru fallega myndskreytt spil og sýna mörg hver ansi skrautlegar myndir og tákn.

mysterium05

Fjórar hugsanlegar staðsetningar

Draugurinn velur eitt eða fleiri spil sem honum finnst gefa til kynna hverju viðkomandi miðill ætti að vera að leita að. Allir miðlarnir fá vísbendingu og eiga svo að giska á hvað það er sem draugurinn er að reyna að koma á framfæri. Fyrst reyna miðlarnir að komast að því hvar glæpurinn var framinn, svo hvaða aðili er grunaður og að lokum morðvopnið. Hver miðill þarf því að leysa sína gátu, en getur fengið aðstoð hinna miðlanna ef hann kýs að gera það. Þeir verða þannig að reyna að túlka draumana sem þá dreymdi um nóttina. Grundvallarreglan er svo sú að draugurinn má alls ekki tjá sig neitt um það sem hann er að senda miðlunum, eins og t.d.: „Þetta er nú það skásta sem ég gat fundið, en er samt alls ekki gott“. Draugurinn tjáir sig bara í gegnum draumaspilin.

Þegar allir hafa giskað á eina staðsetningu lætur draugurinn miðlana vita hverjir hafi haft rétt fyrir sér og hverjir höfðu rangt fyrir sér. Þá er ein nótt liðin og draugurinn gefur miðlunum vísbendingar í formi drauma fyrir næstu nótt. Ef miðlunum tekst ekki að leysa sína ráðgátu fyrir sjöundu nóttina þá tapa allir leikmennirnir og draugurinn fær ekki að hvíla í friði.

mysterium07

Hvert er rétta morðvopnið?

Ef miðlunum tekst hins vegar öllum að leysa sínar ráðgátur reyna þeir í sameiningu að komast að því hver hinna grunuðu var raunverulegur morðingi. Það er gert þannig að draugurinn velur einn af hinum grunuðu og ákveður að sá aðili sé morðinginn. Síðan dreifir hann myndunum af þessum sem voru grunaðir og gefur vísbendingar í formi draumaspjalda um hver hinn eini sanni morðingi sé. Þannig verða miðlarnir að komast að sameiginlegri niðurstöðu um hver framdi glæpinn. Ef þeim tekst að leysa gátuna innan tímarammans sem eftir er af þessum sjö upphaflegu nóttum, vinna allir spilið. Annars tapa allir og draugurinn fær ekki þá ró sem hann sóttist eftir.

mysterium06

Þrjú draumaspil

Hvað finnst mér?

Það er ýmislegt sem Mysterium hefur með sér. Spilið byggir á mjög einfaldri hugmynd: taktu vísbendinguna sem þú fékkst og reyndu að átta þig á hvað draugurinn er að reyna að segja þér. Það getur hins vegar reynst mikið heilabrot að finna út hvað draugurinn var í raun og veru að meina með því að senda þér ákveðinn draum. Er það litaþemað á draumaspilinu, andrúmsloftið, hringlaga táknið í vinstra horninu o.s.frv. Svo getur allt eins verið að það sem draugurinn er að sjá á draumaspilinu sé bara alls ekki það sem þú sérð út úr því. Eins getur sú staða komið upp að draugurinn sé að velja það skásta í stöðunni og litlar sem engar líkur séu á því að miðillinn nái nokkru lógísku út úr því.

mysterium004

Draumaspilið vinstra megin: Hvora staðsetninguna er draugurinn að gefa vísbendingu um?

Það getur því verið þrautinni þyngra að vera draugurinn í Mysterium. Á honum hvílir heilmikil ábyrgð á því hvernig heildarupplifunin verður. Ef hann er lengi að velja draumaspil getur það dregið spilið niður. Hugmyndaríkur draugur og fólk sem lifir sig inn í miðilshlutverkið getur svo lyft Mysterium upp.

HVAÐ ER GOTT:

⇑ Hægt er að spila Mysterium með allt að sjö leikmönnum.
⇑ Mysterium er mjög einfalt og hentar breiðum hópi, allt frá börnum upp í gamalmenni.
⇑ Miklar rökræður og þrætur geta myndast þegar miðlarnir eru ekki sammála um hvað það er sem draugurinn er að reyna að „segja“. Þetta tel ég kost þar sem samskipti milli leikmanna geta verið mikil og oft á tíðum stórskemmtileg.

HVAÐ ER EKKI SVO GOTT:

⇓ Það getur reynst erfitt að vera draugurinn og spilið stendur og fellur með því hversu „góður“ og fljótur draugurinn er að koma draumunum til miðlanna.
⇓ Að setja spilið upp er svolítið föndur, þ.e. að stilla öllu upp og finna til alla þá grunuðu, staðsetningarnar og morðvopnin.
⇓ Eftir að spila spilið oft með sama fólkinu fer maður að læra inn á hvaða draumaspjöld fólk notar fyrir ákveðna aðila, staði eða morðvopn. Þannig er ekki víst að spilið þoli fjölmargar endurteknar spilanir með sama fólkinu.


Niðurstaða

Mysterium er stórskemmtilegt selskapsspil og hefur rutt Dixit úr rúmi sem spilið sem ég dreg fram í fjölskyldumatarboðum á þessu heimili. Við erum búin að spila Mysterium oft á síðustu mánuðum við breiðan aldurshóp og hafa nánast allir sem við spiluðum það við skemmt sér mjög vel. Ef þú hefur hins vegar ekki gaman af Dixit og svona ágiskunarspilum yfir höfuð, þá skaltu halda þig frá Mysterium.

star_goldstar_goldstar_goldstar_graystar_gray

(Upplýsingar um stjörnugjöf á síðunni)

Comments are closed.