Spilað fyrir allan peninginn (2014) – 9/23: Bohnanza Fun & Easy

bohnanza_funandeasy01Gamla góða Bohnanza er eitt af mínum uppáhalds léttu spilum sér í lagi þar sem það virkar vel fyrir mjög breiðan hóp og er fyrir allt að sjö leikmenn. Fyrir alllöngu síðan, man nú ekki alveg hvenær eða hvar, keypti ég litla útgáfu af Bohnanza sem ber aukanafnið Fun & Easy. Fun & Easy, eða skemmtilegt og létt, eru orð sem má allt eins nota til að lýsa gamla Bohnanza sjálfu, þannig að það var spurning hvaða auka skemmtun var fólgin í þessu Bohnanza. Til er fjöldinn allur af Bohnanza spin-off spilum og viðbótum, en Fun & Easy er eingöngu til á þýsku. Baunirnar eru því allar nefndar þýskum nöfnum, sem kom svo sem ekki að sök og var kannski bara skemmtilegra þegar við spiluðum það, þar sem allir reyndu að bera fram nöfnin með þýskum hreim. Reglurnar voru hins vegar líka bara á þýsku, sem var ekki alveg eins skemmtilegt, en eftir smá grúsk á Boardgamegeek fann ég enska þýðingu. Reglurnar fyrir Bohnanza Fun & Easy eru reyndar nánast alveg eins og fyrir Bohnanza, með smá undantekningum. Allir fá fimm spil á hendi eins og í upprunalegu útgáfunni, en í borðið eru lögð þrjú spil sem mynda baunamarkaðinn sem sá sem á leik getur notað sem skiptimynt, en þarf ekkert að taka baunir þaðan frekar en hann vill. Hver leikmaður er svo með þrjá akra til að gróðursetja í, en ekki tvo eins og í Bohnanza. Spilið gengur svo þangað til búið er að fara í gegnum baunabunkann tvisvar sinnum, en þá eru stigin talin og leikmennirnir geta uppskorið þær baunir sem eru í ökrunum þeirra.

Bohnanza Fun & Easy var ágætis skemmtun, en ég myndi nú frekar spila upprunalega Bohnanza frekar en þetta. Mér finnst hún vera betri þrátt fyrir að þessi breyting með opna baunamarkaðinn sé alveg sniðug. Bohnanza Fun & Easy er svona meira fyrir yngri kynslóðina og það er bara gott og blessað. Þá er maður alla vega búinn að prófa þetta.

bohnanzafun01

Baunirnar í Bohnanza Fun & Easy

Comments are closed.