Spilað fyrir allan peninginn (2015) – 12/26: Pictomania

pictomania01Pictomania er teiknispil sem gengur út á að teikna og giska á teikningar annarra leikmanna, hannað af nokkuð vel þekktum tékkneskum spilahönnuði sem heitir Vlaada Chvátil, en hann hefur m.a. hannað spilin Through the Ages: A Story of CivilizationGalaxy Trucker og Dungeon Petz svo fáein séu nefnd.

Pictomania hafði, þangað til fyrir stuttu, ekki verið gefið út á ensku, en til var m.a. frönsk, þýsk og tékknesk útgáfa. Ég fékk augastað á Pictomania fyrir all nokkuð löngu síðan og var alltaf að bíða eftir enskri útgáfu til að panta og prófa. Eitthvað dróst nú sú útgáfa og á endanum ákvað ég að panta þýskt eintak af spilinu og reyna að þýða það. Þar sem mamma er nokkuð vel að sér í þýsku og á þýskættaða vinkonu tók hún að sér að þýða fyrir mig spjöldin sem spilið snýst um. Áður en það gat gerst varð ég þó að pikka þau öll inn í Word og setja þar upp, en spilið inniheldur 99 tvíhliða spjöld með 7 orðum á hvorri hlið, þannig að samtals voru þetta 1.386 orð í fjórum flokkum.

pictomania11

Allir að byrja að giska

Þegar þýðingunni var lokið tók ég aftur til starfa. Þá var að setja allt saman upp til að undirbúa undir prentun. Ég var fyrst að gæla við að láta prenta spjöldin út hjá prentstofu hér heima eða í gegnum netið, en ákvað að prenta þau fyrst í heimilisprentaranum til að geta auðveldlega breytt einhverjum þeirra ef upp kæmu villur eða í ljós kæmi að einhver orð virkuðu ekki vel. Þannig að hér voru prentuð og klippt út 99 spjöld svo hægt væri að prufukeyra þýdda og staðfærða útgáfu af Pictomania.

pictomania02

Þessi þarf að teikna rennibraut

Pictomania er bráðskemmtilegt teiknispil fyrir 3-6 leikmenn 9 ára og eldri. Spilaðar eru fimm umferðir en í hverri þeirra er sex spjöldum úr einum af erfiðleikaflokkunum raðað upp á þar til gerðan spilahaldara. Erfiðleikaflokkarnir eru fjórir: auðvelt, miðlungserfitt, erfitt og mjög erfitt. Hver leikmaður fær teiknispjald, penna, sjö ágiskunarspil sem sýna tölur frá 1 upp í 7 og stigaskífur sem sýna 1-3 stjörnur. Í upphafi umferðar er tveimur spilum dreift til leikmanna, annað þeirra sýnir tákn og hitt tölustaf. Táknið vísar til samsvarandi tákns á spilahaldaranum þar sem teiknispilunum er raðar upp. Spilið með tölustafinum segir svo til um hvað viðkomandi leikmaður eigi að teikna á því spjaldi.

Þegar allir eru tilbúnir er byrjað að teikna. Leikmaður getur hvenær sem er ákveðið að byrja að giska á teikningar hinna leikmannanna. Það gerir hann með því að nota ágiskunarspilin sín þannig að ef hann sér að einhver er t.d. að teikna bíl þá reynir hann að finna orðið „Bíll“ á einhverju af sex teiknispilunum og lætur þann leikmann hafa ágiskunarspilið sitt með sama númeri og stendur við „Bíll“. Ef orðið „Bíll“ er númer 4 á einhverju teiknispilinu þá reynir hann að koma sínu ágiskunarspili númer 4 sem fyrst til þess leikmanns.

pictomania05

Sex spil í miðlungserfiða flokknum

Þegar leikmaður er búinn að teikna og giska á alla hina, eða giska eins mikið og hann vill eða getur, þá hefur hann val um að taka eina bónusflís af miðju borðinu. Bónusflísarnar gefa allt frá 1 upp í 3 stig. Þegar allar flísarnar hafa verið teknar verða allir að hætta að teikna og giska. Bónusflísarnar eru alltaf einni færri en fjöldi leikmanna og því fær síðasti leikmaðurinn ekki flís. Eftir þetta er komið að því að fara yfir teikningarnar og gefa stig. Einn í einu sýna leikmennirnir hvað það var sem þeir voru að teikna. Þá er farið yfir ágiskunarspilin sem þeim barst og sá sem var fyrstur til að giska á teikningu fær flest stigin og svo koll af kolli þangað til sá sem var síðastur fær fæst. Þannig eru gefin stig fyrir allar teikningar allra leikmanna.

pictomania07

Fuglahræða

Leikmenn legga saman stigin sem þeir hafa fengið fyrir að giska á annarra manna teikningar, en draga svo frá þau stig sem þeir gátu ekki úthlutað fyrir sínar teikningar. Þannig er ekki gott að teikna svo illa að enginn geti giskað á teikninguna því þá situr maður uppi með helling af mínusstigum. Einnig fá leikmenn stig fyrir bónusskífurnar, nema sá sem átti flestar rangar ágiskanir. Fyrir hann er bónusskífan mínusstig.

Stigafjöldinn er skrifaður inn á sérstakan reit á teiknispjaldinu. Eftir hverja umferð er nýjum teiknispilum raðað upp á spilahaldarann, leikmenn fá ný spil sem sýna hvað þeir eigi að teikna og svo er bara teiknað aftur. Þannig gengur Pictomania í fimm umferðir, en eftir fimmtu umferðina eru stigin talin saman og sá sem hefur flest stig vinnur.

pictomania10

Þrjár umferðir búnar

Frá því útgáfan mín af Pictomania varð tilbúin fyrir rétt rúmri viku síðan erum við búin að spila það um 10 sinnum við ættingja og vini og bara búin að fara í gegnum auðvelda flokkinn og miðlungserfiða. Allir sem hafa spilað spilið með okkur hafa haft gaman af því. Pictomania tekur teiknihugmyndina úr Pictionary og gerir úr henni stórskemmtilegt spil. Það sem Pictomania hefur framyfir Pictionary er m.a. það að allir teikna í öllum umferðunum þannig að það er aldrei dauður tími hjá neinum. Einnig er það ekki svo að háværasti leikmaðurinn getur yfirgnæft alla og unnið með því að tala sem hæst og giska hraðast. Í Pictomania fá allir að njóta sín, maður þarf ekkert endilega að teikna vel til að fólk átti sig nokkurn veginn á því hvað maður er að reyna að teikna, það er nefnilega yfirleitt nóg. Svo fær maður líka stig fyrir að giska á aðra. Frábært spil og það besta af Spilað fyrir allan peninginn listanum fram að þessu.

pictomania03

Spil úr létta flokknum og miðlungserfiða

pictomania04

Spil úr erfiða flokknum og mjög erfiða flokknum

pictomania09

Þarna tókst frúnni minni að teikna leikfangaverksmiðju

pictomania12

Þýska spjaldið og íslenska þýðingin

 

2 thoughts on “Spilað fyrir allan peninginn (2015) – 12/26: Pictomania

  1. Pingback: Spilað fyrir allan peninginn (2015)Borðspil.is

  2. Pingback: Ný spil - Haust/Vetur 2014 (1. hluti)Borðspil.is