Spilað fyrir allan peninginn (2014) – 8/23: Room 25

room25Room 25 er spil sem á að líkja eftir raunveruleikasjónvarpsþætti þar sem leikmenn eru fangar og eiga að reyna að sleppa út úr byggingu sem samanstendur af 25 mishættulegum herbergjum. Herbergin geta verið sakleysisleg, en inn á milli leynast stórhættuleg herbergi og svo herbergi 25, en þaðan er hægt að sleppa út. Room 25 er hægt að spila á nokkra vegu. Hægt er að spila einmenningsspil, samvinnuspil og svo að hluta til í samvinnu þar sem einhver eða einhverjir meðal leikmanna eru verðir sem vilja koma í veg fyrir að fangarnir sleppi út. Í upphafi er byggingunni raðar upp, en henni er raðað saman úr 25 herbergjaflísum. Í miðjunni er upphafsherbergið og í kringum það raðast hin herbergin á grúfu þannig að leikmenn vita ekki í upphafi hvaða herbergi er hvar. Einhversstaðar á ytri köntum byggingarinnar leynist svo herbergi 25 sem allir vilja komast í. Í sinni umferð fá leikmenn að velja allt að tvær aðgerðir af fjórum sem eru í boði. Þær eru: að kíkja inn í aðliggjandi herbergi, labba inn í aðliggjandi herbergi, færa til eina röð af herbergjum eða ýta einhverjum inn í herbergi, en einmitt sú aðgerð er einkar hentug fyrir verðina þar sem þeir geta þá ýtt leikmönnum inn í banvænt herbergi.

room2503

Allir byrja í upphafsherberginu

Markmið þeirra sem eru að reyna að sleppa er sem áður sagði að finna herbergi 25, komast öll þangað og ýta herberginu út úr byggingunni áður en 10 umferðir eru liðnar. Þeir sem eru verðir, ef einhverjir eru, vilja koma alla vega tveimur leikmönnum fyrir kattarnef, en við það endar spilið og verðirnir vinna. Samvinnuspilið gengur svo út á að allir komist út áður en tíunda umferðin er liðin.

room2502

Fjórir af föngunum

Ég tók Room 25 með mér á spilakvöld í Spilavinum nú í vikunni sem leið. Við náðum að vera sex sem spiluðum, en ég held að spilið sé best með 5-6 leikmönnum þegar einhverjir eru verðir. Skífunum sem dreift er blint í upphafi segja til um hverjir eru verðir og hverjir fangar. Í fyrsta spilinu okkar var ég vörður, sem reyndist áhugavert. Maður veit þannig ekkert hvaða annar leikmaður er vörður og hverjir fangar og gæti allt eins verið að koma hinum verðinum fyrir kattarnef. Í byrjun fór ég inn í herbergi sem maður drepst í ef einhver annar kemur inn í þar á eftir manni. Ég slapp út úr því en ákvað að elta annan leikmann og reyna að hrinda honum inn í herbergið og fylgja honum svo þangað til að stúta honum. Annað tækifæri til dráps gafst þegar við stóðum allt í einu við hliðina á dauðaherberginu, sem drepur hvern  þann sem inn í það stígur. Ég hrinti honum þá bara í staðinn inn í það. Annar leikmaður drapst svo af sjálfsdáðum þegar hann festist í herbergi og drapst áður en hann slapp þaðan út. Við verðirnir unnum því þetta spil nokkuð örugglega og án teljandi vandræða.

room2505

Brjálaði vísindamaðurinn og aðgerðirnar fjórar

Við ákváðum að taka aðra umferð af Room 25 og í þetta skiptið var ég ekki vörður. Fljótlega fóru grunsemdir að beinast að alla vega einum leikmanni sem gerði tilraun til að hrinda öðrum inn í herbergi. Það tókst ekki en engu að síður drápust tveir þátttakendur í banvænum herbergjum áður en langt um leið og þar með lauk spilinu með sigri varðanna, í annað skiptið.

room2507

Einn búinn að finna útganginn

Room 25 virkaði alveg prýðilega á mig. Verðirnir virðast samt hafa ákveðið forskot ef þeir eru með í leiknum þar sem leikmenn geta sjálfir komið sér fyrir kattarnef og auðveldað þannig vinnuna fyrir vörðunum. Annað sem maður lærði á þessum tveimur spilunum var að vera varkár, ekki æða bara inn í ókannað herbergi því það getur verið banvænt. Fyrstu kynni af Room 25 voru því ánægjuleg, Spilið er margbreytilegt þar sem herbergin raðast mismunandi upp í hvert skipti, hægt er að bæta við erfiðari herbergjum og svo er hægt að spila samvinnuspil, samkeppnisspil, í teymum og einnig einmenningsspil. Það sem eykur einnig notagildið fyrir mig er að spilið er fyrir allt að 6 leikmenn. Room 25 er alla vega áhugavert og þar sem ég á ekki neitt annað svipað spil, nema kannski Panic Station en það var ekki að gera sig, þá á ég örugglega eftir að grípa í þetta aftur.

room2504

Room 25

room2506

Hópurinn tvístraður

room2508

Umferðateljarinn

room2509

Fjórir fangar og tveir verðir

Comments are closed.