SOS Titanic

sostitanic01Fyrir 1-5 leikmenn, 8 ára og eldri.
Tekur 30 mínútur.


SOS Titanic var hannað af Bruno Cathala og Ludovic Maublanc, en þessir hönnuðir hafa hannað saman nokkur spil eins og CycladesCleopatra and the Society of Architects og Mr. Jack.

Spilið var eitt af fimm spilum sem dómnefndin fyrir Spiel des Jahres verðlaunin 2014 mælti sérstaklega með (sjá hér).

Enskar reglur fyrir SOS Titanic eru að finna hér.

Um spilið

Í SOS Titanic tekur leikmaður sér hlutverk eins af skipverjunum á Titanic og aðstoðar við að bjarga fólki í björgunarbáta áður en ferjan sekkur endanlega í sæ. Spilið inniheldur Titanic bók sem sýnir nothæf hólf sem farþegarnir safnast saman í, en þeim fer fækkandi eftir því sem líður á nóttina. Fyrsta blaðsíðan sýnir stöðu skipsins kl. 23:40, en þá rakst Titanic á ísjakann og hóf að sökkva. Ákveðið mörgum farþegum er raðað niður á fyrstu fjögur hólf skipsins (á grúfu) og síðan er neðsta farþeganum í hverri röð snúið við, svipað og gert er þegar lagður er kapall. Farþegarnir skiptast í yfir- og undirstétt. Í undirstéttinni eru farþegar númeraðir frá 2 upp í 17, en í yfirstéttinni eru farþegarnir frá 2 upp í 13. Fjórir björgunarbátar leynast einnig innan um farþegaspilin, tveir fyrir hvora stétt. Þeir bera númerið 1 og virka svipað og ásarnir í kapli. Leikmaðurinn velur svo af handahófi skipverja, en hver skipverji býr yfir einhverjum ákveðnum hæfileika. Einnig fær leikmaðurinn að draga aðgerðaspil, en skipverjarnir fá að draga mismörg spil á hendi í upphafi.

sostitanic02

Innihald spilsins

Í hverri umferð má leikmaður reyna að raða saman farþegum í númeraröð þannig að ofan á farþega nr. 10 fari farþegi nr. 9 og svo framvegis. Í takt við þema spilsins má alls ekki raða saman stéttunum, þær geta ekki verið saman í hólfi. Ef björgunarbátur birtist einhvers staðar í hólfunum má leikmaðurinn færa hann fyrir ofan bókina og byrja að raða farþegum í bátinn, fyrst kemur þá farþegi nr. 2, svo nr. 3 og svo koll af kolli. Einnig má leikmaðurinn reyna að bjarga farþegum. Það gerir hann með því að draga ákveðið mörg farþegaspil (allt eftir því hvaða skipverja hann er að nota í það skiptið) og taka einn farþega af þeim og koma honum fyrir í einhverju hólfanna, eða björgunarbát, ef hann passar þar.

sostitanic07

Upphafsstaðan í Titanic

Ef enginn af farþegunum sem dregnir voru úr bunkanum passa í hólf eða björgunarbát, mistókst skipverjanum björgunarstarfið og einni blaðsíðu í Titanic bókinni er flett. Við hverja flettingu geta hólf skipsins farið að flæða yfir og verður þá að sameina farþegaröðina úr hólfinu sem flæddi yfir þeirri farþegaröð sem er í næsta hólfi. Því er slæmt að mistakast björgunarstarfið þar sem tvær raðir stokkast saman og úr verður kannski ein löng röð. Það jákvæða við þetta er það að við misheppnað björgunarstarf fær leikmaðurinn einnig að draga á hendi aðgerðaspil.

sostitanic03

Fjögur af aðgerðaspilunum

Í hverri umferð má leikmaður einnig nota aðgerðaspilin, en þau eru mismunandi og geta leyft leikmanni að beygja og brjóta reglurnar. Algerlega nauðsynlegt er að nota þau ætli maður á annað borð að geta bjargað meirihluta farþeganna. Þegar farþegabunkinn klárast, en það gengur hratt á hann þegar skipverji reynir að bjarga farþegum, þarf að fletta Titanic bókinni um eina blaðsíðu. Síðasta blaðsíðan sýnir Titanic kl. 02:30, en þá mun skipið hafa endanlega sokkið. Leikmaðurinn telur þá saman hvernig honum tókst til, en hann fær jafnmörg stig og númerið á efsta farþeganum í hverjum björgunarbát lögð saman. Samkvæmt reglubókinni hefði upprunalega áhöfnin á Titanic fengið 19 stig, þannig að það er um að gera að reyna að bæta það.

sostitanic06

Búið að finna björgunarbátana fjóra

Hvað finnst mér?

SOS Titanic er sagt fyrir 1-5 leikmenn, hægt er að spila með allt að fimm leikmönnum í samvinnuspilun, en spilið er í raun einmenningsspil. Ég hef aðeins prófað spilið einn og sé ekki fyrir mér að hafa áhuga á að spila það með fleirum, ekki frekar en ég myndi nenna að leggja kapal með einhverjum öðrum en sjálfum mér. En SOS Titanic er í rauninni bara ný og uppfærð útgáfa af kapli, með aðgerðaspilum og skemmtilegu þema. Spilið er nett og meðfærilegt og ég hef m.a. tekið það með mér í ferðalög og spilað í fríhöfnum á meðan ég beið er eftir flugi og haft gaman af. Það er samt tvennt sem fer aðeins í taugarnar á mér og það er þetta: Séraðgerðir skipverjanna eru missterkar. Þannig getur maður í upphafi dregið hálfvonlausan skipverja og það getur dregið verulega úr líkunum á því að maður standi sig vel í björguninni. Hitt atriðið eru svo táknmyndirnar á aðgerðaspilunum og skipverjunum. Þó ég sé búinn að spila SOS Titanic 12 sinnum þegar þetta er skrifað, þarf ég ennþá að fletta upp í reglubókinni til að skilja alveg hvað sum aðgerðaspil og skipverjar geta gert.

Niðurstaða

Ég viðurkenni fúslega að hafa mjög gaman af SOS Titanic, en í raun er spilið bara Kapall 2.0. Þannig að ef þú hefur gaman af því að leggja kapal þá ætti SOS Titanic að vera eitthvað fyrir þig. Ef þú hefur ekki gaman kapli þá skaltu finna eitthvað annað til að eyða peningunum þínum í.

Comments are closed.