Spilað fyrir allan peninginn (2017) – 1/39: Jäger und Späher

Jäger und Späherjagerundspaher, eða veiðimaður og útsendari (eða njósnari), er þýskt tveggja manna spil frá útgefandum Kosmos, en á þeim bænum hafa menn verið duglegir við að gefa út sérsniðin tveggja manna spil, eins og: Jambo, Hera & Zeus, Lost Cities og The Pillars of the Earth: Builders Duel svo fá eins séu nefnd.

Upphaflega sá ég umfjöllun um spilið í Spielbox, þýska borðspilatímaritinu sem ég er áskrifandi af. Kosmos hafa reyndar ekki gefið spilið út á ensku og ég veit ekki hvort það standi til. Því datt mér það snjallræði í hug að prófa að þýða spilið, sérstaklega þar sem einhver notandi á Boardgamegeek hafði útbúið enska þýðingu sem ég gat byggt á.

Á ferðalagi fjölskyldunnar til Berlínar sumarið 2015 skellti ég mér í spilabúð og keypti eintak af spilinu. Eftir að hafa skannað öll spilin inn í tölvu settist ég við þýðingar, sem reyndist nokkuð létt verk, enda er textinn á spjöldunum frekar einfaldur.

jagerspaher00

Hönnunarviðmótið á Printerstudio

Með aðstoð Google fann ég fyrirtæki sem býður upp á þá þjónustu að hanna þín eigin spil til prentunar (www.printerstudio.com). Ég eyddi nokkrum kvöldum í að dunda mér í myndvinnsluforriti og uppsetningu á spilunum á síðunni hjá Printerstudio, sem er mjög einföld og þægileg í notkun. Eftir að hafa sent inn pöntunina liðu u.þ.b. tvær vikur þangað til pakkinn barst og eins og við mátti búast þurfti ég að borga af þessu toll og veglegan virðisaukaskatt. Spilið hafði því rúmlega tvöfaldast í verði, en ég lét það nú ekki á mig fá.

Í Jäger und Späher eru tveir leikmenn að leiða sinn hvorn ættbálk frumbyggja á steinaldartímum. Leikmenn byrja með ákveðinn hóp af persónum og í hverri umferð verða þeir að velja hvort þeir ætli að nota persónu af hendi eða kalla alla saman aftur í þorpið. Persónurnar hafa mismunandi eiginleika, þarna eru veiðimenn, njósnarar, safnarar o.s.frv. Markmiðið er að veiða, framleiða verðmætan varning eins og vopn, mortél og margt fleira nauðsynlegt og fá að launum stig. Einnig þurfa leikmenn að passa vel upp á að eiga nægan mat fyrir alla meðlimi ættbálksins, annars missa þeir stig.

jagerspaher01

Jäger und Späher undir lok spils

Leikmaður spilar út persónuspili og framkvæmir það sem á því stendur. Því næst á hann að bæta spilinu við einn af þremur stöðum (frákastbunkum) þar sem ættbálkameðlimirnir safnast saman. Ef hann velur persónu sem leyfir honum að staðsetja ættbálkapeð, tekur hann þau úr þorpinu sínu og sendir á mismunandi óbyggðir og veiðilendur til að ná í hráefni, skinn og kjöt. Hráefnin eru síðan notuð til að byggja nýja hluti (t.d. eggvopn, mortél, grænmetisbeð o.s.frv.), en hlutirnir gefa allir eitthvað af sér m.a. stig.

jagerspaher01

Persónuspil

Ef leikmaður vill ekki nota fleiri persónur af hendi getur hann valið að kalla til baka öll ættbálkapeðin sín og velja sér eitt hráefni af viðkomandi stað (veiðilendu/óbyggð) fyrir hvert peð sem er kallað til baka. Að síðustu getur leikmaður ákveðið að kalla fram stigagjöf í umferðinni (sólsetur), ef hann er ekki lengur með persónuspil á hendi, en eftir stigagjöf velur hann einn af þremur frákastbunkum með nýjum persónuspilum. Spilinu lýkur svo þegar annar leikmaðurinn nær 24 stigum og hefur sá hin sami sigur.

jagerspaher01

Óbyggðir vinstra megin og veiðilendur hægra megin

Ég prófaði að spila Jäger und Späher tvisvar sinnum og þrátt fyrir að ég hafi ekki endilega orðið fyrir vonbrigðum, þá var spilið heldur ekki það „Vá!“ sem ég var að vona. Í bæði skiptin vann ég spilið og það varð ljóst þegar 2/3 voru liðnir í hvað stefndi. Mér sýnist ekki endilega vera mikið tækifæri fyrir þann sem er á eftir til að stöðva þann sem er nálægt því að vinna. Reyndar getur hann hægt á ferðinni með því að takmarka aðgengi að einhverjum hráefnum, en ég sé ekki að það geti dugað til að taka framúr þeim sem á undan er. Því verða báðir að vera nokkuð vel á tánum allt spilið til að lokaumferðirnar séu jafnar.

jagerspaher01

Frákastbunkarnir þrír

Spilunin sjálf var samt ekkert leiðinleg. Uppröðunin í frákastbunkana þrjá, þar sem notaðir ættbálkameðlimir enda, er áhugaverð. Maður vill raða persónunum upp þannig að maður nái þeim áhugaverðustu til baka, en ef hinn leikmaðurinn er á undan að kalla fram sólsetur nær hann kannski akkúrat þeim sem maður vildi sjálfur. Einnig er þetta áhugaverða samspil á milli þess að eignast fleiri ættbálkapeð til að geta sent fleiri út af örkinni, en þá bætast náttúrulega við fleiri munnar til að fæða.

Sem sagt, ágætt spil sem ég var að vona að væri frábært. Sé samt ekki eftir því að hafa staðið í þessu öllu saman, og hver veit nema ég komi einhvern tímann til með að kunna að meta Jäger und Späher betur.

jagerspaher01

Stigataflan

jagerspaher01 jagerspaher01

Comments are closed.