Spilað fyrir allan peninginn (2014) – 15/23: Krosmaster: Arena

krosmaster_arena01Kaupin á Krosmaster: Arena voru svona skyndibrjálæðiskaup án þess að ég hafi mikið pælt í því hvort spilið væri eitthvað sem ég hefði í raun áhuga á. Aðalástæðan fyrir kaupunum var reyndar sú að ég var að panta nokkur spil frá Coolstuffinc sem ég lét senda á hótelið okkar í Boston fyrir um ári síðan og daginn sem ég pantaði var spilið á góðum afslætti.

Krosmaster: Arena er 2-4 manna spil sem gengur út á slagsmál milli fígúra á rúðustrikuðum leikvangi. Í grunnkassanum eru 8 fígúrur sem hafa mismunandi hæfileika á leikvanginum. Sumir geta bara slegist í návígi á meðan aðrir geta t.d. skotið örvum að hinum úr ákveðinni fjarlægð. Einhverjar fígúrurnar geta einnig galdrað inn á leikvanginn litlar verur eða dýr sem hægt er að nota til að ráðast á aðra leikmenn. Spilið gengur út á að ná vegsemdartáknum af hinum leikmönnunum sem fást m.a. með því að rota fígúrurnar þeirra. Hægt er að kaupa alls kyns viðbótarverur í spilið og auka þannig á fjölbreytileikann og flækjustigið, sem er nú reyndar nægt fyrir.

krosmaster_arena02

Slagsmálin að hefjast

Opinberlega er spilið er fyrir 14 ára og eldri en samkvæmt notendum á Boardgamegeek er hægt að spila það við 12 ára og eldri. Ég er búinn að eiga spilið í u.þ.b. ár án þess að hafa náð að spila það … og því alveg kominn tími til að spila Krosmaster: Arena, enda lenti það á listanum yfir óspiluð spil þetta árið. Við feðgarnir gerðum heiðarlega tilraun til að spila spilið um helgina sem leið og náðum að komast langleiðina í gegnum það. Spilið er hins vegar ansi flókið, reglubæklingurinn er 31 blaðsíða af þétt skrifuðu letri og svo margt sem fígúrurnar og þeirra viðhengi geta gert. Reglurnar eru reyndar mjög vel skrifaðar og settar upp í nokkrar kennslustundir sem byrja mjög einfaldar en flækjast svo hægt og rólega.

krosmaster_arena03

Tvær af fígúrunum

Eftir að hafa bægslast í gegnum nokkrar umferðir af Krosmaster: Arena gáfumst við feðgarnir upp. Sonurinn var ekki alveg að ná hvernig spilið virkaði og hvað ætti að gera og ég gerði ekki annað en að fletta fram og til baka í reglunum til að ná einhverjum áttum sjálfur. Til dæmis var ég framan af úti á þekju þegar kom að slagsmálunum sjálfum, það eru alls kyns reglur um bardagana sem tengjast mismunandi kröftum og eiginleikum fígúranna. Táknin á teningunum voru líka að flækjast fyrir mér, sex mismunandi tákn sem maður varð að finna út úr hvernig virkuðu með mismunandi eiginleikum fígúranna. Ég verð hugsanlega að viðurkenna að svona slagsmálaspil, sem ganga bara út á að berjast við aðra leikmenn, heilla mig ekkert sérstaklega. Því var öllu pakkað saman aftur og verður örugglega ekki opnað í bráð.

krosmaster_arena09

Sex mismunandi tákn á teningunum

Krosmaster: Arena er því ekki fyrir mig og mína, en ég get samt ekki annað en hrósað framleiðslunni. Spilið er gríðarlega flott hannað og fígúrurnar grípa augað um leið. Það er einnig mikið lagt í allt umhverfið, litlir pappakassar, tré og runnar móta leikvanginn. Því langaði mig virkilega til að hafa gaman af spilinu. Ég get vel ímyndað mér að Krosmaster: Arena virki vel fyrir fólk sem heillast af svona árásarspilum, flottri hönnun og mismunandi kröftum og eiginleikum fígúra og gæti sökkt sér ofan í þennan flotta heim … ég er bara ekki á þeim stað sjálfur, því miður.

krosmaster_arena05

Ekki vænlegt að lenda í þessum

krosmaster_arena04

Tvö fígúruspjöld

krosmaster_arena06

Reglubæklingurinn

krosmaster_arena07

Kössum, trjám og runnum er raðað á leikvanginn

krosmaster_arena10

Nokkrar fígúrur

krosmaster_arena08

Sumar fígúrurnar geta kallað til sín einhverjar verur og dýr

One thought on “Spilað fyrir allan peninginn (2014) – 15/23: Krosmaster: Arena

  1. Pingback: Spilað fyrir allan peninginn (2014) | Borðspil.is