Spilað fyrir allan peninginn (2014) – 5/23: China

china01China er spil sem er búið að vera í spilasafninu frá því 2007. Í raun hefði China átt að vera á síðasta Spilað fyrir allan peninginn listanum en einhvern veginn tókst mér að yfirsjást það (ekki reyndar eina spilið sem ég missti af í þeirri yfirferð). En spilið lenti alla vega á nýjasta listanum og var spilað núna um daginn. China er skilgreint sem Area Control og Route Building spil á Boardgamegeek. Spilið er byggt á öðru spili frá sama hönnuði, Michael Schacht, sem heitir Web of Power, en til stendur að endurútgefa China sem Han og er það væntanlegt á þessu ári (2014). Leikmenn reyna að tryggja áhrif sín innan nokkurra héraða í Kína og vinna þannig að því að verða næsti keisari.

Til þess að tryggja áhrif í héruðunum reisa þeir hús og senda erindreka sína í héruðin. Leikborðið er tvíhliða, önnur hliðin er fyrir 3-4 leikmenn en hin hliðin fyrir 4-5 leikmenn. Hver leikmaður fær 20 hús í sínum lit ásamt 8 erindrekum og svo þrjú spil á hendi. Spilin sýna eitthvert af héruðunum sem leikmenn eru að berjast um. Til þess að geta lagt hús eða erindreka í hérað þarf að spila út viðeigandi spili. Í sinni umferð má leikmaður leggja út að hámarki tvo hluti í sínum lit (hús eða erindreka) í einhverju einu héraði.

china02

China: Leikborðið fyrir 3-4 leikmenn

Leikmenn fá stig í samræmi við meirihlutayfirráð í héruðunum, en gefin eru stig fyrir þau um leið og öll húsastæði í héraði eru fyllt. Sá sem er með meirihluta húsa fær jafnmörg stig og samanlagður fjöldi allra húsa í héraðinu. Sá sem á næstflest hús fær jafn mörg stig og fjöldi húsa þess sem átti meirihlutann og svo koll af kolli.

Þegar spilið er búið eru svo gefin stig fyrir erindrekana, en þá eru tengsl á milli héraðanna borin saman. Sá leikmaður sem er með meirihluta erindreka í báðum héruðunum sem verið er að bera saman fær jafnmörg stig og heildarfjöldi erindreka í þessum tveimur héruðum. Að lokum fá leikmenn stig fyrir húsaraðir sem innihalda fjögur eða fleiri hús í þerra lit. Sá sem hlýtur flest stigin endar sem næsti keisari Kína.

china04

Spilin sem sýna héruðin

Eins og áður sagði „gleymdist“ China þegar ég tók saman listann fyrir 2013. Mig minnir reyndar að ég hafi einhvern tímann fyrir mörgum árum síðan spilað China, en sú spilun var greinilega ekki mjög eftirminnileg. Nú er alla vega á hreinu að ég er búinn að prófa China, en þessi spilun verður örugglega ekkert mikið lengur að gleymast þar sem mér fannst spilið alls ekki eftirminnilegt. China gengur frekar hratt fyrir sig, samkvæmt kassanum tekur um 45 mínútur að spila, en ég held að við þrír höfum klárað okkur af á rétt rúmum hálftíma, með regluyfirferð. Áður en maður vissi vorum við búnir og ég stóð uppi sem hinn nýi keisari.

china05

Wei héraðið að fyllast af húsum

Ég veit svo sem ekki alveg hvort málið sé að maður þurfi að spila China nokkrum sinnum til að kunna að meta það, eða bara hvort það heilli mig yfir höfuð ekki. China hefur nefnilega fengið nokkuð góða dóma og forverinn, Web of Power, var tilnefndur til Spiel des Jahres verðlaunanna árið 2000 og China átti að virka best þriggja manna. Mér fannst samt einhvern veginn vanta allt fútt í spilið, kannski er það vegna þess að mér finnst ég hafa spilað betri Area Control spil. Svo getur bara vel verið að maður þurfi að spila meira af China … kemur í ljós.

china06

Leikborðið í lok þriggja manna spils.

china03

Rauðu húsin og erindrekarnir