Spilað fyrir allan peninginn (2016) – 1/33: Castles of Mad King Ludwig

Castles of Mad King LudwigcastlesofMKL01 (1-4 manna, 13 ára og eldri) er spil sem kom út árið 2014 og ég var lengi vel með augastað á. Það vildi síðan svo skemmtilega til að Kertasníkir gaf mér það í skóinn á aðfangadag og kann ég honum miklar þakkir fyrir. Það endaði því á Spilað fyrir allan peninginn listanum fyrir 2016 og var fyrsta spilið á þeim lista til að vera spilað.

Í Castles of Mad King Ludwig eru leikmenn í sporum kastalasmiða sem eiga að byggja kastala fyrir Loðvík II konung Bæjaralands í Þýskalandi, en hann á m.a. heiðurinn af byggingu Neuschwanstein kastalans í Þýskalandi, en sá ágæti kastali er fyrirmyndin af Disney kastalanum.

Castles of Mad King Ludwig er flísalagningarspil þar sem leikmenn kaupa mismunandi herbergi til að bæta við kastalann sinn og stækka hann þannig um eitt herbergi í einu. Í upphafi spilsins eru fjórar markmiðaskífur dregnar af handahófi og stillt upp. Hver flís segir til um hvernig herbergi leikmenn skuli reyna að byggja ætli þeir sér að fá bónusstig fyrir í lok spilsins.

castlesofMKL02

Nokkur herbergi ennþá til sölu

Í hverri umferð eru ný herbergi sett í sölu og fær einn leikmaður í hverri umferð að vera meistarasmiðurinn og verðleggur hann herbergin eftir sínum geðþótta, þó innan ákveðinna marka. Verðið getur hann ákveðið m.t.t. hvaða herbergi hann telur að aðrir leikmenn séu að sverma fyrir, enda fær hver leikmaður einnig í upphafi markmiðaspjöld á hendi sem hann einn veit um. Síðan er farið hringinn og allir leikmenn mega kaupa eitt herbergi, borga meistarasmiðnum og staðsetja herbergið í kastalanum sínum.

castlesofMKL09

Kastalinn að verða fullkláraður

Herbergin eru misstór og af mismunandi tegundum. Stig eru gefin fyrir ákveðin herbergi eftir því hvort þau séu byggð nálægt öðrum herbergjum, eða ekki nálægt öðrum herbergjum. Til að mynda eru gefin mínusstig ef svefnherbergi eru byggt við hliðina á tómstundaherbergjum, eins og gefur að skilja. Eins fæst bónus fyrir að loka herbergjum, þ.e. ef allir inngangar herbergis eru tengdir við innganga í önnur herbergi.

castlesofMKL06

Meistarasmiðskubburinn

Svona gengur þetta umferð eftir umferð, leikmenn kaupa herbergi og bæta þeim við kastalann sinn þangað til herbergjaspilabunkinn (sem segir til um hvernig herbergi verða í sölu í hverri umferð) klárast. Þá fá leikmenn stig eftir því hvernig þeim hefur gengið að uppfylla markmiðin, bæði sín persónulegu og markmiðin fyrir allan hópinn.

castlesofMKL08

Persónuleg markmið eru ekki sýnd fyrr en í lok spils

Castles of Mad King Ludwig er hannað af Ted Alspach en hann hannaði einnig spilið Suburbia sem byggir á svipuðum grunni, en í því eru leikmenn að byggja upp hverfi og fá einmitt stig (mínus og plús) eftir nálægð íbúðarhúsa við garða o.s.frv.

Við spiluðum Castles of Mad King Ludwig í fyrsta skipti við önnur heiðurshjón sem komu í heimsókn til okkar og ég verð að viðurkenna að fyrri hluta spilsins var ég ekki alveg viss um hvað ég var að gera. Mér fannst þessi stigatalning, sem tengist því hvernig herbergi maður er að byggja upp við önnur herbergi eða ekki upp við önnur herbergi, ansi ruglandi … spurning um að drekka aðeins minna af freyðivíni og bjór næst þegar maður prófar nýtt spil :)

castlesofMKL04

Miklar pælingar í kastalasmíðinni

Þegar á leið var ég búinn að átta mig á því að ég myndi nú ekki hafa sigur en engu að síður fannst mér mjög gaman að púsla saman herbergjunum í kastalanum mínum, sem endaði nú náttúrulega á því að vera ljótasti og minnst verðmæti kastalinn :)

Daginn eftir prófaði ég að spila spilið einsamall, en með spilinu fylgja reglur þannig að hægt er að spila það á eigin spýtur. Það fannst mér einnig nokkuð skemmtilegt þó ég kjósi nú yfirleitt frekar að spila með öðru fólki. En þá gafst mér tími til að læra betur á þessa smá ruglandi stigagjöf.

castlesofMKL03

Litli ljóti kastalinn

Castles of Mad King Ludwig heillar mig mun meira en Suburbia (án þess þó að ég hafi prófað það) og held ég að Ted hafi hitt naglann á höfuðið með þessu kastaladæmi. Það alla vega virkaði vel á mig og frúnna, sem skiptir höfuðmáli þegar spil eru metin á þessu heimili … topp einkunn á þetta!

castlesofMKL07

Markmiðaskífur fyrir alla leikmenn

castlesofMKL05

Aðalborðið

One thought on “Spilað fyrir allan peninginn (2016) – 1/33: Castles of Mad King Ludwig

  1. Pingback: Spilað fyrir allan peninginn (2016)Borðspil.is