Spilað fyrir allan peninginn (2014) – 12/23: Attika

attika01Ég hef alls ekki verið duglegur við að vinna mig í gegnum listann yfir óspiluð spil í safninu upp á síðkastið og nokkur ný hafa bæst í stórfjölskylduna síðan ég setti mér það háleita markmið að klára að spila öll spilin í safninu, eins og það stóð um áramótin. En hvað um það, uppfært markmið er núna bara að klára að spila þessi spil áður en árið er úti og nýtt uppgjör hefst.

Fjölskyldan skellti sér í ferðalag upp úr miðjum júní vestur á firði til að eyða um tveimur vikum í sumarhúsi sem tengdafjölskyldan á í eyðidal í Dýrafirði. Að sjálfsögðu var tekinn nokkur fjöldi af spilum með eins og venjan er. Eitt af spilunum sem ég tók með og við náðum að spila var Attika, en það er gamalt spil frá 2003 sem ég keypti notað af góðkunningja mínum sem var að flytja af landi brott á síðasta ári. Annars held ég að Attika sé ekki lengur fáanlegt og veit ekki til þess að til standi að endurútgefa það.

attika03

Borgríki Aþenu

Attika snýst um yfirráð í Grikklandi til forna. Leikmenn velja sér eitt af fjórum borgríkjum (Athens, Sparta, Corinth eða Thebes) og er markmiðið að þenja út borgríkið og verða fyrsti leikmaðurinn til að annað hvort tengja saman tvo helgidóma (shrines) eða koma öllum sínum byggingum inn á leikborðið. Í upphafi er leikborðið sett upp, en það stækkar eftir því sem líður á spilið. Leikmenn fá svo spjald sem sýnir þeirra borgríki og þær byggingar sem hægt er að byggja. Byggingarnar eru í formi kringlóttra skífa, sem leikmenn draga af handahófi og raða inn á sitt borgríki (spjald) eða byggja á leikborðinu. Til að byggja þurfa leikmenn að borga mismunandi mörg landslagsspjöld, en þau sem um ræðir eru tré, vatn, fjallendi og hæðir. Hver bygging kostar eitthvað ákveðið, en leikmenn fá afslátt ef þeir byggja á eða við reiti sem sýna landslagstákn eða ef þeir byggja byggingarnar í réttri röð.

attika04

Græna borgríkið búið að tengja tvo helgidóma og þar með vinna

Eins og áður sagði er það leikmaðurinn sem nær fyrstur að byggja allar sínar byggingar eða nær að tengja einhverja tvo helgidóma sem vinnur, en í upphafi er helgidómi stillt upp við þá enda leikborðsins sem snúa að hverjum leikmanni.

attika05Við hjónin prófuðum Attika eitt kvöldið í bústaðnum og urðum strax svona ljómandi ánægð með spilið. Reglurnar eru mjög einfaldar og spilunin tekur frekar stuttan tíma. Það þýðir ekkert að gera einhverjar langtímaáætlanir í spilinu því það breytist mjög hratt eftir því hvernig mótspilarinn spilar. Þannig getur áætlun um að tengja tvo helgidóma farið út um þúfur ef hinn leikmaðurinn lokar af leiðina að honum. Við tókumst allverulega á þegar við spiluðum Attika fyrst, spennan var mikil en að lokum náði frúin að hafa sigur í það skiptið með því að klára að byggja allar sínar byggingar rétt á undan mér. Til marks um hversu gott okkur fannst Attika var það spilað aftur nokkrum kvöldum síðar.

Þá setti ég mér það markmið að tengja saman helgidómana tvo, en til þess að það gangi upp verður  maður fljótlega að slíta borgríkið sitt upp og byrja að byggja á tveimur stöðum. Áætlunin var nokkuð góð, en framkvæmdin tók miklum breytingum þar sem frúin varðist snilldarlega og var um tíma mjög nálægt því að „skemma“ fyrir mér. Það hafðist hins vegar ekki og að lokum tókst mér ætlunarverkið, rétt áður en henni tókst að klára sína áætlun. Staðan því orðin 1-1 eftir tvær rimmur í Attika og því gott að láta þar staðar numið.

Lokaniðurstaðan því sú að Attika er ljómandi skemmtilegt spil, stutt og spennandi. Alltaf gaman að detta niður á svona gömul vel heppnuð spil.

attika06

Mismunandi landslagsspjöld

 

One thought on “Spilað fyrir allan peninginn (2014) – 12/23: Attika

  1. Pingback: Spilað fyrir allan peninginn (2014) | Borðspil.is