Spilað fyrir allan peninginn (2016) – 3/33: Thebes: The Tomb Raider

thebesttr01Thebes: The Tomb Raider er minni og einfaldari útgáfa af stærra spili sem heitir einfaldlega Thebes. Í Thebes: The Tomb Raider eru leikmenn í hlutverki fornleifafræðinga sem flakka á milli Egyptalands, Mesopotamíu, Krítar og Grikklands til að grafa upp fornminjar. Spilið keypti ég notað og er það búið að bíða í nokkurn tíma eftir að vera spilað, en þó ekki lengstan tímann af þeim spilum sem eru á listanum mínum þetta árið.

Upprunalega spilið Thebes gengur út á nákvæmlega það sama, en þar er að auki stórt leikborð sem leikmenn ferðast um til að grafa á mismunandi stöðum. Í Thebes: The Tomb Raider er ekkert stórt leikborð, en þess í stað er lítið borð sem notað er til að staðsetja mismunandi staði, sérþekkingarspjöld og halda utan um tímann sem leikmenn eyða í uppgröft. Í Thebes: The Tomb Raider er ekki farið réttsælis á milli leikmanna eins og yfirleitt er gert, heldur fer röðin eftir því hver er búinn að eyða minnstum tíma í aðgerðir. Allt sem leikmenn gera er nefnilega mælt í vikum, þannig getur einn leikmaður eytt mörgum vikum í uppgröft og þarf svo að bíða á meðan hinir ná honum í tíma, þar sem sá leikmaður sem hefur stystum tíma eytt fær að gera þangað til hann er búinn að ná hinum.

thebesttr10

Litla leikborðið með tímalínunni

Til að mega grafa á einhverjum af stöðunum þurfa leikmenn að vera búnir að verða sér úti um sérþekkingu viðkomandi staðar, en hún er í formi sérþekkingarspjalda sem eru í boði á miðju tímaborðinu. Einnig þurfa leikmenn að eiga uppgraftrarleyfi fyrir staðinn, en allir byrja með ákveðið mörg slík leyfi. Þegar leikmaður nær sér í sérþekkingarspjald borgar hann fyrir þekkinguna með tíma og nýju (eða nýjum) spjöldum er dreift á borðið og uppgraftrarstaðina eftir ákveðnum reglum.

thebesttr09

Sérþekkingarspjöld fyrir mismunandi staði

Til að grafa á einhverjum stað verður leikmaður að ákveða hvað hann ætli að eyða mörgum vikum í uppgröftinn og fer svo í töflu sem segir hversu mörg fjársjóðsspjöld hann megi sjá frá viðkomandi stað miðað við sérþekkinguna sem hann býr yfir og tímann sem hann ætlar að eyða á staðnum. Spjöldin fyrir viðkomandi stað eru svo stokkuð og leikmaðurinn snýr við jafnmörgum spjöldum og hann ætlar að grafa upp. Þar innan um geta reynst verðmætir fjársjóðir eða jafnvel bara brak sem er þá skilið eftir í bunkanum.

thebesttr11

Taflan sem sýnir hvað megi grafa mikið upp

Þetta er svona í grófum dráttum hvernig Thebes: The Tomb Raider gengur fyrir sig, en einnig er hægt að ná í auka stig með því að setja upp sýningar og skila inn einhverjum munum fyrir auka stig.

Við spiluðum þetta í fyrsta skiptið fjögurra manna um daginn og fyrst um sinn kveikti spilið ekki í okkur. Fyrri hluta spilsins eru allir að safna sér sérþekkingu til að geta grafið sem mest upp á hverjum stað. Þannig fór það rosalega hægt af stað og fyrri helminginn hélt ég að við myndum kannski ekki einu sinni nenna að klára það. Svo fór það að taka flugið og seinni hlutann vorum við í miklu kapphlaupi um að grafa upp á stöðunum fjórum.

thebesttr08

Tveir fjársjóðir og drasl

Thebes: The Tomb Raider endaði þannig veru sína á spilaborðinu miklu betur en það byrjaði og það var okkar mat að við þyrftum endilega að spila þetta aftur. Hvort ég kunni betur við upprunalega Thebes spilið eða þetta er óvíst, það er svo langt síðan ég spilaði Thebes að það er erfitt að bera þau saman. Bæði spilin byggja svolítið mikið á heppni og á því að taka sénsa í uppgreftrinum þar sem maður veit mjög lítið um það hvað leynist í bunkanum, kannski bara eintómt drasl og þá er maður búinn að eyða tíma og uppgraftarleyfi í ekki neitt.

Sé alveg fyrir mér að einhverjir kunni ekki við svona heppni, en mér finnst þetta bara skemmtilegt, ekki spil sem maður þarf að taka of alvarlega.

thebesttr07

Rauður fær að gera þangað til hann er kominn fram fyrir bláan

thebesttr02

thebesttr03thebesttr04thebesttr05thebesttr06

One thought on “Spilað fyrir allan peninginn (2016) – 3/33: Thebes: The Tomb Raider

  1. Pingback: Spilað fyrir allan peninginn (2016)Borðspil.is