Spilað fyrir allan peninginn (2014) – 2/23: A la carte

alacarte01Næsta spil af listanum góða var A la carte. Þetta er gamalt barna- og fjölskylduspil sem kom fyrst út 1989. A la carte var svo endurútgefið árið 2009 og var tilnefnt til Spiel des Jahres verðlaunanna 2010. Spilið hefur einnig verið tilnefnt til og hlotið nokkur önnur verðlaun sem besta barna- og fjölskylduspilið. Í A la carte eru leikmenn kokkar í veitingahúsi þar sem markmiðið er að elda fleiri rétti en aðrir leikmenn, eða öllu heldur fá fleiri stig fyrir eldaða rétti en aðrir leikmenn. Hver leikmaður fær hellu og pönnu sem hann notar til að elda ljúffenga rétti, en A la carte er franska og þýðir „Af matseðlinum“. Í boði eru nokkrir réttir sem miserfitt er að elda og gefa fleiri stig eftir því sem þeir eru flóknari. Leikmenn velja einn rétt til að byrja með og þurfa svo að stilla hitann á hellunni og krydda réttinn rétt til að hann verði framreiddur.

alacarte02

Hellan, pannan og sleifarnar

alacarte04

Réttirnir sem hægt er að matreiða

Í sinni umferð fær leikmaður þrjár aðgerðir, sem eru sýndir með þremur sleifum. Hann getur valið um að kasta hitateningnum eða krydda réttinn og má framkvæma þessar aðgerðir samtals þrisvar sinnum. Ef hann ákveður að kasta teningnum þarf hann að hækka hitann á hellunni um það hitastig sem teningakastið segir til, en það getur verið á bilinu 1-3 stig. Einnig getur komið upp á teningnum tákn sem segir að allir leikmennirnir verði að hækka hitastigið á sinni hellu um eitt stig. Hver réttur er svo með kjörhitastig, en ef hitinn á hellunni fer upp fyrir það, brennur rétturinn og endar í ruslinu.

alacarte03

Coq au Vin að verða tilbúinn

alacarte07

Kryddstaukarnir fjórir

Leikmaður getur einnig valið að krydda réttinn sinn. Þá velur hann einn af kryddstaukunum fjórum, hvolfir honum yfir pönnuna og vonar að kryddkorn falli úr stauknum. Hættan er sú að of mörg kryddkorn falli úr stauknum, eða jafnvel salt. Í hverjum stauk eru 15 kryddkorn og 5 saltkorn. Á hverjum rétti er merkt hvaða krydd þurfi til að martreiða réttinn sem og hversu mikið þurfi af viðkomandi kryddi. Ef leikmaður lendir í því að ofkrydda réttinn, sem gerist yfirleitt ef fleiri en tvö eins kryddkorn falla í pönnuna eða ef rétturinn verður of saltur, en það gerist ef þrjú saltkorn falla í pönnuna. Leikmenn geta einnig valið að elda crépes pönnukökur, en til þess þurfa þeir að ná að snúa henni við á pönnunni með því að kasta upp í loft og láta lenda á hinni hliðinni.

alacarte05

Konungleg kanína með hrísgrjónum

Svona gengur A la carte þangað til allir réttirnir eru eldaðir, einhver hefur eldað fimm rétti eða þegar einhver leikmaður fær þriðju stjörnuna, en þær fást ef leikmenn ná að elda hinn fullkomna rétt þ.e. hitastigið er hárrétt og kryddunin líka. Inn í spilið blandast einnig tebollar sem leikmenn fá ef tebollatáknið kemur upp í teningakastinu. Tebollana er hægt að nota til að taka tepásu og bjóða þeir upp á mismunandi aukaaðgerðir.

alacarte06

Fiskurinn endaði í ruslinu :-(

Við spiluðum A la carte við vinahjón okkar undir lokin á spilakvöldi og skemmtum okkur mjög vel. Spilið er þó meira barna- og fjölskylduspil heldur en eitthvað sem maður spilar sem strategíuspil. Þetta er bara létt skemmtun með flottum spilapörtum. Við tókum þessu öllu bara létt og skellihlógum þegar illa gekk með kryddstaukana og crépes pönnukökurnar. Gott spil fyrir börn og fjölskyldufólk, bara verst að A la carte liggur ekki á lausu, alla vega ekki hér á landi.

Comments are closed.