Patchwork ★★★★

patchwork01Fyrir 2 leikmenn, 8 ára og eldri.
Tekur 15 mínútur.


Patchwork er hannað af Uwe Rosenberg, en hann á heiðurinn af fjölmörgum þekktum spilum m.a. Agricola, Caverna The Cave Farmers, Bohnanza, Glass Road og Fields of Arle.


Enskar reglur fyrir Patchwork eru að finna hér.

Um spilið

Patchwork gengur út á keppni tveggja leikmanna um hvor þeirra saumi fallegra bútasaumsteppi. Í upphafi spilsins fær hvor leikmaður sitt eigið bútasaumsborð sem sýnir 81 reit á spjaldi sem er 9 reitir á breidd og 9 reitir á hæð. Á milli leikmannanna er sett tímaborð sem leikmenn nota til að halda utan um hversu mikinn tíma þeir hafa notað til að sauma. Í kringum tímaborðið er 33 bútum í mismunandi stærðum raðað í handahófskennda röð. Bútarnir eru merktir með kostnaði (í tölum) og hversu langan tíma tekur að sauma bútinn (tímaglas).

patchwork02

Patchwork uppsett og tilbúið

Hlutlausu peði er komið fyrir í bútaröðinni, fyrir framan minnsta bútinn. Peðið segir til um úr hvaða bútum leikmaður megi sauma í umferðinni, en næstu þrír bútar fyrir framan peðið eru í boði. Þegar leikmaður velur bút til að sauma tekur hann bútinn, borgar kostnaðinn í tölum, færir skífuna sína áfram á tímaborðinu og færir hlutlausa peðið á þann stað þar sem búturinn var. Þannig bætist í hvert skipti sem einhver saumar bút annar bútur (eða fleiri) sem í boði verða fyrir þann sem saumar næst.

Sá sem er búinn að eyða minni tíma í að sauma (á aftari skífuna á tímaborðinu) fær svo að gera þangað til hann er kominn fram fyrir hinn leikmanninn. Þannig getur leikmaður náð að sauma nokkra búta í einu áður en hinn fær að gera. Í stað þess að sauma, annað hvort ef leikmaður kýs að sleppa því að sauma eða af því að hann á ekki fyrir bútunum sem eru fyrir framan peðið, getur hann valið að færa skífuna sína á tímaborðinu á reitinn fyrir framan skífu hins leikmannsins. Hann fær þá borgaðar jafnmargar tölur og fjöldi reita sem hann færði skífuna sína.

patchwork06

Tilbúið fínt bútasaumsteppi

Fimm sinnum í gegnum spilið er hægt að verða sér út um minnstu bútana, sem eru 1*1 að stærð, en þeim er dreift á tímaborðinu þannig að sá leikmaður sem fer fyrstur framhjá bútnum fær að sauma hann við teppið sitt og fylla þannig upp í auðan reit. Einnig fá leikmenn útborgað í tölum í hvert skipti sem skífan þeirra fer framhjá tölureit á tímaborðinu.

Svona gengur spilið þar til leikmenn eru búnir að eyða öllum tímanum sem þeir höfðu til að sauma (komnir að enda tímaborðsins). Þá fá þeir síðustu töluútborgunina og telja svo hversu mikið af tölum þeir hafa í sjóði. Hver reitur sem er eftir auður á bútasaumsborðinu telur sem tvö mínusstig. Endanleg niðurstaða segir til um hver er sigurvegarinn.

Hvað finnst mér?

Patchwork er eins og tveggja manna púslþraut. Maður vill ná sem stærstum og hentugustum bútum í hvert skipti, en það gengur hins vegar ekki alltaf. Stundum verður maður bara að láta sér nægja að fá nokkrar tölur í útborgun til að nota í næstu umferð, en við það þarf maður alltaf að eyða einhverjum tíma. Þá gæti hins vegar búturinn sem mann svo sárlega vantaði verið farinn, annað hvort vegna þess að hinn leikmaðurinn keypti hann eða þá að peðið hefur færst vegna saumaskapar hins leikmannsins. Því þýðir ekkert að vera að plana of langt fram í tímann. Eini möguleikinn á að plana eitthvað er ef maður nær að vera nokkrum tímum á eftir hinum leikmanninum og nær þá jafnvel að sauma nokkra búta í einu.

patchwork09

Það kostar 7 tölur og 6 klukkutíma að sauma þennan bút við teppið

Stundum hefur komið upp svolítið ójafnvægi í spiluninni þegar annar aðilinn nær einhvern veginn alltaf að vera á undan að tryggja sér flesta ef ekki alla litlu bútana sem eru á tímaborðinu. Það getur skipt sköpum að ná að bæta þeim inn á milli þar sem göt hafa myndast í teppið. Einnig hefur það einu sinni gerst hjá okkur að fyrst í spilinu hafði hvorugur leikmaðurinn efni á að sauma (þar sem mjög dýrir bútar voru fyrir framan peðið) og skiptumst við þá bara á að færa skífurnar okkar á tímaborðinu og skrapa saman nokkrum tölum til að geta saumað úr. Þetta eru hins vegar bara smávægilegar athugasemdir við annars mjög fínt spil.

plus
  • Einfalt, stutt og skemmtilega hannað. Mjög aðgengilegt fyrir allflesta.
  • Mjög gaman að reyna að sjá út hvernig bútarnir passa best saman, þetta er svona hálfgert Tetris.
plus
  • Stigagjöfin í lokin getur verið óvægin, þú ert kannski búinn að sauma flott teppi en endar með -10 stig þar sem of margir reitir eru enn auðir. Einnig getur það vel gerst að leikmaður vinni með mínusstig.

Niðurstaða

Patchwork er sniðugt og aðgengilegt fyrir nánast alla. Ég hef meira að segja spilað þetta við 7 ára soninn án teljandi vandræða. Mér finnst eitthvað heillandi við það að púsla saman bútasaumsteppinu mínu og reyna að finna út hvernig ég geti endað með sem fæsta auða reiti. Virkilega gott tveggja manna spil.

star_goldstar_goldstar_goldstar_graystar_gray

(Upplýsingar um stjörnugjöf á síðunni)

One thought on “Patchwork ★★★★

  1. Pingback: Ný spil ► Spiel 2015 (3. hluti)Borðspil.is