Spilað fyrir allan peninginn (2016) – 2/33: MammuZ

mammuz01Annað spilið sem við spiluðum af Spilað fyrir allan peninginn listanum þetta árið er smáspilið MammuZ. Þetta er lítið kortaspil sem gengur út á að beita blekkingum til að verða fyrsti leikmaðurinn sem losar sig við öll sín spil af hendi.

MammuZ er hannað af rússneskum spilahönnuði og var upphaflega gefið út af þarlendu útgáfufyrirtæki sem heitir Hobby World.

Í MammuZ eru leikmenn að losa sig við  útdauð fornaldardýr af hendi eins fljótt og mögulegt er. Spilið samanstendur af átta mismunandi dýrategundum sem eru númeraðar frá 2 upp í 9. Hver tegund inniheldur jafnmörg spil og númerið á viðkomandi spilum segir til um. Mammútarnir eru sem sagt 2 og mýsnar 9. Spilið inniheldur einnig fimm mismunandi risaeðluspil sem leyfa sérstakar aðgerðir finnist þau meðal dýranna.

mammuz02

Dýrategundirnar

Í upphafi spils eru dýraspilin stokkuð ásamt risaeðlunum, þó mismunandi mörg spil eftir fjölda leikmanna. Síðan fá allir jafnmörg spil á hendi og leikurinn hefst á því að upphafsleikmaður leggur niður fyrir framan sig (á grúfu) 1 upp í 4 spil og tilkynnir hversu mörg dýr, af sömu tegund, hann hafi verið að leggja niður. Hann myndi t.d. segja: „3 sverðtígrar“ og má allt eins vera að ljúga. Næsti leikmaður getur þá valið að annað hvort fylgja með og bæta 1-4 spilum af sömu dýrategund við (eða alla vega fullyrða það án þess þó að hann hafi endilega sett viðkomandi dýrategund niður), eða að stoppa umferðina og segja leikmanninn á undan hafa verið að segja ósatt.

mammuz03

Mammútarnir orðnir útdauðir

Ef hann gerir það má hann velja eitt af spilunum sem sá leikmaður lagði niður og snúa því við. Ef spilið sýnir dýrategundina sem leikmaðurinn sagðist hafa verið að leggja niður þá þarf leikmaðurinn sem ákvað að stoppa umferðina að taka alla hjörðina (öll spilin) sem liggur á borðinu á hendi. Ef í ljós kemur að leikmaðurinn var að ljúga þá þarf hann að taka hjörðina á hendi. Inn í þetta fléttast svo risaeðlurnar, en þær fara að hafa áhrif ef þeim er snúið við af leikmanni. Þær geta m.a. þýtt að leikmaðurinn sem fann risaeðluna megi velja hver taki hjörðina, enginn taki hana eða henni sé dreift jafnt á alla.

mammuz04

Risaeðlurnar leyfa sérstakar aðgerðir

Þegar einhver leikmaður leggur niður síðasta spilið af hendi verður sá næsti að stöðva umferðina, fullyrða að sá leikmaður sé að ljúga og snúa einu spilinu hans við. Ef spilið er af réttri tegund hefur sá sem lagði síðasta spilið sitt niður unnið, annars þarf hann að taka alla hjörðina á hendi og spilið heldur áfram.

Við spiluðum fjögurra manna MammuZ í fyrsta skiptið um daginn og eftir fyrsta spilið vildu allir spila það aftur. Það er mjög gaman að standa frammi fyrir ákvörðuninni um hvort maður eigi að taka sénsinn á að segja ósatt og vona að maður verði ekki gripinn, eða taka slaginn við þann sem á undan gerði. Málið er nefnilega að spilið gengur bara áfram þangað til einhver stoppar umferðina og tékkar á leikmanninum hægra megin við sig. Þannig getur sú staða komið upp að maður veit upp á hár að sá sem á undan gerði var örugglega ekki með svona mörg dýr af nefndri tegund á hendi en þar sem maður má bara snúa einu spili við er ákveðin áhætta tekin.

Við vorum mjög ánægð með MammuZ, spilið er mjög fínt og skemmtilegt blöff-spil sem tekur stutta stund að spila. Svo skemmir ekki fyrir að það er fyrir allt að sjö leikmenn. Ljómandi fínt spil og fallega myndskreytt.

One thought on “Spilað fyrir allan peninginn (2016) – 2/33: MammuZ

  1. Pingback: Spilað fyrir allan peninginn (2016) | Borðspil.is