Spilað fyrir allan peninginn (2017) – 3/39: Kashgar: Händler der Seidenstraße

pic1707560Upphaflega frétti ég af Kashgar: Handler der Seidenstrasse í gegnum Spielbox, þýska spilatímaritið sem ég er áskrifandi að. Spilið var þá og er enn einungis til á þýsku og þegar ég var í Berlín sumarið 2015 keypti ég eintak af því. Á Boardgamegeek fann ég aðila sem hafði þýtt allt spilið á ensku og látið prenta enska útgáfu fyrir sig í gegnum Printerstudio.com. Því hafði ég samband við hann og fékk sendar allar upplýsingar til að geta látið prenta eitt eintak fyrir mig. Auðvitað kostaði það nánast jafn mikið og spilið sjálft kostaði, en hvað um það … stundum verður maður bara að láta svona hluti eftir sér, sérstaklega þegar þetta er aðaláhugamálið. Fyrri hluta árs 2018 er reyndar loksins væntanleg ensk útgáfa af spilinu og því spurning hvort betra hefði bara verið að bíða aðeins :)

Kashgar: Handler der Seidenstrasse, eða Kashgar: Kaupmenn silkileiðarinnar eins og það gæti heitið á íslensku, gengur út á að safna persónum í vagnlestir og nota þær til að sýsla með krydd og gull og uppfylla samninga sem kveða á um ákveðnar kryddsamsetningar og fjölda múlasna.

Kashgar01

Þrjár upphafsvagnlestir

Hver leikmaður byrjar með þrjár vagnlestir og fremstur í flokki allra þeirra fer ættfaðirinn (Patriarch). Þar á eftir er einhver persóna dregin af handarhófi þannig að í hverri vagnlest er byrjað með tvo aðila. Í hverri umferð velur leikmaður eina af sínum vagnlestum og framkvæmir það sem stendur á fremsta spjaldinu í þeirri vagnlest. Því næst er spjaldið fært aftast í þá sömu vagnlest (nema ef ske kynni að kasta eigi spjaldinu, en það gerist í sumum tilfellum). Svo einfalt er það. Spjöldin leyfa manni t.d. að bæta við aðilum (spjöldum) í vagnlest, hækka krydd-, gull- eða múlasnagildi og uppfylla samninga. Svona rúllar spilið, vagnlestirnar lengjast og kryddið, gullið og múlasnarnir ganga kaupum og sölum fyrir samninga þangað til leikmaður hefur náð 25 stigum.

Kashgar05

Spjaldið þar sem leikmaður heldur utan um kryddin sín, gullið og múlasnana

Aðalatriðið í Kashgar er að ná að útbúa vel smurðar vagnlestir sem leyfa manni að útvega krydd og uppfylla samninga án þess að þurfa að fara í gegnum langa vagnlest í hvert skipti. Maður verður að passa upp á að hafa ekki of marga í hverri vagnlest þar sem fremsta spjaldið er fært aftast þegar það er notað og þá geta liðið nokkrar umferðir þangað til maður nær að virkja sama spjaldið aftur.

Kashgar02

Samningar

Ég er búinn að spila Kashgar nokkrum sinnum, bæði á borði og á netinu en á síðunni www.yucata.de má spila spilið. Mér finnst þetta stórfínt spil, gengur frekar hratt fyrir sig og er aðgengilegt og einfalt í kennslu. Síðustu vikurnar er ég svo búinn að vera að dunda mér við það að útbúa íslenska útgáfu af spilinu í gegnum www.printerstudio.com, sömu síðuna og ég notaði til að útbúa íslenska útgáfu af Jäger und Späher. Nú er bara að vona að spilið nái til landsins fyrir jól … og kosti mig ekki formúgu að leysa úr tollinum.

Kashgar06

Þrjár mislangar vagnlestir

Kashgar07

Kashgar08

Kashgar_isl

Íslenska útgáfan tilbúin í prentun

Comments are closed.