Noah

noah_cover* er fyrir 2-5 leikmenn, 8 ára og eldri
* tekur 30 mínútur

Um spilið

Stundum þarf spil ekki að vera stórt og dýrt til að vera gott.  Noah er gott dæmi um þetta. Noah samanstendur af litlu leikborði, þar sem er mynd af fimm bryggjum, átta ferjuspilum, Nóa-tákni og 47 dýraspilum.  Dýraspilin eru með myndum af mismunandi dýrum sem eru annað hvort karl- eða kvenkyns og svo ákveðið mörg kíló að þyngd.  Einnig eru á dýraspilunum mismunandi mörg tára-tákn sem telja sem mínusstig í lok hverrar umferðar, ef maður nær ekki að losa sig við viðkomandi dýr.  Markmið spilsins er að fá sem fæst mínusstig þegar búið er að koma flestum dýrunum á ferjur og út í örkina.  Spilin segja einnig til um á hvaða bryggju leikmaður má færa Nóa, þannig að næsti leikmaður verður að setja dýr í ferjuna sem liggur að þeirri bryggju sem Nói færir sig á.

noah_6

Læða, kvenkyns asni og kengúra

Gangur spilsins

Fimm ferjur bíða við bryggju eftir því að leikmenn raði dýrum í ferjurnar og sendi þær svo af stað til arkarinnar.  Í upphafi er eitt dýr af handahófi sett í hverja ferju.  Til að bæta við dýrum á ferjurnar verður að hlíta eftirfarandi reglum: dýrin í ferjunni verða að raðast annað hvort karl-kona-karl (eða kona-karl-kona) eða vera öll af sama kyni.  Einnig verður að passa að samanlögð heildarþyngd dýranna í hverri ferju fari ekki yfir 21 kíló.  Þegar búið er að setja dýr um borð er Nói svo færður til eftir því sem táknið á spilinu, sem síðast var lagt niður, gefur til kynna.  Um leið og ferja er fullhlaðin (akkúrat 21 kíló) þá leggur hún af stað til móts við örkina og ný ferja kemur í staðinn.  Þegar leikmaður hefur losað sig við öll sín dýr, eða fjórða ferjan er fullhlaðin, lýkur þeirri umferð spilsins og hinir leikmennirnir telja saman hversu marga mínuspunkta þeir hljóta (tára-tákn á spilum sem enn eru eftir á hendi).  Eftir þrjár umferðir er svo sigurvegarinn sá sem hefur hlotið fæst mínusstig.

noah_7

Spætan: heildarþyngd má ekki fara yfir 13 kíló

Nokkur dýranna eru gædd ákveðnum hæfileikum sem leikmenn fá að njóta, nái þeir að koma þeim um borð í ferju.  Þannig fær sá leikmaður sem losaði sig við gírafann að skoða öll spil á hendi einhvers annars leikmanns.  Ljónið og ljónynjan leyfa leikmanni að draga spil af hendi annars leikmanns og láta hann hafa annað spil á móti (eða skila því sem hann dró ef honum líst illa á það spil).  Asninn er síðan svo þrjóskur að við það að spila honum út færist Nói ekki yfir á aðra bryggju.  Spætan gerir gat á skrokk ferjunnar þannig að hún heldur ekki nema 13 kílóum.

Hvað finnst mér?

Noah hefur verið þó nokkuð spilað á heimilinu síðan það bættist í safnið.  Við höfum spilað Noah tveggja til þriggja manna og virkar það mjög vel fyrir þann fjölda.  Noah er mjög gott og einfalt fjölskylduspil.  Það býður upp á nokkra strategíu, maður getur oft á tíðum komið næsta leikmanni í klandur með því að ná að færa Nóa á ferju sem maður veit að erfitt verður að bæta við.  Svo er spilið líka ágætis æfing fyrir börn (og fullorðna) í samlagningu og frádrætti.

Niðurstaða

Í það heila er Noah fallegt og fyrirferðalítið fjölskylduspil sem óhætt er að mæla með.

 

 

Comments are closed.