Spiel 2015: Föstudagur

spiel2015_03Árið 2015 fór ég í annað skiptið á spilasýninguna International Spieltage (Spiel) sem haldin er í þýsku borginni Essen í október ár hvert. Fyrri færslur mínar frá Spiel 2012 má finna hér.

Þetta árið var sýningin haldin fimmtudaginn 8. október til sunnudagsins 11. október. Ég ákvað að fljúga út á fimmtudegi, með millilendingu í Hamburg áður en flogið var til Dusseldorf, þannig að ég náði ekkert að fara á sýninguna þann daginn, þrátt fyrir að Dusseldorf sé rétt um 30 mínútur frá Essen.

Þegar ég kom á hótelið (Motel One) um kvöldið var allt iðandi af lífi og menn og konur farin að bera inn farmana af nýjum spilum og sumir mun stórtækari en aðrir. Motel One er greinilega mjög vinsælt hótel meðal spilaáhugafólks og stemmingin eftir því.

Mikill fjöldi manns mætir hvert ár á þessa sýningu, en hún er haldin í gríðarstórri sýningarhöll sem heitir Messe Essen. Þegar ég fór síðast árið 2012 voru notaðir minni salir í höllinni, en síðustu árin hefur sýningin verið í stærri hlutum Messe Essen, þar sem m.a. eru haldnar bílasýningar. Þetta árið munu um 162.000 gestir hafa sótt sýninguna skv. opinberum tölum.

spiel2015_01

Motel One

spiel2015_04

Þessi var vel útbúinn

Á föstudagsmorgninum vorum við komnir upp í Messe Essen um kl. 10, rétt í þann mund sem opnað var. Töluvert mikið af fólki er mætt strax við opnun og því verður maður að vera snöggur til að ná í borð. Við náðum strax einu lausu hjá Queen Games sem var staðsett rétt innan við aðalinnganginn. Þar var ætlunin að prófa spil sem heitir Treasure Hunter og er hannað af Richard Garfield, sem á m.a. heiðurinn af Magic the Gathering og King of Tokyo. Uppsetningin hjá Queen bauð hins vegar ekki upp á það, þar sem ákveðin borð eru bara sett upp með ákveðnum spilum.

spiel2015_05

Reglulestur fyrir Liguria

Það sem stóð þarna til boða var spilið Liguria, en það er nýtt spil frá Queen Games sem gengur út á flutninga og verslun með liti á milli mismunandi eyja. Þetta hljómaði nú allt frekar óspennandi, en það reyndist meira undirliggjandi en bara að sækja liti á einni eyju til að skila þeim aftur í heimahöfn. Við fengum ljómandi fína útskýringu hjá ungri konu sem vann hjá Queen Games og eftir stutta yfirferð náðum við að hefja leikinn. Leikmenn geta tekið yfir ákveðnar eyjur þannig að aðrir fái ekkert út úr því að heimsækja þær. Þá getur maður hrifsað eyju af öðrum ef maður nær að safna sér meiri styrk í formi sverða. Þegar upp var staðið reyndist þessi litaflutningur í Liguria hin prýðilegasta skemmtun.

spiel2015_06

Áður en við gátum klárað Liguria fór ég á smá flakk til að skoða mig um. Á flakkinu rakst ég á hinn mæta borðspilahönnuð, Reiner Knizia, sem var að kynna nýjasta spilið sitt Mmm! sem er barna- og fjölskylduspil þar sem leikmenn eru mýs sem vilja næra sig áður en kötturinn nær þeim. Ég náði nú ekki að skoða spilið, en miðað við það sem ég hef heyrt þá er Mmm! örugglega hið ágætasta fjölskylduspil.

spiel2015_08

Let’s take a selfie

Eftir stutt stopp hjá Knizia rakst ég á áhugaverðan bás þeirra bræðra Gordon og Fraser Lamont í Fragor Games. Þeirra aðalsmerki á Spiel er að koma með yfirframleidd spil sem eru heilmikið fyrir augað, en hugsanlega eitthvað minna af innihaldi. Þetta árið voru þeir með A Game of Gnomes sem ég hef ekki hugmynd um hvernig virkar en leit alveg rosalega vel út. Það var samt ekki réttlætanlegt að eyða 80 evrum og miklu töskuplássi í eitthvað óljóst.

spiel2015_09

Garðálfagleði Fragor Games

Eftir smá rölt kíktum við á keppnissvæðið þar sem heimsmeistaramótið í Stone Age stóð sem hæst. Íslendingar áttu þarna tvo keppendur, þá Gísla og Gunnar. Svo skemmtilega vildi nú til að fyrsta skiptið hans Gunnars að spila Stone Age var fyrsti leikurinn hans á mótinu. Hann lét það þó ekki á sig fá og stóð sig af stakri prýði. Hvorugur þeirra komst nú þó á verðlaunapall í þetta skiptið.

spiel2015_12

Gísli keppir í Stone Age

spiel2015_13

Íslenski fáninn á meðal fána þátttökuþjóða

Svo var ferðinni heitið á básinn hjá Fairplay, sem er þýskt spilatímarit. Þeir halda úti vinsældalista á Spiel og er mjög grannt fylgst með þeim lista þegar hann er uppfærður nokkrum sinnum á dag. Spilin sem þar komast á blað eru að fá góða stigagjöf hjá Þjóðverjunum og öllum þeim sem eru að gefa sitt álit fyrir Fairplay.

spiel2015_14

Fairplay básinn

Þegar þarna var komið við sögu var aðeins farið að skýrast hvaða spil myndu enda á lokalistanum, enda spilin í efstu sætunum að fá mjög góða einkunn. Eitt af spilunum sem voru ofarlega þarna á föstudeginum var Gipfelsturmer, fjölskylduspil hannað af Friedemann Friese (hönnuð Power Grid og 504) og útgefið af Amigo. Þar sem Amigo básinn var í næsta nágrenni við Fairplay strunsuðum við þangað til að fá að prófa spilið.

spiel2015_15

Fairplay listinn á föstudeginum

Auðveldlega gekk að fá borð hjá Amigo og eftir stutta stund var ung þýsk dama farin að kenna okkur geitakappspilið Gipfelsturmer. Gipfelsturmer gengur út á að reyna að vera fyrstur að koma tveimur af sínum geithöfrum upp á fjallstind með því að ná ákveðnum samstæðum í teningakasti. Okkur fannst Gipfelsturmer nokkuð gott spil og ég sló til og keypti eitt stykki.

Ég hef spilað Gipfelsturmer nokkrum sinnum eftir heimkomuna og ber nokkuð blendnar tilfinningar til spilsins. Mér finnst það sniðugt og hef haft gaman af því að spila það, nema hvað að í eitt skiptið þá ætlaði það engan enda að taka. Við vorum fjögur og þetta var bara orðin eins og langavitleysa, engum virtist ætla að takast að koma geitarskröttunum upp á fjallstoppinn og andrúmsloftið var orðið full pínlegt. Á endanum hættum við bara. En … þegar ég hef spilað það tveggja manna við 12 ára son minn virkar það bara rosalega vel.

spiel2015_16

Gipfelsturmer

Eftir Gipfelsturmer sátum við sem fastast hjá Amigo og óskuðum eftir að fá að prófa eitthvað meira. Það sem varð fyrir valinu er spil sem heitir 3 sind eine zu viel! sem lauslega þýtt er „3 er einum of mikið!“ Þetta er ansi sniðugt kortaspil sem gengur út á að safna mislitum spilum með mismunandi tölugildi eftir frekar stífum reglum. Hins vegar er ekki gott að fá þriðja spilið í sama litnum því þá fer maður að fá mínusstig. Létt og skemmtilegt spil … ekki keypt samt, en aldrei að maður grípi það einhvern tímann.

spiel2015_17

3 sind eine zu viel!

Næst á dagskrá var spilið Die Portale von Molthar, annað kortaspil frá Amigo. Þetta var byggt á ævintýraþema þar sem maður safnaði til sín verum sem gáfu stig og einhverja sértækar aukaaðgerðir. Áhugavert og fallega myndskreytt en ekki alveg minn tebolli.

spiel2015_19

Die Portale von Molthar

Eftir langt spilerí hjá Amigo tókum við smá rölt í höllunum og skoðuðum mannlífið og básana hjá hinum og þessum. Heilmikið var um að vera hjá Repos Productions þar sem 7 Wonders Duel hafði runnið út eins og heitar lummur og fólk stóð og beið í von og óvon eftir annarri sendingu.

spiel2015_20

Eftir röltið duttum við inn á laust borð hjá franska borðspilaútgefandanum Matagot og prófuðum þar Raptor, sem er tveggja manna einvígi um baráttu milli vísindamanna og risaeðla. Annar leikmaðurinn stýrir risaeðlunum og reynir að komast undan (eða drepa) vísinda- og veiðimennina sem hinn leikmaðurinn stýrir.

Raptor er flott hannað spil með litlum plastlíkönum. Verðmiðinn fannst mér nú samt frekar hár fyrir svona tiltölulega einfalt tveggja manna spil (33 evrur = 4.700). Einhvern veginn heillaði Raptor mig ekki og eftir stutta viðureign létum við okkur hverfa, eins og risaeðlurnar forðum daga.

spiel2015_21

Raptor frá Matagot. Flott en bara svona la-la

Eftir risaeðlueinvígið héldum við för okkar áfram og enduðum á risabásnum hjá Zoch Verlag, en það er þýskur útgefandi sem einbeitir sér mjög að barna- og fjölskylduspilum. Þar prófuðum við m.a. Spinderella sem vann Kinderspiel des Jahres verðlaunin þetta árið. Einnig náðum við að prófa nýja viðbót við Heckmeck, en hún heitir Heckmeck Extrawurm og með henni bætast fjögur dýr við spilið; kráka, refur, hæna og ormur sem öll breyta reglunum aðeins. Ég hef ekki spilað Heckmeck mikið, einhvern veginn hefur það ekki heillað mig sérstaklega. Þannig er ég ekki alveg dómbær á hvort viðbótin sé eitthvað sem harðkjarna Heckmeck-arar þurfa að eignast. En þetta var ágætlega gaman.

spiel2015_22

Básinn hjá Zoch Verlag

spiel2015_23

Básinn hjá Zoch Verlag, köngulóin hún Spinderella vomir yfir

spiel2015_24

Spinderella gæðir sér á maurum

spiel2015_25

Heckmeck Extrawurm

Eftir barna- og fjölskylduspilastundina hjá Zoch tókum við stefnuna á Ludonaute þar sem til stóð að spila Discoveries. Discoveries er teningaspil þar sem leikmenn eru leiðangursmenn í leiðangri Lewis og Clark (ásamt Gass og Ordway), sem stóð yfir frá 1803 til 1806 og spannaði vestari hluta Norður Ameríku. Markmiðið er að safna sem mestri þekkingu á leiðinni og koma henni á framfæri í þágu vísindanna. Þetta er svona einhvers konar spin-off spil frá Lewis & Clark. Discoveries var nú bara ljómandi fínt, flott hannað spil og skemmtilegt til spilunar. Teningamekaníkin virkaði mjög vel og ég verð nú að segja að ég hálf sé eftir því að hafa ekki keypt það.

spiel2015_26

Discoveries að hefjast

spiel2015_27

Discoveries

spiel2015_28

Teningar og fleiri teningar í Discoveries

Þegar þarna var komið var stutt í lokun hallanna og því ekkert um annað að ræða en að fara að koma sér aftur upp á hótel. Þar var, eins og önnur kvöld þessa helgi, þétt setið og spilað á Motel One. Við settumst á barinn og prófuðum tvö ný spil sem voru keypt um daginn, annars vegar RevoltaaA og hins vegar Celestia.

spiel2015_29

RevoltaaA – Vélmenni og endur

RevoltaaA er nýtt spil frá Reiner Knizia, sem samanstendur af einum spilastokk sem sýnir mismunandi fjölda anda (rauð spil) og vélmenna (blá spil). Ég var ekki alveg að kveikja á reglunum og skildi nú eitthvað takmarkað í þessu spili og einhvern veginn var það ekki að heilla mig. Knizia ekki að gera sig í þetta skiptið.

spiel2015_31

Celestia

Síðasta spilið sem ég spilaði þennan föstudaginn var Celestia, sem hafði vakið athygli mína fyrir komuna til Essen. Celestia er endurútgáfa af eldra spili sem heitir Cloud 9 þar sem leikmenn ferðast um borgirnar sem Celestia samanstendur af og sanka að sér fjársjóðum. Þetta er svona blekkingar og „taktu sénsinn“ spil sem ég átti reyndar von á að væri meira spil þegar ég spilaði það fyrst. Því lét ég það eiga sig að kaupa það, en sé svolítið eftir því (eins og með Discoveries) þar sem strax eftir aðra spilun fór ég að meta það betur. Létt og fínt fjölskylduspil.

Comments are closed.