Spilað fyrir allan peninginn (2016) – 4/33: Bohnanza Fun & Easy

bohnanzaFandE01Bohnanza hefur lengi verið eitt af mínum uppáhalds spilum sem hægt er að spila með mjög breiðum hópi, ungum sem öldnum. Bohnanza Fun & Easy er einfölduð útgáfa af Bohnanza sem er hönnuð til að kynna spilið fyrir yngri spilurum.

Bohnanza Fun & Easy gengur út á að gróðursetja baunir og skipta þeim út fyrir peninga þegar maður er búinn að safna ákveðið mörgum baunum af einhverri tegund. Reglunum er skipt niður í þyngdarflokka þannig að maður getur byrjað mjög einfalt og bætt svo við reglum eftir því sem hentar hverjum og einum, allt eftir því hvernig börnunum gengur að skilja spilið.

Helsta breytingin frá hinu venjulega Bohnanza spili er að í þessu eru leikmenn með baunirnar, sem annars eru á hendi, í röð fyrir framan sig. Þannig gefst þeim eldri möguleiki á að aðstoða yngri leikmenn. Einnig er leyfilegt að gróðursetja aðrar tegundir ofan á baunir sem fyrir eru, án þess að missa þær sem gróðursett er ofan á. Fjöldi bauna sem þarf til að uppskera er að auki mun færri í Bohnanza Fun & Easy heldur en venjulega Bohnanza. Með spilinu fylgja pappaspjöld fyrir alla leikmenn sem sýna akrana sem þeir geta notað í gróðursetninguna, sem er mjög sniðugt fyrir yngri leikmenn.

bohnanzaFandE03

Við prófuðum að spila Bohnanza Fun & Easy með 8, 12 og 13 ára gaurum og átti enginn þeirra í vandræðum með að skilja spilið og tóku allir fullan þátt í því. Reyndar hafa þessir eldri spilað Bohnanza áður þannig að þeir voru nú alveg með þetta á hreinu. Fyrir þá yngri þá virkar betur að þurfa ekki að hafa spilin öll á hendi og passa upp á röðina þar. Spilið gengur einnig hraðar fyrir sig og tekur ekki eins langan tíma og Bohnanza.

Ég myndi persónulega alltaf velja að spila upprunalega Bohnanza, ef spilafélagarnir eru til í það, en þessi útgáfa virkar betur fyrir yngri soninn og því ætla ég að halda spilinu í safninu aðeins lengur.

bohnanzaFandE02

bohnanzaFandE04

 

One thought on “Spilað fyrir allan peninginn (2016) – 4/33: Bohnanza Fun & Easy

  1. Pingback: Spilað fyrir allan peninginn (2016)Borðspil.is