Splendor ★★★⋆

splendor01Fyrir 2-4 leikmenn, 10 ára og eldri.
Tekur 30 mínútur.

Splendor kom út árið 2014 og var tilnefnt til Spiel des Jahres verðlaunanna, en laut í lægra haldi fyrir Camel Up.

Enskar reglur fyrir Splendor eru að finna hér.

Um spilið

Í Splendor eru leikmenn í hlutverki kaupmanna á endurreisnartímanum, sem er nú ekki nýtt þema í borðspilum. Þeir keppast um að kaupa gimsteinanámur, samgönguleiðir og verslanir til að verða sér úti um stig. Þeir sem verða ríkastir geta einnig fengið einhver aðalsmenni í heimsókn og auka þar með enn á stigasöfnunina og líkurnar á sigri. Lýsingin á Splendor gefur til kynna að um sé að ræða mjög myndrænt spil, en í raun gengur spilið ekki út á neitt annað en að safna að sér mismunandi spilum.

Innihaldið í Splendor eru 90 spil sem sýna eiga námurnar, verslanirnar og samgönguleiðir en einnig sýna spilin fimm mismunandi gimsteina; demanta, smaragða, safíra, rúbína og ónyx. Spilunum er skipt niður í þrjá verðflokka; I, II og III. Fjórum spilum úr hverjum verðflokki er raðað upp á borðið og seru það spilin sem eru í boði. Pókerskífum með gimsteinatáknum er stillt upp við markaðinn. Að auki eru til taks gullskífur sem má nota til að borga fyrir hvað sem er.

splendor05

Upphafsuppsetning á Splendor

Fyrir ofan markaðinn er stillt upp aðalsmönnum og konum sem koma hugsanlega til með að heimsækja einhverja leikmannanna. Hver aðilinn er þriggja stiga virði og sýnir hvað þurfi til að viðkomandi þóknist að koma í heimsókn. Sá leikmaður sem nær fyrstur 15 stigum sigrar, nema ef fleiri leikmenn ná því markmiði í sömu umferðinni, en þá vinnur sá sem hefur flest stigin.

Í sinni umferð hefur leikmaður val á milli þriggja aðgerða:

  • taka gimsteinaskífur til sín (þrjár mismunandi skífur eða tvær skífur sömu tegundar),
  • taka spil af markaðnum, borga fyrir það með skífum og/eða í gegnum spil sem leikmaðurinn á þegar og leggja niður í borð fyrir framan sig,
  • taka eina gullskífu og eitt spil af markaðnum á hendi.
splendor08

Aðalsmannaskífurnar sýna hverju þarf að safna til að fá heimsókn

Leikmenn skiptast á að framkvæma þessar aðgerðir og byggja upp veldið sitt. Þau spil sem leikmaður er búinn að kaupa getur hann notað til að lækka verðið á spilum sem hann kaupir eftir það. Þannig fara leikmenn að borga fyrir spil af markaðnum með skífunum sem og þeim spilum sem þeir hafa í borði fyrir framan sig, án þess þó að skila þeim spilum inn. Þannig byggja leikmenn upp veldi og geta farið að kaupa dýrari spil sem gefa fleiri stig.

Þegar leikmaður hefur safnað ákveðið mörgum gimsteinatáknum á spilum fyrir framan sig getur hann fengið heimsókn frá aðalsmanni og fær þá stigin sem fylgja viðkomandi. Táknin sem þarf að safna eru mismörg eftir því hvaða aðalsmenni eru í boði í það skiptið. Eins og áður sagði þarf 15 stig til að vinna (eða flest stigin ef fleiri en einn leikmaður ná 15 stigunum í sömu umferðinni).

splendor07

Spilin í borði leikmanns geta gefið afslátt af næstu kaupum

Hvað finnst mér?

Eftir fyrstu spilunina á Splendor var ég nú bara miðlungs volgur fyrir spilinu. Splendor hefur hins vegar vaxið hægt og rólega á vinsældarlistanum hjá okkur og er eitt af vinsælli spilunum í okkar spilavinahópi. Það sem Splendor hefur með sér er einfaldleikinn, spennan og stuttur spilatími.

Splendor er spil þar sem það þýðir ekkert að vera að plana of mikið. Maður kannski stefnir að því að ná einhverjum aðalsmanni en gimsteinatáknin sem mann vantar liggja stundum ekkert á lausu, annað hvort vegna þess að aðrir leikmenn ná þeim eða þau láta bíða eftir sér í stokkunum. Því kemur oft upp sú staða að planið er farið út um gluggann og maður verður að finna einhverja aðra leið til að ná í stigin.

Splendor er ofarlega á mínum lista yfir spil sem ég er oftast til í að grípa í og það sem heillar við það er einfaldleikinn, hversu fljótt það gengur fyrir sig og hversu fjandi spennandi það er þegar maður er alveg að nálgast 15 stigin og bíður í ofvæni eftir því hvort einhver annar sé að fara að klára á undan manni.

Spilið virkar vel fyrir þann fjölda leikmanna sem það er gefið út fyrir (tvo til fjóra), en þegar fjórir eru að spila er eðlilega meiri samkeppni um spilin og oftar sem það gerist að spilið sem maður var að fara að næla sér í er farið til annars leikmanns.

HVAÐ ER GOTT:

⇑ Splendor er mjög einfalt í útskýringu og tekur stuttan tíma í spilun.
⇑ Spilið getur verið mjög spennandi, sérstaklega þegar fer að líða að lokum og maður bíður í ofvæni eftir því að ná 15 stigunum fyrstur.
⇑ Spilið er fallega hannað og gimsteinaskífurnar þykkar og vandaðar.

HVAÐ ER EKKI SVO GOTT:

⇓ Splendor er mjög taktískt spil og hentar þ.a.l. ekki þeim sem verða að vera með áætlun frá byrjun og vilja fylgja henni. Plön geta breyst fljótt.
⇓ Ekki halda að þú upplifir þig sem kaupmaður á endurreisnartímanum, Splendor gengur bara út á að krækja í tákn á spilum til að safna stigum.

Niðurstaða

Splendor er prýðilegasta spil. Það er einfalt og stutt og því er auðvelt að grípa í það og klára án þess að það dragist á langinn. Hentar einnig breiðum aldurshópi og getur verið mjög spennandi, sérstaklega rétt undir lokin.

star_goldstar_goldstar_goldstar_graystar_gray

(Upplýsingar um stjörnugjöf á síðunni)

Comments are closed.