Ný spil ► Spiel 2015 (2. hluti)

Enn er dágóður slatti af frambærilegum spilum á Spiel 2015 listanum á Boardgamegeek.  Hér eru fjögur spil til viðbótar sem ég hef augastað á og ætla mér að skoða enn frekar þegar til Essen er komið. Fyrsta hluta listans má sjá hér.

PortaNigraPorta Nigra

Porta Nigra er nýjasta afurð hönnuðardúettsins Michael Kiesling og Wolfgang Kramer, en þeir hafa m.a. hannað spil eins og Coal Baron, Linko (Abluxxen), The Palaces of Carrara og Torres svo fá ein séu nefnd. Porta Nigra er svo myndskreytt af Michael Menzel en hann á heiðurinn af mörgun spilamyndskreytingum m.a. á Bruges og The Pillars of the Earth, ásamt því að hafa sjálfur hannað spilið The Legends of Andor.

Porta Nigra, eða Svarta Hliðið eins og það gæti heitið í íslenskri þýðingu, gerist á tímum Rómverja til forna þar sem leikmenn eru í hlutverki arkitekta sem eru að byggja svarta hliðið. Myndirnar sem ég hef séð af þessu spili eru áhugaverðar og lofa góðu, alltaf gaman að einhverju sem maður byggir upp. Minnir að vissu leyti á Torres. Vona bara að mér líki betur við þetta spil heldur en The Palaces of Carrara sem þeir kumpánar hönnuðu líka saman, hef ekki alveg náð að tengja við það.

PortaNigra_2


TheGalleristThe Gallerist

The Gallerist er nýjasta spilið frá Vital Lacerda, en hann hannaði spil eins og Vinhos, CO2, og Kanban: Automotive Revolution, en það eru allt spil í þyngri kantinum.

Eftir því sem ég kemst næst þá fellur The Gallerist í svipaðan þyngdarflokk og fyrri spil þessa ágæta hönnuðar. Leikmenn eru galleríeigendur og eiga að kaupa, sýna og selja listaverk, allt til þess að græða sem mesta peninga.

Þar sem frúin mín er nú listfræðingur sé ég alveg fyrir mér að fá hana til að spila þetta með mér.

Hér má sjá myndband þar sem einn af ákafari borðspilaáhugamönnum á Boardgamegeek fer yfir spilið og gefur því umsögn:

[embedyt]https://www.youtube.com/watch?v=hnLhyIHU7p0[/embedyt]

TheGallerist_2

The Gallerist


NipponNippon

Nippon er nýjasta spilið sem útgáfufyrirtækið What’s Your Game? gefur út en þeir gáfu í fyrra út spilið ZhanGuo og árið þar áður gáfu þeir út Madeira sem hlaut eindæma góða umfjöllun.

Nippon gerist á tímum Meiji keisaraveldisins í Japan þegar þar var ákveðið að reyna að breyta ríkinu í átt til vestrænna hátta. Keisaraveldið sendir sendiboða til erlendra ríkja, ræður verkfræðinga og fræðimenn til landsins úr vestri, byggir upp lestarkerfi, fjárfestir í menntakerfinu og kemur iðnaðarbyltingunni af stað á örskömmum tíma.

Leikmenn stýra hver sínum Zaibatsu, sem eru viðskiptasamsteypur með mikil ítök í japanska efnahagnum. Markmiðið er að ná enn frekari völdum með fjárfestingum og öðru valdabrölti. Nippon lítur út fyrir að vera þungavigtarefnahagsspil af bestu gerð, eitthvað sem ég verð eiginlega að prófa á Spiel. Það er örugglega ekki hægt að bjóða hverjum sem er í spilakvöld með Nippon.

nippon_2


ShakespeareShakespeare

Shakespeare er útgefið af Ystari Games, en sú ágæta franska útgáfa á heiðurinn af mörgum ansi hreint ágætum spilum eins og Spyrium, MyrmesYspahan og Prosperity. Nú eru það leikhúsin í London sem eru sögusviðið. Innan viku mun hennar hátign drottningin af Englandi mæta á leiksýningu og styrkja þann farandleikahóp sem henni líst best á.

Leikmennirnir taka að sér að vera leikhússtjórar sem þurfa að ráða m.a. leikara, leikmynda- og skartgripasmiði og klæðskera til að ná að setja á svið hina bestu sýningu á þeim sex dögum sem eru til stefnu.

Mér líst ansi vel á þetta spil, skemmtileg hugmynd og fallega hannað. Mig grunar samt að það sé kannski of líkt Drum Roll þar sem leikmenn eru sirkusstjórar og eiga að setja upp flotta sýningu (ráða listamenn o.s.frv.) … kemur í ljós.

shakespear_2shakespear_3

 

Comments are closed.