Spilað fyrir allan peninginn (2015) – 14/26: Raubritter (Robber Knights)

RaubritterRaubritter eða Robber Knights er spil frá 2005 sem var hannað af Rudiger Dorn en hann hannaði m.a. Las Vegas, Istanbul og Il Vecchio. Raubritter keypti ég á sumarútsölu Spilavina einhvern tímann á síðasta ári og síðan þá hefur það legið óspilað í safninu, eins og nokkur önnur spil. Einhverra hluta vegna var ég óskaplega lengi að koma mér að því að spila þetta spil, um tíma voru enskar leiðbeiningar ekki til taks á Boardgamegeek nema bara á Word formi og fannst mér eitthvað voðalega óspennandi að stautast í gegnum þær. Um daginn, þegar ég var að fara yfir óspiluðu spilin, sá ég svo að ensku opinberu reglurnar frá Queen Games voru komnar inn á síðuna og sá mér þá leik á borði og ákvað að kippa spilinu með í sumarbústað síðustu helgi. Þar prófuðum við hjónin svo að spila Raubritter seint á laugardagskvöldið.

Raubritter er 2-4 manna spil þar sem markmiðið er að næla sér í fleiri stig en andstæðingarnir með því að tryggja yfirráð í borgum, þorpum og kastölum. Leikmennirnir byggja í sameiningu landslag sem samanstendur af mismunandi flísum sem sýnt geta kastalana, borgirnar og þorpin annað hvort á sléttum eða í skóglendi. Einnig eru flísar innanum sem sýna fjalllendi, stöðuvötn og auðar sléttur.

raubritter02

Landslagið byrjað að byggjast upp

Hver leikmaður er með sinn staflann af flísum og þegar hann leggur niður kastala má hann að auki leggja niður allt að fimm riddara (skífur) á kastalann og dreifa þeim svo í beinni línu út frá kastalanum. Skilja verður ákveðið marga riddara eftir á flísunum, allt eftir því hvaða landslag er á skífunni. Þannig kostar það 1 riddara að fara yfir sléttu, 2 að fara yfir skóglendi og 3 þarf til að komast í gegnum fjalllendið. Þegar síðasta flísin hefur verið lögð niður eru stigin talin saman, þannig að aðeins efsti riddarinn á hverri flís gefur stig, mismörg eftir tegund flísar.

raubritter03

Mismunandi flísar

Stuttu eftir að við byrjuðum að spila Raubritter vorum við eiginlega komin að því að hætta. Það var ekki fyrr en upp úr miðju spilinu sem við fórum að átta okkur á hvernig spilið almennilega virkaði og hvernig maður gat stillt upp flísunum sínum til að girða af kastala, borgir og þorp sem maður var búinn að tryggja sér og koma þannig í veg fyrir að frúin nældi í þær.

Spilið tók nú ekki langan tíma í spilun, ætli við höfum ekki verið svona 20-30 mínútur að spila það. Við lokastigatalningu kom í ljós að frúin hafði haft betur, 33 stig á móti 37. Það sem gerði útslagið var að ég asnaðist til að skilja eftir riddara á fjalllendi og sléttum, en þær gefa engin stig, bara borgir, þorp og kastalar.

raubritter05

Blár með yfirhöndina vinstra megin en gulur hægra megin

Á endanum var niðurstaðan sú að Raubritter kom okkur skemmtilega á óvart, eftir á sá maður hvernig skynsamlegra hefði verið að spila og ákváðum við að prófa spilið aftur. Raubritter er ekkert tímamótaverk (og var það örugglega ekki þegar það kom út árið 2005) en er engu að síður ágætisspil. Sagan um riddarana sem ríða um landið og ræna og rupla er náttúrulega bara dulbúningur, þetta er það sem kallað er abstract spil og er þannig séð bara ágætt sem slíkt. Okkur fannst nú líklegast að spilið væri þægilegast sem tveggja manna, gátum ekki alveg séð fyrir okkur fjóra leikmenn í mismunandi litum hist og her um konungsdæmið. Ágætisfjárfesting þetta, alla vega fyrir 1.000 kr.

raubritter04

Lokastaðan

spilavinir_logo_lit


Færslan var einnig birt á vef Spilavina


 

One thought on “Spilað fyrir allan peninginn (2015) – 14/26: Raubritter (Robber Knights)

  1. Pingback: Spilað fyrir allan peninginn (2015)Borðspil.is