Ný spil ► Spiel 2015 (5. hluti)

Nú er Spiel 2015 alveg að bresta á og einungis nokkrir klukkutímar til stefnu til að kanna hvað þarf að skoða. Spiel 2015 listinn á Boardgamegeek er hættur að lengjast og fleiri og fleiri eru farnir að birta lista yfir hvað þeim þykir áhugaverðast. Tom Vasel og félagar hjá The Dice Tower eru búnir að birta fimm myndbönd þar sem þeir fara yfir 100 áhugaverðustu spilin á Spiel 2015 að þeirra mati (sjá: http://www.dicetower.com/game-video/essen-spiel-2015-games-preview-part-15). Sjálfur er ég búinn að liggja yfir þessu og skipuleggja eins og sést á myndinni hér fyrir neðan.

yfirlit

Skipulagið fyrir Spiel 2015

Fyrir áhugasama eru svo hér færslur úr fyrri hlutum þessarar Spiel 2015 seríu minnar: 1. hluti2. hluti3. hluti og 4. hluti.

grand_austria_hotel01Grand Austria Hotel

Til að hanna Grand Austria Hotel sameinuðust tveir spilahönnuðir, þeir Simone Luciani sem hannaði m.a. Dungeon Bazar og Tzolk’in: The Mayan Calendar og Virginio Gigli sem hannaði m.a. Egizia. Grand Austria Hotel er myndskreytt af Klemens Franz, en hann myndskreytti m.a. Agricola, Luna, Pergamon og PAX svo fá ein séu nefnd.

Leikmenn reka lítil kaffihús í Vín sem keppa um viðskiptavini. Vegna aukinna umsvifa í borginni vinna leikmenn að því að stækka kaffihúsin sín og breyta þeim í heimsklassa hótel. Leikmenn þurfa að ráða starfsfólk, uppfylla þarfir gestanna og hljóta náð fyrir augum keisarans. Aðeins að þessu öllu uppfylltu öðlast þeir þann heiður að reka besta hótelið í Austurríki, Grand Austria Hotel.

Notaðir eru teningar sem upphafsleikmaðurinn kastar og raðar á viðeigandi aðgerðareiti. Í sinni umferð fær leikmaður að velja eina af sex aðgerðum sem í boði eru. Að auki eru einhver gesta- og starfsmannaspil sem þarf að hafa í huga og nota gáfulega.

Mér líst nokkuð vel á þetta spil, myndskreytingarnar eru litríkar og skemmtilegar og hugmyndin hljómar vel. Teningar til að velja aðgerðir eru svo sem ekkert nýtt (sbr. til að mynda Bora Bora) en spurning hvernig framkvæmdin er í þessu. Grand Austria Hotel er alla vega á „áhugaverða listanum“.

grand_austria_hotel02


hausdersonne01Haus der Sonne

Hér er svo komið enn eitt tveggja manna spilið, núna frá sama útgáfufyrirtæki og gaf út Terra Mystica, en það sló í gegn þegar það var gefið út á Spiel 2012. Haus der Sonne verður reyndar aðeins gefið út á þýsku fyrst um sinn, ef mér skjátlast ekki, en þar sem spilið virðist algerlega tungumálaóháð þá er ég nú samt að hugsa um að kippa einu með.

Í spilinu eru leikmenn að byggja súlur í fjallshlíðum eldfjalls á lítilli eyju. Súlurnar eru reistar til heiðurs guðanna og er markmiðið að reyna að koma af stað eldgosi sem muni eyðileggja súlur hins leikmannsins.

Leikmenn spila út númeruðum skífum (frá 1 upp í 5) og færa skip réttsælis í kringum eyjuna. Aðeins er hægt að byggja (eða kaupa bónusspil) úr þeim geira þar sem skipið er staðsett.

Haus des Sonne lítur ansi vel út og vonandi verður einhver fljótur til að þýða þýsku reglurnar yfir á ensku og hlaða þeim upp á Boardgamegeek.

hausdersonne02


perfect_alibi01Perfect Alibi

Perfect Alibi er nýjasta spilið frá Kristian Amundsen Østby, Norðmanninum knáa sem hannaði Escape: The Curse of the Temple og Doodle City.

Perfect Alibi gerist um borð í skipi þar sem maður hefur fundist látinn og svo virðist sem allir farþegarnir hafi fjarvistasönnun og enginn augljós sökudólgur. Sem betur fer eru nokkrir sérfræðingar um borð sem eru tilbúnir til að hjálpa við lausn málsins, en spurningin er hvort þeim sé í raun treystandi. Með vel völdum spurningum og góðri ályktunargáfu gæti þeim tekist að leysa málið og fletta hulunni af morðingjanum.

Perfect Alibi er mjög áhugavert spil, ég hef alltaf svolítið gaman af svona rannsóknarspilum og verður fróðlegt að sjá hvernig það virkar, er samt ekki alveg 100% seldur eins og er.

perfect_alibi02


raptor01Raptor

Raptor er nýjasta spilið frá Bruno-unum tveimur Cathala og Faidutti en þeir hönnuðu m.a. Mission: Red Planet. Raptor er tveggja manna spil þar grameðla hefur sloppið úr búri sínu og verpt eggjum víðsvegar um einhvern júragarðinn. Hópur vísindamanna verður að reyna að gera mömmuna óvíga og fanga ungana hennar áður en allt fer til andskotans og risaeðlurnar sleppa með tilheyrandi vandræðum.

Mér líst ágætlega á þetta spil, hönnunin er flott og hugmyndin skemmtileg. Reyndar finnst mér verðið á þessu (33 evrur = 4.700) svolítið hátt miðað við að spilið er bara tveggja manna … en kannski er það þess virði.

raptor02


celestia01Celestia

Celestia er síðasta spilið í þessari Spiel 2015 upptalningu, en samt engan veginn síðasta spilið sem hefur vakið áhuga minn. Celestia er endurútgáfa af eldra spili sem heitir Cloud 9. Leikmenn ferðast um borgirnar sem Celestia samanstendur af og sanka að sér fjársjóðum, hljómar svolítið keimlíkt barnaspilinu Der Schatz der 13 Inseln sem HABA gefur út.

Meira veit ég nú ekki um spilið, hef ekki spilað eða séð Cloud 9.  Celestia er hins vegar mjög svo fjarskafallegt og það dugar mér til að vera áhugavert … eitthvað til að skoða betur.

celestia02

Comments are closed.