Ný spil ► Spiel 2015 (4. hluti)

Nýjasta útgáfan frá þýska spilaútgefandanum HABA, eða Habermaaß GmbH eins og hann heitir á frummálinu, á hug minn allan í þessari færslu, sem á upptök sín í Spiel 2015 listanum á Boardgamegeek.  Nú fer að styttast allverulega í þennan mikla viðburð og fjögur ný spil frá HABA hafa vakið áhuga minn. Hingað til hefur HABA einbeitt sér að yngri meðlimum fjölskyldunnar í sinni framleiðslu, sem hefur einkennst af gullituðum kössum. Nú virðist vera komin ný stefna hjá útgefandanum, þrjú ný fjölskylduspil verða í boði á Spiel (ekki í gulum kössum), ásamt fullt af barnaspilum í gulum kössum. Ekki sakar að HABA hefur fengið til liðs við sig mikils metna borðspilahönnuði til að hanna spilin í nýju línunni. Fyrir áhugasama eru hér færslur úr fyrri hlutum þessarar Spiel 2015 seríu: 1. hluti, 2. hluti og 3. hluti.

AdventurelandAdventure Land

Fyrsta spilið af þessum nýju HABA spilum er Adventure Land (2-4 leikmenn, 10 ára og eldri). Spilið er hannað af hönnunardúóinu Michael Kiesling og Wolfgang Kramer en þeir félagarnir hafa hannað saman nokkur prýðileg spili eins og Coal Baron, Tikal, Torres og svo Porta Nigra sem verður einnig gefið út á Spiel 2015.

Lýsingin á spilinu er nú ekki neitt sérstaklega ítarleg, en svo virðist sem leikmenn séu ævintýragjarnar hetjur sem þurfi að berjast m.a. við einhverjar verur sem leynast í þokunni sem umkringir ánna til að hljóta viðurkenningu frá kónginum í þessari ævintýraveröld sem Adventure Land er. Gaman verður að sjá hvernig HABA ásamt Kramer og Kiesling tekst til með þetta spil.

Adventureland_2

Hér er kynningarmyndband um Adventure Land frá W. Eric Martin á Boardgamegeek:

[embedyt]http://www.youtube.com/watch?v=yqx3xsj8SXo[/embedyt]


KarubaKaruba

Karuba (2-4 leikmenn, 8 ára og eldri) er næsta áhugaverða HABA spilið, hannað af Rüdiger Dorn sem á m.a. heiðurinn af Las Vegas, Istanbul og Il Vecchio.

Í Karuba eru leikmenn leiðangursmenn í leit að fjársjóði á eyjunni Karuba. Leikmenn þurfa að keppa sín á milli um hver verður fyrstur til að rata bestu leiðina í gegnum frumskóginn og finna gull og gersemar á leiðinni.

Karuba lítur út fyrir að vera sniðugt fjölskylduspil og verður gaman að prófa þetta í Essen.

Karuba_2

Hér er kynningarmyndband um Karuba frá W. Eric Martin á Boardgamegeek:

[embedyt]https://www.youtube.com/watch?v=5ywDrJpfxLg[/embedyt]


SpookiesSpookies

Spookies (2-5 leikmenn, 8 ára og eldri) er svo þriðja spilið í þessari nýju línu frá HABA. Spilið er hannað af Stefan Kloß sem hannaði Beasty Bar, en það ku vera ágætisspil. Spookies er svo myndskreytt af hinum vel þekkta Michael Menzel, en hann hefur myndskreytt fjöldann allan af flottum spilum.

Í Spookies eru leikmenn að reyna að leiðbeina fjórum vinum ásamt hundi (besta vininum) upp á estu hæð draugahúss. Spilið byggir mikið á teningakasti og því að taka áhættur (eða ekki) eftir því sem ég best fæ séð. Leikmenn safna Spookies-skífum eftir því hvernig þeim tekst upp í teningakastinu. Gæti virkað vel fyrir yngsta meðlim fjölskyldunnar :)

Spookies_2

Hér er kynningarmyndband um Spookies frá W. Eric Martin á Boardgamegeek:

[embedyt]https://www.youtube.com/watch?v=wgvISJhv6pE[/embedyt]


DerShatzDer Schatz der 13 Inseln

Síðasta spilið sem ég tel upp sem áhugavert frá HABA þetta árið er svo eitt klassískt gulukassaspil, Der Schatz der 13 Inseln. Þetta spil virðist vera voða mikið spectacle, þ.e.a.s. mikið fyrir augað. Leikmenn ferðast á milli 13 eyja á loftskipum og leita að fjársjóði.

Ég er að hugsa um að skoða þetta aðeins betur í Essen, við fyrstu sýn virðist spilið flott en kannski er ekki allt gull sem glóir. Síðast þegar ég var í Essen keypti ég stórt og mikið HABA spil sem heitir Nacht der magischen Schatten (Shadow Magic) og mikið var verið að kynna þar. Þetta var voða fjarskafallegt spil, stór sviðsmynd úr ævintýraskógi, vasaljós og skuggaverur. Málið var svo bara að uppsetningin og spilunin var svo mikið maus að við nenntum aldrei að spila þetta. Vonandi er Der Schatz der 13 Inseln ekki eins og skógarskugginn, verð alla vega að prófa áður en ég kaupi.

DerShatz_2

Comments are closed.